Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús Kristur — boðskapur hans á erindi til þín

Jesús Kristur — boðskapur hans á erindi til þín

Jesús Kristur — boðskapur hans á erindi til þín

„Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.“ — JÓHANNES 10:10.

JESÚS KRISTUR kom fyrst og fremst til jarðar til að gefa en ekki þiggja. Með boðun sinni gaf hann mannkyni ómetanlega gjöf — boðskap sem opinberaði sannleikann um Guð og vilja hans. Þeir sem taka við boðskapnum geta bætt líf sitt þegar í stað eins og milljónir sannkristinna manna geta borið vitni um. * Dýrmætasta gjöfin er þó fullkomið líf hans sem hann gaf í okkar þágu, og það var kjarninn í boðskap hans. Eilíf velferð okkar er undir því komin að við viðurkennum þennan mikilvæga þátt boðskaparins.

Það sem Guð og Kristur gáfu. Jesús vissi að hann átti að deyja kvalafullum dauða fyrir hendi óvina sinna. (Matteus 20:17-19) Hann sagði engu að síður þessi vel þekktu orð í Jóhannesi 3:16: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Hann sagðist líka hafa komið til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Matteus 20:28) Af hverju sagði hann að líf sitt yrði gefið en ekki tekið?

Það var takmarkalaus kærleikur sem var Guði hvöt til að gera ráðstafanir til að bjarga mönnunum frá erfðasynd og afleiðingum hennar sem eru ófullkomleiki og dauði. Hann gerði það með því að senda einkason sinn til jarðar til að deyja sem fórn. Jesús gerði það af fúsu geði og gaf fullkomið mannslíf sitt fyrir okkur. Þetta er lausnargjaldið — mesta gjöfin sem Guð hefur gefið mönnunum. * Þessi gjöf getur veitt okkur eilíft líf.

Hvað þarftu að gera? Er lausnargjaldið persónuleg gjöf til þín? Það er undir sjálfum þér komið. Skýrum það með dæmi. Segjum sem svo að einhver rétti þér innpakkaða gjöf. Þú eignast hana ekki í alvöru fyrr en þú réttir út höndina og tekur við henni. Hið sama er að segja um lausnargjaldið. Jehóva réttir þér þessa gjöf en þú eignast hana ekki nema þú takir við henni. Hvernig förum við að því?

Jesús sagði að þeir sem trúi á hann hljóti eilíft líf. Trúin endurspeglast í lífsmáta okkar. (Jakobsbréfið 2:26) Að trúa á Jesú felst í því að laga líferni sitt að því sem hann sagði og gerði. Til að gera það þurfum við að þekkja Jesú og föður hans vel. Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

Fyrir 2000 árum flutti Jesús boðskap sem hefur breytt lífi milljóna manna um heim allan. Langar þig til að kynnast betur þessum boðskap og kanna hvernig hann geti orðið þér og ástvinum þínum til góðs, ekki aðeins um stundarsakir heldur að eilífu? Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að aðstoða þig.

Í greinunum á eftir er fjallað nánar um Jesú Krist, manninn sem flutti boðskap sem getur breytt lífi þínu að eilífu.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Þó að margir segist vera kristnir eru þeir ekki allir sannir fylgjendur Krists. Til að fylgja Jesú í alvöru þurfum við að lifa í samræmi við sannleikann sem hann kenndi um Guð og vilja hans. — Matteus 7:21-23.

^ gr. 5 Nánari upplýsingar um kenningu Biblíunnar um lausnargjaldið er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían? 5. kafla en hann nefnist „Lausnargjaldið — mesta gjöf Guðs“. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.