Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Karlmenn, eruð þið undirgefnir Kristi?

Karlmenn, eruð þið undirgefnir Kristi?

Karlmenn, eruð þið undirgefnir Kristi?

„Kristur er höfuð sérhvers karlmanns.“ — 1. KOR. 11:3.

1. Hvað sýnir að Jehóva hefur góða reglu á hlutunum?

„VERÐUR ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Þetta stendur í Opinberunarbókinni 4:11. Þar sem Jehóva skapaði alla hluti er hann æðsti Drottinn alheims og æðri öllum sköpunarverum sínum. Hann er „Guð friðar, ekki truflunar,“ sem sést af því hvernig englafjölskylda hans er skipulögð. — 1. Kor. 14:33; Jes. 6:1-3; Hebr. 12:22, 23.

2, 3. (a) Hvert var fyrsta sköpunarverk Jehóva? (b) Í hvaða stöðu er frumgetinn sonur Guðs gagnvart föður sínum?

2 Guð var einn um óralangan tíma áður en hann skapaði nokkuð. Fyrsta sköpunarverkið var andavera sem kallaðist „Orðið“ vegna þess að hún var talsmaður hans. Allir aðrir hlutir urðu til fyrir milligöngu Orðsins. Þessi andavera kom síðar til jarðar sem fullkominn maður og kallaðist þá Jesús Kristur. — Lestu Jóhannes 1:1-3, 14.

3 Hvernig lýsir Biblían afstöðu Guðs og frumgetins sonar hans hvor til annars? Páli postula var innblásið að skrifa: „Ég vil að þið vitið að Kristur er höfuð sérhvers karlmanns, að karlmaðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Kor. 11:3) Kristur er undirgefinn föðurnum. Bæði forysta og undirgefni er nauðsynleg til að friður og regla ríki meðal skynsemigæddra sköpunarvera Guðs. Meira að segja sonurinn, sem Jehóva notaði til að skapa alla hluti, þarf að vera undirgefinn honum. — Kól. 1:16.

4, 5. Hvernig leit Jesús á stöðu sína gagnvart Jehóva?

4 Hvernig leit Jesús á það að lúta yfirráðum Jehóva og koma til jarðar? Í Biblíunni segir: „Kristur Jesús . . . var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ — Fil. 2:5-8.

5 Jesús var alltaf hlýðinn og undirgefinn vilja föður síns. Hann sagði: „Ég megna eigi að gera neitt af sjálfum mér . . . og dómur minn er réttvís því að ég leita ekki míns vilja heldur vilja þess sem sendi mig.“ (Jóh. 5:30) „Ég geri ætíð það sem honum þóknast,“ sagði hann. (Jóh. 8:29) Skömmu áður en jarðlífi hans lauk sagði hann í bæn til föður síns: „Ég hef gert þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk sem þú fékkst mér að vinna.“ (Jóh. 17:4) Ljóst er að Jesús átti ekki í neinum vandræðum með að virða og viðurkenna yfirráð Guðs yfir sér.

Til góðs fyrir soninn að vera undirgefinn föðurnum

6. Hvaða frábæru eiginleika sýndi Jesús?

6 Jesús sýndi marga frábæra eiginleika þegar hann var á jörð. Einn þeirra var sterkur kærleikur til föðurins. „Ég elska föðurinn,“ sagði hann. (Jóh. 14:31) Hann sýndi einnig sterkan kærleika til fólks. (Lestu Matteus 22:35-40.) Jesús var vingjarnlegur og tillitssamur, ekki hranalegur eða dramblátur. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin,“ sagði hann, „og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt. 11:28-30) Auðmjúku fólki á öllum aldri, ekki síst kúguðum og undirokuðum, þótti einkar hughreystandi að vera í návist Jesú og hlusta á uppörvandi boðskap hans.

7, 8. Hvaða hömlur hvíldu samkvæmt lögmálinu á konunni með blóðlátin en hvernig kom Jesús fram við hana?

7 Lítum á hvernig Jesús kom fram við konur. Í aldanna rás hafa karlmenn oft farið mjög illa með konur. Trúarleiðtogar Ísraels til forna gerðu það líka. En Jesús sýndi konum virðingu. Það er ljóst af samskiptum hans við konu sem hafði þjáðst af blóðlátum í 12 ár. „Hún hafði orðið margt að þola“ hjá læknum og kostað aleigu sinni til að reyna að ná bata. Þrátt fyrir allt sem hún lagði á sig versnaði henni. Samkvæmt lögmálinu var hún talin óhrein. Hver sá sem snerti hana varð sömuleiðis óhreinn. — 3. Mós. 15:19, 25.

8 Þegar konan frétti að Jesús læknaði sjúka blandaði hún sér í mannþröngina kringum hann og hugsaði með sér: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans mun ég heil verða.“ Hún snerti Jesú og læknaðist þegar í stað. Jesús vissi að hún hefði ekki átt að snerta klæði hans. En hann ávítaði hana ekki heldur var vingjarnlegur. Hann skildi hvernig henni hlýtur að hafa liðið eftir að hafa verið veik árum saman og gerði sér grein fyrir að hana sárvantaði hjálp. Hann hafði samúð með henni og sagði: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna.“ — Mark. 5:25-34.

9. Hvernig brást Jesús við þegar lærisveinarnir reyndu að koma í veg fyrir að börn kæmu til hans?

9 Börnum leið meira að segja vel í návist Jesú. Einhverju sinni kom fólk til hans með börn en lærisveinarnir ávítuðu það. Líklega álitu þeir að hann vildi ekki láta börn gera sér ónæði. En Jesús hugsaði ekki þannig. Í Biblíunni segir: „Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við [lærisveinana]: ,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki.‘“ Síðan segir: „Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ Jesús umbar ekki bara börn heldur tók þeim með hlýju og ástúð. — Mark. 10:13-16.

10. Hvernig tileinkaði Jesús sér þá eiginleika sem hann hafði til að bera?

10 Hvernig tileinkaði Jesús sér þá eiginleika sem hann sýndi meðan hann var á jörð? Áður en hann kom til jarðar hafði hann fylgst með himneskum föður sínum frá ómunatíð og tileinkað sér viðhorf hans. (Lestu Orðskviðina 8:22, 23, 30.) Á himnum hafði hann séð á hve kærleiksríkan hátt Jehóva beitti yfirráðum sínum yfir öllu sköpunarverkinu, og lært að líkja eftir honum. Hefði Jesús getað gert það ef hann hefði ekki verið undirgefinn? Hann hafði yndi af því að lúta vilja föður síns og það gladdi Jehóva að eiga slíkan son. Meðan Jesús var á jörð endurspeglaði hann fullkomlega frábæra eiginleika föður síns á himnum. Það er mikill heiður fyrir okkur að vera sett undir yfirráð Krists sem Guð hefur skipað konung himnaríkis.

Líktu eftir Kristi

11. (a) Hverjum eigum við að reyna að líkja eftir? (b) Af hverju ættu karlmenn í söfnuðinum að leggja sig sérstaklega fram um að líkja eftir Jesú?

11 Allir í kristna söfnuðinum, ekki síst karlmennirnir, ættu að leggja sig vel fram um að líkja eftir Kristi. Eins og áður hefur komið fram segir í Biblíunni: „Kristur er höfuð sérhvers karlmanns.“ Kristur líkti eftir hinum sanna Guði sem var höfuð hans, og kristnir karlmenn ættu sömuleiðis að reyna sitt besta til að líkja eftir Kristi sem er höfuð þeirra. Páll postuli gerði það þegar hann tók kristna trú. Hann hvatti trúsystkini sín: „Breytið eftir mér eins og ég breyti eftir Kristi.“ (1. Kor. 11:1) Og Pétur postuli sagði: „Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans.“ (1. Pét. 2:21) Það er önnur ástæða fyrir því að hvatningin um að líkja eftir Kristi hefur sérstaka þýðingu fyrir karlmenn. Það eru þeir sem verða öldungar og safnaðarþjónar. Karlmenn ættu að hafa ánægju af því að líkja eftir Jesú og tileinka sér eiginleika hans, rétt eins og Jesús hafði yndi af því að líkja eftir Jehóva.

12, 13. Hvernig ættu safnaðaröldungar að koma fram við sauðina sem þeim er falið að gæta?

12 Það er skylda öldunga í kristna söfnuðinum að læra að líkjast Kristi. Pétur skrifaði safnaðaröldungum eftirfarandi: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ (1. Pét. 5:1-3) Safnaðaröldungar mega ekki vera ráðríkir, stjórnsamir, gerræðislegir eða hörkulegir. Þeir líkja eftir Kristi og leggja sig fram um að vera kærleiksríkir, tillitssamir, auðmjúkir og vingjarnlegir í samskiptum við sauðina sem þeim er falin umsjón með.

13 Þeir sem fara með forystuna í söfnuðinum eru ófullkomnir menn og ættu að vera sér meðvitaðir um það öllum stundum. (Rómv. 3:23) Þeir þurfa þess vegna að vera áhugasamir að fræðast um Jesú og líkja eftir kærleika hans. Þeir þurfa að íhuga vandlega hvernig Guð og Kristur koma fram við fólk og leitast við að líkja eftir þeim. Pétur postuli hvetur: „Verið . . . öll lítillát hvert gagnvart öðru því að ,Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð‘.“ — 1. Pét. 5:5.

14. Hvernig eiga öldungar að sýna öðrum virðingu?

14 Í samskiptum við hjörð Guðs eiga þeir sem eru útnefndir til ábyrðarstarfa í söfnuðinum að sýna af sér góða eiginleika. Í Rómverjabréfinu 12:10 segir: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ Öldungar og safnaðarþjónar sýna öðrum virðingu. Líkt og kristnir menn almennt eiga þeir ,ekki að gera neitt af eigingirni eða hégómagirnd heldur vera lítillátir og meta aðra meira en sjálfa sig‘. (Fil. 2:3) Já, þeir sem fara með forystuna eiga að líta svo á að aðrir séu þeim fremri. Þá fylgja þeir leiðbeiningum Páls: „Skylt er okkur, hinum styrku, að bera veikleikann með hinum óstyrku og hugsa ekki aðeins um sjálf okkur. Sérhvert okkar hugsi um náunga sinn, það sem honum er til góðs og til uppbyggingar. Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig.“ — Rómv. 15:1-3.

,Virðið eiginkonur mikils‘

15. Hvernig á eiginmaður að koma fram við konu sína?

15 Lítum nú á leiðbeiningar Péturs til kvæntra karlmanna. Hann skrifaði: „Eins skuluð þið, eiginmenn, sýna eiginkonum ykkar nærgætni sem hinum veikari og virða þær mikils.“ (1. Pét. 3:7) Að virða einhvern merkir að hafa hann í hávegum. Maður tekur þá tillit til skoðana hans, þarfa og langana og fer gjarnan að óskum hans nema það séu sterk rök fyrir að gera það ekki. Þannig á eiginmaður að koma fram við konu sína.

16. Hvaða ábending fylgir þeirri hvatningu Biblíunnar að maður skuli virða eiginkonu sína?

16 Þegar Pétur segir eiginmönnum að þeir eigi að virða eiginkonur sínar bætir hann við: „Þá hindrast bænir ykkar ekki.“ (1. Pét. 3:7) Af þessu er ljóst að það er alvarlegt mál í augum Jehóva hvernig eiginmaður kemur fram við konuna sína. Ef hann virðir hana ekki gæti það komið í veg fyrir að bænir hans næðu eyrum Jehóva. Og bregst ekki eiginkona að jafnaði vel við því ef maðurinn sýnir henni virðingu?

17. Hve langt á ást eiginmanns að ná?

17 Eiginmaður er hvattur til að elska eiginkonu sína. Í Biblíunni stendur: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami . . . Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast eins og Kristur kirkjuna . . . hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig.“ (Ef. 5:28, 29, 33) Hve langt á ást eiginmannsins að ná? „Karlmenn,“ skrifaði Páll, „elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Ef. 5:25) Eiginmaður á að vera reiðubúinn að leggja lífið í sölurnar fyrir konuna sína, líkt og Kristur gerði fyrir aðra. Þegar kristinn eiginmaður er mildur, tillitssamur, umhyggjusamur og óeigingjarn í samskiptum við eiginkonu sína á hún auðveldara með að lúta forystu hans.

18. Hvað getur hjálpað eiginmönnum að annast skyldur sínar í hjónabandinu?

18 Er til of mikils mælst að eiginmaður virði konuna sína með þessum hætti? Nei, Jehóva myndi aldrei fara fram á að við gerðum eitthvað sem við værum ófær um. Auk þess hafa tilbiðjendur Jehóva aðgang að sterkasta afli í alheiminum, heilögum anda hans. Jesús sagði: „Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“ (Lúk. 11:13) Eiginmenn geta beðið Jehóva þess í bænum sínum að hann hjálpi þeim með anda sínum að eiga góð samskipti við aðra, þar á meðal eiginkonur sínar. — Lestu Postulasöguna 5:32.

19. Um hvað er fjallað í næstu námsgrein?

19 Það er alvarleg skylda karlmanna að læra að vera undirgefnir Kristi og líkja eftir honum þegar þeir fara með forystu. En hvað um konur, einkum eiginkonur? Í næstu grein er fjallað um það hvernig þær ættu að líta á hlutverk sitt í fyrirkomulagi Jehóva.

Manstu?

• Hvaða eiginleikum Jesú ættum við að líkja eftir?

• Hvernig ættu öldungar að koma fram við sauðina?

• Hvernig á eiginmaður að koma fram við eiginkonu sína?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 10]

Líkjum eftir Jesú með því að virða aðra.