Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjö skref til að hafa gagn af biblíulestri

Sjö skref til að hafa gagn af biblíulestri

Sjö skref til að hafa gagn af biblíulestri

„Biblían er ekki bara metsölubók allra tíma, hún er líka metsölubók ársins á hverju ári.“ — TÍMARITIÐ TIME.

„Ég les stundum í Biblíunni, en mér finnst það svo leiðinlegt.“ — KEITH, VINSÆLL TÓNLISTARMAÐUR FRÁ ENGLANDI.

ÞAÐ kann að skjóta skökku við að margir skuli eiga Biblíuna en virðast samt hafa lítið gagn af því að lesa hana. Hins vegar eru aðrir sem meta það mikils að lesa í Biblíunni. Kona, sem heitir Nancy, segir til dæmis: „Frá því að ég byrjaði daginn á að lesa í Biblíunni og hugleiða efnið finnst mér ég vera vel í stakk búin til að takast á við daginn. Þessi venja hefur hjálpað mér meira en nokkuð annað sem ég hef reynt síðastliðin 35 ár til að draga úr þunglyndisköstum.“

Þú hefur kannski aldrei lesið Biblíuna. Vekur það samt ekki áhuga þinn að sumir hafi haft gagn af lestri hennar? Ef þú ert nú þegar vanur að lesa í Biblíunni myndirðu þá vilja hafa meira gagn af lestrinum? Skoðaðu þá skrefin sjö sem fjallað er um í greininni.

1. SKREF — Lestu af réttu tilefni

◼ Þú getur lesið Biblíuna eins og hverjar aðrar fagurbókmenntir, lesið af skyldurækni eða með það markmið að finna leiðbeiningar fyrir lífið í þessum flókna heimi. Þú hefur samt mest gagn af lestrinum ef markmiðið er að kynnast sannleikanum um Guð. Auk þess muntu fá mikið út úr biblíulestrinum ef hvötin er sú að skilja hvernig boðskapur hennar getur haft áhrif á líf þitt.

Í Biblíunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að lesa af réttu tilefni en í henni er orði Guðs líkt við spegil: „Hlýði einhver á orðið án þess að fara eftir því er hann líkur manni er skoðar sjálfan sig í spegli. Hann skoðar andlit sitt, fer burt og gleymir jafnskjótt hvernig það var. En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því sem hann heyrir heldur framkvæmir það, verður sæll í verkum sínum.“ — Jakobsbréfið 1:23-25.

Maðurinn skoðaði sjálfan sig í spegli en lagaði ekki útlitið. Kannski leit hann bara snöggt í spegilinn eða hafði ekki löngun til að gera neinar breytingar. Svipað gildir um biblíulestur, hann gagnast okkur lítið ef við lesum bara af handahófi eða förum ekki eftir því sem við lesum. Við getum hins vegar öðlast sanna hamingju ef við skyggnumst inn í Biblíuna með það fyrir augum að fara eftir því sem hún kennir. Þannig leyfum við Guði að móta hugsanir okkar og hafa áhrif á það sem við gerum.

2. SKREF — Veldu áreiðanlega þýðingu

◼ Ef til vill geturðu valið á milli nokkurra biblíuþýðinga á þínu tungumáli. Þú getur vissulega notið góðs af hvaða biblíuþýðingu sem er, en sumar þýðingar eru á úreltu eða fræðilegu máli sem getur verið erfitt að skilja. (Postulasagan 4:13) Í sumum þýðingum hefur jafnvel hreinum boðskap Biblíunnar verið breytt vegna erfikenninga. Til dæmis hefur nafn Guðs, Jehóva, stundum verið fjarlægt og titlar eins og „Guð“ eða „Drottinn“ settir í staðinn. Þegar þú velur þér biblíuþýðingu skaltu því leita að nákvæmri þýðingu sem er á auðskiljanlegu máli og hvetur til lestrar.

Milljónum manna um heim allan finnst Nýheimsþýðingin vera einmitt þannig þýðing. * Roskinn maður í Búlgaríu, sem fór á samkomu hjá Vottum Jehóva, fékk eintak af Nýheimsþýðingunni. Seinna sagði hann: „Ég hef lesið Biblíuna í mörg ár, en ég hef aldrei lesið þýðingu sem er eins auðlesin og sem hefur svona sterk áhrif á mig.“

3. SKREF — Farðu með bæn til Guðs

◼ Þú getur öðlast dýpri skilning á Biblíunni með því að biðja höfund hennar um aðstoð, eins og sálmaritarinn sem bað: „Ljúk upp augum mínum svo að ég sjái dásemdirnar í lögmáli þínu.“ (Sálmur 119:18) Biddu til Guðs um hjálp til að skilja orð hans í hvert skipti sem þú lest upp úr því. Þú getur líka tjáð þakklæti þitt fyrir að hafa Biblíuna, því að án hennar gætum við ekki kynnst Guði. — Sálmur 119:62.

Heyrir Guð þegar við biðjum um þess konar hjálp? Skoðum hvað tvær systur á táningsaldri í Úrúgvæ upplifðu. Það sem fjallað er um í Daníel 2:44 olli þeim heilabrotum og þær báðu þess vegna Guð um að senda einhvern sem gæti útskýrt þetta fyrir þeim. Biblían þeirra var enn þá opin þegar tveir vottar Jehóva bönkuðu upp á. Þeir lásu einmitt það vers sem stelpurnar höfðu beðið til Guðs um og útskýrðu síðan að versið fjalli um að Guðsríki muni taka völdin af mannlegum stjórnvöldum. * Systurnar tvær voru sannfærðar um að Guð hefði bænheyrt þær.

4. SKREF — Lestu á hverjum degi

◼ Bókaútgefandi tók eftir að sala á biblíum jókst til muna eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Margir snúa sér bara til Guðs á erfiðum tímum. Í Biblíunni erum við hins vegar hvött til að lesa orð Guðs daglega. Í henni stendur: „Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt svo að þú getir gætt þess að fylgja nákvæmlega því sem þar er skráð, til þess að ná settu marki og þér farnist vel.“ — Jósúabók 1:8.

Gildi þess að lesa reglulega í Biblíunni mætti lýsa með dæmi: Maður sem hefur fengið hjartaáfall ákveður að borða hollari mat. Myndi það koma honum að gagni ef hann gerði það bara þegar hann fengi slæman brjóstverk? Nei, hann þarf stöðugt að halda sig við hollt mataræði til að það gagnist honum. Á sama hátt mun daglegur biblíulestur hjálpa þér þannig að „þér farnist vel“.

5. SKREF — Notaðu mismunandi aðferðir við lesturinn

◼ Mörgum finnst ágætt að lesa Biblíuna frá upphafi til enda, en þér gæti fundist skemmtilegt að prófa aðrar aðferðir. Hér eru nokkrar tillögur.

Lestu um ákveðna persónu. Lestu alla kafla eða biblíubækur sem fjalla um ákveðinn þjón Guðs, eins og til dæmis:

Jósef: 1. Mósebók 37–50.

Rut: Rutarbók 1–3.

Jesú: Matteus 1–28; Markús 1–16; Lúkas 1–24; Jóhannes 1–21. *

Einbeittu þér að ákveðnu málefni. Lestu vers sem tengjast efninu. Leitaðu til dæmis að versum sem fjalla um bænir. Lestu síðan þær ráðleggingar sem Biblían gefur um bænir, og lestu nokkrar bænir sem skráðar eru í Biblíuna. *

Lestu upphátt. Þú getur haft mikið gagn af því að lesa upphátt úr Biblíunni. (Opinberunarbókin 1:3) Fjölskyldur geta jafnvel lesið upphátt saman, annaðhvort skipst á að lesa að greinarskilum eða skipst á að fara með hlutverk mismunandi persóna. Sumir njóta þess að hlusta á hljóðupptökur af Biblíunni. „Mér fannst erfitt að hefja lesturinn,“ sagði kona ein, „svo að ég byrjaði á að hlusta á hljóðupptökur af Biblíunni. Núna er ég spenntari fyrir að lesa Biblíuna en góðar skáldsögur.“

6. SKREF — Hugleiddu það sem þú lest

◼ Hraðinn og áreitið í nútímasamfélagi skapar ekki góðar aðstæður til hugleiðingar. En alveg eins og við þurfum að melta matinn sem við borðum til að nýta næringuna er nauðsynlegt að hugleiða það sem við lesum í Biblíunni til að það gagnist okkur. Við gerum það með því að rifja upp í huganum það sem við lásum og spyrja spurninga eins og þessara: Hvað lærði ég um Jehóva Guð? Hvernig get ég heimfært þetta á sjálfan mig? Hvernig get ég notað þetta til að hjálpa öðrum?

Ef við hugsum þannig leyfum við boðskap Biblíunnar að snerta hjarta okkar og þá höfum við meiri ánægju af biblíulestrinum. Í Sálmi 119:97 stendur: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan daginn íhuga ég það.“ Sálmaritarinn hugleiddi orð Guðs og þess vegna var það ofarlega í huga hans allan daginn. Það varð til þess að hann fékk sterka ást á því sem hann lærði.

7. SKREF Þiggðu aðstoð til að skilja Biblíuna

◼ Guð ætlast ekki til að við skiljum orð hans til fulls á eigin spýtur. Það er „sumt þungskilið“ í Biblíunni eins og bent er á í 2. Pétursbréfi 3:16. Í Postulasögunni er sagt frá eþíópískum hirðmanni sem skildi ekki það sem hann var að lesa upp úr Biblíunni. Guð sendi þá þjón sinn til að aðstoða hann með þeim árangri að eþíópíski hirðmaðurinn „fór fagnandi leiðar sinnar“. — Postulasagan 8:26-39.

Þú getur líka haft meira gagn af biblíulestri ef þú þiggur aðstoð til að skilja það sem þú lest. Ef þú hefur áhuga á ókeypis biblíunámskeiði hafðu þá samband við Votta Jehóva þar sem þú býrð eða notaðu viðeigandi póstfang á bls. 4.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Nýheimsþýðingin, sem er gefin út af Vottum Jehóva, hefur verið prentuð í heild eða að hluta á 83 tungumálum. Einnig er hægt að lesa hana á 11 tungumálum á Netinu (www.watchtower.org).

^ gr. 15 Nánari upplýsingar um Guðsríki og hverju það mun koma til leiðar má finna í 8. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Hún er gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 24 Ef þú ert að lesa Biblíuna í fyrsta sinn prófaðu þá að byrja á Markúsarguðspjalli. Það er stysta frásagan af starfi Jesú og frásagnarstíllinn hraður.

^ gr. 25 Bókin Hvað kennir Biblían? hefur hjálpað mörgum að kynna sér ákveðin málefni í Biblíunni. Til dæmis fjallar 17. kaflinn um það sem Biblían kennir um bænina.