Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Látum ekki stjórnast af almenningsálitinu

Látum ekki stjórnast af almenningsálitinu

Látum ekki stjórnast af almenningsálitinu

SKOÐANIR fólks á því hvað sé viðeigandi eða óviðeigandi og hvað sé lofsvert eða ámælisvert eru mismunandi frá einum stað til annars. Þær breytast líka í tímans rás. Þegar við lesum frásagnir í Biblíunni af löngu liðnum atburðum þurfum við þess vegna að taka mið af almenningsálitinu og ríkjandi gildismati á biblíutímanum, í stað þess að leggja okkar eigin mælikvarða á það sem við lesum.

Tökum tvö hugtök sem dæmi, en þau eru nefnd aftur og aftur í Grísku ritningunum — heiður og smán. Við skulum íhuga hvaða merkingu fólk lagði í þessi hugtök á sínum tíma til að skilja betur þá kafla sem fjalla um heiður og smán.

Ríkjandi gildismat á fyrstu öld

„Heiður og smán voru mikilvægustu lífsgildin í menningu Grikkja, Rómverja og Júdamanna,“ segir fræðimaður nokkur. „Fólk var reiðubúið að leggja lífið í sölurnar til að öðlast heiður, orðstír, frægð, viðurkenningu og virðingu.“ Þessi lífsgildi urðu til þess að fólk var viðkvæmt fyrir áliti annarra.

Tign, staða og virðing skipti feikilega miklu máli í samfélagi sem einkenndist af gríðarlegri stéttarvitund, allt frá þrælum til aðals. Manngildi fólks, bæði í eigin augum og annarra, fór eftir því hvað það naut mikils heiðurs. Að auðsýna einhverjum heiður merkti að staðfesta opinberlega að viðkomandi hegðaði sér eins og til var ætlast. Það var líka hægt að votta öðrum virðingu með því að sýna með framkomu sinni að manni þætti mikið til um ríkidæmi þeirra, stöðu og tign. Það var hægt að ávinna sér heiður með því að vera göfuglyndur eða með því að skara fram úr öðrum. Opinber niðurlæging eða háðung hafði hins vegar smán eða vanvirðingu í för með sér. Þessi smán stafaði ekki bara af viðkvæmni eða samviskubiti heldur af fordæmingu samfélagsins.

Þegar Jesús sagði að einhverjum væri boðið „hefðarsæti“ eða „ysta sæti“ í veislu snerist málið um heiður eða smán samkvæmt menningararfi þess tíma. (Lúk. 14:8-10) Lærisveinar Jesú deildu að minnsta kosti tvívegis um það „hver þeirra væri talinn mestur“. (Lúk. 9:46; 22:24) Þannig létu þeir í ljós hvað þótti eftirsóknarvert í þjóðfélaginu á þeim tíma. Hinum stoltu og metnaðarfullu trúarleiðtogum Gyðinga fannst boðunarstarf Jesú grafa undan heiðri sínum og valdi. En tilraunir þeirra til að ná sér niðri á honum í kappræðum í fjölmenni mistókust undantekningarlaust. — Lúk. 13:11-17.

Annað algengt viðhorf hjá Gyðingum, Grikkjum og Rómverjum á fyrstu öld var skömmin sem fylgdi „handtökum og opinberum ákærum fyrir afbrot“. Það þótti mikil niðurlæging að vera fjötraður eða settur í varðhald. Slík meðferð lítilsvirti einstaklinginn frammi fyrir vinum, fjölskyldu og samfélaginu almennt — hvort sem hann var dæmdur fyrir glæp eða ekki. Smánarbletturinn á mannorði hans upp frá því gat brotið niður sjálfsvirðingu hans og skaðað samband hans við aðra. Auðmýkingin, sem fylgdi því að vera flettur klæðum eða húðstrýktur, þótti enn smánarlegri en að vera fjötraður. Slík meðferð kallaði fyrirlitningu og háð yfir fólk og rændi það virðingunni.

Aftaka á kvalastaur var versta auðmýking sem hugsast gat fyrir fórnarlambið. Fræðimaðurinn Martin Hengel segir að „þrælar hafi sætt slíkri refsingu“. „Hún táknaði mestu smán, niðurlægingu og kvöl sem hugsast gat.“ Almenningur reyndi að þvinga fjölskyldu og vini þeirra til að afneita einstaklingum sem voru smánaðir á þennan hátt. Þar sem Kristur lét lífið með slíkum hætti máttu allir, sem vildu gerast kristnir á fyrstu öldinni, búast við því að almenningur hæddi þá. Langflestum hefur eflaust fundist óhugsandi að gerast fylgjandi manns sem hafði verið staurfestur. „Við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku,“ skrifaði Páll postuli. (1. Kor. 1:23) Hvernig tóku frumkristnir menn þessari áskorun?

Annars konar gildismat

Kristnir menn á fyrstu öld fóru að lögum og leituðust við að forðast þá smán sem röng hegðun hafði í för með sér. „Ekkert ykkar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það er öðrum kemur við,“ skrifaði Pétur postuli. (1. Pét. 4:15) Jesús sagði hins vegar fyrir að fylgjendur hans yrðu ofsóttir vegna nafns hans. (Jóh. 15:20) Pétur skrifaði: „Ef einhver líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki heldur vegsami Guð.“ (1. Pét. 4:16) Að fyrirverða sig ekki fyrir þjáningarnar, sem fylgjendur Krists urðu fyrir, jafngilti því að hafna gildismati samtímans.

Kristnir menn gátu ekki látið lífsviðhorf annarra stjórna hegðun sinni. Samfélaginu á fyrstu öld þótti fjarstæða að álíta staurfestan mann vera Messías. Kristnir menn hefðu getað látið þetta viðhorf þvinga sig til að fylgja almenningsálitinu. En þeir trúðu að Jesús væri Messías og þar af leiðandi fylgdu þeir honum, jafnvel þótt þeir yrðu að athlægi. Jesús sagði: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns með heilögum englum mun hann blygðast sín fyrir hvern þann sem blygðast sín fyrir mig hjá þessari ótrúu og syndugu kynslóð.“ — Mark. 8:38.

Við getum líka orðið fyrir því að fólk þrýsti á okkur að láta af trúnni. Þrýstingurinn gæti komið frá skólafélögum, nágrönnum eða vinnufélögum sem reyna að fá okkur til að taka þátt í ósiðlegu, óheiðarlegu eða öðru vafasömu athæfi. Þetta fólk reynir ef til vill að fá okkur til að skammast okkar fyrir að fylgja réttum meginreglum. Hvernig ættum við að bregðast við því?

Líkjum eftir þeim sem mátu smán einskis

Til að varðveita ráðvendni sína gagnvart Jehóva mátti Jesús þola smánarlegustu aftöku sem hugsast gat. „Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis.“ (Hebr. 12:2) Óvinir Jesú löðrunguðu hann, hræktu á hann, sviptu hann klæðum, húðstrýktu hann, staurfestu hann og formæltu honum. (Mark. 14:65; 15:29-32) Samt mat Jesús þá smán einskis sem reynt var að kalla yfir hann. Hvernig sýndi hann það? Hann gafst ekki upp þó að farið væri svona með hann. Jesús vissi að hann glataði ekki virðingu í augum Jehóva og hann sóttist svo sannarlega ekki eftir vegsemd manna. Enda þótt Jesús væri líflátinn á sama hátt og þræll, heiðraði Jehóva hann með því að reisa hann upp frá dauðum og veita honum virðulegasta sætið við hlið sér. Í Filippíbréfinu 2:8-11 lesum við: „[Jesús Kristur] lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“

Jesús var ekki ónæmur fyrir þeirri niðurlægingu sem aftaka hans hafði í för með sér. Hann hafði áhyggjur af því að það kynni að kalla óvirðingu yfir föður hans ef hann yrði sakfelldur fyrir guðlast. Jesús bað Jehóva um að hlífa sér við slíkri vanvirðingu. Hann bað: „Tak þennan kaleik frá mér!“ En Jesús laut vilja Guðs. (Mark. 14:36) Hann stóðst álagið sem hann varð fyrir og mat smánina einskis. Þegar öllu var á botninn hvolft myndu þeir einir finna fyrir smán sem aðhylltust ríkjandi lífsviðhorf samtíðarinnar. Jesús gerði það greinilega ekki.

Lærisveinar Jesú voru líka handteknir og húðstrýktir. Slík meðferð vanvirti þá í augum margra. Það var litið niður á þá og þeir voru fyrirlitnir. En þeir létu engan bilbug á sér finna. Sannir lærisveinar létu almenningsálitið ekki á sig fá og mátu smán einskis. (Matt. 10:17; Post. 5:40; 2. Kor. 11:23-25) Þeir vissu að þeir áttu að ,taka kross sinn daglega og fylgja honum‘. — Lúk. 9:23, 26.

Hvað um okkur nú á dögum? Það sem heimurinn telur heimsku, veikleika og lítilmótlegt lítur Guð á sem visku, styrkleika og heiður. (1. Kor. 1:25-28) Væri ekki mikil heimska og skammsýni af okkur að láta stjórnast algerlega af almenningsálitinu?

Þeir sem sækjast eftir virðingu verða að leggja áherslu á að þóknast heiminum. Við sækjumst hins vegar eftir vináttu Jehóva alveg eins og Jesús og fylgjendur hans á fyrstu öld. Þar af leiðandi viljum við halda það í heiðri sem er heiðvirt í augum Jehóva og hafa skömm á því sem honum finnst smánarlegt.

[Mynd á bls. 4]

Jesús lét ekki viðhorf heimsins til smánar stjórna gerðum sínum.