Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Velkomin í heimsókn!

Velkomin í heimsókn!

Velkomin í heimsókn!

VELKOMIN hvert? Að heimsækja einhverja af deildarskrifstofum Votta Jehóva sem venjulega kallast Betel. Það eru 118 slíkir staðir í ýmsum löndum víða um heim. Gestir, sem þangað koma, láta oft í ljós að þeir meti mikils það sem á sér stað á Betel.

Eftir að hafa séð marga vinnusama starfsmenn þjóna Jehóva með ánægju á deildarskrifstofunni í Mexíkó var ungur biblíunemandi svo hrifinn að hann spurði: „Hvað þarf ég að gera til að geta verið hér?“ Honum var sagt: „Fyrst verðurðu að láta skírast. Síðan væri gott að vera brautryðjandi, það er boðberi fagnaðarerindisins í fullu starfi.“ Ungi maðurinn fór eftir leiðbeiningunum og tveimur árum seinna var honum boðið að þjóna á Betel í Mexíkó. Þar hefur hann nú starfað síðastliðin 20 ár.

Hvað er Betel?

Hebreska orðið „Betel“ merkir „Guðs hús“. (1. Mós. 28:19, Biblían 1981, neðanmáls.) Á mörgum deildarskrifstofum er aðstaðan notuð til að prenta og dreifa biblíum og biblíutengdum ritum og til að styðja við fleiri en 100.000 söfnuði Votta Jehóva um allan heim. Á Betel vinna um 20.000 manns í fullu starfi. Það eru bæði karlar og konur með mismunandi félagslegan og menningarlegan bakgrunn sem þjóna Jehóva og trúsystkinum sínum af ósérhlífni. Ungt kraftmikið fólk vinnur við hlið þeirra sem þjónað hafa í þessu kristilega starfi í fjöldamörg ár. Á kvöldin og um helgar njóta þeir sem tilheyra Betelfjölskyldunni samveru við söfnuði Votta Jehóva í nágrenninu bæði á samkomum og í boðunarstarfinu. Þeir nota einnig frítíma sinn í biblíunám, afþreyingu og til að annast persónuleg mál.

Þeir sem starfa á Betel fá svolítinn fjárstyrk mánaðarlega. Þeir fá hollan og góðan mat og búa í hreinum og þægilegum vistarverum. Betelheimilin eru ekki íburðarmikil en eru hins vegar hentug. Gestir sem þangað koma eru hrifnir af því hversu byggingum og lóðum er vel við haldið og hvað allt er vel skipulagt og sömuleiðis af því vingjarnlega viðmóti og þeim einhug sem ríkir á Betel. Allir eru iðnir við vinnu sína en enginn er þó svo upptekinn að hann hafi ekki tíma til að vera vingjarnlegur. Á Betel er fólki ekki mismunað eftir uppruna og engum finnst hann yfir aðra hafinn vegna starfa sinna. Öll vinna er mikilvæg hvort heldur það eru hreingerningar, garðvinna, eldamennska eða vinna í prentsmiðju eða á skrifstofu. Betelítar, eins og þeir sem vinna á Betel eru kallaðir, vinna sem ein heild að því að styðja boðunarstarf Votta Jehóva. — Kól. 3:23.

Heilsum upp á Betelíta

Við skulum aðeins kynnast tveimur sem tilheyra þessari alþjóðlegu fjölskyldu. Hvað varð til þess að þá langaði til að þjóna á Betel? Tökum Mario sem dæmi. Þegar hann lét skírast sem vottur Jehóva var hann í vel launaðri vinnu hjá virtum þýskum bílaframleiðanda og átti kost á stöðuhækkun. Stuttu eftir að hann lét skírast bauð hann sig fram í sjálfboðavinnu í eina viku á Betel í heimalandi sínu. Honum var úthlutað að aðstoða í prentsmiðjunni. Mario tók eftir augljósum mun á vinnufélögunum á Betel og þeim sem hann vann með hjá bílafyrirtækinu. Hann ákvað því að sækja um fullt starf á Betel. Jafnvel þótt margir ættingjar hans og vinnufélagar hafi átt erfitt með að skilja þá ákvörðun hans er Mario mjög ánægður í þjónustu sinni á Betel í Þýskalandi.

Margir hafa enga sérstaka menntun eða fagkunnáttu þegar þeir byrja að vinna á Betel. Þannig var það með Abel sem nú hefur þjónað á Betel í Mexíkó í 15 ár. „Betel hefur verið mér góður skóli,“ segir hann. „Ég hef lært að vinna við mjög flóknar prentvélar. Og ég veit að með þá kunnáttu gæti ég fengið vel launað starf utan Betel, en ég fengi ekki það sem ég hef hér — friðsælt og gott líf, laust við þær áhyggjur og samkeppni sem ríkir í atvinnulífinu. Mér finnst ég hafa fengið bestu menntun sem völ er á, sem bæði eykur þekkingu mína og hjálpar mér að taka andlegum framförum. Þess konar menntun hefði ég hvergi annars staðar getað fengið, ekki einu sinni í besta háskóla.“

Uppbyggileg heimsókn

Heimsókn á Betel getur haft jákvæð áhrif á samband fólks við Guð. Þannig var það með Omar sem býr í Mexíkó. Móðir hans kenndi honum sannleika Biblíunnar. En þegar Omar var 17 ára hætti hann að koma á samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Með tímanum fór hann að lifa ókristilegu líferni og efnishyggjan tók völdin. Seinna, þegar hann var að vinna hjá fjarskiptafyrirtæki, var hann ásamt fleirum sendur til Betel í Mexíkó til að kynna tækjabúnað. Omar segir: „Eftir kynninguna var okkur boðið í skoðunarferð um Betel. Það sem ég sá og sú vinsemd sem mér var sýnd fékk mig til að íhuga hvernig líf mitt hefur verið eftir að ég sneri baki við Jehóva. Ég fór strax að sækja samkomur aftur og byrjaði að lesa í Biblíunni. Hálfu ári eftir að ég heimsótti Betel lét ég skírast. Ég þakka Jehóva fyrir hvatninguna sem ég fékk þegar ég heimsótti Betel.“

Masahiko býr í Japan. Hann ólst einnig upp sem vottur Jehóva. En með tímanum fór honum að finnast kristið líferni setja sér of miklar skorður. Hann varð mjög virkur í skólalífinu og hætti að sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Masahiko segir: „Dag einn ákvað fjölskylda mín og nokkrir vinir þeirra úr söfnuðinum að heimsækja Betel. Eftir þrábeiðni fjölskyldu minnar ákvað ég að fara með. Ég hef aldrei verið eins endurnærður og eftir heimsóknina á Betel. Að vera með trúsystkinum í þessari ferð veitti mér ánægju sem ég hafði aldrei upplifað með vinum mínum í heiminum. Mig fór að langa til að lifa kristilegu líferni og ég ákvað að biðja um biblíunámskeið.“ Masahiko þjónar nú sem boðberi í fullu starfi í söfnuði sínum.

Vottur frá Frakklandi flutti til Moskvu vegna vinnu. Þar missti hún tengslin við fólk Jehóva og fjarlægðist Guð. Hún gerði sig seka um ranga breytni og giftist að endingu manni sem ekki var vottur. Seinna kom trúsystir frá Frakklandi í heimsókn til hennar og saman ferðuðust þær til Sankti Pétursborgar til að heimsækja Betelheimilið í Rússlandi. Hún skrifar: „Á Betel fengum við hlýlegar móttökur og það snerti mig. Þar ríkti svo mikill friður. Ég fann fyrir anda Jehóva. Hvernig gat ég gert þau mistök að fjarlægjast söfnuð Jehóva? Eftir heimsókn mína á Betel bað ég Jehóva um hjálp og varð fastákveðin í að kenna dætrum mínum sannleika Biblíunnar.“ Þessi systir, sem hafði fjarlægst söfnuðinn, hefur eflaust fengið hjálp af ýmsu tagi, en heimsóknin á Betel var mjög trústyrkjandi fyrir hana og í framhaldinu tók hún góðum framförum.

Hvaða áhrif getur heimsókn á Betel haft á þá sem eru ekki kunnugir vottum Jehóva? Alberto heimsótti Betelheimilið í Brasilíu árið 1988, en á þeim tíma var hann mjög virkur í stjórnmálum. Hreinlætið, reglusemin og ekki síst að öll vinna fór fram fyrir opnum tjöldum hafði mikil áhrif á hann. Stuttu áður en Alberto kom til að skoða Betel hafði hann heimsótt prestaskóla þar sem mágur hans þjónaði sem prestur. Alberto tók eftir miklum mun. „Allt sem gert var í prestaskólanum var launungarmál,“ segir Alberto. Skömmu eftir heimsóknina á Betel þáði hann biblíunámskeið, hætti í stjórnmálum og þjónar nú sem safnaðaröldungur.

Komdu í heimsókn á Betel

Margir hafa lagt heilmikið á sig til að heimsækja deildarskrifstofuna í sínu landi. Paulo og Eugenia í Brasilíu lögðu til dæmis fyrir peninga í fjögur ár til þess að geta farið í tveggja daga ferðalag með rútu, 3000 kílómetra leið, í þeim tilgangi að heimsækja Betelheimilið þar. Þau segja: „Það var svo sannarlega þess virði. Við höfum nú enn betri skilning á söfnuði Jehóva. Þegar við útskýrum fyrir biblíunemendum okkar það starf sem unnið er á Betel spyrja þeir stundum: ,Hafið þið einhvern tímann komið þangað?‘ Núna getum við sagt, já.“

Er deildarskrifstofa og Betelheimili í heimalandi þínu eða í einhverju nágrannalandi? Þú ert velkominn í heimsókn til að skoða Betel. Það verður örugglega tekið vel á móti þér og heimsóknin mun styrkja trú þína.

[Mynd á bls. 18]

Mario

[Mynd á bls. 18]

Abel

[Mynd á bls. 18]

Þýskaland

[Mynd á bls. 18]

Japan

[Mynd á bls. 18]

Brasilía