Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver getur bjargað þeim sem hrópa á hjálp?

Hver getur bjargað þeim sem hrópa á hjálp?

Hver getur bjargað þeim sem hrópa á hjálp?

„Guð, fel konungi dóma þína . . . því að hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp.“ — SÁLM. 72:1, 12.

1. Hvað má læra um miskunn Guðs af reynslu Davíðs?

DAVÍÐ konungur mun hafa skrifað þessi hughreystandi og hvetjandi orð. Löngu áður en hann skrifaði þetta hafði hann drýgt hór með Batsebu og iðrast þess sárlega. Þá hafði hann sárbænt Guð um fyrirgefningu: „Vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi . . . Synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum . . . Sjá, sekur er ég fæddur, syndugur er móðir mín ól mig.“ (Sálm. 51:3-7) Í miskunn sinni tekur Jehóva tillit til þess að við höfum fengið syndina í arf.

2. Hvaða gagn höfum við af Sálmi 72?

2 Jehóva skilur dapurlegt ástand okkar. En eins og spáð var mun andasmurður konungur Guðs bjarga „hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar. Hann miskunnar sig yfir bágstadda og snauða og bjargar lífi hinna fátæku“. (Sálm. 72:12, 13) Hvernig verða mennirnir frelsaðir? Það kemur fram í Sálmi 72. Sálmurinn fjallar um konungdóm Salómons, sonar Davíðs, og gefur innsýn í það hvernig mannkynið verður frelsað frá þjáningum og hörmungum undir stjórn Jesú Krists, sonar Guðs.

Forsmekkur af stjórn Krists

3. Um hvað bað Salómon og hvað gaf Guð honum?

3 Eftir að Davíð konungur var orðinn aldurhniginn lýsti hann yfir að Salómon skyldi verða konungur og gaf ákveðin fyrirmæli sem Salómon fylgdi dyggilega. (1. Kon. 1:32-35; 2:1-3) Síðar birtist Jehóva Salómon í draumi og sagði: „Segðu hvað þú vilt að ég gefi þér.“ Salómon bað aðeins um eitt: „Gefðu . . . þjóni þínum vilja til að hlýða þér svo að ég geti stjórnað þjóð þinni og greint gott frá illu.“ Jehóva gaf Salómon það sem hann bað auðmjúklega um og meira til. — 1. Kon. 3:5, 9-13.

4. Hvernig lýsti annar valdahafi, sem var samtíða Salómon, stjórnartíð hans?

4 Með blessun Jehóva var slíkur friður og velsæld í stjórnartíð Salómons að annað eins hefur aldrei þekkst hvorki fyrr né síðar. (1. Kon. 4:25) Meðal þeirra sem komu til að sjá með eigin augum hvernig Salómon stjórnaði var drottningin af Saba ásamt fjölmennu föruneyti. Hún sagði við Salómon: „Það sem ég heyrði heima í landi mínu . . . hefur reynst rétt . . . Þó var mér ekki skýrt frá helmingnum. Viska þín og velmegun er meiri en ég hafði heyrt um.“ (1. Kon. 10:1, 6, 7) Jesús sýndi þó margfalt meiri visku, og hann gat réttilega sagt um sjálfan sig: „Hér er meira en Salómon.“ — Matt. 12:42.

Frelsun undir stjórn hins meiri Salómons

5. Um hvað er fjallað í Sálmi 72 og hvaða innsýn gefur það okkur?

5 Við skulum nú líta nánar á 72. Sálminn til að kynna okkur þá margvíslegu blessun sem verður undir stjórn Jesú Krists, hins meiri Salómons. (Lestu Sálm 72:1-4.) Í sálminum kemur vel fram hvernig Jehóva lítur á ,höfðingjadóm‘ sonar síns, Jesú Krists, sem er nefndur „Friðarhöfðingi“. (Jes. 9:5, 6) Undir handleiðslu Guðs mun hinn meiri Salómon ,dæma hina þjáðu með sanngirni og veita hinum snauðu hjálp‘. Stjórn hans mun einkennast af friði og réttlæti. Þegar Jesús var á jörðinni gaf hann forsmekk af því sem á eftir að gerast undir þúsund ára stjórn hans. — Opinb. 20:4.

6. Hvaða forsmekk gaf Jesús af blessuninni sem verður þegar ríki hans fer með völd?

6 Lítum á sumt af því sem Jesús Kristur gerir samkvæmt Sálmi 72. Það gefur okkur svolitla hugmynd um það sem hann mun gera fyrir mannkynið. Við erum eðlilega snortin af einstakri umhyggju hans fyrir þjáðum. (Matt. 9:35, 36; 15:29-31) Til dæmis kom holdsveikur maður til Jesú og sagði í bænarrómi: „Ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“ Jesús svaraði: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Og maðurinn læknaðist. (Mark. 1:40-42) Síðar hitti Jesús ekkju sem hafði misst einkason sinn. Hann „kenndi . . . í brjósti um hana“ og sagði: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ og sonur hennar gerði það. Hann lifnaði við. — Lúk. 7:11-15.

7, 8. Nefndu dæmi um lækningamátt Jesú.

7 Jehóva gaf Jesú mátt til að vinna kraftaverk. Það sýndi sig í sambandi við konu sem „hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni en engan bata fengið, öllu heldur versnað“. Konan laumaði sér inn í mannfjöldann og snerti Jesú en það var brot á lögmálinu fyrir manneskju með,útferð og blóðrennsli‘. (3. Mós. 15:19, 25) Jesús skynjaði að kraftur fór út frá honum og spurði hver hefði snert hann. Konan kom „hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann“. Jesús gerði sér ljóst að Jehóva hafði læknað konuna. Hann var vinsamlegur við hana og sagði: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna.“ — Mark. 5:25-27, 30, 33, 34.

8 Það hlýtur að hafa haft djúpstæð áhrif á fólk að sjá Jesú nota máttinn, sem Guð gaf honum, til að lækna sjúka. Margir voru eflaust snortnir þegar þeir sáu hann lækna fólk áður en hann flutti sína frægu fjallræðu. (Lúk. 6:17-19) Þegar Jóhannes skírari sendi tvo af lærisveinum sínum til að fá staðfest að Jesús væri Messías sáu þeir hann ,lækna marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gefa mörgum blindum sýn‘. Síðan sagði hann tvímenningunum: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“ (Lúk. 7:19-22) Það hlýtur að hafa verið uppörvandi fyrir Jóhannes að fá þessi skilaboð.

9. Hvað var Jesús að sýna með kraftaverkum sínum?

9 Þegar Jesús þjónaði hér á jörð linaði hann þjáningar fólks aðeins um tíma. Þeir sem hann læknaði eða reisti upp dóu síðar. En kraftaverkin, sem hann vann meðan hann var á jörð, voru forsmekkur af þeirri varanlegu lausn sem mannkynið á í vændum þegar hann fer með völd sem Messías.

Paradís um alla jörð

10, 11. (a) Hve lengi varir blessunin sem ríki Guðs hefur í för með sér og hvernig verður stjórn Jesú? (b) Hver verður með Kristi í paradís og hvað þarf hann að gera til að fá að lifa eilíflega?

10 Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig lífið verður í paradís á jörð. (Lestu Sálm 72:5-9.) Þeir sem tilbiðja hinn eina sanna Guð geta þá notið þess að lifa í paradís eins lengi og sólin og tunglið eru til, það er að segja að eilífu. Konungurinn Jesús Kristur endurnærir þá „sem regn á slægjuland, gróðrarskúr sem vætir landið“.

11 Hefur það ekki örvandi áhrif á hjarta þitt að sjá fyrir þér hvernig þessi sálmur rætist og íhuga vonina um eilíft líf í paradís á jörð? Illvirkinn, sem var staurfestur við hlið Jesú, var djúpt snortinn þegar Jesús sagðist verða með honum í paradís. (Lúk. 23:43) Þessi maður verður reistur upp í þúsundáraríki Jesú. Ef hann beygir sig undir stjórn Krists fær hann að lifa að eilífu við fullkomna heilsu og hamingju.

12. Hvaða tækifæri býðst ranglátum sem hljóta upprisu í þúsundáraríki Krists?

12 Undir stjórn hins meiri Salómons, Jesú Krists, „mun hinn réttláti blómstra“ og dafna. (Sálm. 72:7) Ást og umhyggja Krists verður ríkuleg, rétt eins og hann sýndi þegar hann var á jörðinni. Í nýjum heimi Guðs munu meira að segja „ranglátir“, sem hljóta upprisu, fá tækifæri til að laga sig að kröfum Jehóva og lifa. (Post. 24:15) En þeir sem vilja ekki breyta í samræmi við kröfur Guðs fá auðvitað ekki að lifa áfram og spilla friði og ró nýja heimsins.

13. Hve víðáttumikið verður Guðsríki og af hverju verður friðinum aldrei raskað?

13 Í Sálmi 72:8, 9 kemur vel fram að stjórn hins meiri Salómons nær um alla jörðina: „Hann mun ríkja frá hafi til hafs og frá Fljótinu [Efrat] til endimarka jarðar. Fjandmenn hans munu falla á kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.“ Já, Jesús Kristur mun ríkja yfir allri jörðinni. (Sak. 9:9, 10) Þeir sem viðurkenna stjórn hans og kunna að meta blessunina, sem fylgir henni, munu fúslega „falla á kné“ og vera honum undirgefnir. Syndarar, sem iðrast ekki, verða hins vegar afmáðir þótt ,tíræðir‘ séu ef svo má að orði komast. (Jes. 65:20) Þeir munu „sleikja duftið“.

Umhyggja Jesú fyrir okkur

14, 15. Hvernig vitum við að Jesús skilur mannlegar tilfinningar og „bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp“?

14 Syndugt mannkyn er í aumkunarverðu ástandi og þarfnast sárlega hjálpar. En við eigum okkur von. (Lestu Sálm 72:12-14.) Jesús, hinn meiri Salómon, ber umhyggju fyrir okkur vegna þess að hann skilur ófullkomið eðli okkar. Jesús þjáðist vegna réttlætisins og Guð lét hann ganga einan síns liðs gegnum prófraunir. Slíkt var tilfinningaálagið að „sveiti hans varð eins og blóðdropar er féllu á jörðina“. (Lúk. 22:44) Síðar hrópaði hann þar sem hann hékk á kvalastaurnum: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Matt. 27:45, 46) Jesús reyndist trúr þrátt fyrir allar þjáningarnar og þrátt fyrir að Satan beitti öllu afli til að reyna að snúa honum gegn Jehóva Guði.

15 Við getum verið fullviss um að Jesús veit af sársauka okkar og kvöl og „bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar“. Hann er ástríkur og umhyggjusamur eins og faðir hans. Hann „hlustar á hina fátæku“ og „græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra“. (Sálm. 69:34; 147:3) Jesús getur „séð aumur á veikleika okkar“ því að hans var „freistað . . . á allan hátt eins og okkar“. (Hebr. 4:15) Það er gott til þess að vita að konungurinn Jesús Kristur ríkir nú á himnum og bíður þess með óþreyju að binda enda á þjáningar mannanna.

16. Af hverju gat Salómon fundið til með þegnum sínum?

16 Salómon bjó yfir ríkulegri visku og innsæi og hefur eflaust ,miskunnað sig yfir bágstadda‘. Auk þess mátti hann þola ýmsar sorgir og áföll í lífinu. Amnon, bróðir hans, nauðgaði Tamar, systur þeirra, og Absalon, bróðir hans, lét drepa Amnon vegna þessa glæps. (2. Sam. 13:1, 14, 28, 29) Absalon rændi völdum af Davíð en valdaránið fór út um þúfur og Jóab varð honum að bana. (2. Sam. 15:10, 14; 18:9, 14) Síðar reyndi Adónía, bróðir Salómons, að hrifsa til sín konungdóminn. Ef það hefði heppnast hefði Salómon eflaust verið bráður bani búinn. (1. Kon. 1:5) Af bæninni, sem hann bar fram þegar musteri Jehóva var vígt, er ljóst að hann bar skyn á mannlegar þjáningar. Hann sagði um þegna sína: „Sérhver þeirra þekkir kvöl hjarta síns og neyð . . . fyrirgef þeim. Launaðu hverjum eftir breytni hans.“ — 2. Kron. 6:29, 30.

17, 18. Hvaða sársauka þurfa sumir þjónar Guðs að takast á við og hvað hefur hjálpað þeim?

17,Kvöl hjarta okkar‘ getur stafað af einhverju sem við höfum orðið fyrir í lífinu. María * er vottur Jehóva á fertugsaldri. Hún skrifar: „Ég hef fulla ástæðu til að vera hamingjusöm en fortíðin vekur oft með mér skömm og viðbjóð. Þá verð ég afar döpur og mér hættir til að gráta rétt eins og allt saman hafi gerst í gær. Djúpstæðar minningar vekja enn með mér sterka sektarkennd og mér finnst ég einskis virði.“

18 Margir af þjónum Guðs þekkja slíkar tilfinningar. Hvað getur gefið þeim styrk til að halda áfram? „Sannir vinir og trúsystkinin í söfnuðinum veita mér hamingju og gleði,“ segir María. „Ég reyni líka að einbeita mér að því sem Jehóva lofar um framtíðina, og ég treysti að angistaróp mín eigi eftir að breytast í gleðisöng.“ (Sálm. 126:5) Við þurfum að setja von okkar á soninn sem Guð sendi og hefur nú skipað stjórnanda. Sagt var um hann í spádómi: „Hann miskunnar sig yfir bágstadda og snauða og bjargar lífi hinna fátæku, frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá því að blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“ (Sálm. 72:13, 14) Þetta er ákaflega hughreystandi.

Nýr heimur með allsnægtum er í nánd

19, 20. (a) Hvaða erfiðleikar verða úr sögunni undir stjórn Guðsríkis, samkvæmt Sálmi 72? (b) Hverjum ber okkur fyrst og fremst að þakka fyrir stjórn Krists og hvað finnst þér um þau afrek sem hún á eftir að vinna?

19 Reyndu aftur að sjá fyrir þér réttláta menn í nýjum heimi Guðs undir stjórn hins meiri Salómons. „Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum,“ segir í spádóminum. (Sálm. 72:16) Korn er yfirleitt ekki ræktað á fjallatindum heldur eiga þessi orð að lýsa því hve frjósöm jörðin verður. Afrakstur hennar verður „líkur Líbanonsskógi“ en það var svæði sem gaf ríkulega af sér á dögum Salómons. Hugsaðu þér. Þá verður enginn skortur á mat, enginn verður vannærður, enginn hungraður. Allir munu þá búa við „veislu með réttum fljótandi í olíu“. — Jes. 25:6-8; 35:1, 2.

20 Hver fær heiðurinn og þakkirnar fyrir alla þessa blessun? Fyrst og fremst eilífur konungur og Drottinn alheims, Jehóva Guð. Það má orða það svo að við munum öll taka undir síðustu versin í þessu fagra og hlýlega ljóði: „Nafn hans [konungsins Jesú Krists] vari að eilífu, megi nafn hans gróa meðan sólin skín, allar þjóðir jarðar óski sér blessunar með honum og segi hann sælan. Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, sem einn vinnur máttarverk. Lofað sé hans dýrlega nafn um aldur og ævi og öll jörðin fyllist dýrð hans! Amen, amen.“ — Sálm. 72:17-19.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Nafninu er breytt.

Hvert er svarið?

• Af hverju er gefinn forsmekkur í Sálmi 72?

• Hver er hinn meiri Salómon og hve víðáttumikið verður ríki hans?

• Hvað finnst þér sérstaklega heillandi við blessunina sem lýst er í 72. Sálminum?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 29]

Hvað var fyrirmyndað með velsældinni í stjórnartíð Salómons?

[Mynd á bls. 32]

Gerum allt sem við getum til að hljóta líf í paradís undir stjórn hins meiri Salómons.