Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Starfað á stórkostlegu vaxtartímabili

Starfað á stórkostlegu vaxtartímabili

Starfað á stórkostlegu vaxtartímabili

Harley Harris segir frá

Það var 2. september 1950 í Kennett í Missouri í Bandaríkjunum. Við vorum á svæðismóti umkringd götuskríl. Bæjarstjórinn kallaði út þjóðvarðliðið til að verja okkur fyrir óviðráðanlegum múgnum. Hermenn, vopnaðir rifflum og byssustingjum, stóðu í röðum með fram götunni. Mannfjöldinn hrópaði fúkyrði meðan við gengum að bílunum en við ókum til Cape Girardeau í Missouri til þess að vera viðstödd það sem eftir var mótsins. Þar lét ég skírast 14 ára. Ég ætla að segja ykkur hvernig stóð á því að ég fór að þjóna Jehóva þessum óróatímum.

SNEMMA á fjórða áratug síðustu aldar hlustuðu amma og afi ásamt átta börnum sínum á nokkrar hljóðupptökur með ræðum bróður Rutherfords. Þau voru viss um að þau höfðu fundið sannleikann. Foreldrar mínir, Bay og Mildred Harris, létu skírast árið 1935 á móti í Washington, D.C. Þau voru í sjöunda himni yfir að vera hluti af hinum ,mikla múgi‘ en á þessu móti var einmitt staðfest hver hann væri. — Opinb. 7:9, 14.

Ári síðar fæddist ég. Og árið þar á eftir fluttu foreldrar mínir til einangraðs svæðis í Mississippi. Við fengum ekki einu sinni farandumsjónarmann í heimsókn til okkar meðan við áttum heima þar. Fjölskyldan var í bréfasambandi við Betel og sótti mót, og á tímabili var það eina sambandið sem við höfðum við bræðrafélagið.

Þolgæði í ofsóknum

Á tímum síðari heimstyrjaldarinnar urðu vottar Jehóva fyrir miklum ofsóknum vegna hlutleysis síns. Við höfðum flutt til Mountain Home í Arkansas. Dag einn vorum við pabbi saman í götustarfinu. Skyndilega þreif maður blöðin úr höndunum á pabba, kveikti í þeim og brenndi þau fyrir framan okkur. Hann kallaði okkur hugleysingja að fara ekki í stríð. Ég var aðeins fimm ára og fór að gráta. Pabbi horfði rólegur á manninn án þess að segja orð þangað til maðurinn hafði sig á brott.

Það var einnig til gott fólk sem vildi okkur vel. Einu sinni þegar við höfðum verið umkringd af götuskríl þar sem við sátum inni í bíl átti saksóknarinn í bænum leið fram hjá. „Hvað gengur á?“ spurði hann. Maður nokkur svaraði: „Þessir vottar Jehóva vilja ekki berjast fyrir landið sitt!“ Þá stökk saksóknarinn upp á stigbrettið á bílnum okkar og hrópaði: „Ég barðist í fyrri heimstyrjöldinni, og ég ætla líka að berjast í þessari! Sleppið þessu fólki. Það gerir engum mein!“ Hópurinn tvístraðist hljóðlega. Við mátum mikils þetta góða fólk sem sýndi okkur slíka mannúð. — Post. 27:3.

Mótin styrktu okkur

Mótið, sem var haldið 1941 í St. Louis í Missouri, hafði einmitt verið það sem við þurftum. Áætlað var að fleiri en 115.000 manns hafi verið viðstaddir. Hvorki meira né minna en 3.903 létu skírast. Ég man vel eftir ræðu bróður Rutherfords sem bar heitið „Börn konungsins“. Hann talaði beint til okkar yngra fólksins og við fengum öll eintak af fallegu bláu bókinni Börn. Á þessu móti fékk ég styrk til að bregðast við því sem gerðist árið eftir, árið sem ég átti að byrja í skóla. Frænkur mínar og ég vorum rekin úr skólanum fyrir að heilsa ekki fánanum. Við fórum í skólann á hverjum degi til að kanna hvort skólastjórnendur hefðu breytt um skoðun. Við gengum morgun eftir morgun gegnum skóginn í skólann en vorum jafnskjótt send heim. En þannig fannst mér við sýna Guðsríki hollustu.

Áður en langt um leið kvað Hæstiréttur Bandaríkjanna upp þann úrskurð að fánakveðjan væri ekki lögboðin. Loksins gátum við farið í skólann. Kennarinn var mjög vinsamlegur og lét okkur vinna upp það sem við höfðum misst úr náminu. Skólafélagarnir voru okkur einnig velviljaðir.

Ég man líka eftir mótinu, sem var haldið 1942 í Cleveland í Ohio, þar sem bróðir Nathan H. Knorr flutti ræðuna „Friður — getur hann orðið varanlegur?“ Athugun á 17. kafla Opinberunarbókarinnar benti til þess að tiltölulega friðsamlegt tímabil ætti að koma eftir síðari heimsstyrjöldina. Því mætti búast við frekari vexti. Til að vera viðbúinn slíkri þróun var Gíleaðskólinn settur á stofn árið 1943. Ekki grunaði mig þá hvaða áhrif það ætti eftir að hafa á framtíð mína. Eftir stríðið komst reyndar á friður og það dró úr ofsóknum. En þegar Kóreustríðið hófst árið 1950 blossaði aftur upp andstaða gegn boðunarstarfinu eins og lýst var í upphafi greinarinnar.

Enn meiri hlutdeild í vextinum

Árið 1954 útskrifaðist ég úr framhaldsskóla og mánuði síðar byrjaði ég að starfa sem brautryðjandi. Eftir að ég hafði starfað í Kennett í Missouri, þar sem mannfjöldinn umkringdi okkur 1950, var mér boðið að koma til Betel í mars 1955. Hluti af starfssvæði safnaðarins, sem ég var í, var Times Square í miðri New York. Það var mikil breyting frá lífinu í sveitinni. Mér tókst að ná athygli önnum kafinna New Yorkbúa með því að hafa blöðin opin á athyglisverðri grein um leið og ég sagði: „Hefurðu nokkurn tíma spurt þig þessarar spurningar?“ Margir þáðu blöðin.

Ein af uppáhaldsstundunum mínum á Betel var morgunhugvekjan sem bróðir Knorr stýrði. Hann gat gert biblíuversin svo lifandi og látið þau höfða til okkar á svo hagnýtan hátt. Hann talaði við okkur ungu einhleypu bræðurna eins og faðir við son. Hann gaf okkur oft góðar ráðleggingar um hvernig ætti að umgangast hitt kynið. Um 1960 ákvað ég að kvænast.

Ég lét vita með mánaðar fyrirvara að ég myndi hætta á Betel en fékk ekkert svar. Að þeim tíma liðnum hleypti ég í mig kjarki, þótt feiminn væri, til að spyrjast fyrir um hvort tilkynningin hefði borist þeim. Bróðir Robert Wallen svaraði í símann og kom til mín þar sem ég var við vinnu. Hann spurði hvað mér fyndist um sérbrautryðjandastarf eða farandstarf. „En Bob,“ svaraði ég, „ ég er bara 24 ára og hef ekki þá reynslu sem til þarf.“

Farandhirðisstarfið

Um kvöldið beið mín í herberginu stórt umslag. Í því var eitt umsóknareyðublað fyrir sérbrautryðjandastarf og annað fyrir farandhirðisstarf. Ja, hérna! Mig rak í rogastans. Ég fékk þann óverðskuldaða heiður að þjóna bræðrum mínum sem farandhirðir í Suðvestur-Missouri og Austur-Kansas. En áður en ég yfirgaf Betel fór ég á fund fyrir farandumsjónarmenn. Bróðir Knorr sagði í lokaorðum sínum: „Þótt þið séuð orðnir farand- og umdæmishirðar er ekki svo að skilja að þið vitið meira en bræðurnir almennt. Sumir búa yfir miklu meiri reynslu en þið. En vegna aðstæðna geta þeir ekki starfað sem farandhirðar. Þið getið lært mikið af þeim.“

Það reyndust orð að sönnu. Bróðir Fred Molohan og eiginkona ásamt bróður hans, Charley frá Parsons í Kansas, voru frábær dæmi um það. Þau höfðu kynnst sannleikanum snemma á tuttugustu öldinni. Það var mjög ánægjulegt að heyra það sem hafði drifið á daga þeirra og það áður en ég fæddist. Einnig má nefna John Wristen, vingjarnlegan eldri bróður frá Joplin í Missouri. Hann hafði verið brautryðjandi svo áratugum skipti. Þessir góðu bræður báru mikla virðingu fyrir ráðstöfun Jehóva. Þeir virtu mig sem farandumsjónarmann þrátt fyrir ungan aldur.

Ég kvæntist árið 1962 blómlegri rauðhærðri stúlku, Cloris Knoche, en hún var brautryðjandi. Ég hélt áfram farandhirðisstarfinu ásamt henni. Þegar við dvöldumst hjá bræðrum og systrum kynntust við þeim betur. Við gátum hvatt unga fólkið til að þjóna í fullu starfi. Tvo unglinga á farandsvæðinu, þau Jay Kosinski og JoAnn Kresyman, vantaði ekkert annað en svolitla hvatningu. Þegar við störfuðum með þeim og sögðum þeim frá gleðinni sem fylgir því að vera fórnfús var það þeim hvatning til að setja sér markmið. JoAnn gerðist sérbrautryðjandi og Jay starfaði á Betel. Síðar meir giftust þau og hafa nú verið í farandstarfi í um þrjá áratugi.

Trúboðsstarfið

Árið 1966 spurði bróðir Knorr okkur hvort við hefðum áhuga á að starfa erlendis. „Við erum ánægð þar sem við erum,“ svöruðum við, „en ef þörf er annars staðar erum við til í það.“ Viku síðar var okkur boðið að sækja Gíleaðskólann. Það var mjög ánægjulegt að koma aftur á Betel til að stunda nám og vera með mörgum þeirra sem ég hafði kynnst og lært að elska og virða. Við tengdumst einnig vináttuböndum öðrum nemendum sem þjóna trúfastlega allt fram á þennan dag.

Við Cloris vorum send til Ekvador í Suður-Ameríku ásamt Dennis og Edwinu Crist, Önu Rodrígues og Deliu Sánchez. Dennis og Edwina fóru til höfuðborgarinnar Quito. Við, ásamt Önu og Deliu, vorum send til Cuenca sem er þriðja stærsta borgin í Ekvador. Svæðið náði yfir tvö héruð. Fyrsti söfnuðurinn í Cuenca hóf göngu sína í stofunni heima hjá okkur. Þar vorum við fjögur og tveir aðrir. Við veltum oft fyrir okkur hvernig við gætum komist yfir allt þetta svæði.

Í Cuenca voru fjölmargar kirkjur og á svokölluðum helgidögum var varla þverfótað í borginni fyrir helgigöngum. Fólkið í Cuenca hafði samt margar spurningar fram að færa. Mario Polo kom mér til dæmis á óvart í fyrsta sinn sem ég hitti hann en hann var hjólreiðakappi. Hann spurði: „Hver er skækjan sem getið er um í Opinberunarbókinni?“

Öðru sinni kom Mario heim til okkar að kvöldlagi og var mjög áhyggjufullur. Mótmælendaprestur hafði gefið honum rit þar sem alvarlegar ásakanir voru bornar á votta Jehóva. Ég spurði Mario hvort hinn ákærði ætti ekki að fá að verja sig. Næsta dag bauð Mario því prestinum og mér heim til sín til að svara ásökununum. Á fundinum stakk ég upp á að við beindum athyglinni að þrenningunni. Þegar presturinn las Jóhannes 1:1 útskýrði Mario sjálfur muninn á orðunum „Guð“ og „guð“ á grísku. Og þannig gekk það með öll biblíuversin sem vitnað var í. Skiljanlega fór presturinn án þess að sanna þrenningarkenninguna. Þetta sannfærði Mario og eiginkonu hans um að við færum með sannleikann og þau stóðu góðan vörð um kenningar Biblíunnar upp frá því. Það er ánægjulegt að sjá að nú eru 33 söfnuðir í Cuenca og samtals 63 söfnuðir á þessu víðáttumikla svæði sem okkur var fyrst úthlutað. Það má segja að það hafi verið stórkostlegur vöxtur.

Horft á vöxtinn frá deildarskrifstofunni

Árið 1970 var ég beðinn um að fara til starfa á deildarskrifstofunni í Guayaquil ásamt Al Schullo. Við tveir sáum um starfið á skrifstofunni. Joe Sekerak var í hlutastarfi og pakkaði inn ritum fyrir söfnuðina 46 sem voru í landinu. Um tíma var Cloris í trúboðsstarfinu meðan ég vann á Betel. Hún hefur getað leitt 55 manns til skírnar. Oft hafa þrír til fimm nemendur hennar látið skírast samtímis á móti.

Nefnum eitt dæmi. Cloris las með konu sem hét Lucresia en eiginmaður hennar var því mótfallinn. Lucresia lét þó skírast að lokum og fór að starfa sem brautryðjandi. Hún kenndi börnum sínum vegi Jehóva. Tveir af sonum hennar eru nú öldungar og einn er sérbrautryðjandi. Dóttir hennar starfar sem brautryðjandi. Dótturdóttir hennar giftist ágætum bróður og þau starfa einnig sem sérbrautryðjendur. Þessi fjölskylda hefur aðstoðað marga við að tileinka sér sannleikann.

Það voru um 5.000 boðberar í Ekvador árið 1980. Litla skrifstofan okkar var orðin of lítil. Trúbróðir bauð okkur 32 hektara landareign fyrir utan Guayaquil. Árið 1984 hófumst við handa og byggðum á þessari landareign nýja deildarskrifstofu og mótshöll sem voru vígð árið 1987.

Fúsar hendur stuðla að vexti

Með árunum hefur það yljað manni um hjartarætur að sjá marga boðbera og brautryðjendur koma frá öðrum löndum til Ekvador og hjálpa til þar sem þörf var á fleiri boðberum. Andy Kidd frá Kanada stendur mér skýrast fyrir hugskotssjónum en hann var hættur störfum sem kennari. Hann fluttist til Ekvador 1985, sjötugur að aldri, og þjónaði trúfastur þar til hann lést árið 2008, þá orðinn 93 ára. Þegar ég sá hann í fyrsta skipti að störfum var hann eini umsjónarmaðurinn í fámennum söfnuði. Hann flutti opinberu ræðuna þótt hann ætti í erfiðleikum með spænskuna og stjórnaði síðan náminu í Varðturninum. Hann stjórnaði einnig Boðunarskólanum og sá að mestu leyti um verkefnin á þjónustusamkomunni. Á þessu svæði eru nú tveir blómlegir söfnuðir með nærri 200 boðberum og mörgum öldungum.

Ernesto Diaz, annar bróðir sem flutti frá Bandaríkjunum með fjölskyldu sinni, sagði eftir átta mánaða dvöl í Ekvador: „Börnin okkar þrjú hafa lært tungumálið og eru orðin ágætir kennarar. Sem faðir hef ég náð takmarki sem virtist ómögulegt að ná í þessu heimskerfi, það er að segja að vera brautryðjandi og taka fullan þátt í boðunarstarfinu með fjölskyldunni. Til samans höldum við 25 biblíunámskeið. Allt þetta hefur leitt til þess að fjölskyldan hefur tengst nánari böndum og umfram allt hefur samband mitt við Jehóva orðið nánara en nokkru sinni fyrr.“ Við metum þessi elskulegu trúsystkini mikils.

Deildarskrifstofan stækkaði enn árið 1994 og húsakosturinn tvöfaldaðist. Árið 2005 voru boðberar orðnir yfir 50.000 og nauðsynlegt var að stækka deildina enn frekar. Í því fólst stækkun á mótshöllinni og reist var ný íbúðarbygging og skrifstofur fyrir þýðendur. Þessi nýja aðstaða var vígð 31. október 2009.

Þegar mér var vikið úr skóla 1942 voru um það bil 60.000 vottar í Bandaríkjunum. Núna eru þeir fleiri en ein milljón. Þegar við komum til Ekvador 1966 voru þar um 1.400 boðberar fagnaðarerindisins um Guðsríki. Núna eru þeir fleiri en 68.000. Og örugglega eiga eftir að bætast við enn fleiri því að biblíunámskeiðin eru 120.000 og rúmlega 232.000 sóttu minningarhátíðina um dauða Krists árið 2009. Jehóva hefur vissulega blessað fólk sitt á þann veg sem við höfðum aldrei getað ímyndað okkur. Það er spennandi að vera á staðnum og fá að upplifa svona stórkostlegan vöxt. *

[Neðanmáls]

^ gr. 34 Harley Harris lést sem trúfastur þjónn Jehóva meðan verið var að búa þessa grein til birtingar.

[Myndir á bls. 5]

Útimót (1981) og mótshöllin í Guayaquil (2009) á sömu landareigninni.