Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitum blessunar Jehóva af heilum hug

Leitum blessunar Jehóva af heilum hug

Leitum blessunar Jehóva af heilum hug

„Sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann . . . umbuni þeim er leita hans.“ — HEBR. 11:6.

1, 2. (a) Hvernig sækjast margir eftir blessun Guðs? (b) Af hverju ætti okkur að vera sérlega umhugað um að hljóta blessun Jehóva?

„GUÐ blessi þig.“ Sums staðar í heiminum er algengt að bláókunnugt fólk segi eitthvað þessu líkt þegar einhver hnerrar. Prestar ýmissa trúfélaga blessa fólk, dýr og lífvana hluti. Ferðamenn flykkjast á helga staði í von um að hljóta blessun. Stjórnmálamenn biðja stundum Guð að blessa þjóð sína. Heldurðu að slíkar bænir um blessun Guðs séu viðeigandi? Heyrir Guð þessar bænir? Hverjir hljóta blessun Guðs nú á tímum og hvers vegna?

2 Jehóva sagði fyrir að á síðustu dögum myndi hann eiga hreint og friðsamt fólk af öllum þjóðum sem myndi boða fagnaðaerindið um ríkið til endimarka jarðar andspænis hatri og mótstöðu. (Jes. 2:2-4; Matt. 24:14; Opinb. 7:9, 14) Þau okkar sem hafa tekið á sig þá ábyrgð að tilheyra þessum hópi þrá og þarfnast blessunar Guðs því að án hennar er vonlaust að okkur takist að gera vilja hans. (Sálm. 127:1) En hvernig getum við hlotið blessun Guðs?

Blessun Jehóva rætist á þeim sem hlýða

3. Hvað hefði gerst ef Ísraelsmenn hefðu hlýtt Guði?

3Lestu Orðskviðina 10:6, 7. Rétt áður en Ísraelsmenn fóru inn í fyrirheitna landið lét Jehóva í ljós að þeir myndu búa við einstæða velsæld og hljóta vernd ef þeir hlýddu boðum hans. (5. Mós. 28:1, 2) Það er orðað þannig að blessun hans myndi ,rætast á þeim‘. Það var algerlega öruggt að Jehóva myndi blessa þá ef þeir hlýddu honum.

4. Með hvaða hugarfari eigum við að hlýða Guði?

4 Með hvaða hugarfari áttu Ísraelsmenn að hlýða? Í lögmáli Guðs sagði að hann myndi hafa vanþóknun á þjóð sinni ef hún þjónaði honum ekki „með gleði og með fögnuð í hjarta“. (Lestu 5. Mósebók 28:45-47.) Jehóva vill ekki að við hlýðum skipunum hans vélrænt. Jafnvel dýr og illir andar geta gert það. (Mark. 1:27; Jak. 3:3) Við sýnum Guði að við elskum hann með því að hlýða honum fúslega. Þegar við hlýðum af þessum hvötum hlýðum við með gleði vegna þess að við trúum að boðorð Jehóva séu ekki þung og að hann „umbuni þeim er leita hans“. — Hebr. 11:6; 1. Jóh. 5:3.

5. Hvernig gat traust á fyrirheit Guðs hjálpað Ísraelsmönnum að hlýða lagaákvæðinu í 5. Mósebók 15:7, 8?

5 Veltum fyrir okkur hvernig Ísraelsmenn gátu hlýtt ákvæðinu í 5. Mósebók 15:7, 8 og treyst því að Jehóva umbunaði þeim. (Lestu.) Ef þeir hlýddu þessu lagaboði með ólund gat það kannski komið fátækum að gagni til að byrja með. En hefði það stuðlað að góðum og hlýlegum samskiptum meðal þjóðar Guðs? Og síðast en ekki síst, hefði það vitnað um þá trú að Jehóva gæti séð fyrir þjónum sínum? Hefði það borið vott um þakklæti fyrir tækifærið til að endurspegla örlæti hans? Nei, Guð gaf gaum að hjartalagi þeirra sem voru örlátir í raun og lofaði að blessa öll verk þeirra og það sem þeir tækju sér fyrir hendur. (5. Mós. 15:10) Trú á þetta fyrirheit var hvati góðra verka og var örlátum manni til ríkulegrar blessunar. — Orðskv. 28:20.

6. Hvaða loforð er að finna í Hebreabréfinu 11:6?

6Hebreabréfið 11:6 nefnir ekki aðeins að Jehóva umbuni þeim sem trúa á hann. Þar er líka minnst á annað sem þarf til að hljóta blessun hans. Við tökum eftir að Jehóva umbunar þeim sem „leita hans“. Frummálsorðið lýsir ákafa og einbeitni. Þetta ætti tvímælalaust að veita okkur vissu fyrir því að blessunin rætist. Það er hinn eini sanni Guð sem lofar henni og hann er Guð „sem aldrei lýgur“. (Tít. 1:2) Hann hefur sýnt í aldanna rás að það sem hann lofar er algerlega áreiðanlegt. Það sem hann segir bregst aldrei, það rætist alltaf. (Jes. 55:11) Við getum því óhikað treyst að hann umbuni okkur ef við sýnum sanna trú.

7. Hvernig getum við tryggt okkur blessun með hjálp „niðja“ Abrahams?

7 Jesús Kristur reyndist öðrum fremur vera ,niðji‘ Abrahams. En auk hans eru andasmurðir kristnir menn einnig ,niðjar‘ Abrahams. Þeir hafa fengið það verkefni að „,víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss“. (Gal. 3:7-9, 14, 16, 26-29;1. Pét. 2:9) Við getum ekki eignast gott samband við Jehóva ef við sniðgöngum þá sem Jesús hefur falið að annast eigur sínar. Ef við nytum ekki aðstoðar ,hins trúa og hyggna þjóns‘ gætum við hvorki skilið að fullu það sem við lesum í orði Guðs né kynnum að fara eftir því. (Matt. 24:45-47) Með því að fara eftir því sem við lærum af Biblíunni getum við tryggt okkur blessun Guðs.

Tökum alltaf mið af vilja Guðs

8, 9. Hvernig lagði ættfaðirinn Jakob sig allan fram í samræmi við bænir sínar?

8 Ekki er ólíklegt að hugmyndin um að leggja hart að sér til að hljóta blessun Guðs minni okkur á ættföðurinn Jakob. Hann vissi ekki hvernig fyrirheit Jehóva við Abraham myndi rætast en treysti að Jehóva myndi stórum margfalda afkomendur afa síns og að þeir yrðu að mikilli þjóð. Jakob fór því til Haran árið 1781 f.Kr. til að finna sér eiginkonu. Hann hugsaði ekki fyrst og fremst um að finna sér viðkunnanlegan lífsförunaut heldur var hann að leita sér að konu sem tilbæði Jehóva í einlægni og yrði börnum þeirra góð móðir.

9 Við þekkjum söguna af því þegar Jakob hitti Rakel, frænku sína. Hann fékk ást á henni og féllst á að vinna fyrir Laban, föður hennar, í sjö ár til að fá hana fyrir eiginkonu. Þessi frásögn er annað og meira en eftirminnileg ástarsaga. Jakob þekkti auðvitað fyrirheitið sem alvaldur Guð hafði gefið Abraham, afa hans, og ítrekað við Ísak föður hans. (1. Mós. 18:18; 22:17, 18; 26:3-5, 24, 25) Ísak hafði sagt Jakobi: „Alvaldur Guð blessi þig og geri þig frjósaman og margfaldi þig. Og þú munt verða að fjölda þjóða. Hann mun veita þér og niðjum þínum blessun Abrahams og þú munt eignast landið þar sem þú býrð nú sem landlaus útlendingur, landið sem Guð gaf Abraham.“ (1. Mós. 28:3, 4) Það sem Jakob lagði á sig til að finna réttu eiginkonuna og eignast börn var merki um að hann treysti orðum Jehóva.

10. Af hverju veitti Jehóva Jakobi fúslega blessun sína?

10 Jakob sóttist ekki eftir auðlegð fyrir sig og fjölskyldu sína. Fyrirheit Jehóva varðandi afkomendur hans var honum efst í huga. Honum var mikið í mun að vilji Jehóva næði fram að ganga. Jakob var staðráðinn í að gera allt sem hann gæti til að hljóta blessun Guðs þótt ýmsir tálmar væru í veginum. Hann varðveitti þetta hugarfar fram á gamals aldur og Jehóva blessaði hann fyrir. — Lestu 1. Mósebók 32:24-29.

11. Hvað ættum við að leggja á okkur í samræmi við það sem Jehóva hefur opinberað?

11 Við vitum ekki í smáatriðum, frekar en Jakob, hvernig fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga. En með því að lesa og hugleiða orð Guðs sjáum við í stórum dráttum við hverju má búast í sambandi við ,dag Drottins‘. (2. Pét. 3:10, 17) Við vitum til dæmis ekki með vissu hvenær dagurinn rennur upp en við vitum að hann er nálægur. Við treystum orðum Biblíunnar þegar hún segir að við frelsum bæði sjálf okkur og áheyrendur okkar ef við vitnum rækilega á þeim stutta tíma sem eftir er. — 1. Tím. 4:16.

12. Hverju getum við treyst?

12 Okkur er ljóst að endirinn getur runnið upp hvenær sem er. Tímaáætlun Jehóva er ekki háð því að við séum búin að vitna persónulega fyrir hverri einustu manneskju á jörðinni. (Matt. 10:23) Við fáum góðar leiðbeiningar um það hvernig við getum boðað fagnaðarerindið á áhrifaríkan hátt. Við sýnum trú og tökum þátt í boðunarstarfinu eftir fremsta megni, og notum öll þau úrræði sem við höfum tök á. Prédikum við alltaf á frjósamasta svæðinu? Er nokkuð hægt að vita það fyrir fram? (Lestu Prédikarann 11:5, 6.) Verkefni okkar er að prédika og við skulum treysta að Jehóva blessi okkur. (1. Kor. 3:6, 7) Við getum verið viss um að hann sér hvernig við leggjum hart að okkur, og hann beitir heilögum anda sínum til að gefa okkur markvissar leiðbeiningar eftir þörfum. — Sálm. 32:8.

Sækjumst eftir heilögum anda

13, 14. Hvernig hefur það sýnt sig að heilagur andi Guðs getur gert þjóna hans hæfa til starfa?

13 Hvað er til ráða ef okkur finnst við ekki fær um að annast eitthvert verkefni eða taka þátt í boðunarstarfinu? Þá ættum við að biðja Jehóva að gefa okkur heilagan anda sinn til að styrkja þá hæfileika sem við höfum til að nota í þjónustu hans. (Lestu Lúkas 11:13.) Andi Guðs getur gert okkur hæf til að sinna verkefnum í þjónustu hans, óháð fyrri aðstæðum okkar eða reynslu. Strax eftir burtförina frá Egyptalandi beitti Guð anda sínum svo að fjárhirðar og þrælar gátu sigrað óvini sína í bardaga þótt þeir hefðu enga reynslu af hernaði. (2. Mós. 17:8-13) Skömmu síðar gerði andi Guðs þeim Besalel og Oholíab kleift að búa til undurfagra hluti eftir innblásnum uppdráttum af tjaldbúðinni. — 2. Mós. 31:2-6; 35:30-35.

14 Þessi máttugi andi gerði þjónum Guðs á síðari tímum kleift að sinna þörfum safnaðarins. Það sýndi sig þegar þeir þurftu að opna eigin prentsmiðju. Prentsmiðjustjórinn, bróðir Robert J. Martin, greindi frá því í bréfi árið 1927 hvað hefði áunnist. Þar stóð: „Drottinn lauk upp dyrunum á réttum tíma. Við fengum stóru hverfipressuna upp í hendurnar en höfðum ekki hugmynd um hvernig ætti að nota hana eða hvernig hún var uppbyggð. En Drottinn kann að örva hugi þeirra sem hafa helgað honum krafta sína . . . Eftir fáeinar vikur var prentvélin farin að mala og hún malar enn og meira að segja betur en framleiðandinn hafði ímyndað sér að hún gæti.“ Jehóva hefur blessað einlæga viðleitni þjóna sinna allt fram á þennan dag.

15. Hvernig getur Rómverjabréfið 8:11 verið þeim til hvatningar sem eiga í baráttu við freistingar holdsins?

15 Andi Jehóva starfar með margvíslegum hætti. Hann stendur öllum þjónum Guðs til boða og hjálpar þeim að yfirstíga hvaða hindranir sem er. Hvað er til ráða ef okkur finnst freistingar vera yfirþyrmandi? Þá getum við sótt styrk í orð Páls í Rómverjabréfinu 7:21, 24 og 8:11. Já, „andi hans sem vakti Jesú frá dauðum“ getur starfað með okkur og gefið okkur kraft til að sigra í baráttunni gegn löngunum holdsins. Þessi ritningargrein var stíluð á andasmurða kristna menn en meginreglan á við um alla þjóna Guðs. Öll hljótum við líf með því að trúa á Krist, með því að leggja okkur fram við að deyða óviðeigandi langanir og lifa í samræmi við handleiðslu andans.

16. Hvað þurfum við að gera til að fá heilagan anda Guðs?

16 Getum við reiknað með að Jehóva styðji okkur með starfskrafti sínum án þess að við leggjum eitthvað á okkur? Nei, auk þess að biðja um anda Guðs þurfum við að nærast vel af innblásnu orði hans. (Orðskv. 2:1-6) Andi Guðs starfar líka með kristna söfnuðinum. Með því að sækja samkomur að staðaldri látum við í ljós að okkur langi til að ,heyra hvað andinn segir söfnuðunum‘. (Opinb. 3:6) Og við þurfum að taka auðmjúk við því sem við lærum. „Látið skipast við umvöndun mína,“ segir í Orðskviðunum 1:23. „Ég læt anda minn streyma yfir yður.“ Jehóva gefur þeim heilagan anda „er honum hlýða“. — Post. 5:32.

17. Hvernig blessar Jehóva viðleitni okkar og við hvað mætti líkja því?

17 Einlæg viðleitni er vissulega nauðsynleg til að hljóta blessun Guðs. Höfum samt hugfast að það er ekki bara okkar eigin eljusemi að þakka að við skulum búa við öll þau gæði sem Jehóva veitir okkur. Það má líkja blessun hans við það hvernig mannslíkaminn vinnur úr heilnæmri fæðu. Guð skapaði líkama okkar þannig að við njótum þess að borða og fáum nauðsynlega næringu úr matnum. Maturinn er líka frá honum kominn. Við vitum ekki fyllilega hvernig næringarefnin í matnum verða til, og fæstir geta útskýrt hvernig líkaminn vinnur orku úr matnum sem þeir borða. Við vitum bara að þetta virkar og að við leggjum okkar af mörkum með því að borða. Árangurinn verður enn betri ef við ákveðum að borða hollan mat. Jehóva setur með sama hætti skilyrðin fyrir því að við getum hlotið eilíft líf og hann veitir okkur þá hjálp sem við þurfum til að uppfylla þessi skilyrði. Það er augljóst að hann styður vel við bakið á okkur og á skilið heiðurinn af því. Við verðum hins vegar að vinna með honum í samræmi við vilja hans til að hljóta blessunina. — Hagg. 2:18, 19.

18. Hvað ætlar þú að gera og hvers vegna?

18 Reyndu því að sinna öllum verkefnum þínum af lífi og sál. Biddu Jehóva alltaf að blessa viðleitni þína. (Mark. 11:23, 24) Og þú mátt treysta því að „sá finnur sem leitar“. (Matt. 7:8) Hinir andasmurðu hljóta „kórónu lífsins“ á himnum. (Jak. 1:12) ,Aðrir sauðir‘ Krists sækjast eftir blessun með hjálp niðja Abrahams og eiga eftir að fagna þegar þeir heyra Krist segja: „Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims.“ (Jóh. 10:16; Matt. 25:34) Já, „þeir sem Drottinn blessar fá landið til eignar . . . og búa þar ævinlega“. — Sálm. 37:22, 29.

Geturðu svarað?

• Með hvaða hugarfari eigum við að hlýða Guði?

• Hvað er nauðsynlegt að gera til að hljóta blessun Guðs?

• Hvernig getum við fengið heilagan anda Guðs og hvernig getur hann stutt okkur?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 9]

Jakob glímdi við engil til að hljóta blessun Jehóva.

Leggurðu þig allan fram eins og hann gerði?

[Mynd á bls. 10]

Heilagur andi Guðs gaf Besalel og Oholíab framúrskarandi hæfileika.