Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Boðunarátak í Búlgaríu ber góðan árangur

Boðunarátak í Búlgaríu ber góðan árangur

Boðunarátak í Búlgaríu ber góðan árangur

„Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ — MATT. 9:37, 38.

ÞESSI orð Jesú eiga vel við um ástandið í Búlgaríu, fallegu landi á Balkanskaga. Mikil þörf er á fleiri verkamönnum til að íbúar landsins, sem eru rúmlega sjö milljónir, fái að heyra fagnaðarerindið. Í Búlgaríu eru um 1.700 boðberar, en þeir ná ekki að fara yfir allt starfssvæðið. Þar af leiðandi ákvað hið stjórnandi ráð að bjóða búlgörskumælandi vottum víðs vegar úr Evrópu, að koma og taka þátt í boðunarátaki sumarið 2009. Ákveðið var að átakið stæði yfir í sjö vikur, og því lyki á umdæmismótinu „Höldum vöku okkar“ sem haldið var í Sofíu dagana 14.-16. ágúst 2009.

Frábærar undirtektir

Bræðurnir á deildarskrifstofunni í Sofíu veltu fyrir sér hve margir boðberar frá Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Ítalíu, Póllandi og Spáni myndu svara kallinu. Það fæli í sér að ferðast til Búlgaríu á eigin kostnað og nota sumarfríið til að prédika. Tilhlökkunin jókst þegar æ fleiri umsóknir bárust og urðu að lokum 292. Miðað við svona miklar undirtektir yrði hægt að senda sjálfboðaliðana til þriggja búlgarskra borga: Kazanlak, Sandanski og Silistru. Farandhirðar í Búlgaríu buðu líka brautryðjendum og boðberum á svæðinu að vera með í átakinu. Að lokum prédikuðu 382 sjálfboðaliðar ötullega á svæðum þar sem fagnaðarerindið hafði sjaldan verið boðað áður.

Bræður frá nærliggjandi söfnuðum voru sendir út af örkinni til að finna gististaði. Þeir leigðu íbúðir og bókuðu herbergi á ódýrum hótelum. Bræðurnir unnu sleitulaust við að aðstoða sjálfboðaliðana að koma sér fyrir og voru þeim síðan innan handar. Samkomustaðir voru teknir á leigu í öllum borgunum þremur. Gestkomandi bræðrum var falið að hafa umsjón með samkomum. Það var gleðilegt að sjá að á svæðum þar sem engir vottar bjuggu komu nú 50 boðberar saman til að lofa Jehóva.

Þeir sem komu erlendis frá til að taka þátt í átakinu sýndu mikinn eldmóð. Á sumrin getur hitinn í Búlgaríu farið yfir 40 gráður. Ekkert gat samt stoppað þessa kostgæfu bræður og systur. Fyrstu þrjár vikurnar var prédikað kappsamlega fyrir 50.000 íbúum borgarinnar Silistru sem liggur við Dóná. Boðberarnir héldu þá áfram í nærliggjandi bæjum og náðu alla leið til Tútrakan sem er 55 kílómetra vestur af Silistru. Þeir byrjuðu yfirleitt í boðunarstarfinu um klukkan hálftíu. Eftir hádegishlé héldu þeir oft áfram til klukkan sjö eða jafnvel lengur. Á svipaðan hátt náði átakið til bæja í námunda við Kazanlak og Sandanski, vegna þess hve kappsamir sjálfboðaliðarnir voru.

Hver varð árangurinn?

Á þessum sjö vikum var vitnað rækilega fyrir íbúunum. Eins og á dögum postulanna gátu íbúar þessara borga sagt: ,Nú hafið þið fyllt borgina með kenningu ykkar.‘ (Post. 5:28) Vottarnir, sem tóku þátt í átakinu, dreifðu um 50.000 blöðum og hófu 482 biblíunámskeið. Gleðin var mikil þegar söfnuður var stofnaður í Silistru 1. september 2009, og nú eru líka hópar í Kazanlak og Sandanski. Það er mjög ánægjulegt að sjá einstaklinga, sem heyrðu fagnaðarerindið í fyrsta sinn meðan á átakinu stóð, taka góðum framförum í trúnni.

Búlgörskumælandi sérbrautryðjandasystir frá Spáni vitnaði fyrir Karinu í vikunni sem átakið hófst, en Karina seldi vegfarendum dagblöð í Silistru. Karina sýndi áhuga og mætti á samkomu. Hún þáði fúslega biblíunámskeið. Þar sem eiginmaður hennar er trúleysingi bað hún um að biblíunámskeiðið yrði haldið í almenningsgarði. Dætur hennar tvær voru einnig viðstaddar. Daniela, sú eldri, kunni sérstaklega vel að meta sannindi Biblíunnar. Hún las bókina Hvað kennir Biblían? á einni viku og tileinkaði sér strax það sem Biblían kennir um notkun líkneskja í tilbeiðslu. Hún byrjaði líka að segja vinum sínum frá sannleikanum. Aðeins þremur vikum eftir að hún sótti samkomu í fyrsta sinn sagði hún við systurina sem kenndi henni: „Mér finnst ég vera ein af ykkur. Hvað þarf ég að gera til að geta tekið þátt í boðunarstarfinu eins og þið?“ Daniela heldur áfram að taka góðum framförum ásamt móður sinni og yngri systur.

Orlin er búlgarskur bróðir sem kom frá Ítalíu til Kazanlaks vegna átaksins. Á leið heim til gististaðarins eftir boðunarstarfið vitnaði hann fyrir tveimur ungum mönnum sem sátu á bekk. Hann gaf þeim eintak af bókinni Hvað kennir Biblían? og mælti sér mót við þá daginn eftir. Í þeirri heimsókn byrjaði Orlin að fræða Svetomir um Biblíuna og hélt því áfram næsta dag. Á níu dögum hittust þeir átta sinnum til biblíunáms. Svetomir sagði: „Tveimur dögum áður en ég hitti þig bað ég Guð um að hjálpa mér að kynnast sér. Ég lofaði honum að ef hann gerði það, myndi ég helga honum líf mitt.“ Þegar Orlin sneri aftur til Ítalíu hélt biblíunámskeiðið áfram með hjálp bræðranna sem búa á staðnum, og Svetomir tileinkar sér sannleikann.

Fórnfúsir boðberar hljóta mikla blessun

Hvernig líður þeim sem ferðuðust á eigin kostnað til annars lands og notuðu sumarfríið fúslega til að prédika fagnaðarerindið? Öldungur á Spáni skrifaði: „Boðunarátakið leiddi til þess að búlgörskumælandi bræður á Spáni bundust sterkari böndum. Það hafði mikil áhrif á þá sem tóku þátt í því.“ Hjón frá Ítalíu skrifuðu: „Þetta voru bestu vikur ævinnar.“ Þau bættu við: „Átakið breytti lífi okkar. Við sjáum það núna í allt öðru ljósi.“ Þessi hjón hugsuðu alvarlega um það hvort mögulegt væri fyrir þau að setjast að í Búlgaríu til að boða fagnaðarerindið þar sem þörfin er meiri. Carina, einhleyp brautryðjandasystir frá Spáni, tók þátt í átakinu í Silistru. Eftir það sagði hún upp vinnunni á Spáni og flutti til Búlgaríu, til að styðja við nýja söfnuðinn í Silistru. Hún hafði lagt fyrir svo að hún hefði nóg til að framfleyta sér í Búlgaríu í ár. Carina segir um ákvörðun sína: „Ég er svo ánægð yfir að Jehóva skuli leyfa mér að hjálpa til hér í Búlgaríu, og ég vona að ég geti verið hér áfram. Ég er nú þegar komin með fimm biblíunemendur, og þrír þeirra sækja samkomur.“

Ítölsk systir vildi taka þátt í átakinu, en þar sem hún var að byrja í nýrri vinnu átti hún enga frídaga. Hún lét það ekki aftra sér heldur bað um launalaust frí í mánuð og var tilbúin til að segja upp vinnunni ef hún fengi það ekki. Það kom henni á óvart þegar vinnuveitandinn sagði: „Allt í lagi, en með einu skilyrði: Þú verður að senda mér póstkort frá Búlgaríu.“ Systirin fann sterkt fyrir því að Jehóva hefði svarað bænum hennar.

Stanislava er ung systir frá borginni Varna í Búlgaríu. Hún var í fullri vinnu sem var vel launuð en tók sér frí til að taka þátt í boðunarátakinu í Silistru. Hún táraðist þegar hún sá gleðina hjá þeim mörgu brautryðjendum sem höfðu komið langa leið til að boða fagnaðarerindið í heimalandi hennar. Hún velti fyrir sér þeirri stefnu sem hún hafði í lífinu og veraldlegum markmiðum sínum. Þegar hún kom heim hálfum mánuði síðar sagði hún upp vinnunni og byrjaði í brautryðjandastarfinu. Núna er hún ánægð með lífið. Hún man eftir skapara sínum á unglingsárunum. — Préd. 12:1.

Jehóva blessar þá ríkulega sem þjóna honum ötullega. Þú getur ekki nýtt tíma þinn og krafta í neitt mikilvægara en að boða fagnaðarerindið og kenna öðrum. Er einhver leið til að þú getir tekið meiri þátt í þessu björgunarstarfi? Kannski vantar fleiri boðbera á ákveðnum svæðum í heimalandi þínu. Getur þú flutt á þannig svæði? Eða gætir þú hugsanlega lært nýtt tungumál til að hjálpa fólki, þar sem þú býrð, sem þyrstir í biblíusannindi? Sama hvers konar breytingar þú getur gert til að færa út kvíarnar í þjónustunni við Jehóva máttu vera viss um að hann veitir þér mikla blessun. — Orðskv. 10:22.

[Rammi/​mynd á bls. 32]

Eftirminnilegur dagur

Margir þeirra sem komu frá öðrum löndum til að taka þátt í boðunarátakinu í Búlgaríu voru líka viðstaddir umdæmismótið „Höldum vöku okkar“ sem haldið var í Sofíu. Það var mjög uppörvandi fyrir bræður og systur þaðan að fá svo marga gesti frá mismunandi löndum. Mótsgestirnir, allir 2.039, voru mjög spenntir þegar Geoffrey Jackson frá hinu stjórnandi ráði tilkynnti að Nýheimsþýðingin væri komin út á búlgörsku. Allir áheyrendur sýndu innilegt þakklæti með dynjandi lófataki á þessum föstudegi. Margir táruðust jafnvel af gleði. Þessi nákvæma biblíuþýðing á auðlesnu máli mun hjálpa einlægum Búlgörum að kynnast Jehóva.

[Kort á bls. 30, 31]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

BÚLGARÍA

SOFÍA

Sandanski

Silistra

Kazanlak

[Myndir á bls. 31]

Á þessum sjö vikum var vitnað rækilega fyrir íbúunum.