Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna ættum við að biðja?

Hvers vegna ættum við að biðja?

BÆN. Fá málefni í Biblíunni vekja jafnmikinn áhuga og forvitni. Skoðaðu sjö algengar spurningar um bænina og síðan geturðu rannsakað svörin sem er að finna í Biblíunni. Þessar greinar eru skrifaðar til að hjálpa þér að biðja – að byrja að biðja eða styrkja bænir þínar.

FÓLK fer með bænir í öllum menningarsamfélögum og trúarbrögðum heims. Sumir biðja í einrúmi en aðrir biðja með öðrum. Þeir biðja í kirkjum, musterum, samkunduhúsum, moskum og á öðrum helgum stöðum. Þeir nota ef til vill bænateppi, talnabönd, bænahjól, helgimyndir, bænabækur eða bænir skrifaðar á lítil spjöld sem þeir stilla upp.

Bænin er eitt af því sem aðgreinir menn frá öllum öðrum lífverum á jörðinni. Það er vissulega margt líkt með okkur og dýrunum. Við þurfum fæðu, loft og vatn eins og þau. Og við fæðumst, lifum og deyjum eins og þau. (Prédikarinn 3:19) En hvers vegna fara aðeins menn með bænir?

Einfaldasta svarið er kannski það að við höfum þörf fyrir bænir. Almennt er litið á bænina sem leið til að komast í samband við æðri mátt, eitthvað sem er heilagt og eilíft. Í Biblíunni kemur fram að við erum sköpuð með slíka þörf. (Prédikarinn 3:11) Jesús sagði eitt sinn: „Þeir sem skynja andlega þörf sína eru hamingjusamir.“ – Matteus 5:3.

Hvað annað en ,andleg þörf‘ útskýrir allar þessar trúarlegu byggingar og helgimuni, allan þann tíma sem fólk notar til að biðja bæna? Sumir treysta reyndar á sjálfa sig eða aðra menn til að uppfylla andlega þörf sína. En erum við ekki of takmörkuð til að geta mætt þessari þörf sjálf? Líf okkar er svo stutt, við erum svo brothætt og skammsýn. Við þurfum einhvern miklu vitrari, máttugri og varanlegri en okkur til að gefa okkur það sem við þurfum. Hver er svo þessi andlega þörf sem fær okkur til að biðja?

Hefur þú einhvern tíma þráð að fá leiðsögn, visku eða svar við spurningu sem kallar á eitthvað ofar mannlegum skilningi? Hefurðu einhvern tíma fundið þörf fyrir huggun þegar þú hefur orðið fyrir sársaukafullum missi, leiðsögn þegar þú þurftir að taka erfiða ákvörðun eða fyrirgefningu þegar þú varst eyðilagður vegna sektarkenndar?

Samkvæmt Biblíunni eru þetta allt gildar ástæður til að biðja. Biblían er áreiðanlegasta bókin sem fjallar um þessi málefni og í henni er að finna fjölmargar bænir margra trúfastra manna og kvenna. Þau báðu um huggun, leiðsögn, fyrirgefningu og svör við hinum erfiðustu spurningum. – Sálmur 23:3; 71:21; Daníel 9:4, 5, 19; Habakkuk 1:3.

Þessar bænir eru margvíslegar en eiga þó eitt sameiginlegt. Þau sem báru þær fram bjuggu öll yfir mikilvægri vitneskju sem gerði bænir þeirra áhrifaríkar – vitneskju sem fólk skortir oft nú á dögum eða gefur ekki gaum. Þau vissu hvert þau áttu að beina bænum sínum.