Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stuðlar þú að uppbyggilegum samkomum?

Stuðlar þú að uppbyggilegum samkomum?

Stuðlar þú að uppbyggilegum samkomum?

„Þegar þið komið saman . . . skal miða [allt] til uppbyggingar.“ — 1. KOR. 14:26.

1. Hvaða mikilvægu hlutverki gegna samkomurnar samkvæmt 14. kafla 1. Korintubréfs?

„MIKIÐ var þetta hvetjandi samkoma.“ Hefurðu einhvern tíma sagt eitthvað í þessa áttina eftir samkomu í ríkissalnum? Eflaust. Safnaðarsamkomur eru hvetjandi og uppbyggilegar. En það kemur ekki á óvart. Rétt eins og á fyrstu öld er það mikilvægt markmið með samkomunum að styrkja samband allra viðstaddra við Jehóva. Tökum eftir hvernig Páll postuli bendir á þetta markmið með samkomunum. Í 1. Korintubréfi 14. kafla nefnir hann aftur og aftur að allt sem fram fer á safnaðarsamkomum eigi að hafa sama markmið. Það á að ,efla söfnuðinn‘ og „miða til uppbyggingar.“ — Lestu 1. Korintubréf 14:3, 12, 26. *

2. (a) Hverju er það að þakka að samkomurnar skuli vera uppbyggilegar? (b) Hvaða spurningu ætlum við að ræða?

2 Við gerum okkur ljóst að það er fyrst og fremst anda Jehóva að þakka að samkomurnar skuli vera fræðandi og uppbyggilegar. Þess vegna hefjum við allar safnaðarsamkomur með innilegri bæn til Jehóva og biðjum hann að blessa samkomuna með heilögum anda sínum. En við vitum líka að allir í söfnuðinum geta átt þátt í að gera samkomurnar eins uppbyggilegar og kostur er. Hvað getum við þá gert, hvert og eitt, til að tryggja sem best að hinar vikulegu samkomur í ríkissalnum séu alltaf endurnærandi og uppbyggilegar?

3. Hve mikilvægar eru safnaðarsamkomurnar?

3 Til að svara þessari spurningu skulum við líta á nokkur atriði til umhugsunar fyrir þá sem stjórna umræðum á samkomum. Við könnum einnig hvað söfnuðurinn í heild getur gert til að samkomurnar séu hvetjandi fyrir alla viðstadda. Þetta skiptir okkur miklu máli vegna þess að samkomurnar eru heilagar stundir. Það er mikilvægur hluti tilbeiðslunnar á Jehóva að sækja samkomur og taka þátt í þeim. — Sálm. 26:12; 111:1; Jes. 66:22, 23.

Samkoma ætluð til biblíunáms

4, 5. Hvert er markmiðið með Varðturnsnáminu?

4 Öll viljum við hafa sem mest gagn af hinu vikulega Varðturnsnámi. Til að glöggva okkur á meginmarkmiði þessarar samkomu skulum við líta á nokkrar af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á blaðinu Varðturninn og námsgreinunum sem birtast í því.

5 Á forsíðu fyrstu námsútgáfu blaðsins 15. janúar 2008 var að finna mikilvæga nýjung. Tókstu eftir henni? Virtu vandlega fyrir þér forsíðu blaðsins sem þú ert með í höndunum. Fyrir neðan turninn sérðu opna biblíu. Þessi biblía bendir á ástæðuna fyrir Varðturnsnáminu. Hún er sú að stunda biblíunám með hjálp þessa tímarits. Í vikulegu Varðturnsnámi okkar er orð Guðs ,lagt út‘ og það ,skýrt‘ eins og gert var á dögum Nehemía. — Nehem. 8:8; Jes. 54:13.

6. (a) Hvaða breyting var gerð á Varðturnsnáminu? (b) Hvað ætti að hafa í huga varðandi ritningarstaði sem eru merktir „lestu“?

6 Þar sem Biblían er helsta kennslubók okkar var gerð ákveðin breyting á Varðturnsnáminu. Á nokkrum stöðum í hverri námsgrein er vísað í ritningarstaði og þeir merktir „lestu“. Allir viðstaddir eru hvattir til að fylgjast með í sinni eigin biblíu þegar þessir ritningarstaðir eru lesnir. (Post. 17:11) Af hverju? Af því að leiðbeiningar Guðs hafa sterkari áhrif á okkur þegar við sjáum þær með eigin augum í Biblíunni. (Hebr. 4:12) Áður en þessir ritningarstaðir eru lesnir ætti námsstjórinn að gefa öllum viðstöddum hæfilegan tíma til að fletta þeim upp svo að þeir geti fylgst með þegar versin eru lesin.

Meiri tími til að tjá trú okkar

7. Hvaða tækifæri fáum við í Varðturnsnáminu?

7 Önnur breyting á námsgreinum Varðturnsins er lengd þeirra. Þær hafa styst á síðustu árum. Þess vegna fer minni tími í Varðturnsnáminu í að lesa upp efnið og meiri tími gefst til að ræða það. Fleiri í söfnuðinum fá nú tækifæri til að tjá trú sína með því að svara námsspurningunum, skýra eða heimfæra ritningarstaði, segja stutta frásögu sem lýsir gildi þess að fylgja meginreglum Biblíunnar eða tjá trú sína með öðrum hætti. Einnig ætti að nota svolitla stund til að ræða um myndirnar sem fylgja greininni. — Lestu Sálm 22:23; 35:18; 40:10.

8, 9. Hvert er hlutverk stjórnandans í Varðturnsnáminu?

8 Þessi rýmri tími til að tjá trú sína kemur þó ekki að gagni í Varðturnsnáminu nema þátttakendur séu hæfilega stuttorðir og námsstjórinn gæti þess að tjá sig ekki of oft sjálfur. Hvernig getur námsstjórinn fundið rétta jafnvægið milli þess að tala sjálfur og að leyfa söfnuðinum að tjá sig, þannig að samkoman verði sem uppbyggilegust fyrir alla?

9 Bregðum upp líkingu til að glöggva okkur á því. Varðturnsnám, sem er vel stjórnað, er eins og fallegur blómvöndur sem gleður augað. Stór blómvöndur er samsettur úr mörgum einstökum blómum. Eins er Varðturnsnámið samsett úr mörgum ólíkum svörum og skýringum. Og blómin, sem mynda vöndinn, eru misstór og í mörgum litum. Svörin, sem gefin eru á samkomunni, eru að sama skapi mislöng og margbreytileg. Og hvar kemur námsstjórinn inn í myndina? Þætti hans í umræðunum má líkja við fáeinar vel valdar grænar greinar sem eru hafðar með í blómvendinum. Grænu greinarnar eru ekki yfirgnæfandi heldur veita þær vissan stuðning og stuðla að ákveðinni heildarmynd. Sá sem stjórnar náminu þarf að hafa hugfast að hann á ekki að yfirgnæfa heldur sjá til þess að lofgerð safnaðarins myndi eina heild. Þegar hinum mörgu og margbreytilegu svörum safnaðarins og fáeinum hnitmiðuðum skýringum stjórnandans er haglega raðað saman verður til fallegur „blómvöndur“ sem gleður alla viðstadda.

Við skulum „án afláts færa Guði lofgjörðarfórn“

10. Hvernig litu frumkristnir menn á safnaðarsamkomur?

10 Lýsing Páls á safnaðarsamkomum í 1. Korintubréfi 14:26-33 gefur okkur innsýn í hvernig samkomurnar á fyrstu öld fóru fram. Biblíufræðingur segir í skýringum við þessi vers: „Það er sérlega eftirtektarvert við guðsþjónustur frumkirkjunnar að næstum allir hljóta að hafa komið með það fyrir augum að leggja eitthvað af mörkum. Menn álitu það heiður að mega gera það og jafnframt skyldu sína. Maður kom ekki í þeim eina tilgangi að vera hlutlaus áheyrandi, hann kom ekki aðeins til að þiggja heldur líka til að gefa.“ Frumkristnir menn litu á samkomurnar sem vettvang til að tjá trú sína. — Rómv. 10:10.

11. (a) Hvernig getum við átt drjúgan þátt í að gera samkomurnar uppbyggilegar og af hverju? (b) Hvernig getum við bætt svör okkar á samkomum? (Sjá neðanmálsgrein.)

11 Með því að tjá trú okkar á samkomum eigum við drjúgan þátt í að efla söfnuðinn og byggja hann upp. Þú ert áreiðanlega sammála því að það er sönn ánægja að hlusta á svör og skýringar trúsystkina okkar, og gildir þá einu hve mörg ár við höfum sótt samkomur. Við erum snortin þegar við heyrum roskið trúsystkini gefa innilegt svar, okkur finnst uppörvandi að heyra umhyggjusaman öldung gefa greinargóða skýringu, og við getum ekki annað en brosað að einlægu svari barnsins sem endurómar ást þess til Jehóva. Greinilegt er að við eigum öll þátt í að gera samkomurnar uppbyggilegar með svörum okkar. *

12. (a) Hvaða lærdóm má draga af þeim Móse og Jeremía? (b) Hvert er hlutverk bænarinnar í því að svara á samkomum?

12 En það getur verið þrautin þyngri fyrir þá sem eru feimnir að svara á samkomum. Ef það á við um þig skaltu hafa hugfast að þú ert ekki einn á báti. Dyggir þjónar Jehóva á borð við Móse og Jeremía voru meira að segja efins um að þeir gætu tjáð sig á almannafæri. (2. Mós. 4:10; Jer. 1:6) En Jehóva hjálpaði þessum þjónum sínum forðum daga til að lofa hann í allra áheyrn og hann er líka tilbúinn til að hjálpa þér að færa lofgerðarfórnir. (Lestu Hebreabréfið 13:15.) Hvernig geturðu fengið hjálp Jehóva til að sigrast á óttanum við að svara? Byrjaðu á því að búa þig vel undir samkomuna. Áður en þú mætir í ríkissalinn skaltu síðan leita til Jehóva í bæn og biðja hann sérstaklega að gefa þér kjark til að svara. (Fil. 4:6) Þú ert að biðja „eftir hans vilja“ þannig að þú mátt treysta að hann bænheyri þig. — 1. Jóh. 5:14; Orðskv. 15:29.

Samkomur „til uppbyggingar, hvatningar og huggunar“

13. (a) Hvaða áhrif ættu samkomurnar að hafa á viðstadda? (b) Hvað ætti öldungum að vera sérstaklega umhugað um?

13 Páll segir að samkomurnar gegni meðal annars því mikilvæga hlutverki að vera viðstöddum „til uppbyggingar, hvatningar og huggunar“. * (1. Kor. 14:3.) Hvernig geta safnaðaröldungar gætt þess að samkomurnar séu örugglega hvetjandi og hughreystandi fyrir bræður og systur? Til að svara því skulum við kynna okkur samkomu sem Jesús hélt skömmu eftir að hann var reistur upp frá dauðum.

14. (a) Hvaða atburðir áttu sér stað áður en Jesús mælti sér mót við postulana? (b) Af hverju hlýtur postulunum að hafa létt þegar Jesús „kom til þeirra [og] talaði við þá“?

14 Við skulum byrja á að rifja upp atburði sem áttu sér stað áður en samkoman var haldin. Rétt áður en Jesús var líflátinn yfirgáfu allir postularnir hann og flýðu og þeir ,tvístruðust hver til sín‘. (Mark. 14:50; Jóh. 16:32) Eftir að Jesús var upprisinn mælti hann sér mót við niðurdregna postulana. * „Lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til.“ Hann „kom til þeirra [og] talaði við þá“ þegar þeir komu á staðinn. (Matt. 28:10, 16, 18) Hugsaðu þér hve postulunum hlýtur að hafa létt við það að Jesús skyldi ávarpa þá að fyrra bragði. Hvað ræddi Jesús við þá?

15. (a) Hvað ræddi Jesús við postulana en hvað lét hann ósagt? (b) Hvaða áhrif hafði þessi samkoma á postulana?

15 Jesús byrjaði á því að gefa yfirlýsingu: „Allt vald er mér gefið.“ Síðan fól hann þeim verkefni: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ Að síðustu gaf hann þeim hlýlegt loforð: „Ég er með yður alla daga.“ (Matt. 28:18-20) En tókstu eftir hvað Jesús gerði ekki? Hann ávítaði ekki postulana. Hann notaði ekki samkomuna til að véfengja hvatir þeirra eða ýta undir sektarkenndina með því að minnast á að þeir hefðu nú verið veikir í trúnni um stund. Þess í stað fól hann þeim ábyrgðarmikið verkefni. Þannig fullvissaði hann þá um að hann og faðir hans elskuðu þá. Hvaða áhrif hafði þessi aðferð Jesú á postulana? Jesús hafði verið svo uppbyggjandi, hvetjandi og huggandi að stuttu síðar voru þeir farnir að „kenna . . . og boða fagnaðarerindið“ á nýjan leik. — Post. 5:42.

16. Hvernig líkja safnaðaröldungar eftir Jesú þegar þeir eru með verkefni á samkomum?

16 Safnaðaröldungar líkja eftir Jesú og líta á samkomurnar sem tækifæri til að fullvissa trúsystkini sín um að Jehóva elski þau og bregðist þeim aldrei. (Rómv. 8:38, 39) Þegar öldungar eru með verkefni á samkomum leggja þeir áherslu á styrkleika trúsystkina sinna en ekki veikleika. Þeir véfengja ekki hvatir bræðra sinna og systra. Með orðum sínum láta þeir í ljós að þeir trúi að bræður þeirra og systur elski Jehóva og vilji gera það sem er rétt. (1. Þess. 4:1, 9-12) Stundum geta öldungar auðvitað þurft að leiðrétta söfnuðinn í heild, en ef þarf aðeins að áminna fáeina einstaklinga er yfirleitt best að gera það einslega. (Gal. 6:1; 2. Tím. 2:24-26) Þegar öldungar ávarpa söfnuðinn í heild reyna þeir alltaf að hrósa þegar það á við. (Jes. 32:2) Þeir leggja sig fram um að tala með þeim hætti að allir séu hressir og endurnærðir að samkomunni lokinni. — Matt. 11:28; Post. 15:32.

Öruggt skjól

17. (a) Af hverju er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að samkomurnar séu öruggt skjól? (b) Hvað geturðu gert til að stuðla að því að samkomurnar séu uppbyggilegar? (Sjá rammagreinina „Tíu leiðir til að gera samkomurnar uppbyggilegar fyrir sjálfan þig og aðra“.)

17 Álagið frá heimi Satans fer sífellt vaxandi og við þurfum því að tryggja að samkomurnar séu öruggt skjól og séu uppbyggilegar fyrir alla. (1. Þess. 5:11) Hjón í söfnuðinum gengu í gegnum erfitt tímabil fyrir nokkrum árum. Systirin segir: „Að vera í ríkissalnum var eins og að vera í höndum Jehóva og njóta umhyggju hans. Þær stundir, sem við vorum þar umkringd trúsystkinum okkar, leið okkur eins og við gætum varpað byrði okkar á Jehóva, og við fundum fyrir innri ró.“ (Sálm. 55:23) Það er von okkar að samkomurnar séu ekki síður uppörvandi og hughreystandi fyrir alla aðra. Til að tryggja að svo verði skulum við leggja okkar af mörkum til að gera safnaðarsamkomurnar uppbyggilegar.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Sagt var fyrir að sumt sem fram fór á samkomum á fyrstu öld tæki enda. Til dæmis er ekki lengur ,talað tungum‘ og „spádómsgáfur“ eru liðnar undir lok. (1. Kor. 13:8; 14:5) Engu að síður gefa leiðbeiningar Páls góða innsýn í hvernig samkomur eigi að fara fram nú á tímum.

^ gr. 11 Í Varðturninum 1. desember 2003, bls. 8-10, má finna ábendingar um hvernig hægt sé að gefa enn betri svör á samkomum.

^ gr. 13 Muninum á orðunum ,hvatning‘ og ,huggun‘ er lýst í Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words. Þar kemur fram að gríska orðið, sem er þýtt ,huggun‘, lýsi meiri blíðu en orðið sem er þýtt ,hvatning‘. — Samanber Jóhannes 11:19.

^ gr. 14 Hugsanlegt er að þetta sé sami atburður og Páll nefnir þegar hann segir að Jesús hafi birst „meira en fimm hundruð bræðrum“. — 1. Kor. 15:6.

Hvert er svarið?

• Hve mikilvægar eru safnaðarsamkomurnar?

• Hvernig stuðlum við að uppbyggilegum samkomum með því að svara?

• Hvaða lærdóm má draga af samkomu sem Jesús hélt með fylgjendum sínum?

[Spurningar]

[Rammi/​myndir á bls. 22, 23]

TÍU LEIÐIR TIL AÐ GERA SAMKOMURNAR UPPBYGGILEGAR FYRIR SJÁLFAN ÞIG OG AÐRA

Undirbúðu þig. Ef þú ert búinn að fara vel yfir efnið sem verður fjallað um í ríkissalnum fylgist þú betur með á samkomunum og þær hafa meiri áhrif á þig.

Sæktu samkomur reglulega. Vel sóttar samkomur eru uppörvandi fyrir alla viðstadda þannig að nærvera þín skiptir máli.

Komdu tímanlega. Ef þú ert sestur áður en samkoman hefst geturðu tekið þátt í söngnum og bæninni sem er hvort tveggja þáttur í því að tilbiðja Jehóva.

Hafðu námsgögnin með þér. Taktu með þér Biblíuna og námsritin sem eru notuð á samkomunni til að þú getir fylgst með í þeim og meðtekið betur það sem fjallað er um.

Vertu með hugann við efnið. Ef þú færð til dæmis smáskilaboð í farsíma skaltu lesa þau eftir samkomuna en ekki meðan á henni stendur. Þannig heldurðu óviðkomandi málum aðgreindum frá samkomunni.

Taktu þátt í samkomunni. Fjölbreytt svör margra stuðla að því að samkoman verði hvetjandi og uppbyggileg.

Hafðu svörin stutt. Þá fá fleiri tækifæri til að taka þátt í umræðunum.

Skilaðu af þér verkefnum. Þegar þú er með verkefni í Boðunarskólanum eða sýnidæmi á þjónustusamkomu skaltu undirbúa þig vel, æfa þig fyrir samkomuna og forðast eftir megni að tilkynna forföll.

Hrósaðu öðrum þátttakendum. Segðu þeim sem eru með verkefni á samkomum eða svara að þú kunnir að meta framlag þeirra.

Blandaðu geði við aðra. Hlýlegar kveðjur og uppbyggilegar samræður fyrir og eftir samkomur stuðla að því að samkomurnar séu ánægjulegar og gagnlegar.