Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar — látið orð Guðs leiðbeina ykkur

Unglingar — látið orð Guðs leiðbeina ykkur

Unglingar — látið orð Guðs leiðbeina ykkur

„Aflaðu þér visku, aflaðu þér hygginda.“ — ORÐSKV. 4:5.

1, 2. (a) Hvað hjálpaði Páli postula í þeirri innri baráttu sem hann átti í? (b) Hvernig geturðu aflað þér visku og hygginda?

„ÞÓTT ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast.“ Veistu hver sagði þetta? Það var enginn annar en Páll postuli. Enda þótt Páll elskaði Jehóva fannst honum stundum erfitt að gera rétt. Hvaða áhrif hafði þessi innri barátta á hann? „Ég aumur maður!“ skrifaði hann. (Rómv. 7:21-24) Geturðu sett þig í spor Páls? Finnst þér stundum erfitt að gera rétt? Verðurðu þá svekktur eins og Páll? Ef svo er skaltu ekki missa kjarkinn. Páll tókst á við vandann og honum farnaðist vel. Þú getur gert það líka.

2 Páli gekk vel í baráttunni vegna þess að hann hafði ,heilnæmu orðin‘ til leiðsagnar. (2. Tím. 1:13, 14) Þar af leiðandi fékk hann þá visku og þau hyggindi sem hann þurfti til að takast á við vandann og taka skynsamlegar ákvarðanir. Jehóva Guð getur hjálpað þér að byggja upp visku og hyggindi. (Orðskv. 4:5) Hann hefur gefið bestu ráð sem hugsast getur í orði sínu, Biblíunni. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.) Skoðum nú hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað þér í samskiptum við foreldrana, kennt þér að fara vel með peninga og verið þér til leiðsagnar þegar þú ert einn.

Hafðu orð Guðs til leiðsagnar í fjölskyldunni

3, 4. Af hverju gæti þér fundist það vera áskorun að fara eftir reglum foreldra þinna en af hverju setja foreldrar reglur?

3 Finnst þér það vera áskorun að fara eftir þeim reglum sem foreldrar þínir setja? Hvernig gæti staðið á því? Ein ástæðan gæti verið sú að þig langar til að hafa ákveðið sjálfstæði. Það er eðlilegt og þáttur í því að fullorðnast. En meðan þú býrð heima ber þér skylda til að hlýða foreldrum þínum. — Ef. 6:1-3.

4 Ef þú sérð reglur og kröfur forelda þinna í réttu ljósi getur það auðveldað þér að fara eftir þeim. Auðvitað getur þér stundum liðið eins og Brielle, * 18 ára, sem sagði um foreldra sína: „Þau eru alveg búin að gleyma því hvernig það er að vera á mínum aldri. Þau leyfa mér ekki að segja mína skoðun, taka ákvarðanir eða vera fullorðin.“ Þér finnst kannski, eins og Brielle, að þú ættir að hafa meira frelsi en foreldrarnir veita þér. En ástæðan fyrir því að þeir setja þér reglur er fyrst og fremst sú að þeim er annt um þig. Kristnir foreldrar vita auk þess að þeir þurfa að standa Jehóva skil á því hvernig þeir annast þig. — 1. Tím. 5:8.

5. Hvernig getur það verið þér til góðs að hlýða foreldrunum?

5 Að hlýða reglum foreldranna er ekki ósvipað og að greiða niður skuld við banka. Ef þú ert skilvís eru meiri líkur á að bankinn sé tilbúinn til að gefa þér rýmri úttektarheimild. Þú skuldar foreldrum þínum hlýðni og virðingu. (Lestu Orðskviðina 1:8.) Því hlýðnari sem þú ert því líklegra er að foreldrar þínir veiti þér aukið frjálsræði. (Lúk. 16:10) En ef þú ert sífellt að brjóta reglurnar þarftu ekki að vera hissa á því að foreldrarnir minnki „úttektarheimildina“ eða felli hana jafnvel niður.

6. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að vera hlýðin?

6 Foreldrar geta meðal annars hjálpað börnunum að fara eftir þeim reglum sem þeir setja með því að vera góð fyrirmynd. Með því að hlýða fúslega kröfum Jehóva geta foreldrar sýnt fram á að reglur hans séu sanngjarnar. Það auðveldar unga fólkinu að sjá reglur foreldranna í sama ljósi. (1. Jóh. 5:3) Í Biblíunni er meira að segja sagt frá dæmum þar sem Jehóva gaf þjónum sínum tækifæri til að tjá skoðun sína á ákveðnum málum. (1. Mós. 18:22-32; 1. Kon. 22:19-22) Gætu foreldrar stundum gefið börnunum tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á ýmsum málefnum?

7, 8. (a) Hvaða áskorun blasir stundum við ungu fólki? (b) Hvað getur hjálpað þér að njóta góðs af ögun sem þú færð?

7 Börnum og unglingum finnst líka stundum að gagnrýnin, sem þau fá frá foreldrum sínum, sé ósanngjörn. Þér hefur ef til vill einhvern tíma verið innanbrjósts eins og Craig sem sagði: „Mamma var eins og rannsóknarlögregla — alltaf að leita að einhverju sem ég hafði gert rangt.“

8 Leiðrétting eða agi birtist oft í formi gagnrýni. Í Biblíunni er viðurkennt að það geti verið erfitt að taka ögun, jafnvel þó að hún sé fyllilega verðskulduð. (Hebr. 12:11) Hvað getur hjálpað þér að njóta góðs af ögun sem þú færð? Mikilvægt er að hafa hugfast að leiðbeiningar foreldra þinna eru líklega sprottnar af því að þeir elska þig. (Orðskv. 3:12) Þau vilja forða þér frá því að taka upp slæmar venjur og hjálpa þér að temja þér góða siði. Þau vita eflaust að ef þau leiðrétta þig ekki má í vissum skilningi líkja því við hatur. (Lestu Orðskviðina 13:24.) Og þú mátt ekki gleyma að það er hægt að læra af mistökum sínum. Hvernig væri að leita að „gullkornum“ í því sem foreldrar þínir segja þegar þeir leiðrétta þig? „Betra er að afla sér [speki] en silfurs og arðurinn af henni er betri en gull.“ — Orðskv. 3:13, 14.

9. Hvað geta unglingar gert í stað þess að velta sér upp úr ranglætinu sem þeim finnst þeir vera beittir?

9 En foreldrar gera sín mistök. (Jak. 3:2) Kannski segja þau eitthvað vanhugsað þegar þau aga þig. (Orðskv. 12:18) Hvað gæti valdið því? Ef til vill eru þau undir álagi eða finnst mistök þín vera merki um að þeim hafi sjálfum mistekist. Væri ekki ráð að vera þakklátur fyrir viðleitni þeirra til að leiðbeina þér í stað þess að velta þér upp úr ranglætinu sem þér finnst þú hafa verið beittur? Ef þú lærir að taka við ögun á það eftir að koma þér að góðum notum á fullorðinsárunum.

10. Hvernig geturðu auðveldað þér að taka við leiðréttingu foreldra þinna?

10 Viltu gera þér auðveldara að taka við leiðréttingu foreldra þinna og lúta reglum þeirra? Þá þarftu að þroska samskiptahæfileika þína. Hvernig ferðu að því? Fyrsta skrefið er að hlusta. „Hver maður skal vera fljótur til að heyra [og] seinn til að tala,“ segir í Biblíunni. (Jak. 1:19) Í stað þess að réttlæta þig með hraði skaltu reyna að hafa stjórn á tilfinningunum og hlusta á foreldra þína. Einbeittu þér að því sem þau segja, ekki hvernig þau segja það. Síðan skaltu umorða í huganum það sem foreldrarnir sögðu og endurtaka það kurteislega. Þá fullvissarðu þau um að þú hafir heyrt það sem þau sögðu. Hvernig geturðu farið að ef þú vilt gefa skýringu á orðum þínum eða gerðum? Yfirleitt er best að hafa ,taumhald á tungunni‘ þangað til þú ert búinn að verða við óskum foreldra þinna. (Orðskv. 10:19) Þegar foreldrarnir sjá að þú hlustaðir á þá hafa þeir mun ríkari tilhneigingu til að hlusta á þig. Ef þú sýnir þennan þroska er það merki þess að þú látir orð Guðs leiðbeina þér.

Lærðu af orði Guðs að fara vel með peninga

11, 12. (a) Hvernig ráðleggur Biblían okkur að líta á peninga og af hverju? (b) Hvernig gætu foreldrar þínir kennt þér að fara vel með peninga?

11 „Silfrið veitir forsælu,“ segir í Biblíunni. En í þessu sama versi kemur fram að speki eða viska sé mun verðmætari en peningar. (Préd. 7:12) Í orði Guðs erum við hvött til að elska ekki peninga heldur sjá þá í réttu ljósi. Af hverju ættirðu ekki að elska peninga? Tökum dæmi: Beittur hnífur er gott verkfæri í höndunum á færum matreiðslumanni. En þessi sami hnífur getur verið hættulegur í höndunum á manneskju sem er kærulaus eða utan við sig. Peningar geta líka verið gagnlegir ef vel er með þá farið. Þeir sem „ríkir vilja verða“ eiga hins vegar á hættu að fórna vináttusamböndum, fjölskyldunni og jafnvel sambandinu við Guð. Þar með valda þeir sjálfum sér „mörgum harmkvælum“. — Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

12 Hvernig geturðu lært að fara vel með peninga? Hvers vegna ekki að leita ráða hjá foreldrum þínum? „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni þiggur hollráð,“ skrifaði Salómon. (Orðskv. 1:5) Anna leitaði ráða hjá foreldrum sínum. Hún segir: „Pabbi kenndi mér að gera fjárhagsáætlun og hann sýndi mér hversu nauðsynlegt er að hafa gott skipulag á fjármálum fjölskyldunnar.“ Mamma Önnu kenndi henni líka ýmislegt sem kom henni að gagni. „Hún sýndi mér hvað það er mikilvægt að bera saman verð áður en maður kaupir hluti,“ segir Anna. Hvernig hefur þetta komið henni að gagni? Hún svarar: „Núna get ég séð um mín eigin fjármál. Ég fylgist vandlega með því í hvað peningarnir fara og það veitir mér hugarró og ákveðið frelsi að skulda ekki að óþörfu.“

13. Hvernig geturðu sýnt sjálfstjórn þegar peningar eru annars vegar?

13 Maður er fljótur að safna skuldum ef maður lætur augnablikshvöt ráða ferðinni úti í búð eða eyðir peningum bara til að sýnast fyrir kunningjunum. Hvernig geturðu forðast þessa gildru? Þú þarft að læra að sýna sjálfstjórn þegar peningar eru annars vegar. Ellen gerir það en hún er rúmlega tvítug. „Þegar ég fer út með vinum mínum,“ segir hún, „reikna ég út fyrir fram hvað ég get eytt miklu . . . Mér finnst líka skynsamlegt að fara í búðir með vinum sem kunna að fara með peninga og hvetja mig frekar til að skoða mig um og bera saman verð í stað þess að kaupa það fyrsta sem ég sé.“

14. Af hverju ættirðu að vara þig á ,táli auðæfanna‘?

14 Það er stór hluti af lífinu að vinna fyrir sér og fara með peninga. Jesús sagði hins vegar að sönn hamingja væri fólgin í því að fullnægja andlegum þörfum sínum. (Lúk. 11:28) Hann benti á að „tál auðæfanna“ væri eitt af því sem gæti kæft áhuga fólks á andlegum málum. (Mark. 4:19) Það er því ákaflega mikilvægt að hafa orð Guðs sér til leiðsagnar og sjá peninga í réttu ljósi.

Láttu orð Guðs leiðbeina þér þegar þú ert einn

15. Hvenær er líklegt að það reyni mest á hollustu þína við Guð?

15 Hvenær heldurðu að reyni mest á hollustu þína við Guð — þegar þú ert með öðrum eða þegar þú ert einn? Þegar þú ert í skólanum eða vinnunni er líklegt að þú sért vel á verði. Þú ert vakandi fyrir því sem gæti stofnað sambandi þínu við Guð í hættu. Þegar þú ert einn og slakar á er hins vegar mest hætta á að þú sért berskjalda fyrir árásum.

16. Af hverju ætti þig að langa til að hlýða Jehóva þegar þú ert einn?

16 Af hverju ætti þig að langa til að hlýða Jehóva þegar þú ert einn? Hafðu hugfast að þú getur annaðhvort sært Jehóva eða glatt hjarta hans. (1. Mós. 6:5, 6; Orðskv. 27:11) Þú hefur áhrif á Jehóva með því sem þú gerir vegna þess að hann ,ber umhyggju fyrir þér‘. (1. Pét. 5:7) Hann vill að þú hlustir á leiðbeiningar hans, sjálfum þér til góðs. (Jes. 48:17, 18) Þegar sumir af þjónum hans í Ísrael til forna virtu ekki leiðbeiningar hans hryggðu þeir hann. (Sálm. 78:40, 41, Biblían 1981) Jehóva þótti hins vegar ákaflega vænt um Daníel spámann eins og sjá má af því að engill kallaði hann,ástmög‘. (Dan. 10:11) Hvers vegna? Vegna þess að Daníel var Guði trúr, ekki aðeins í fjölmenni heldur líka þegar hann var einn. — Lestu Daníel 6:11.

17. Hvaða spurninga gætirðu spurt þig þegar þú velur þér afþreyingarefni?

17 Til að vera Guði trúr þegar þú ert einn þarftu að ,aga hugann til að greina gott frá illu‘, og þú þarft að gera það „jafnt og þétt“ með því að ástunda það sem þú veist að er rétt. (Hebr. 5:14) Þegar þú velur þér tónlist til að hlusta á, kvikmyndir til að horfa á eða vefsíður til að skoða geta eftirfarandi spurningar hjálpað þér að breyta rétt og forðast það sem er rangt: Ætli þetta efni hjálpi mér að vera umhyggjusamur eða stuðlar það að því að ég hlakki yfir ógæfu annarra? (Orðskv. 17:5) Hjálpar það mér að ,elska hið góða‘ eða gerir það mér erfitt að ,hata hið illa‘? (Am. 5:15) Það sem þú gerir þegar þú ert einn leiðir í ljós hvað stendur hjarta þínu næst. — Lúk. 6:45.

18. Hvað ættirðu að gera ef þú hefur ástundað eitthvað rangt í leyni og af hverju?

18 Hvað ættirðu að gera ef þú hefur ástundað eitthvað í leyni sem þú veist að er rangt? Hafðu hugfast að „sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn“. (Orðskv. 28:13) Það væri ákaflega óskynsamlegt að halda áfram að gera rangt og ,hryggja Guðs heilaga anda‘. (Ef. 4:30) Þú skuldar Guði, foreldrum þínum og sjálfum þér að játa ef þú hefur gert eitthvað rangt. Öldungar safnaðarins geta verið þér stoð og styrkur ef þessi staða kemur upp. Lærisveinninn Jakob segir: „Þeir skulu smyrja [hinn brotlega] með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar.“ (Jak. 5:14, 15) Vissulega getur þetta verið vandræðalegt fyrir þig og haft einhverjar óþægilegar afleiðingar í för með sér. En ef þú hefur hugrekki til að leita hjálpar kemurðu í veg fyrir frekari skaða og það verður mikill léttir fyrir þig að endurheimta hreina samvisku. — Sálm. 32:1-5.

Gleddu hjarta Jehóva

19, 20. Hvers vill Jehóva að þú njótir en hvað þarftu sjálfur að gera?

19 Jehóva er ,hinn sæli Guð‘ og hann vill að þú sért sæll og hamingjusamur. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Hann hefur einlægan áhuga á þér. Hann tekur eftir því sem þú leggur á þig til að gera rétt, jafnvel þótt enginn annar sjái það. Ekkert fer fram hjá Jehóva. Hann fylgist ekki með til að finna að heldur til að styrkja viðleitni þína til að gera gott. „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ — 2. Kron. 16:9.

20 Láttu þess vegna orð Guðs leiðbeina þér og fylgdu ráðum þess. Þá lærirðu visku og hyggindi og getur yfirstigið alls konar vandamál og tekið erfiðar ákvarðanir í lífinu. Þannig gleðurðu ekki aðeins foreldra þína og Jehóva heldur uppskerð líka sanna lífshamingju.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nöfnum hefur verið breytt.

Hvert er svarið?

• Hvernig geta unglingar tekið við leiðréttingu foreldra sinna og farið eftir reglum þeirra?

• Af hverju er mikilvægt að sjá peninga í réttu ljósi?

• Hvernig geturðu verið Jehóva trúr þegar þú ert einn?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 6]

Ertu Guði trúr þegar þú ert einn?