Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Göngum fram í ráðvendni

Göngum fram í ráðvendni

Göngum fram í ráðvendni

„Ég geng fram í ráðvendni.“ — SÁLM. 26:11.

1, 2. Hvað sagði Job um ráðvendni sína og hvaða vísbendingar fáum við um hann í 31. kafla Jobsbókar?

TIL forna var oft notast við skálavog til að vega hluti og varning. Vogin var að jafnaði samsett úr vogarstöng og tveim skálum sem hengdar voru hvor í sinn enda. Í miðri vogarstönginni var pinni sem hún snerist um. Hluturinn, sem átti að vega, var lagður í aðra skálina og lóð í hina. Fólk Guðs átti að nota rétta vog og ósvikin lóð. — Orðskv. 11:1.

2 Þegar hinn guðhræddi Job var þjáður vegna árásar Satans sagði hann: „Þá setji Guð mig á rétta vog og hann mun viðurkenna sakleysi mitt.“ (Job. 31:6) Job minntist á margs konar aðstæður sem geta reynt á ráðvendni fólks. En hann stóðst prófraunirnar eins og sjá má af orðum hans í 31. kafla Jobsbókar. Gott fordæmi hans getur verið okkur hvatning til að vera ráðvönd líkt og hann og taka með sannfæringu undir orð sálmaskáldsins Davíðs: „Ég geng fram í ráðvendni.“ — Sálm. 26:11.

3. Af hverju er mikilvægt að vera Guði trú í smáu sem stóru?

3 Enda þótt Job væri reyndur til hins ýtrasta var hann Guði trúr. Sumir segja kannski að Job hafi drýgt mikla hetjudáð með óbilandi ráðvendni sinni. Við göngum ekki í gegnum sömu þjáningar og Job. Við verðum engu að síður að vera Guði trú í smáu sem stóru ef viljum vera ráðvönd og sýna að við styðjum drottinvald hans. — Lestu Lúkas 16:10.

Ráðvendni í siðferðismálum

4, 5. Hvað forðaðist Job af því að hann var ráðvandur?

4 Til að vera ráðvönd gagnvart Jehóva þurfum við að halda siðferðisreglur hans líkt og Job gerði. Hann sagði: „Ég gerði þann sáttmála við augu mín að líta mey ekki girndarauga. Hafi hjarta mitt látið tælast af annars manns konu og hafi ég legið á hleri við dyr náunga míns, skal kona mín mala fyrir annan og aðrir menn leggjast með henni.“ — Job. 31:1, 9, 10.

5 Job var staðráðinn í að vera ráðvandur gagnvart Guði og gætti þess að horfa ekki girndaraugum á konur. Hann var kvæntur maður og daðraði hvorki við einhleypa konu né gerði sér dælt við konu annars manns. Jesús var ómyrkur í máli í fjallræðunni þegar hann talaði um siðferðismál, og þeir sem vilja vera ráðvandir ættu sannarlega að hafa orð hans í huga. — Lestu Matteus 5:27, 28.

Beitum aldrei klækjum

6, 7. (a) Hvað notar Guð til að ákvarða hvort við séum ráðvönd? (b) Af hverju megum við ekki vera undirförul eða beita klækjum?

6 Ef við viljum vera ráðvönd megum við aldrei beita klækjum. (Lestu Orðskviðina 3:31-33.) Job sagði: „Hafi ég farið með tál og fótur minn hraðað sér til svika, þá setji Guð mig á rétta vog og hann mun viðurkenna sakleysi mitt.“ (Job. 31:5, 6) Jehóva vegur alla menn á „rétta vog“. Hann notar fullkominn og réttlátan mælikvarða sinn, líkt og hann gerði gagnvart Job, til að ákvarða hvort við sem erum vígð honum séum ráðvönd.

7 Við værum ekki ráðvönd gagnvart Guði ef við værum undirförul eða beittum klækjum. Þeir sem eru ráðvandir „hafna allri skammarlegri launung“ og ,beita ekki klækjum‘. (2. Kor. 4:1, 2) En segjum að við beittum klækjum í orðum eða verkum og yrðum þess valdandi að trúsystkini okkar ákallaði Guð sér til hjálpar. Þá værum við í vondum málum. „Ég ákalla Drottin í nauðum mínum og hann bænheyrir mig,“ söng sálmaskáldið. „Drottinn, bjarga mér frá ljúgandi vörum og tælandi tungum.“ (Sálm. 120:1, 2) Það er gott að hafa hugfast að Jehóva getur séð okkar innri mann. Hann „rannsakar hjörtun og nýrun“ til að kanna hvort við séum ráðvönd í raun og sannleika. — Sálm. 7:9, 10.

Vertu til fyrirmyndar í samskiptum við aðra

8. Hvernig kom Job fram við aðra?

8 Til að vera ráðvönd þurfum við að vera réttvís, auðmjúk og tillitssöm við aðra, rétt eins og Job. Hann sagði: „Hafi ég vanvirt rétt þræls míns og ambáttar þegar þau deildu við mig, hvað gæti ég þá gert ef Guð risi upp og yfirheyrði mig, hverju mundi ég svara? Var það ekki skapari minn sem skapaði þrælinn í móðurlífi, var það ekki sá sami sem mótaði okkur í móðurkviði?“ — Job. 31:13-15.

9. Hvaða eiginleika sýndi Job í samskiptum við þjóna sína og hvernig ættum við að koma fram?

9 Meðferð dómsmála virðist hafa verið frekar einföld á dögum Jobs. Mál voru afgreidd með skipulegum hætti og þrælar gátu meira að segja leitað réttar síns. Job var réttlátur og miskunnsamur við þjóna sína. Ef við viljum vera ráðvönd verðum við að sýna þessa sömu eiginleika. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir öldunga í söfnuðinum.

Verum örlát en ekki ágjörn

10, 11. (a) Hvernig vitum við að Job var örlátur og hjálpsamur? (b) Á hvaða biblíulegu ráð gæti Jobsbók 31:16-25 minnt okkur?

10 Job var hvorki eigingjarn né ágjarn heldur örlátur og hjálpsamur. Hann sagði: „Hafi ég . . . gert augu ekkjunnar döpur, hafi ég borðað bitann minn einn án þess að deila honum með munaðarleysingjanum . . . hafi ég séð klæðlausan mann að dauða kominn . . . hafi ég slegið hendi til munaðarleysingja þegar ég sá að ég hafði stuðning í borgarhliðinu, þá losni herðablöð mín frá öxlunum og armur minn brotni í liðnum.“ Og Job hefði ekki verið ráðvandur ef hann hefði sagt að ,skíragull væri stoð sín‘. — Job. 31:16-25.

11 Þessi ljóðræna lýsing minnir okkur ef til vill á eftirfarandi orð lærisveinsins Jakobs: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði föður er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ (Jak. 1:27) Kannski kemur líka upp í hugann viðvörun Jesú þegar hann sagði: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ Jesús sagði síðan dæmisögu um ríkan og ágjarnan mann sem var ekki „ríkur í augum Guðs“ þegar hann dó. (Lúk. 12:15-21) Ef við viljum vera ráðvönd megum við ekki láta syndsamlega ágirnd eða græðgi ná tökum á okkur. Ágirnd er skurðgoðadýrkun vegna þess að það sem hinn ágjarni girnist beinir athygli hans frá Jehóva og það verður þar með skurðgoð hans. (Kól. 3:5) Ráðvendni og ágirnd fara ekki saman.

Verum staðföst í sannri tilbeiðslu

12, 13. Hvernig forðaðist Job skurðgoðadýrkun?

12 Þeir sem eru ráðvandir hvika ekki frá sannri tilbeiðslu. Job var staðfastur í tilbeiðslunni því að hann sagði: „Hafi ég litið skin sólarinnar og tunglið sem óð dýrlega áfram, og hafi hjarta mitt látið tælast á laun og ég sent handkoss, þá væri það refsivert brot af því að ég hefði afneitað Guði í upphæðum.“ — Job. 31:26-28.

13 Job dýrkaði ekki lífvana hluti. Ef hjarta hans hefði látið tælast á laun þegar hann horfði á himintunglin og ef hann hefði „sent handkoss“ í lotningarskyni, til dæmis til tunglsins, hefði hann verið skurðgoðadýrkandi og afneitað Guði. (5. Mós. 4:15, 19) Til að vera ráðvönd gagnvart Guði verðum við að forðast skurðgoðadýrkun í hvaða mynd sem er. — Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:21.

Forðastu hefnigirni og hræsni

14. Af hverju getum við sagt að Job hafi ekki verið illgjarn?

14 Job var hvorki illgjarn né grimmur. Hann vissi að slíkir lestir væru merki þess að hann væri ekki ráðvandur því að hann sagði: „Hafi ég glaðst yfir óförum óvinar míns og hlakkað yfir böli hans, leyfði ég munni mínum ekki að syndga með því að sækjast eftir lífi hans með formælingum.“ — Job. 31:29, 30.

15. Af hverju er rangt að hlakka yfir óförum hatursmanna sinna?

15 Job gladdist aldrei yfir óförum hatursmanna sinna. Í Orðskviðunum segir: „Gleðstu ekki yfir falli óvinar þíns og hjarta þitt fagni ekki þótt hann hrasi svo að Drottinn sjái það ekki og honum mislíki og hann snúi reiði sinni frá honum.“ (Orðskv. 24:17, 18) Þar sem Jehóva sér hvað býr í hjörtum manna veit hann af því ef við hlökkum í laumi yfir óförum annarra. Hann hefur alls ekki velþóknun á slíku. (Orðskv. 17:5) Guð getur tekið á okkur í samræmi við það því að hann segir: „Mín er hefndin og mitt að endurgjalda.“ — 5. Mós. 32:35.

16. Hvernig getum við verið gestrisin jafnvel þó að við séum ekki rík?

16 Job var gestrisinn. (Job. 31:31, 32) Við þurfum ekki að vera rík til að ,leggja stund á gestrisni‘. (Rómv. 12:13) Við getum boðið upp á léttar veitingar, minnug þess að „betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinaut með hatri“. (Orðskv. 15:17) Ef kærleikurinn fær að njóta sín getur einföld máltíð með trúsystkini verið bæði ánægjuleg og uppbyggileg.

17. Af hverju ættum við ekki að reyna að leyna alvarlegri synd?

17 Það hlýtur að hafa verið uppbyggilegt að njóta gestrisni Jobs því að hann var enginn hræsnari. Hann var ekki eins og hinir óguðlegu sem laumuðu sér inn í söfnuðinn á fyrstu öld og ,smjöðruðu fyrir öðrum, sér til ávinnings‘. (Júd. 3, 4, 16) Hann duldi hvorki misgjörðir sínar né,faldi sektina í brjósti sínu‘ af ótta við fyrirlitningu annarra ef upp um hann kæmist. Hann var reiðubúinn að leyfa Guði að rannsaka sig og var tilbúinn til að játa sekt sína fyrir honum ef með þyrfti. (Job. 31:33-37) Ef við drýgjum alvarlega synd skulum við ekki reyna að bjarga andlitinu með því að halda henni leyndri. Hvernig getum við sýnt að við reynum að vera ráðvönd? Með því að viðurkenna sekt okkar, iðrast, leita hjálpar og gera allt sem við getum til að bæta fyrir brot okkar. — Orðskv. 28:13; Jak. 5:13-15.

Ráðvandur maður fyrir rétti

18, 19. (a) Af hverju er hægt að segja að Job hafi aldrei arðrænt nokkurn mann? (b) Hvað var Job fús til að gera ef hann væri fundinn sekur?

18 Job var heiðarlegur og sanngjarn. Hann gat því sagt: „Hafi akurland mitt hrópað gegn mér og öll plógför þess grátið í einu, hafi ég neytt uppskerunnar án endurgjalds og svipt réttan eiganda þess lífi, skal það bera þyrna í stað hveitis, illgresi fyrir bygg.“ (Job. 31:38-40) Job sölsaði aldrei undir sig landareignir annarra og arðrændi ekki verkamenn. Við þurfum, líkt og hann, að vera ráðvönd gagnvart Jehóva í smáu sem stóru.

19 Job hafði talað um líferni sitt í áheyrn þriggja félaga sinna og hins unga Elíhús. Job hafði boðið andstæðingi sínum að ákæra sig og borið fram sér til varnar ævilangt orðspor sitt sem staðfest var með „undirskrift“ hans. Ef Job yrði fundinn sekur væri hann fús til að hljóta refsingu. Hann lagði því mál sitt fyrir dómstól Guðs. Þar með ,enduðu ræður Jobs‘. — Job. 31:35, 40, Biblían 1981.

Þú getur sýnt ráðvendni

20, 21. (a) Af hverju gat Job verið ráðvandur? (b) Hvernig getum við styrkt kærleikann til Guðs?

20 Job gat verið ráðvandur vegna þess að hann elskaði Jehóva og Jehóva elskaði hann og studdi. Job sagði: „[Þú] gafst mér líf og náð [„tryggan kærleika“, NW, neðanmáls] og vaktir yfir andardrætti mínum.“ (Job. 10:12) Auk þess sýndi Job öðrum kærleika, vitandi að sá sem elskar ekki náungann hættir að óttast Hinn almáttka og bera lotningu fyrir honum. (Job. 6:14) Ráðvant fólk elskar Guð og náungann. — Matt. 22:37-40.

21 Við getum styrkt kærleikann til Guðs með því að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða það sem hún opinberar um hann. Við getum vegsamað hann í innilegri bæn og þakkað honum gæsku hans við okkur. (Fil. 4:6, 7) Við getum sungið honum lof og notið góðs af því að sækja samkomur reglulega með öðrum þjónum hans. (Hebr. 10:23-25) Og við styrkjum líka kærleikann til Guðs með því að fara í boðunarstarfið og kunngera „hjálpráð hans“. (Sálm. 96:1-3) Þannig getum við varðveitt ráðvendni okkar líkt og sálmaskáldið sem söng: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“ — Sálm. 73:28.

22, 23. Hvað leggjum við stund á líkt og ráðvandir þjónar Guðs fyrr á tímum?

22 Jehóva hefur fengið ráðvöndum þjónum sínum margs konar verkefni í aldanna rás. Nói smíðaði örk og var ,boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5) Jósúa leiddi Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið. Hann var farsæll einungis vegna þess að hann hugleiddi ,lögbók Guðs dag og nótt‘ og breytti samkvæmt henni. (Jós. 1:7, 8) Kristnir menn á fyrstu öld kenndu nýjum lærisveinum og hittust að staðaldri til að rannsaka Ritninguna. — Matt. 28:19, 20.

23 Við styðjum drottinvald Jehóva og varðveitum ráðvendni okkar með því að boða réttlætið, gera fólk að lærisveinum, fara eftir ráðum Biblíunnar og sækja samkomur og mót ásamt trúsystkinum okkar. Það hjálpar okkur að vera hugrökk, eiga sterkt samband við Jehóva og gera vilja hans. Þetta er engum ofraun vegna þess að við eigum stuðning föðurins á himnum og sonar hans. (5. Mós. 30:11-14; 1. Kon. 8:57) „Samfélag þeirra sem trúa“, framganga í ráðvendni líkt og við og dýrka Jehóva sem alvaldan Drottin styður einnig við bakið á okkur. — 1. Pét. 2:17.

Hverju svarar þú?

• Hvernig eigum við að líta á siðferðisreglur Jehóva?

• Hvaða eiginleikar Jobs höfða sérstaklega til þín?

• Hvernig maður var Job samkvæmt Jobsbók 31:29-37?

• Af hverju erum við fær um að vera ráðvönd gagnvart Guði?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 29]

Job var ráðvandur gagnvart Jehóva. Við getum verið það líka.

[Mynd á bls. 32]

Við getum verið ráðvönd.