Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu

Hafðu brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu

Hafðu brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu

„Uppskeran er mikil en verkamenn fáir.“ — MATT. 9:37.

1. Hvernig hegðum við okkur þegar það er áríðandi að ljúka ákveðnu verki?

ÞÚ ERT með skjal í höndunum sem einhver annar þarf að líta á áður en dagurinn er á enda. Hvað gerirðu? Þú merkir það „ÁRÍÐANDI!“ Þú ert á leið á mikilvægan fund en ert seinn fyrir. Hvað gerirðu? Þú segir við bílstjórann: „Viltu flýta þér, þetta er ÁRÍÐANDI!“ Þegar við þurfum að skila af okkur ákveðnu verki og tíminn er að renna út erum við áköf og spennt á taugum. Adrenalínið flæðir og við vinnum eins hratt og við getum. Þannig hegðum við okkur þegar það er áríðandi að ljúka ákveðnu verki.

2. Hvaða verkefni gengur fyrir öllu öðru hjá sannkristnum mönnum nú á tímum?

2 Í hugum sannkristinna manna nú á dögum er ekkert meira áríðandi en að boða fagnaðarerindið um ríkið og gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Lærisveinninn Markús hafði eftir Jesú að það þyrfti að vinna þetta verk „fyrst“, það er að segja áður en endirinn kæmi. (Mark. 13:10) Það er auðvitað vel við hæfi. Jesús sagði: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir.“ Það er ekki hægt að bíða með uppskeruna. Það þarf að koma henni í hús áður en uppskerutíminn er liðinn. — Matt. 9:37.

3. Hvað hafa margir gert til að sinna boðunarstarfinu sem er svo brýnt?

3 Þar eð boðunarstarfið skiptir svona miklu máli fyrir okkur ættum við að nota eins mikinn tíma, krafta og athygli og við getum til að sinna því. Það er hrósvert að margir skuli gera það. Sumir hafa einfaldað lífið til að geta notað lungann úr tímanum til að boða fagnaðarerindið sem brautryðjendur eða trúboðar, eða til að þjóna á einhverju af Betelheimilunum víða um lönd. Þeir eru önnum kafnir. Þeir hafa fært fórnir og hafa ýmis krefjandi verkefni á sinni könnu. En Jehóva blessar þá ríkulega og við samgleðjumst þeim. (Lestu Lúkas 18:28-30.) Það geta ekki allir boðað fagnaðarerindið í fullu starfi en þeir verja samt eins miklum tíma til þess og þeir geta. Það felur meðal annars í sér að hjálpa börnum okkar að verða hólpin. — 5. Mós. 6:6, 7.

4. Af hverju gæti sumum þótt erfitt að halda vöku sinni fyrir því að endirinn sé nærri?

4 Þegar mikið liggur á tengist það yfirleitt tímamörkum, eindaga eða endalokum, eins og sjá má af undanfarandi dæmum. Við lifum á endalokatímanum og það eru ótal sannanir fyrir því, bæði biblíulegar og sögulegar. (Matt. 24:3, 33; 2. Tím. 3:1-5) Enginn maður veit þó með vissu hvenær endirinn kemur. Jesús tók það sérstaklega fram þegar hann lýsti tákninu um að ,veröldin væri að líða undir lok‘. Hann sagði: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matt. 24:36) Þar af leiðandi gæti sumum þótt erfitt að vera vakandi fyrir því öllum stundum að endirinn sé nærri, ekki síst ef þeir hafa þjónað Jehóva lengi. (Orðskv. 13:12) Líður þér stundum þannig? Hvað getur hjálpað okkur að vera sífellt vakandi fyrir því að það sé áríðandi að vinna verkið sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa falið okkur nú á tímum?

Jesús, fyrirmynd okkar

5. Hvernig sýndi Jesús að hann áleit þjónustu sína áríðandi?

5 Þótt margir hafi sýnt að þeim þyki þjónustan við Guð áríðandi skarar Jesús Kristur fram úr þeim öllum. Ein af ástæðunum fyrir því að hann starfaði af slíku kappi var sú að hann þurfti að koma miklu í verk á aðeins þrem og hálfu ári. En Jesús áorkaði meiru í þágu sannrar tilbeiðslu en nokkur annar hefur gert fyrr eða síðar. Hann kunngerði nafn og fyrirætlun föður síns, boðaði fagnaðarerindið um ríkið, fletti ofan af hræsni og falskenningum trúarleiðtoganna og studdi drottinvald Jehóva allt til dauðadags. Hann fór um landið þvert og endilangt og var óþreytandi við að kenna fólki, lækna það og liðsinna því. (Matt. 9:35) Enginn hefur áorkað svona miklu á jafn stuttum tíma. Jesús lagði eins hart að sér og hann gat. — Jóh. 18:37.

6. Að hverju einbeitti Jesús sér?

6 Af hvaða hvötum starfaði Jesús af slíku kappi meðan hann þjónaði á jörð? Hann þekkti spádóm Daníels og vissi hve langan tíma hann hafði til umráða miðað við áætlun Jehóva. (Dan. 9:27) Eins og þar kemur fram átti þjónusta hans á jörð að taka enda í „miðri viku“, það er að segja eftir þrjú og hálft ár. Skömmu eftir að hann reið eins og sigursæll konungur inn í Jerúsalem vorið 33 sagði hann: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber.“ (Jóh. 12:23) Þótt Jesús vissi að hann myndi bráðlega deyja einblíndi hann ekki á það og það var ekki meginástæðan fyrir dugnaði hans. Hann einbeitti sér öllu heldur að því að gera vilja föðurins og sýna náungakærleika og notaði hvert tækifæri til þess. Kærleikur hans var honum hvöt til að safna að sér lærisveinum, kenna þeim og senda þá út til að boða fagnaðarerindið. Hann gerði þetta til þess að þeir gætu haldið áfram því verki sem hann byrjaði á og gert enn meiri verk en hann. — Lestu Jóhannes 14:12.

7, 8. Af hverju hreinsaði Jesús til í musterinu og hvernig brugðust lærisveinarnir við því?

7 Einn atburður er til marks um brennandi áhuga Jesú á því að þjóna Jehóva. Þetta var um páskaleytið árið 30, snemma á þjónustuferli hans. Hann kom ásamt lærisveinunum til Jerúsalem og þeir sáu í musterinu „þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar“. Hvernig brást Jesús við og hvaða áhrif hafði það á lærisveina hans? — Lestu Jóhannes 2:13-17.

8 Það sem Jesús sagði og gerði við þetta tækifæri minnti lærisveinana á spádómleg orð í einum af sálmum Davíðs. Þar segir: „Vandlæting vegna húss þíns hefur tært mig upp.“ (Sálm. 69:10) Af hverju komu þessi orð upp í huga lærisveinanna? Af því að Jesús tók mikla áhættu með því sem hann gerði. Ráðamenn musterisins, prestar, fræðimenn og fleiri, stóðu að baki hinu hneykslanlega gróðabralli sem var stundað þar. Með því að afhjúpa brask þeirra kallaði Jesús yfir sig fjandskap þess trúarkerfis sem var á þeim tíma. Það var hárrétt metið hjá lærisveinunum að Jesús sýndi þarna ,vandlætingu vegna húss Guðs‘, það er að segja vegna sannrar tilbeiðslu. En hvað er vandlæting?

Hvað er vandlæting?

9. Hvernig má skýra merkingu orðsins „vandlæting“?

9 Orðið „vandlæting“ er í orðabók skýrt „ákefð, ötulleiki“. Samheiti gætu verið ástríða, eldmóður, kapp og ákafi. Það má vissulega nota öll þessi orð til að lýsa starfi Jesú. Þess vegna er versið orðað þannig í Today’s English Version: „Ástin á húsi þínu, ó Guð, brennur í mér líkt og eldur.“ Það er athyglisvert að í sumum austurlenskum tungumálum er viðkomandi orð samsett út tveim orðhlutum sem merkja bókstaflega „heitt hjarta“, rétt eins og hjartað brenni. Það er ekkert undarlegt að orð Davíðs skuli hafa rifjast upp fyrir lærisveinunum þegar þeir sáu Jesú að verki í musterinu. En hvað kveikti í hjarta Jesú, ef svo má að orði komast, og knúði hann til að gera það sem hann gerði?

10. Hvað merkir orðið „vandlæting“ eins og það er notað í Biblíunni?

10 Orðið, sem er þýtt „vandlæting“ í sálmi Davíðs, er dregið af hebresku orði sem er oft þýtt „afbrýði“ eða „afbrýðisamur“ annars staðar í Biblíunni. Í Nýheimsþýðingunni er merkingunni stundum skilað með því að tala um að Guð krefjist óskiptrar hollustu. (2. Mós. 20:5; 34:14, NW; Jós. 24:19, NW) Í biblíuorðabók segir um þetta hugtak: „Það er oft notað um hjónaband . . . Guð á einkarétt á hollustu þeirra sem tilheyra honum og ver þann rétt, líkt og afbrýðisamur eiginmaður eða eiginkona stendur fast á einkarétti sínum.“ Þegar talað er um vandlætingu í biblíulegum skilningi er ekki aðeins um að ræða ákafan áhuga á einhverju, líkt og margir hafa á íþróttum. Vandlæting Davíðs var jákvæð afbrýði sem þýddi að hann umbar enga samkeppni við Jehóva og sætti sig ekki við að kastað væri rýrð á hann. Davíð hafði sterka löngun til að verja orðstír eða málstað Jehóva.

11. Af hvaða hvötum lagði Jesús sig allan fram?

11 Lærisveinar Jesú gátu með réttu sett orð Davíðs í samband við það sem þeir sáu Jesú gera í musterinu. Jesús lagði sig ekki aðeins fram af því að tíminn var naumur heldur einnig vegna þess að hann hafði brennandi áhuga á nafni föður síns og hreinni tilbeiðslu. Þegar hann sá hvernig kastað var rýrð á nafn Guðs og það var lastað hafði hann eðlilega brennandi áhuga á að bæta úr því. Þetta var jákvæð afbrýði. Þegar hann horfði upp á hvernig trúarleiðtogarnir kúguðu almenning og höfðu að féþúfu hafði hann brennandi áhuga á að létta okinu af fólki og fordæmdi þessa kúgara harðlega. — Matt. 9:36; 23:2, 4, 27, 28, 33.

Hafðu brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu

12, 13. Hvað hafa trúarleiðtogar kristna heimsins gert varðandi (a) nafn Guðs? (b) ríki Guðs?

12 Hið trúarlega umhverfi á okkar dögum er áþekkt því sem var á dögum Jesú, ef ekki verra. Við munum hvað var það fyrsta sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um varðandi nafn Guðs: „Helgist þitt nafn.“ (Matt. 6:9) Eru trúarleiðtogar, einkum prestar kristna heimsins, þekktir fyrir að kenna fólki hvað Guð heitir? Eru þeir vanir að helga og heiðra nafn hans? Nei, þvert á móti eru þeir vanir að draga upp alranga mynd af Guði með falskenningum á borð við þrenningu, um að mannsálin sé ódauðleg og að til sé helvíti. Þannig lýsa þeir Guði sem dularfullum, torskildum og grimmum kvalara. Hneykslismál þeirra og hræsni hafa líka kastað rýrð á Guð. (Lestu Rómverjabréfið 2:21-24.) Þeir hafa lagt sig í framkróka við að fela eiginnafn Guðs og jafnvel fellt það niður í biblíuþýðingum sínum. Þannig tálma þeir fólki að nálægja sig Guði og eignast persónulegt samband við hann. — Jak. 4:7, 8.

13 Jesús kenndi einnig fylgjendum sínum að biðja þess að Guðsríki kæmi: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:10) Þó að trúarleiðtogar kristna heimsins fari oft með þessa bæn hafa þeir hvatt fólk til að styðja pólitísk samtök og aðrar stofnanir manna. Þeir gera lítið úr þeim sem boða þetta ríki og vitna um það. Þetta hefur orðið til þess að ríki Guðs er sjaldan til umræðu meðal þeirra sem kalla sig kristna og þaðan af síður trúa menn á það.

14. Hvernig hafa prestar kristna heimsins útvatnað orð Guðs?

14 Jesús sagði í bæn til Guðs: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóh. 17:17) Áður en hann yfirgaf jörðina sagðist hann myndu skipa ,trúan og hygginn þjón‘ til að sjá fylgjendum sínum fyrir andlegri fæðu. (Matt. 24:45) Prestar kristna heimsins þykjast svo sem vera ráðsmenn orðs Guðs. En hafa þeir sinnt dyggilega því verkefni sem meistarinn fól þeim? Nei, þeir hafa öllu heldur haft tilhneigingu til að kalla frásögur Biblíunnar bábiljur og goðsagnir. Þeir hafa ekki hughreyst og upplýst sóknarbörnin með því að gefa þeim andlega fæðu heldur kitlað eyru þeirra með heimspekikenningum manna. Auk þess hafa þeir útvatnað siðferðisreglur Guðs til að koma til móts við hið svonefnda nýja siðferði. — 2. Tím. 4:3, 4.

15. Hvað finnst þér um allt það sem prestar hafa gert í nafni Guðs?

15 Sökum alls þess sem gert hefur verið — í orði kveðnu í nafni Guðs — hefur margt einlægt fólk orðið vonsvikið eða misst alla trú á Guð og Biblíuna. Þetta fólk hefur fallið í gildru Satans og heimsins sem hann hefur á valdi sínu. Hvernig er þér innanbrjósts þegar þú fréttir af slíku eða sérð það gerast dag eftir dag? Langar þig ekki til að gera allt sem þú getur til að hreinsa nafn Guðs af þeim óhróðri og því lasti sem það hefur orðið fyrir? Langar þig ekki til að hugga og hughreysta einlægt og hjartahreint fólk þegar þú horfir upp á hvernig það er blekkt og haft að féþúfu? Þegar Jesús sá fólkið sem var ,hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa‘ lét hann sér ekki nægja að kenna í brjósti um það heldur „kenndi þeim margt“. (Matt. 9:36; Mark. 6:34) Sem þjónar Jehóva höfum við ærna ástæðu til að hafa brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu, rétt eins og Jesús.

16, 17. (a) Hvað ætti að knýja okkur til að leggja okkur fram í þjónustunni? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

16 Orð Páls postula í 1. Tímóteusarbréfi 2:3, 4 öðlast dýpri merkingu þegar við sjáum þjónustu okkar í þessu ljósi. (Lestu.) Við leggjum hart að okkur í boðunarstarfinu, ekki aðeins vegna þess að við vitum að við lifum á síðustu dögum heldur einnig vegna þess að við vitum að það er vilji Guðs. Hann vill að fólk kynnist sannleikanum og geti lært að tilbiðja hann og þjóna honum, og hljóti þá blessun sem fylgir því. Við finnum okkur knúin til að leggja okkur fram í þjónustunni, ekki bara af því að tíminn er að renna út heldur frekar vegna þess að okkur langar til að heiðra nafn Guðs og hjálpa fólki að kynnast vilja hans. Við höfum brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu. — 1. Tím. 4:16.

17 Við sem þjónum Jehóva höfum hlotið þá blessun að þekkja fyrirætlun Guðs með mannkynið og jörðina. Við erum í stakk búin til að hjálpa fólki að finna hamingjuna og eignast örugga framtíðarvon. Við getum bent því á hvernig það geti verið óhult þegar heimi Satans verður útrýmt. (2. Þess. 1:7-9) Í stað þess að vera niðurdregin og vonsvikin yfir því að degi Jehóva virðist hafa seinkað ættum við að fagna því að við skulum enn hafa tækifæri til að sýna í verki að við höfum brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu. (Míka 7:7; Hab. 2:3) Hvernig getum við þroskað með okkur slíkan áhuga? Fjallað er um það í næstu grein.

Geturðu svarað?

• Hvað fékk Jesú til að starfa þrotlaust þann tíma sem hann þjónaði á jörð?

• Hvað þýðir orðið „vandlæting“ í biblíulegum skilningi?

• Hvað blasir við okkur sem ætti að vekja með okkur brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 8]

Jesús einbeitti sér að því að gera vilja föður síns og sýna náungakærleika.

[Mynd á bls. 10]

Við höfum ærna ástæðu til að hafa brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu.