Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Edengarðurinn — var hann fyrsta heimili mannkyns?

Edengarðurinn — var hann fyrsta heimili mannkyns?

Edengarðurinn — var hann fyrsta heimili mannkyns?

ÍMYNDAÐU þér að þú sért í fallegum lystigarði. Það er ekkert sem truflar, enginn hávær borgarniður berst úr næsta nágrenni. Þetta er stór garður og þar ríkir friður og ró. Og það sem meira er, þú hefur engar áhyggjur og ert hraustur. Ekkert hrjáir þig, hvorki verkir, ofnæmi né aðrir kvillar. Þú getur notið þín til fulls í þessu fagra umhverfi.

Litskrúðug blómin og lækurinn, sem glitrar í sólskininu, eru hreint augnayndi. Litbrigðin í laufblöðum trjánna og grasinu og leikur ljóss og skugga gera myndina enn fallegri. Þú finnur mildan andvarann leika um þig og sætan ilminn í loftinu. Þú heyrir skrjáfið í laufblöðunum og hlustar á lækjarniðinn, fuglasönginn og suð skordýranna við iðju sína. Myndi þig ekki langa til að vera á slíkum stað?

Fólk um allan heim trúir að mannkynið hafi átt slíkt upphaf. Öldum saman hefur Gyðingum, kristnum og múslímum verið kennd sagan af Edengarðinum sem Guð gaf Adam og Evu að heimili. Biblían kennir að þau hafi notið friðsældar og hamingju. Þau áttu frið hvort við annað, við dýrin og við Guð sem í gæsku sinni ætlaði þeim að lifa að eilífu við þessar dásamlegu aðstæður. — 1. Mósebók 2:15-24.

Hindúar eiga líka sínar hugmyndir um paradís í fyrndinni. Og búddistar trúa því að miklir leiðtogar, sem þeir kalla Búdda, geti risið upp á slíkum gullöldum þegar heimurinn er eins og paradís. Þar að auki eru til sagnir í mörgum afrískum trúarbrögðum sem svipar töluvert til sögunnar af Adam og Evu.

Hugmyndina um upphaflega paradís er reyndar að finna í trúarbrögðum og arfsögnum um heim allan. Rithöfundur nokkur sagði: „Í mörgum samfélögum trúði fólk á paradís í upphafi mannkyns. Hún var fullkomin og þar ríkti frelsi, friður og hamingja. Nóg var af öllu. Fólk var laust við kúgun, spennu og deilur . . . Þessi trú ýtti undir almenna fortíðarþrá og djúpstæða löngun til að endurheimta paradísina sem hafði glatast.“

Er hugsanlegt að allar þessar arfsagnir eigi sér sömu rætur? Getur verið að þessi „almenna fortíðarþrá“ stafi af einhverju sem gerðist í raun og veru? Var aldingarðurinn Eden til endur fyrir löngu og eru Adam og Eva sannsögulegar persónur?

Efahyggjumenn hæðast að þeirri hugmynd. Núna, á tíma tækni og vísinda, gera margir ráð fyrir að slíkar sagnir séu aðeins uppspuni eða goðsagnir. Svo ólíklegt sem það kann að virðast eiga þessar efasemdaraddir sér ekki aðeins veraldlegar rætur. Margir trúarleiðtogar ýta undir vantrú á frásöguna af Edengarðinum. Þeir staðhæfa að slíkur staður hafi aldrei verið til og segja að frásagan sé táknræn, dæmisaga eða bara goðsögn.

Að vísu eru dæmisögur í Biblíunni. Þær þekktustu sagði Jesús sjálfur. En frásögn Biblíunnar af Edengarðinum er ekki sett fram sem dæmisaga heldur einfaldlega sem hluti af mannkynssögunni. Ef atburðirnir í Edengarðinum áttu sér aldrei stað, hvernig er þá hægt að treysta öðru í Biblíunni? Athugum nú hvers vegna sumir efast um að aldingarðurinn Eden hafi verið til og hvort efasemdirnar eigi rétt á sér. Síðan skulum við skoða hvers vegna frásagan ætti að skipta okkur máli.