Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Velþóknun Guðs veitir eilíft líf

Velþóknun Guðs veitir eilíft líf

Velþóknun Guðs veitir eilíft líf

„Þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.“ — SÁLM. 5:13.

1, 2. Um hvað bað Elía ekkjuna í Sarefta og hverju lofaði hann henni?

MÆÐGININ voru sársvöng og spámaður Guðs sömuleiðis. Ekkjan í Sarefta var að tína sprek til að kveikja eld þegar Elía spámaður bað hana að gefa sér vatn og brauð. Hún færði honum fúslega vatn að drekka en átti ekkert til matar annað en „mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús“. Henni fannst hún ekki hafa tök á að gefa spámanninum að borða og sagði honum það. — 1. Kon. 17:8-12.

2 „Bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér,“ sagði Elía, „síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna.“ — 1. Kon. 17:13, 14.

3. Hvaða mikilvægu ákvörðun þurfum við að taka?

3 Ekkjan stóð ekki aðeins frammi fyrir því að ákveða hvað hún ætti að gera við síðasta matarbitann. Málið snerist um það hvort hún myndi treysta Jehóva til að bjarga sér og syni sínum eða taka efnislegu þarfirnar fram yfir það að eignast velþóknun og vináttu Guðs. Við þurfum öll að taka sambærilega ákvörðun. Leggjum við meira upp úr því að hljóta velþóknun Jehóva en að tryggja efnislegt öryggi okkar? Við höfum ærna ástæðu til að treysta Guði og þjóna honum. Og við getum gert ýmislegt til að hljóta velþóknun hans.

,Verður ert þú að vera tilbeðinn‘

4. Af hverju verðskuldar Jehóva tilbeiðslu okkar?

4 Jehóva hefur rétt til að vænta þess af mönnum að þeir þjóni honum. Hópur þjóna hans á himni lýsti því yfir einum rómi og sagði: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinb. 4:11) Jehóva verðskuldar tilbeiðslu okkar vegna þess að hann er skaparinn.

5. Af hverju ætti kærleikur Guðs að vera okkur hvöt til að þjóna honum?

5 Takmarkalaus kærleikur Jehóva til okkar er önnur ástæða til að þjóna honum. „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd,“ segir í Biblíunni. „Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“ (1. Mós. 1:27) Maðurinn hefur frjálsan vilja og Guð gerði hann þannig úr garði að hann gæti hugsað og tekið ákvarðanir. Með því að gefa okkur lífið varð Jehóva faðir mannkyns. (Lúk. 3:38) Eins og allir góðir feður hefur hann gert allt sem hægt er til að sjá börnum sínum fyrir því sem þau þurfa til að lifa og líða vel. Hann „lætur sól sína renna upp“ og hann lætur „rigna“ þannig að reikistjarnan jörð framleiðir næga fæðu handa okkur í fögru umhverfi. — Matt. 5:45.

6, 7. (a) Hvað leiddi Adam yfir alla afkomendur sína? (b) Hvaða þýðingu hefur fórn Krists fyrir alla sem leita eftir velþóknun Guðs?

6 Jehóva hefur líka bjargað okkur undan skelfilegum afleiðingum syndarinnar. Þegar Adam syndgaði var hann eins og fjárhættuspilari sem stelur frá fjölskyldunni til að geta stundað iðju sína. Með því að gera uppreisn gegn Jehóva stal Adam frá börnum sínum möguleikanum á eilífri hamingju. Með eigingirni sinni ofurseldi hann mannkynið grimmum húsbónda — ófullkomleikanum. Allir menn eru því undirorpnir veikindum, sorgum og dauða. Til að frelsa þræl þarf að greiða gjald og Jehóva hefur greitt gjaldið sem getur frelsað okkur úr þessum hræðilegu fjötrum. (Lestu Rómverjabréfið 5:21.) Í samræmi við vilja föður síns gaf Jesús „líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Matt. 20:28) Þeir sem hljóta velþóknun Guðs fá innan skamms að njóta að fullu góðs af þessu lausnargjaldi.

7 Jehóva, skapari okkar, hefur gert allt sem hægt er til að við getum verið hamingjusöm og lifað innihaldsríku lífi. Ef við höfum velþóknun hans fáum við að upplifa hvernig hann gerir að engu allt það tjón sem mannkynið hefur orðið fyrir. Við fáum hvert og eitt að sjá hvernig Jehóva ,umbunar þeim er leita hans‘. — Hebr. 11:6.

„Þjóð þín kemur fúslega“

8. Hvaða lærdóm má draga af því þegar Jehóva óskaði eftir erindreka á dögum Jesaja?

8 Til að hljóta velþóknun Guðs þurfum við að nota frjálsa viljann rétt vegna þess að Jehóva neyðir engan til að þjóna sér. Á dögum Jesaja spurði hann: „Hvern skal ég senda? Hver vill reka erindi vort?“ Jehóva sýndi spámanninum virðingu með því að viðurkenna valfrelsi hans. Það var einkar ánægjulegt fyrir Jesaja að geta svarað: „Hér er ég. Send þú mig.“ — Jes. 6:8.

9, 10. (a) Með hvaða hugarfari ættum við að þjóna Guði? (b) Af hverju er viðeigandi að þjóna Jehóva af heilum hug?

9 Mönnum er frjálst að velja hvort þeir þjóna Guði eða ekki. Jehóva vill að við þjónum sér af fúsu og frjálsu geði. (Lestu Jósúa 24:15.) Við getum ekki þóknast honum ef við þjónum honum með ólund, og hann þiggur ekki tilbeiðslu þeirra sem eru fyrst og fremst að hugsa um að þóknast mönnum. (Kól. 3:22) Ef við létum veraldleg áhugamál takmarka þjónustu okkar við Guð myndi hann ekki hafa velþóknun á okkur. (2. Mós. 22:29) Jehóva veit að það er okkur til góðs að þjóna honum af heilum huga. Móse hvatti Ísraelsmenn til að velja lífið ,með því að elska Drottin Guð sinn, hlýða boði hans og halda sér fast við hann‘. — 5. Mós. 30:19, 20.

10 Davíð Ísraelskonungur söng frammi fyrir Jehóva: „Þjóð þín kemur fúslega er þú kveður til her þinn. Á helgum fjöllum fæddi ég þig eins og dögg úr skauti morgunroðans.“ (Sálm. 110:3) Margir leggja aðaláherslu á að tryggja fjárhagslegt öryggi sitt og lifa þægilegu lífi. En hjá þeim sem elska Jehóva gengur þjónustan við hann fyrir öllu öðru. Með því að boða fagnaðarerindið af kappi sýna þeir hvernig þeir forgangsraða. Þeir treysta fullkomlega að Jehóva geti séð þeim fyrir daglegum nauðsynjum. — Matt. 6:33, 34.

Fórnir sem Guð hefur velþóknun á

11. Hvað vildu Ísraelsmenn ávinna sér með því að færa Jehóva fórnir?

11 Meðan lagasáttmálinn var í gildi áunnu þjónar Guðs sér velvild hans með því að færa honum fórnir sem hann hafði velþóknun á. „Þegar þið slátrið dýri í lokasláturfórn handa Drottni skuluð þið slátra því þannig að þið hljótið velþóknun hans,“ segir í 3. Mósebók 19:5. Í sömu biblíubók stendur: „Þegar þið færið Drottni sláturfórn sem þakkarfórn skuluð þið bera hana þannig fram að hún afli ykkur velþóknunar.“ (3. Mós. 22:29) Þegar Ísraelsmenn færðu Jehóva viðeigandi dýr að fórn á altari steig upp reykur sem var honum „þekkur ilmur“. (3. Mós. 1:9, 13) Það gladdi hann að sjá þjóna sína tjá kærleika sinn með þessum hætti. (1. Mós. 8:21) Í þessum ákvæðum lögmálsins er að finna meginreglu sem er enn í gildi. Fólk hlýtur velþóknun Guðs með því að færa honum fórnir sem hann hefur velþóknun á. Hvers konar fórnir þiggur hann? Lítum á tvennt: hegðun okkar og tal.

12. Hvað gæti orðið til þess að Jehóva hefði andstyggð á fórn okkar?

12 Páll postuli sagði í Rómverjabréfinu: „Bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi.“ (Rómv. 12:1) Til að hljóta velþóknun Guðs þarf líkami okkar að vera honum þóknanlegur. Ef við saurguðum líkamann með tóbaki, fíkniefnum eða misnotkun áfengis yrði fórn okkar einskis virði. (2. Kor. 7:1) Og þar sem „saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama“ hefur Jehóva andstyggð á fórn þess sem gerir sig sekan um siðleysi af einhverju tagi. (1. Kor. 6:18) Til að þóknast Guði þurfum við að vera ,heilög í öllu dagfari okkar‘. — 1. Pét. 1:14-16.

13. Af hverju er viðeigandi að lofa Jehóva?

13 Önnur fórn, sem Jehóva hefur yndi af, tengist því hvernig við notum tunguna. Þeir sem elska Jehóva hafa alltaf lofað hann, bæði meðal almennings og innan veggja heimilisins. (Lestu Sálm 34:2-4.) Lestu Sálm 148-150 og taktu eftir hve oft við erum hvött í þessum þrem sálmum til að lofa Jehóva. Það eru orð að sönnu að „hreinlyndum hæfir að syngja lof“. (Sálm. 33:1) Og Jesús Kristur, fyrirmynd okkar, lagði áherslu á hve mikilvægt væri að lofa Guð með því að boða fagnaðarerindið. — Lúk. 4:18, 43, 44.

14, 15. Hvers konar fórnir hvatti Hósea Ísraelsmenn til að færa og hvernig brást Jehóva við?

14 Ef við prédikum af kappi er það merki þess að við elskum Jehóva og þráum velþóknun hans. Hugleiddu til dæmis hvernig Hósea spámaður hvatti og áminnti Ísraelsmenn sem höfðu snúið sér að falsguðadýrkun og glatað velþóknun Guðs. (Hós. 13:1-3) Hósea hvatti þá til að biðja til Jehóva: „Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.“ — Hós. 14:2, 3, Biblían 1981.

15 Þegar talað er um „ávöxt vara vorra“ er átt við einlæg og ígrunduð orð sem eru sögð til að lofa hinn sanna Guð. Hvernig brást Jehóva við þegar menn færðu slíkar fórnir? Hann sagðist myndu „elska þá af frjálsum og fúsum vilja“. (Hós. 14:5) Jehóva fyrirgaf þeim sem færðu slíkar lofgerðarfórnir og veitti þeim velþóknun sína og vináttu.

16, 17. Hvernig tekur Jehóva við lofgerð þess sem trúir á hann og boðar fagnaðaerindið?

16 Það hefur alltaf verið stór þáttur í sannri tilbeiðslu að lofa Jehóva meðal almennings. Sálmaritaranum var svo mikið í mun að lofa hinn sanna Guð að hann bað innilega: „Drottinn, tak með velþóknun við gjöfum munns míns.“ (Sálm. 119:108) Hvað um okkar tíma? Jesaja spáði að mikill fjöldi fólks á okkar tímum myndi „flytja Drottni lof“ og sagði að Jehóva myndi ,taka á móti gjöfum þeirra sem fórn á altari sitt‘. (Jes. 60:6, 7) Þetta rætist núna með þeim hætti að milljónir manna færa Guði „lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans“. — Hebr. 13:15.

17 Hvað um þig? Færir þú Guði fórnir sem hann hefur velþóknun á? Ef ekki, ætlarðu þá að gera nauðsynlegar breytingar og byrja að lofa Jehóva meðal almennings? Þegar trúin knýr þig til að byrja að boða fagnaðarerindið mun Jehóva ,líka það betur en uxar‘. (Lestu Sálm 69:31, 32.) Þú mátt treysta að ,hinn þægilegi fórnarilmur‘ berst til Jehóva og hann fær velþóknun á þér. (Esek. 20:41) Ekkert jafnast á við gleðina sem það mun veita þér.

Jehóva „blessar hinn réttláta“

18, 19. (a) Hvernig líta margir á það að þjóna Guði? (b) Hvað verður um þá sem glata velþóknun Guðs?

18 Margir hugsa eins og fólk gerði á dögum Malakís: „Það er til einskis að þjóna Guði. Hvaða ávinning höfum við af að hlýða boðum hans?“ (Mal. 3:14) Efnishyggjan ræður ferðinni hjá þeim. Þeir líta svo á að fyrirætlun Guðs nái aldrei fram að ganga og lög hans eigi ekki lengur við. Þeim finnst við vera að sóa tímanum með því að boða fagnaðarerindið og það er þeim til ama.

19 Þessar hugmyndir eiga rætur sína að rekja allt aftur til aldingarðsins Eden. Það var Satan sem taldi Evu á að lítilsvirða velþóknun Guðs og raunverulegt gildi þeirrar unaðslegu tilveru sem hún átti. Núna reynir Satan látlaust að telja fólki trú um að það sé enginn ávinningur af því að gera vilja Guðs. Eva og eiginmaður hennar uppgötvuðu hins vegar að það kostaði þau lífið að glata velþóknun Guðs. Þessi beiski sannleikur á bráðlega eftir að renna upp fyrir þeim sem líkja eftir slæmu fordæmi þeirra. — 1. Mós. 3:1-7, 17-19.

20, 21. (a) Hvað gerði ekkjan í Sarefta og hvernig farnaðist henni? (b) Hvernig ættum við að líkja eftir ekkjunni í Sarefta og hvers vegna?

20 Berðu nú saman dapurleg endalok Adams og Evu og það hvernig Elía og ekkjunni í Sarefta farnaðist í framhaldi af þeim atburðum sem áður er getið. Eftir að konan hafði hlustað á hvetjandi orð Elía fór hún að baka og færði honum svo brauðbita. Síðan gerði Jehóva eins og hann hafði lofað fyrir munn spámannsins. Í frásögunni segir: „Höfðu hún, Elía og sonur hennar, öll nóg að borða um langa hríð. Mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.“ — 1. Kon. 17:15, 16.

21 Ekkjan í Sarefta gerði nokkuð sem fáir myndu gera af þeim milljörðum manna sem byggja jörðina núna. Hún lagði allt sitt traust á Guð hjálpræðisins og hann brást henni ekki. Þessi frásaga Biblíunnar og margar aðrar staðfesta að Jehóva verðskuldar traust okkar. (Lestu Jósúa 21:43-45; 23:14.) Vottar Jehóva nú á dögum eru lifandi dæmi um að hann yfirgefur aldrei þá sem hann hefur velþóknun á. — Sálm. 34:7, 8, 18-20. *

22. Af hverju er áríðandi að sækjast þegar í stað eftir velþóknun Guðs?

22 Dómsdagur Guðs kemur bráðlega yfir „alla menn sem byggja gjörvalla jörð“. (Lúk. 21:34, 35) Það er engin undakomuleið. Efnisleg auðæfi eða þægindi geta aldrei jafnast á við það að heyra dómarann, sem Guð hefur skipað, segja: „Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað.“ (Matt. 25:34) Já, Jehóva ,blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð sinni eins og með skildi‘. (Sálm. 5:13) Höfum við ekki ríka ástæðu til að sækjast eftir velþóknun Guðs?

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Sjá Varðturninn 1. maí 2005, bls. 22, gr. 15, og enska útgáfu blaðsins 1. ágúst 1997, bls. 20-25.

Manstu?

• Hvers vegna verðskuldar Jehóva að við tilbiðjum hann af heilum hug?

• Hvaða fórnir þiggur Jehóva nú á tímum?

• Hvað er átt við þegar talað er um „ávöxt vara vorra“ og hvers vegna ættum við að færa Jehóva slíkar fórnir?

• Af hverju ættum við sækjast eftir velþóknun Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 13]

Hvað fór spámaður Guðs fram á við fátæka móður?

[Mynd á bls. 15]

Hvernig er það okkur til góðs að færa Jehóva lofgerðarfórnir?

[Mynd á bls. 17]

Jehóva bregst aldrei vonum þínum ef þú leggur allt þitt traust á hann.