Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

HVAÐ varð til þess að andfélagslegur pönkari lærði að elska annað fólk og vildi hjálpa því? Hver var ástæða þess að maður einn í Mexíkó sneri baki við siðlausu líferni? Hvers vegna hætti einn þekktasti hjólreiðamaður Japans að keppa í hjólreiðum til að geta þjónað Guði? Lítum á hvað þetta fólk hefur að segja.

„Ég var hrokafullur og árásargjarn ruddi.“ — DENNIS O’BEIRNE

FÆÐINGARÁR: 1958

FÖÐURLAND: ENGLAND

FORSAGA: ANDFÉLAGSLEGUR PÖNKARI

FORTÍÐ MÍN: Faðir minn var írskættaður og ég ólst upp í írsk-kaþólskri trú. Ég þurfti þó vanalega að fara til kirkju einsamall þótt mig langaði ekki til þess. En samt fann ég fyrir sterkri andlegri þörf. Ég fór reglulega með faðirvorið og man eftir að hafa legið í rúminu á kvöldin og hugsað um hvað þessi bæn þýddi. Ég skipti bæninni oft niður í minni einingar og braut heilann um hvað hver hluti þýddi.

Á unglingsárunum var ég í tengslum við Rastafari-hreyfinguna. Ég kynnti mér einnig stjórnmálasamtök eins og andnasista. En ég hafði mestan áhuga á að taka þátt í uppreisn pönkhreyfingarinnar. Ég neytti eiturlyfja, aðallega maríjúana, og reykti það nánast á hverjum degi. Mér var sama um allt, drakk stíft, lifði áhættusömu lífi og kærði mig lítið um annað fólk. Ég var andfélagslegur og talaði varla við aðra nema mér sjálfum fyndist umræðurnar vera þýðingarmiklar. Ég vildi jafnvel ekki láta taka myndir af mér. Þegar ég horfi til baka sé ég að ég var hrokafullur og árásargjarn ruddi. Ég var aðeins góður og örlátur við þá sem stóðu mér nærri.

Um tvítugsaldurinn fékk ég áhuga á Biblíunni. Vinur minn, sem var eiturlyfjasali, fór að lesa í Biblíunni þegar hann sat í fangelsi og við áttum langar samræður um trúmál, kirkjuna og hlutverk Satans í heiminum. Ég keypti mér biblíu og fór að rannsaka hana sjálfur. Við lásum einhvern hluta Biblíunnar, hittumst svo og ræddum um það sem við höfðum lært og drógum ákveðnar ályktanir. Þetta gerðum við svo mánuðum skipti.

Við drógum meðal annars eftirfarandi ályktanir af því sem við lásum: Að við lifum á síðustu dögum þessa heims og að kristnir menn eigi að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Þeir eigi ekki að vera hluti af þessum heimi og ættu því ekki að taka þátt í stjórnmálum og að áreiðanlegar leiðbeiningar um siðferðismál sé að finna í Biblíunni. Við sáum gjörla að það sem stóð í Biblíunni var sannleikur og það hlyti því að finnast sönn trú. En hvar var hana að finna? Við leiddum hugann að stóru kirkjudeildunum, íburði þeirra, viðhafnarsiðum og stjórnmálaítökum og sáum að þær áttu ekkert sameiginlegt með Jesú. Við vorum vissir um að Guð notaði þær ekki svo að við ákváðum að skoða minna þekkt trúfélög til að athuga hvað þau hefðu fram að færa.

Við funduðum með fylgismönnum ýmissa trúarhópa og lögðum fyrir þá fjölmargar spurningar. Við vissum hvaða svar Biblían hafði að geyma við hverri spurningu svo við gátum auðveldlega séð hvort þeir svöruðu í samræmi við orð Guðs. Eftir slíka fundi bað ég Guð ávallt um að gefa mér löngun til að hitta þá aftur ef þeir tilheyrðu hinni einu sönnu trú. En mörgum mánuðum síðar hafði ég ekki enn fundið trúarhóp sem svaraði spurningum okkar út frá Biblíunni. Mig langaði heldur ekki til að hitta neinn þeirra aftur.

Að lokum hittum við vinirnir votta Jehóva. Við spurðum þá sömu spurninganna en þeir svöruðu út frá Biblíunni. Það sem þeir sögðu var í fullu samræmi við það sem við höfðum lært. Við spurðum síðan spurninga sem við höfðum ekki enn fundið svör við í Biblíunni, til dæmis hvaða viðhorf Guð hefði til reykinga og eiturlyfjaneyslu. Enn og aftur gátu þeir gefið svör með því að nota Biblíuna. Við samþykktum að fara á samkomu í ríkissal þeirra.

Það reyndist mér mjög erfitt að vera á samkomunni. Ég var svo andfélagslegur að mér fannst óþægilegt að allt þetta vingjarnlega og vel klædda fólk heilsaði upp á mig. Ég var viss um að hvatir sumra væru ekki einlægar og vildi ekki fara á fleiri samkomur. En eins og fyrr bað ég til Guðs um að gefa mér löngun til að hitta þetta fólk aftur ef það tilheyrði hinni sönnu trú og fékk sterka löngun til að rannsaka Biblíuna með vottunum.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Ég vissi að ég þyrfti að hætta að neyta eiturlyfja og mér tókst það strax. En það var mun erfiðara að hætta að reykja. Ég reyndi mörgum sinnum en tókst það ekki. Þegar ég heyrði að aðrir höfðu einfaldlega hent sígarettunum og aldrei reykt framar lagði ég málið fyrir Jehóva. Eftir það gat ég hætt að reykja með hjálp hans. Ég lærði að það borgar sig ávallt að tala opinskátt og einlæglega við Jehóva í bæn.

Ég gerði fleiri veigamiklar breytingar og nú var komið að klæðnaði mínum og útliti. Þegar ég kom fyrst á samkomu í ríkissalnum var ég með pönkhárgreiðslu og hafði litað skærbláa rönd í hárið sem ég litaði síðar appelsínugula. Ég klæddist gallabuxum og leðurjakka með áprentuðum slagorðum. Ég sá enga þörf á breytingu jafnvel þótt vottarnir ræddu vingjarnlega um það við mig. En um síðir fór ég að velta fyrir mér orðunum í 1. Jóhannesarbréfi 2:15-17 þar sem segir: „Elskið hvorki heiminn né það sem í heiminum er. Sá sem elskar heiminn elskar ekki föðurinn.“ Ég gerði mér grein fyrir að með útliti mínu var ég að sýna að ég elskaði heiminn og ef ég ætlaði að sýna að ég elskaði Guð þyrfti ég að breytast. Og það gerði ég.

Með tímanum skildi ég að það voru ekki einungis vottarnir sem vildu að ég mætti á samkomur. Það sem stóð í Hebreabréfinu 10:24, 25 leiddi mér fyrir sjónir að Guð vildi að ég gerði það. Eftir að ég fór að sækja allar samkomurnar og kynnast fólkinu betur ákvað ég að vígja mig Jehóva og láta skírast.

ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Það snertir mig djúpt að Jehóva skuli leyfa okkur að eiga náið samband við sig. Umhyggja hans og hluttekning hefur verið mér hvatning til að líkja eftir honum og fylgja fordæmi sonar hans, Jesú Krists. (1. Pétursbréf 2:21) Ég hef lært að þótt ég rækti með mér kristna eiginleika geti ég samt haft mín eigin persónueinkenni. Ég hef tamið mér að vera kærleiksríkur og umhyggjusamur og reyni að líkja eftir Kristi í framkomu gagnvart eiginkonu minni og syni. Mér þykir líka mjög vænt um trúsystkini mín. Með því að fylgja fordæmi Krists hef ég nú öðlast reisn, sjálfsvirðingu og getu til að sýna öðrum kærleika.

„Þeir sýndu mér virðingu.“ — GUADALUPE VILLARREAL

FÆÐINGARÁR: 1964

FÖÐURLAND: MEXÍKÓ

FORSAGA: SIÐLAUST LÍFERNI

FORTÍÐ MÍN: Ég var einn af sjö systkinum og ólst upp í borginni Hermosillo í Sonora í Mexíkó en þar um slóðir ríkir mikil fátækt. Faðir minn lést þegar ég var lítill strákur þannig að móðir mín þurfti að fara að vinna til að sjá fyrir okkur. Ég var oftast berfættur þar sem við höfðum ekki efni á að kaupa skó. Strax á barnsaldri fór ég að vinna til að hjálpa fjölskyldunni fjárhagslega. Við bjuggum mjög þröngt eins og svo margar fjölskyldur.

Mestan hluta dags var móðir mín ekki nálægt til að vernda okkur börnin. Þegar ég var 6 ára varð ég fórnarlamb kynferðisofbeldis. Sá sem misnotaði mig var 15 ára. Misnotkunin stóð yfir í langan tíma og ein afleiðingin varð sú að ég varð mjög ráðvilltur í kynferðismálum. Ég hélt að það væri eðlilegt að laðast að karlmönnum. Þegar ég leitaði mér hjálpar hjá læknum eða prestum fullvissuðu þeir mig um að ég ætti ekki við nein vandamál að stríða og að tilfinningar mínar væru eðlilegar.

Þegar ég var 14 ára tók ég þá ákvörðun að klæðast og hegða mér sem samkynhneigður. Þannig lifði ég næstu 11 árin og bjó jafnvel með nokkrum mönnum á því tímabili. Ég fór á námskeið til þess að læra hárgreiðslu og opnaði síðan hárgreiðslustofu. En ég var ekki hamingjusamur. Mér leið mjög illa og fannst ég hafa verið svikinn. Ég hafði það stöðugt á tilfinningunni að ég væri að gera eitthvað rangt. Ég fór að spyrja sjálfan mig að því hvort það væri yfirleitt til gott fólk sem væri þess virði að kynnast.

Mér varð hugsað til eldri systur minnar. Hún hafði byrjað að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva og lét seinna skírast. Hún sagði mér frá því sem hún lærði en ég hlustaði ekki á hana. Samt sem áður dáðist ég að lífsstefnu hennar og hjónabandi. Ég tók eftir því að þau hjónin sýndu hvort öðru sanna ást og virðingu og voru góð hvort við annað. Með tímanum fór einn af vottunum að fræða mig um Biblíuna. Til að byrja með hafði ég engan raunverulegan áhuga en svo breyttust hlutirnir.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Vottarnir buðu mér á samkomu og ég fór. Það var alveg ný reynsla fyrir mig. Vanalega gerði fólk grín að mér en það gerðu vottarnir ekki. Það var tekið vel á móti mér og þeir sýndu mér virðingu. Það hafði mikil áhrif á mig.

Ég kunni enn betur við vottana eftir að ég sótti mót á vegum þeirra. Ég sá að jafnvel í stórum hópum voru þeir eins og systir mín — einlægir og góðir. Ég hugleiddi hvort ég hefði loksins fundið þetta góða fólk sem ég hefði leitað lengi að og sem væri þess virði að kynnast. Ég var agndofa yfir kærleika þeirra og einingu og einnig vegna þess að þeir gátu svarað öllum spurningum með því að vitna í Biblíuna. Ég áttaði mig á að allt það góða í lífi þeirra var Biblíunni að þakka. Og ég skildi líka að ég þyrfti að gera talsverðar breytingar á lífi mínu til að geta orðið vottur.

Staðreyndin var sú að ég þurfti að gerbreyta lífi mínu vegna þess að ég var mjög kvenlegur. Talsmáti minn og framkoma, klæðnaður og hárgreiðsla varð að breytast og einnig val mitt á vinum. Fyrrverandi vinir mínir gerðu grín að mér og sögðu: „Hvers vegna ertu að þessu? Þú varst fínn eins og þú varst. Hættu að lesa í Biblíunni. Þú hefur allt sem þú þarft.“ En það sem var erfiðast var að hætta siðlausu líferni.

Ég vissi hins vegar að miklar breytingar voru mögulegar vegna þess að það stendur í Biblíunni. Orðin í 1. Korintubréfi 6:9-11 höfðu mikil áhrif á mig: „Vitið þið ekki að ranglátir munu ekki erfa Guðs ríki? Villist ekki! Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar . . . fær að erfa Guðs ríki. Og þannig voruð þið sumir hverjir. En þið létuð laugast.“ Fyrr á tímum hafði Jehóva hjálpað fólki að gera nauðsynlegar breytingar og hann hjálpaði mér líka. Baráttan tók nokkur ár en leiðsögn og kærleikur vottanna var mér mikill stuðningur.

ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Nú lifi ég eðlilegu lífi. Ég er giftur og við hjónin kennum syni okkar að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Minn fyrri lífsmáti er löngu að baki og ég nýt þess að starfa með söfnuðinum. Ég þjóna sem safnaðaröldungur og hef hjálpað öðrum að kynnast sannleikanum í orði Guðs. Móðir mín var svo ánægð með breytingarnar sem ég gerði á lífi mínu að hún þáði biblíunámskeið og er nú skírður vottur Jehóva. Yngri systir mín, sem hafði áður lifað siðlausu lífi, gerðist einnig vottur Jehóva.

Sumir sem þekkja mig frá fyrri tíð viðurkenna að ég hafi breyst til hins betra og ég veit hverjum það er að þakka. Áður fyrr hafði ég leitað hjálpar sérfræðinga en aðeins fengið slæm ráð. Raunverulega hjálpin kom hins vegar frá Jehóva. Jafnvel þó að mér fyndist ég vera óverðugur tók hann eftir mér og sýndi mér kærleika og þolinmæði. Það réð sannarlega úrslitum að svo stórkostlegur, vitur og kærleiksríkur Guð skyldi bera umhyggju fyrir mér og óska mér betra lífs.

„Ég var óánægður, einmana og innantómur.“ — KAZUHIRO KUNIMOCHI

FÆÐINGARÁR: 1951

FÖÐURLAND: JAPAN

FORSAGA: ATVINNUMAÐUR Í HJÓLREIÐUM

FORTÍÐ MÍN: Ég ólst upp í friðsælum hafnarbæ í héraðinu Shizuoka í Japan. Við vorum átta í fjölskyldunni og bjuggum í litlu húsi. Faðir minn rak reiðhjólaverslun. Ég var ekki hár í loftinu þegar hann tók mig með á hjólreiðakeppnir og þar með kviknaði áhugi minn á íþróttinni. Faðir minn byrjaði síðan að leggja drög að atvinnumannaferli mínum í hjólreiðum. Ég var enn í grunnskóla þegar hann fór að þjálfa mig fyrir alvöru. Þegar ég var í framhaldsskóla sigraði ég þrjú ár í röð á landsmóti í hjólreiðum. Mér stóð til boða að komast í háskóla en ákvað frekar að fara strax í skóla sem var fyrir hjólreiðakappa. Þegar ég var 19 ára var ég orðinn atvinnumaður í íþróttinni.

Markmið mitt í lífinu á þessum tíma var að verða fremsti hjólreiðakappi Japans. Ég ætlaði að verða ríkur þannig að ég gæti veitt fjölskyldu minni öruggt og gott líf. Ég æfði öllum stundum. Þegar ég var að niðurlotum kominn eftir æfingar eða erfiða keppni taldi ég sjálfum mér trú um að ég væri fæddur til að keppa í hjólreiðum og að ég þyrfti bara einhvern veginn að þrauka áfram! Sem ég og gerði. Árangur þrotlausra æfinga fór að koma í ljós. Fyrsta árið vann ég nýliðakeppnina í íþróttinni. Árið þar á eftir komst ég í aðalkeppnina um titilinn besti hjólreiðakappi Japans. Ég hafnaði sex sinnum í öðru sæti í þeirri keppni.

Þar sem ég var nú meðal hinna bestu og sigurstranglegustu í íþróttinni varð ég þekktur sem sá fótasterki frá Tokai, en það er hérað í Japan. Ég var mikill keppnismaður og með tímanum fékk ég það orð á mig að vera miskunnarlaus keppinautur á hjólreiðamótum. Tekjur mínar jukust og ég gat keypt allt sem hugurinn girntist. Ég keypti hús með æfingasal sem var búinn öllum bestu æfingatækjunum. Ég keypti mér útlendan bíl sem kostaði næstum jafnmikið og hús. Til að tryggja mig fjárhagslega fór ég að fjárfesta á fasteigna- og verðbréfamarkaðnum.

Ég var óánægður, einmana og innantómur þrátt fyrir allt. Þegar hér var komið sögu var ég giftur og átti börn en ég var oft óþolinmóður við fjölskylduna. Ég missti stjórn á skapi mínu við konuna og börnin vegna smámuna. Þau voru kvíðafull og voru farin virða fyrir sér svipinn á mér til að athuga hvort ég væri í vondu skapi eina ferðina enn.

Seinna fór eiginkona mín að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva. Það hafði í för með sér miklar breytingar. Hún sagðist vilja fara á samkomur hjá vottunum svo að ég ákvað að við færum saman sem fjölskylda. Ég man enn kvöldið þegar öldungur bankaði upp á hjá okkur og fór að ræða við mig um Biblíuna. Það sem ég lærði hafði mikil áhrif á mig.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Ég mun aldrei gleyma hvernig mér leið þegar ég las Efesusbréfið 5:5, en þar segir: „Enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn — sem er sama og að dýrka hjáguði — á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.“ Ég gerði mér grein fyrir að hjólreiðakeppnin, sem ég stundaði, tengdist veðmálum og að þessi íþrótt stuðlaði að ágirnd. Samviskan fór að segja til sín. Mér fannst að ef ég vildi vera Guði velþóknanlegur yrði ég að hætta að keppa. En það var erfið ákvörðun.

Mitt allra besta keppnisár var nýliðið og ég þráði fleiri sigra. Samt fann ég að þegar ég fræddist um Biblíuna fylltist ég innri friði og ró — sem var allt annað en það hugarfar sem ég þurfti til að sigra í keppnum. Ég tók einungis þátt í þremur keppnum eftir að ég byrjaði að kynna mér Biblíuna en í hjarta mínu fann ég að ég hafði ekki alveg sleppt takinu á hjólreiðunum. Þar fyrir utan vissi ég ekki hvernig ég átti þá að sjá fyrir fjölskyldunni. Ég var alveg ráðalaus og ættingjar mínir fóru að vera með leiðindi vegna trúar minnar. Faðir minn var afar vonsvikinn. Þetta olli mikilli togstreitu innra með mér og það endaði með að ég fékk magasár.

Það sem hjálpaði mér í gegnum þennan erfiða tíma var að ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna og fara á samkomur hjá vottunum. Smám saman styrktist ég í trúnni. Ég bað Jehóva um að hlusta á bænir mínar og sýna mér að hann gerði það. Það dró líka úr streitunni þegar eiginkona mín fullvissaði mig um að hún þyrfti ekki að búa í stóru húsi til þess að vera ánægð. Ég tók smám saman framförum.

ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Ég hef svo sannarlega upplifað að orð Jesú í Matteusi 6:33 eru sönn. Þar segir: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Okkur hefur aldrei skort nauðsynjar. Jafnvel þótt tekjur mínar séu einungis þrjú til fjögur prósent af því sem ég vann fyrir sem keppnismaður hefur fjölskylduna aldrei skort neitt síðastliðin 20 ár.

Það sem meira er, þegar ég starfa með trúsystkinum mínum, hvort sem er við vinnu eða í boðunarstarfinu, þá finn ég fyrir gleði og lífsfyllingu sem ég vissi ekki að væri möguleg. Tíminn hreinlega flýgur áfram. Fjölskyldulíf mitt er líka miklu betra. Synir okkar þrír og eiginkonur þeirra eru öll trúfastir þjónar Jehóva.