Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heiðraðu Guð með ákvörðunum þínum

Heiðraðu Guð með ákvörðunum þínum

Heiðraðu Guð með ákvörðunum þínum

„Hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ — ORÐSKV. 14:15.

1, 2. (a) Hvað ætti alltaf að vera okkur efst í huga þegar við tökum ákvarðanir? (b) Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

VIÐ tökum sennilega fjölda ákvarðana á hverjum degi. Margar hafa litla þýðingu til langs tíma litið. Sumar geta þó haft mikil áhrif á líf okkar. Þegar við tökum ákvarðanir í stóru eða smáu er okkur alltaf efst í huga að heiðra Guð. — Lestu 1. Korintubréf 10:31.

2 Áttu auðvelt með að taka ákvarðanir eða finnst þér það erfitt? Til að ná kristnum þroska þurfum við að læra að greina rétt frá röngu og taka síðan ákvarðanir í samræmi við okkar eigin sannfæringu en ekki annarra. (Rómv. 12:1, 2; Hebr. 5:14) Hvað annað knýr á að við lærum að taka skynsamlegar ákvarðanir? Af hverju er það stundum svona erfitt? Og hvað getum við gert til að tryggja að við heiðrum Guð með ákvörðunum okkar?

Af hverju þurfum við að taka ákvarðanir?

3. Hvað má ekki hindra að við tökum skynsamlegar ákvarðanir?

3 Ef við erum tvístígandi þegar meginreglur Biblíunnar eiga í hlut gætu skólafélagar eða vinnufélagar ímyndað sér að við séum veik í trúnni og það sé því auðvelt að hafa áhrif á okkur. Þeir ljúga kannski, svindla eða stela og reyna síðan að fá okkur til að „fylgja meirihlutanum“ með því að gera eins og þeir eða hylma að minnsta kosti yfir með þeim. (2. Mós. 23:2) En ef við lærum að taka skynsamlegar ákvarðanir heiðrum við Guð og víkjum ekki frá meginreglum Biblíunnar vegna ótta eða löngunar til að falla inn í hópinn. Við gætum þess að gera ekki neitt sem stríðir gegn biblíufræddri samvisku okkar. — Rómv. 13:5.

4. Af hverju gætu aðrir viljað taka ákvarðanir fyrir okkur?

4 Það er ekki sjálfgefið að þeir sem vilja taka ákvarðanir fyrir okkur vilji okkur illt. Góðviljaðir vinir ætlast kannski til að við fylgjum ráðum þeirra. Fjölskyldunni er örugglega annt um okkur og vill kannski halda áfram að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem við þurfum að taka, þótt við séum flutt að heiman. Tökum læknismeðferð sem dæmi. Misnotkun blóðs er bönnuð samkvæmt Biblíunni. (Post. 15:28, 29) Hins vegar er margt annað, sem snýr að læknismeðferð, þess eðlis að hver og einn þarf að ákveða sjálfur hvers konar meðferð hann þiggur eða þiggur ekki. * Hugsanlegt er að ástvinir okkar hafi ákveðnar skoðanir á þessum málum. Vígðir og skírðir kristnir menn þurfa hins vegar að „bera sína byrði“ sjálfir þegar þeir taka ákvarðanir um læknismeðferð. (Gal. 6:4, 5) Okkur er öðru fremur umhugað um að varðveita góða samvisku gagnvart Guði. — 1. Tím. 1:5.

5. Hvernig getum við forðast skipbrot á trú okkar?

5 Það getur verið stórhættulegt að vera óákveðinn. Lærisveinninn Jakob skrifaði að óákveðinn maður sé „reikull í öllu atferli sínu“. (Jak. 1:8) Sá sem lætur stjórnast af síbreytilegum skoðunum manna er eins og maður á stýrislausum báti í ólgusjó. Það er mikil hætta á að slíkur maður líði skipbrot á trú sinni og kenni síðan öðrum um. (1. Tím. 1:19) Við þurfum að vera „staðföst í trúnni“ til að það fari ekki þannig fyrir okkur. (Lestu Kólossubréfið 2:6, 7.) Til að verða staðföst þurfum við að læra að taka ákvarðanir sem vitna um að við treystum innblásnu orði Guðs. (2. Tím. 3:14-17) En hvað getur tálmað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir?

Hvers vegna getur verið erfitt að ákveða sig?

6. Hvaða áhrif getur ótti haft á okkur?

6 Ótti getur verið lamandi — ótti við að taka ranga ákvörðun, ótti við að mistakast eða ótti við að öðrum finnist maður fara heimskulega að ráði sínu. Það er skiljanlegt. Enginn vill taka óskynsamlega ákvörðun sem getur valdið erfiðleikum og jafnvel skömm. En ef við elskum Guð og orð hans getur það dregið úr óttanum. Hvernig þá? Ef við elskum Guð leitum við alltaf ráða í Biblíunni og biblíutengdum ritum áður en við tökum mikilvægar ákvarðanir. Það dregur úr hættunni á mistökum. Af hverju? Af því að Biblían getur ,verið óreyndum til ráðgjafar og veitt unglingum þekkingu og forsjálni‘. — Orðskv. 1:4.

7. Hvað getum við lært af Davíð konungi?

7 Tökum við alltaf réttar ákvarðanir? Nei, öllum verða á mistök. (Rómv. 3:23) Davíð konungur var bæði vitur maður og trúr Guði. Hann tók samt stundum rangar ákvarðanir og hann og aðrir þurftu síðan að líða fyrir það. (2. Sam. 12:9-12) En mistök hans urðu ekki til þess að hann hætti að geta tekið ákvarðanir sem Guð hafði velþóknun á. (1. Kon. 15:4, 5) Við getum líka verið einbeitt þótt við gerum stundum mistök, ef við höfum hugfast að Jehóva lítur fram hjá því sem okkur verður á og fyrirgefur syndir okkar. Hann styður þá sem elska hann og hlýða honum. — Sálm. 51:3-5, 9-12.

8. Hvað má læra af því sem Páll postuli sagði um hjónaband?

8 Við getum dregið úr kvíðanum sem fylgir því að taka ákvarðanir. Hvernig? Með því að hafa hugfast að stundum er um fleiri en eina rétta leið að velja. Tökum eftir hvernig Páll postuli ræddi um hjónaband. Honum var innblásið að skrifa: „Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá geri hann sem hann vill ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau. Sá þar á móti sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey gerir vel.“ (1. Kor. 7:36-38) Páll benti á að það væri betri kostur að vera einhleypur en það var ekki eini rétti kosturinn.

9. Ættum við að velta fyrir okkur hvernig aðrir líta á ákvarðanir okkar? Skýrðu svarið.

9 Ættum við að velta fyrir okkur hvernig aðrir líta á ákvarðanir okkar? Já, að vissu marki. Munum hvað Páll sagði um það að neyta kjöts sem virtist hafa verið fært skurðgoðum að fórn. Hann viðurkenndi að ákvörðun þurfi ekki að vera röng í sjálfu sér en hún geti hins vegar verið til tjóns fyrir þá sem eru með óstyrka samvisku. Hann skrifaði: „Ef matur verður einhverju trúsystkina minna til falls, [mun ég] ekki neyta kjöts um aldur og ævi til þess að ég verði þeim ekki til falls.“ (1. Kor. 8:4-13) Við þurfum líka að íhuga hvaða áhrif ákvarðanir okkar hafi á samvisku annarra. En fyrst og fremst hugsum við um áhrif þeirra á vináttusamband okkar við Jehóva. (Lestu Rómverjabréfið 14:1-4.) Hvaða meginreglur geta hjálpað okkur að heiðra Guð með ákvörðunum okkar?

Sex skref til að taka skynsamlegar ákvarðanir

10, 11. (a) Hvernig getum við sýnt hógværð innan fjölskyldunnar? (b) Hvað ættu öldungar að hafa í huga þegar þeir taka ákvarðanir sem snerta söfnuðinn?

10Vertu hógvær. Áður en við tökum ákvörðun þurfum við að spyrja okkur hvort það sé okkar að taka hana. Salómon konungur skrifaði: „Komi hroki kemur og smán en hjá hinum hógværu er viska.“ — Orðskv. 11:2.

11 Foreldrar geta leyft börnunum að taka ýmsar ákvarðanir en börnin ættu ekki ganga að því sem vísu að þau fái það. (Kól. 3:20) Eiginkonur og mæður fara með visst forræði í fjölskyldunni en þær eiga líka að virða forræði eiginmannsins. (Orðskv. 1:8; 31:10-18; Ef. 5:23) Og eiginmenn þurfa að hafa hugfast að forræði þeirra eru takmörk sett og þeir þurfa að lúta Kristi. (1. Kor. 11:3) Öldungar taka ákvarðanir sem hafa áhrif á söfnuðinn. Þeir gæta þess hins vegar að ,fara ekki lengra en ritað er‘ í orði Guðs. (1. Kor. 4:6) Þeir fylgja líka gaumgæfilega leiðbeiningum hins trúa þjóns. (Matt. 24:45-47) Við getum hlíft sjálfum okkur og öðrum við heilmiklum kvíða og erfiðleikum ef við sýnum þá hógværð að taka einungis ákvarðanir í málum sem við höfum umboð til.

12. (a) Af hverju ættum við að hugsa málið vel áður en við ákveðum okkur? (b) Útskýrðu hvernig hægt sé að skoða málið áður en maður tekur ákvörðun.

12Skoðaðu málið vel. „Áform hins iðjusama færa arð en hroðvirkni endar í örbirgð,“ skrifaði Salómon. (Orðskv. 21:5) Segjum að þú sért að velta fyrir þér viðskiptatækifæri. Láttu þá ekki tilfinningarnar ráða ferðinni. Aflaðu þér allra nauðsynlegra upplýsinga, leitaðu ráða hjá öðrum sem þekkja til og kannaðu hvaða meginreglur í Biblíunni eiga við í þessu máli. (Orðskv. 20:18) Taktu saman tvo lista, annan yfir kostina og hinn yfir gallana. ,Reiknaðu kostnaðinn‘ áður en þú ákveður þig. (Lúk. 14:28) Veltu fyrir þér hvaða áhrif ákvörðunin geti haft á fjárhag þinn en þó sérstaklega á samband þitt við Jehóva. Það tekur tíma og kostar vinnu að skoða málið vel. En ef þú gerir það er trúlega lítil hætta á að þú ákveðir þig í fljótfærni og valdir sjálfum þér óþörfum áhyggjum og erfiðleikum.

13. (a) Hvaða loforð er að finna í Jakobsbréfinu 1:5? (b) Af hverju ættum við að biðja um heilagan anda Guðs?

13Biddu Jehóva að gefa þér visku. Við heiðrum ekki Guð með ákvörðunum okkar nema við biðjum um hjálp hans. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og honum mun gefast.“ (Jak. 1:5) Það er engin skömm að viðurkenna að við þurfum viskuna, sem Guð gefur, til að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Orðskv. 3:5, 6) Við getum hæglega lent á villigötum ef við reiðum okkur aðeins á eigið hyggjuvit. Þegar við biðjum Jehóva að gefa okkur visku og kynnum okkur meginreglur Biblíunnar fáum við hjálp heilags anda til að kanna af hverju okkur langar í raun og veru til að fara ákveðna leið. — Hebr. 4:12; lestu Jakobsbréfið 1:22-25.

14. Af hverju ættum við ekki að draga á langinn að ákveða okkur?

14Taktu ákvörðun. Anaðu ekki út í að taka ákvörðun fyrr en þú ert búinn að kynna þér málið vel og biðja Jehóva um visku. Vitur manneskja „kann fótum sínum forráð“. (Orðskv. 14:15) En dragðu ekki heldur á langinn að ákveða þig. Fólk kemur stundum með fáránlegar afsakanir fyrir því að halda að sér höndum. (Orðskv. 22:13) En í rauninni er fólk þar með að taka vissa ákvörðun vegna þess að það ákveður að láta aðra stjórna lífi sínu.

15, 16. Hvað fylgir því að hrinda ákvörðun í framkvæmd?

15Hrintu ákvörðuninni í framkvæmd. Það er til lítils að leggja vinnu í að taka skynsamlega ákvörðun ef við fylgjum henni ekki eftir með því að hrinda henni í framkvæmd. „Allt sem hönd þín megnar að gera með kröftum þínum, gerðu það,“ skrifaði Salómon. (Préd. 9:10) Til að vel fari þurfum við að vera reiðubúin að kosta til því sem þarf svo að ákvörðunin nái fram að ganga. Segjum til dæmis að safnaðarboðberi ákveði að gerast brautryðjandi. Tekst honum það? Sennilega, ef hann eyðir ekki svo miklum tíma og kröftum í vinnu og afþreyingu að hann eigi lítið aflögu til að sinna boðunarstarfinu.

16 Bestu ákvarðanirnar eru sjaldan auðveldastar í framkvæmd. Af hverju? Af því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. (1. Jóh. 5:19) Við eigum í baráttu við „heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum“. (Ef. 6:12) Bæði Páll postuli og lærisveinninn Júdas benda á að þeir sem ákveða að vera Guði til heiðurs þurfi að berjast fyrir því. — 1. Tím. 6:12; Júd. 3.

17. Hvers væntir Jehóva af okkur í sambandi við ákvarðanir sem við tökum?

17Endurskoðaðu ákvörðunina og breyttu henni ef þörf krefur. Það ganga ekki allar ákvarðanir eftir alveg eins og til stóð. „Tími og tilviljun“ hittir okkur öll fyrir. (Préd. 9:11) Jehóva ætlast þó til þess að við stöndum við sumar af ákvörðunum okkar þótt erfiðleikar verði á veginum. Sá sem ákveður að vígja Jehóva líf sitt eða gefa hjúskaparheit getur ekki gengið á bak orða sinna. Guð ætlast til þess að við stöndum við ákvarðanir sem þessar. (Lestu Sálm 15:1, 2, 4.) Fæstar ákvarðanir eru þó svona alvarlegar. Vitur maður endurskoðar ákvarðanir sínar af og til. Hann lætur ekki stolt eða þrjósku aftra sér frá að breyta ákvörðun sinni eða taka hana til baka ef svo ber undir. (Orðskv. 16:18) Honum er mest í mun að gæta þess að hann sé Guði til heiðurs með lífsstefnu sinni.

Kenndu öðrum að heiðra Guð með ákvörðunum sínum

18. Hvernig geta foreldrar kennt börnum sínum að taka skynsamlegar ákvarðanir?

18 Foreldrar geta kennt börnunum að taka skynsamlegar ákvarðanir og heiðra Guð. Gott fordæmi er einhver besti kennarinn. (Lúk. 6:40) Þegar við á geta foreldrar skýrt fyrir börnunum hvernig þeir fóru að því að taka vissar ákvarðanir. Þeir geta líka leyft börnunum að taka eigin ákvarðanir í sumum málum og síðan hrósað þeim þegar vel gengur. En segjum að barnið taki óviturlega ákvörðun. Fyrstu viðbrögð foreldranna gætu verið þau að hlífa barninu við afleiðingunum en það er ekki víst að það sé barninu fyrir bestu. Segjum að unglingur fái ökuréttindi og fái síðan sekt fyrir umferðarlagabrot. Foreldrarnir gætu greitt sektina. En ef unglingurinn þarf að vinna sjálfur fyrir sektinni er líklegra að hann læri að bera ábyrgð á gerðum sínum. — Rómv. 13:4.

19. Hvað ættum við að kenna biblíunemendum okkar og hvernig getum við gert það?

19 Jesús sagði fylgjendum sínum að kenna öðrum. (Matt. 28:20) Eitt það mikilvægasta, sem við getum kennt biblíunemendum, er að taka skynsamlegar ákvarðanir. Til að gera það vel verðum við að standast freistinguna að segja þeim hvað þeir eigi að gera. Það er miklu betra að kenna þeim að hugsa út frá meginreglum Biblíunnar þannig að þeir geti ákveðið sjálfir hvað þeir eigi að gera. Þegar öllu er á botninn hvolft „skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér“. (Rómv. 14:12) Það er því ærin ástæða fyrir okkur öll til að heiðra Guð með ákvörðunum okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Fjallað er um þetta mál í viðaukanum „Hvernig á ég að líta á blóðþætti og læknismeðferð þar sem mitt eigið blóð er notað?“ en hann birtist í Ríkisþjónustu okkar í nóvember 2006, bls. 3-6.

Hvert er svarið?

• Af hverju þurfum við að læra að taka ákvarðanir?

• Hvernig gæti ótti verið okkur til trafala og hvernig getum við sigrast á honum?

• Hvaða sex skref er hægt að stíga til að tryggja að við heiðrum Guð með ákvörðunum okkar?

[Spurningar]

[Rammi/​mynd á bls. 16]

Sex skref til að taka skynsamlegar ákvarðanir

1 Vertu hógvær.

2 Skoðaðu málið vel.

3 Biddu Jehóva að gefa þér visku.

4 Taktu ákvörðun.

5 Hrintu ákvörðuninni í framkvæmd.

6 Endurskoðaðu og breyttu ef þörf krefur.

[Mynd á bls. 15]

Óákveðinn maður er eins og maður á stýrislausum báti í ólgusjó.