Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ávöxtur andans“ er Guði til vegsemdar

„Ávöxtur andans“ er Guði til vegsemdar

„Ávöxtur andans“ er Guði til vegsemdar

„Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt.“ — JÓH. 15:8.

1, 2. (a) Hvaða tækifæri höfum við til að hvetja og uppörva aðra? (b) Hvaða gjöf hefur Jehóva gefið sem gerir okkur hæf til að þjóna honum enn betur?

SJÁUM fyrir okkur tvennar aðstæður: Systir í söfnuðinum tekur eftir að yngri trúsystir hennar virðist áhyggjufull. Hún býður henni með sér í boðunarstarfið. Þær spjalla saman meðan þær ganga milli húsa og yngri systirin fer þá að segja hinni frá því sem henni liggur á hjarta. Síðar sama dag biður unga konan til Jehóva og þakkar honum fyrir umhyggjuna sem eldri systirin sýndi henni. Þetta var einmitt það sem hana vantaði. Lítum á hitt dæmið: Hjón eru nýkomin heim eftir að hafa boðað fagnaðarerindið erlendis. Þau eru stödd í boði og segja spennt frá því sem dreif á daga þeirra. Ungur bróðir hlustar hljóður á. Nokkrum árum síðar er hann sjálfur að leggja af stað til að boða fagnaðarerindið erlendis og verður þá hugsað til hjónanna og frásagnanna sem urðu til þess að hann langaði til að gerast trúboði.

2 Dæmin hér að ofan minna þig ef til vill á manneskju sem hafði jákvæð áhrif á þig eða einhvern sem þú hafðir jákvæð áhrif á. Það er auðvitað sjaldgæft að eitt samtal sé svona áhrifamikið. Hins vegar höfum við tækifæri daglega til að hvetja aðra og styrkja. Hugsaðu þér ef til væri einhver leið til að bæta og efla hæfileika þína og eiginleika svo að þú gætir verið trúsystkinum þínum til enn meiri stuðnings og þjónað Jehóva enn betur. Væri það ekki frábært? Sannleikurinn er sá að Jehóva gefur okkur þannig gjöf, það er að segja heilagan anda sinn. (Lúk. 11:13) Þegar við leyfum anda Guðs að hafa áhrif á okkur skapar hann í fari okkar fagra eiginleika sem gera okkur hæf til að þjóna honum enn betur á öllum sviðum. Er þetta ekki einstök gjöf? — Lestu Galatabréfið 5:22, 23.

3. (a) Hvernig erum við Guði til vegsemdar þegar við þroskum með okkur ávöxt andans? (b) Á hvaða spurningar ætlum við að líta?

3 Eiginleikarnir, sem heilagur andi skapar í fari fólks, endurspegla persónuleika Jehóva Guðs sjálfs sem gefur okkur andann. (Kól. 3:9, 10) Jesús gaf í skyn hvert ætti að vera helsta tilefni kristinna manna til að líkja eftir Guði. Hann sagði við postulana: „Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt.“ * (Jóh. 15:8) Þegar við þroskum með okkur,ávöxt andans‘ sýnir hann sig greinilega í tali okkar og hegðun, og þannig erum við Jehóva til vegsemdar. (Matt. 5:16) Að hvaða leyti er ávöxtur andans ólíkur þeim einkennum sem blasa við í heimi Satans? Hvernig getum við þroskað með okkur ávöxt andans? Af hverju getur það reynst töluverð áskorun? Við lítum nánar á það þegar við fjöllum um fyrstu þrjá eiginleikana sem tilheyra ávexti andans, það er að segja kærleika, gleði og frið.

Kærleikur byggður á háleitri meginreglu

4. Hvers konar kærleika sagði Jesús að fylgjendur hans ættu að sýna?

4 Kærleikurinn, sem heilagur andi gefur af sér, er harla ólíkur þeim kærleika sem er algengur í heiminum. Að hvaða leyti? Hann er byggður á háleitari meginreglu. Jesús vakti athygli á þessum mun í fjallræðunni. (Lestu Matteus 5:43-48.) Hann benti á að syndarar væru meira að segja vanir að koma fram við aðra eins og þeir vildu láta koma fram við sig. Slíkur „kærleikur“ er engin fórn í sjálfu sér heldur er hann frekar greiði fyrir greiða. Ef við viljum vera ,börn föður okkar á himnum‘ megum við ekki vera þannig. Í stað þess að koma fram við aðra eins og þeir koma fram við okkur eigum við að sjá fólk sömu augum og Jehóva gerir og koma fram við það samkvæmt því. En hvernig er hægt að elska óvini sína eins og Jesús sagði að við ættum að gera?

5. Hvernig getum við sýnt þeim kærleika sem ofsækja okkur?

5 Lítum á dæmi sem sagt er frá í Biblíunni. Páll og Sílas voru handteknir þegar þeir voru að prédika í Filippí. Þeim var misþyrmt harkalega og varpað í innsta fangelsið þar sem fætur þeirra voru festir í stokk. Vel má vera að fangavörðurinn hafi misþyrmt þeim í leiðinni. En skyndilega reið yfir jarðskjálfti með þeim afleiðingum að allar dyr opnuðust og fjötrarnir féllu af þeim. Gripu þeir þá tækifærið til að ná sér niðri á fangaverðinum? Síður en svo. Þeir létu sér annt um velferð hans og voru fljótir til að liðsinna honum. Fórnfús kærleikur þeirra varð til þess að fangavörðurinn og öll fjölskylda hans tók trú. (Post. 16:19-34) Mörg af trúsystkinum okkar nú á tímum hafa með sama hætti ,blessað þá sem ofsóttu þau‘. — Rómv. 12:14.

6. Með hvaða hætti getum við sýnt trúsystkinum okkar fórnfúsan kærleika? (Sjá rammagrein á bls. 21.)

6 Kærleikur okkar til trúsystkina nær enn lengra því að við „eigum . . . að láta lífið hvert fyrir annað“. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:16-18.) Við getum þó oftast sýnt kærleika með öðrum og einfaldari hætti. Ef við móðgum bróður eða systur með einhverju sem við segjum eða gerum getum við sýnt kærleika með því að vera fyrri til að friðmælast. (Matt. 5:23, 24) Hvað gerum við ef einhver móðgar okkur? Erum við „fús til að fyrirgefa“ eða höfum við stundum tilhneigingu til að ala með okkur gremju? (Sálm. 86:5) Ef við höfum brennandi kærleika getur hann hjálpað okkur að umbera margt sem gert er á hlut okkar. Við getum þá fyrirgefið eins og Jehóva hefur fyrirgefið okkur. — Kól. 3:13, 14; 1. Pét. 4:8.

7, 8. (a) Hvernig er kærleikurinn til Jehóva tengdur kærleika til annarra manna? (b) Hvernig er hægt að efla og styrkja kærleikann til Guðs? (Sjá myndina á bls. 19.)

7 Hvernig getum við þroskað með okkur fórnfúsan bróðurkærleika? Með því að efla og styrkja kærleikann til Guðs. (Ef. 5:1, 2; 1. Jóh. 4:9-11, 20, 21) Við nærum hjartað og hlúum að kærleikanum til föðurins á himnum þegar við finnum okkur stund til að lesa í Biblíunni, hugleiða efnið og biðja. Við þurfum að gefa okkur tíma til að styrkja tengslin við Guð.

8 Lýsum þessu með dæmi: Segjum sem svo að það væri aðeins hægt að lesa í Biblíunni, hugleiða efnið og biðja til Jehóva á ákveðnum tíma dags. Myndirðu ekki gera allt sem þú gætir til að passa upp á að þessi tími væri frátekinn svo að ekkert hindraði þig í að eiga stund með Jehóva? Enginn getur auðvitað hamlað okkur að biðja til Guðs, og flestir geta lesið í Biblíunni þegar þeir vilja. Við getum samt sem áður þurft að gera vissar ráðstafanir til þess að daglegt amstur og erill komi ekki í veg fyrir að við eigum dýrmætar stundir með Guði. Gefurðu þér eins mikinn tíma og þú getur á hverjum degi til að styrkja tengslin við Jehóva?

,Fögnuður sem heilagur andi gefur‘

9. Hvað einkennir gleðina sem heilagur andi gefur?

9 Eitt af því sem einkennir ávöxt andans er að hann er ekki hverfull. Gleði, annar eiginleikinn sem við skoðum, er gott dæmi um það. Gleði er eins og harðger jurt sem getur dafnað við óblíðar aðstæður. Margir þjónar Guðs víða um heim hafa ,þrátt fyrir mikla þrengingu tekið á móti orðinu með fögnuði sem heilagur andi gefur‘. (1. Þess. 1:7) Sumir búa við skort og aðra erfiðleika. En með anda sínum gefur Jehóva þeim kraft til að sýna þolgæði og gleði. (Kól. 1:11) Hvaðan er þessi gleði komin?

10. Hver er uppspretta gleðinnar í hjörtum okkar?

10 Andlegu fjársjóðirnir, sem við höfum fengið frá Jehóva, hafa varanlegt gildi ólíkt „fallvöltum auði“ í heimi Satans. (1. Tím. 6:17; Matt. 6:19, 20) Jehóva hefur gefið okkur þá gleðilegu von að hljóta eilíft líf. Við njótum þeirrar gleði að tilheyra kristnu bræðralagi sem nær um allan heim. En öðru fremur byggist gleði okkar á sambandinu við Guð. Við erum sama sinnis og Davíð sem lofaði Jehóva í ljóði þótt hann neyddist til að vera á flótta. Hann sagði: „Miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig. Þannig mun ég lofa þig á meðan ég lifi.“ (Sálm. 63:4, 5) Jafnvel þó að við þurfum að þola raunir og erfiðleika lofum við Guð og finnum til gleði í hjörtum okkar.

11. Hvers vegna er mikilvægt að þjóna Jehóva með gleði?

11 Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ (Fil. 4:4) Hvers vegna er mikilvægt fyrir kristna menn að þjóna Jehóva með gleði? Það er vegna deilunnar um drottinvald Jehóva sem Satan hleypti af stað. Satan fullyrðir að enginn þjóni Guði af fúsu geði. (Job. 1:9-11) Ef við þjónuðum Guði aðeins af skyldurækni en værum ekki glöð væri lofgerðarfórn okkar ófullnægjandi. Við reynum því að gera eins og sálmaskáldið hvatti til: „Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng.“ (Sálm. 100:2) Það er Guði til vegsemdar að við þjónum honum af glöðu hjarta og fúsu geði.

12, 13. Hvað getum við gert þegar okkur líður illa?

12 En veruleikinn er auðvitað sá að trúir þjónar Jehóva verða stundum niðurdregnir og finnst erfitt að vera jákvæðir og bjartsýnir. (Fil. 2:25-30) Hvað getur hjálpað okkur við slíkar aðstæður? Í Efesusbréfinu 5:18, 19 segir: „Fyllist . . . andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta.“ Hvernig getum við farið eftir þessum leiðbeiningum?

13 Þegar okkur líður illa getum við ákallað Jehóva í bæn og reynt eftir bestu getu að einbeita huganum að því sem er lofsvert. (Lestu Filippíbréfið 4:6-9.) Sumum þykir gott að hlusta á ríkissöngvana og raula með. Það léttir þeim lund og hjálpar þeim að beina huganum inn á jákvæðar brautir. Bróðir nokkur lenti í miklum raunum og var oft vonsvikinn og niðurdreginn í kjölfarið. Hann segir: „Auk þess að biðja oft og innilega lærði ég nokkra ríkissöngva utan að. Ég fann til innri friðar þegar ég söng þessa fallegu lofsöngva til Jehóva, annaðhvort upphátt eða í hljóði. Bókin Nálægðu þig Jehóva kom líka út um þetta leyti. Ég las hana tvisvar árið eftir. Hún hafði sefandi og róandi áhrif á mig. Ég veit að Jehóva blessaði viðleitni mína.“

,Band friðarins‘

14. Hvað einkennir friðinn sem er ávöxtur anda Guðs?

14 Á alþjóðamótum okkar er að finna fólk af alls konar uppruna sem hefur yndi af því að vera með trúsystkinum sínum. Þessi mót varpa ljósi á hvernig friðurinn sameinar þjóna Guðs óháð þjóðerni. Eining þeirra er undrunarefni margra sem eru ekki í söfnuðinum. Þeir sjá fólk, sem þeir höfðu búist við að væru fjandmenn, umgangast hvert annað og ,kappkosta að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘. (Ef. 4:3) Þessi eining er einstök í ljósi þeirra fordóma og andúðar sem margir hafa þurft að sigrast á.

15, 16. (a) Hvaða viðhorf fékk Pétur í veganesti og af hverju var það áskorun fyrir hann? (b) Hvernig hjálpaði Jehóva Pétri að breyta um afstöðu?

15 Það er þrautin þyngri að sameina fólk af ólíkum uppruna. Við skulum taka Pétur postula sem dæmi til að glöggva okkur á því hverju þarf að sigrast á til að skapa slíka einingu. Orð hans bera vitni um það hvernig hann leit á óumskorna heiðingja. Hann sagði: „Þið vitið að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Guð hefur sýnt mér að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan.“ (Post. 10:24-29; 11:1-3) Pétur ólst greinilega upp við það almenna viðhorf að samkvæmt lögmálinu væri honum ekki skylt að elska aðra en Gyðinga. Kannski fannst honum fullkomlega eðlilegt að líta svo á að heiðnir menn væru óvinir sem bæri að hata. *

16 Hugsaðu þér hve óþægilegt það hlýtur að hafa verið fyrir Pétur að ganga inn á heimili Kornelíusar. Gat maður, sem hafði haft andúð á heiðnum mönnum, nokkurn tíma unnið með þeim,í einingu andans og bandi friðarins‘? (Ef. 4:3, 16) Já, nokkru áður hafði andi Guðs opnað hjarta Péturs til að hann gæti byrjað að breyta hugarfari sínu og sigrast á fordómunum. Jehóva lét hann sjá sýn til að benda honum á að afstaða sín réðist ekki af kynþætti fólks eða þjóðerni. (Post. 10:10-15) Pétur gat því sagt Kornelíusi: „Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Post. 10:34, 35) Pétur breytti um afstöðu og var fullkomlega sameinaður ,samfélagi þeirra sem trúðu‘.— 1. Pét. 2:17.

17. Af hverju er einingin meðal þjóna Guðs einstök?

17 Þessi reynsla Péturs auðveldar okkur að skilja þá ótrúlegu breytingu sem á sér stað meðal fólks Guðs nú á dögum. (Lestu Jesaja 2:3, 4.) Milljónir manna „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“ hafa breytt hugarfari sínu í samræmi við ,hinn góða, fagra og fullkomna‘ vilja Guðs. (Opinb. 7:9; Rómv. 12:2) Margir þeirra voru áður litaðir af hatrinu, fjandskapnum og sundrunginni í heimi Satans. En með því að kynna sér Biblíuna og fá hjálp heilags anda lærðu þeir að ,keppa eftir því sem til friðar heyrir‘. (Rómv. 14:19) Einingin, sem er samfara því, er Guði til vegsemdar.

18, 19. (a) Hvernig getum við öll stuðlað að friði og einingu í söfnuðinum? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

18 Hvernig getum við hvert og eitt stuðlað að friði og einingu í söfnuði Guðs? Í mörgum söfnuðum er aðflutt fólk frá öðrum löndum. Sumir hafa aðra siði en við eða tala málið ekki vel. Leggjum við okkur fram um að kynnast þeim? Það er eindregið mælt með því í orði Guðs. Páll skrifaði söfnuðinum í Róm eftirfarandi en þar voru bæði Gyðingar og fólk af öðru þjóðerni: „Takið . . . hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar.“ (Rómv. 15:7) Gætirðu kynnst betur einhverjum í söfnuðinum þínum?

19 Hvað annað getum við gert til að leyfa heilögum anda að hafa áhrif á okkur? Fjallað er um það í næstu grein en þar er rætt um hina eiginleikana sem tilheyra ávexti andans.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Ávöxturinn, sem Jesús nefndi, er bæði „ávöxtur andans“ og,ávöxtur vara‘, það er að segja lofgerðarfórnin sem kristnir menn færa Guði þegar þeir boða fagnaðarerindið. — Hebr. 13:15.

^ gr. 15 Í 3. Mósebók 19:18 segir: „Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Trúarleiðtogar Gyðinga héldu því fram að með orðunum „löndum þínum“ og „náunga þinn“ væri eingöngu átt við Gyðinga. Lögmálið kvað á um að Ísraelsmenn héldu sér aðgreindum frá öðrum þjóðum. Það studdi hins vegar ekki það sjónarmið trúarleiðtoganna á fyrstu öld að Gyðingum bæri að hata hvern einasta útlending og líta á hann sem óvin.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við sýnt trúsystkinum fórnfúsan kærleika?

• Af hverju er mikilvægt að vera glöð í þjónustu Guðs?

• Hvernig getum við stuðlað að friði og einingu í söfnuðinum?

[Spurningar]

[Rammi á bls. 21]

„Þetta eru sannkristnir menn“

Í bókinni Between Resistance and Martyrdom — Jehovah’s Witnesses in the Third Reich (Milli andspyrnu og píslarvættis — vottar Jehóva í Þriðja ríkinu) má lesa orð ungs Gyðings þar sem hann lýsir fyrstu kynnum sínum af vottum Jehóva eftir að hann kom í fangabúðirnar í Neuengamme.

„Við Gyðingarnir frá Dachau vorum ekki fyrr komnir inn í skálann en hinir Gyðingarnir tóku að fela allt sem þeir áttu til að þurfa ekki að deila því með okkur . . . Áður [en við vorum hnepptir í fangabúðir] höfðum við hjálpast að. En hérna, þar sem um líf og dauða var að tefla, hugsaði hver fyrst og fremst um að bjarga sjálfum sér og gleymdi hinum. En hugsið ykkur hvað biblíunemendurnir gerðu. Þeir unnu erfiðisvinnu á þeim tíma við að lagfæra vatnsleiðslur. Það var kalt í veðri og þeir stóðu allan daginn í ísköldu vatni. Enginn skildi hvernig þeir afbáru þetta. Þeir sögðu að Jehóva gæfi þeim styrk. Þeir þurftu á hverjum brauðmola að halda því að þeir voru hungraðir ekkert síður en við. En hvað gerðu þeir? Þeir söfnuðu saman öllu brauðinu sem þeir áttu, tóku helminginn handa sjálfum sér og hinn helminginn gáfu þeir trúbræðrum sínum sem voru nýkomnir frá Dachau. Og þeir fögnuðu þeim og kysstu þá. Þeir báðust fyrir áður en þeir borðuðu. Á eftir voru þeir allir glaðir og ánægðir. Þeir sögðust ekki vera svangir lengur. Það var þá sem ég hugsaði með mér: Þetta eru sannkristnir menn.“

[Myndir á bls. 19]

Gefurðu þér tíma daglega til að styrkja tengslin við Jehóva, þrátt fyrir annir?