Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva styrkir hjörtu þjakaðra

Jehóva styrkir hjörtu þjakaðra

Nálægðu þig Guði

Jehóva styrkir hjörtu þjakaðra

„MÉR fannst óhugsandi að Jehóva gæti elskað mig,“ sagði kristin kona sem hafði átt við þunglyndi að stríða mikinn hluta ævinnar. Hún var sannfærð um að Jehóva hlyti að vera fjarlægur henni. Er Jehóva virkilega fjarlægur þeim tilbiðjendum sínum sem eru langt niðri? Svarið er að finna í innblásnum orðum Davíðs í Sálmi 34:19.

Davíð vissi hvaða áhrif miklar þjáningar geta haft á trúfasta tilbiðjendur Jehóva. Sem ungur maður var hann stöðugt á flótta undan Sál, öfundsjúkum konungi sem var ákveðinn í að drepa hann. Davíð leitaði skjóls á stað þar sem hann áleit að Sál myndi síst leita hans – í óvinaborginni Gat í landi Filistea. En menn báru kennsl á Davíð og hann komst naumlega undan með því að látast vera geðveikur. Davíð vegsamaði Guð fyrir frelsunina og byggði á þessari reynslu þegar hann orti Sálm 34.

Trúði Davíð að Guð væri fjarlægur þeim sem þjást og verða þess vegna niðurdregnir eða finnst þeir vera óverðugir athygli Guðs? Hann skrifar: „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ (Vers 19) Lítum nú á hvernig þessi orð veita huggun og von.

„Drottinn er nálægur.“ Í heimildarriti segir að þessi setning „lýsi með áhrifamiklum hætti að Drottinn sé umhyggjusamur og vakandi, alltaf reiðubúinn til að hjálpa og bjarga fólki sínu“. Það er hughreystandi að vita til þess að Jehóva vakir yfir þjónum sínum. Hann sér hvað þeir eiga við að stríða á þessum erfiðu tímum og þekkir innstu tilfinningar þeirra. — 2. Tímóteusarbréf 3:1; Postulasagan 17:27.

„Þeim sem hafa sundurmarið hjarta.“ Í sumum menningarsamfélögum er orðalagið „sundurmarið hjarta“ notað um óendurgoldna ást. En orð sálmaritarans vísa til „sorgar og þjáninga almennt“, að sögn fræðimanns. Trúfastir tilbiðjendur Guðs geta jafnvel orðið fyrir miklum þrautum og hugarangist.

„Þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ Þeim sem eru niðurdregnir getur fundist þeir vera svo lítils virði að þeir missa um stund alla von. Í handbók fyrir biblíuþýðendur stendur að þessi orð megi þýða „þeir sem hafa einskis að hlakka til“.

Hvernig tekur Jehóva þeim sem hafa „sundurmarið hjarta“ og „sundurkraminn anda“? Heldur hann sig fjarri þeim og finnst þeir vera óverðugir kærleika hans og umhyggju? Alls ekki. Jehóva er nálægur tilbiðjendum sínum, sem hrópa til hans á hjálp, rétt eins og foreldri heldur á barni sínu í fanginu og huggar það þegar því líður illa. Honum er umhugað um að hugga og sefa þá sem hafa sundurmarið hjarta og sundurkraminn anda. Hann getur gefið visku og styrk til að glíma við hvaða prófraun sem er. — 2. Korintubréf 4:7; Jakobsbréfið 1:5.

Væri ekki ráð að kanna hvernig þú getur nálægt þig Jehóva? Í umhyggju sinni lofar hann að búa hjá „iðrunarfullum og þjökuðum í anda til að glæða þrótt hinna lítillátu og styrkja hjarta þjakaðra“. — Jesaja 57:15.