Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fagnaðarerindið sem allir þurfa að heyra

Fagnaðarerindið sem allir þurfa að heyra

Fagnaðarerindið sem allir þurfa að heyra

„Fagnaðarerindið . . . er kraftur Guðs sem frelsar.“ — RÓMV. 1:16.

1, 2. Af hverju boðar þú „fagnaðarerindið um Guðs ríki“ og á hvað leggurðu sérstaka áherslu?

„ÉG HEF yndi af því að boða fagnaðarerindið á hverjum degi.“ Sennilega hefurðu sagt eða hugsað eitthvað þessu líkt. Þar sem þú ert dyggur vottur Jehóva veistu hve mikilvægt er að boða „fagnaðarerindið um ríkið“. Trúlega manstu utanbókar spádóm Jesú þar að lútandi. — Matt. 24:14.

2 Þegar þú boðar „fagnaðarerindið um Guðs ríki“ ertu að vinna sama verk og Jesús byrjaði á. (Lestu Lúkas 4:43.) Vafalaust leggurðu meðal annars áherslu á að Guð grípi bráðlega inn í málefni manna. Með ,þrengingunni miklu‘ útrýmir hann falstrúarbrögðunum og upprætir illskuna af jörðinni. (Matt. 24:21) Sennilega verður þér líka tíðrætt um að ríki Guðs komi aftur á paradís á jörð með tilheyrandi friði og farsæld. „Fagnaðarerindið um Guðs ríki“ er reyndar hluti af þeim „fagnaðarboðskap“ sem Ritningin boðaði Abraham fyrir fram: „Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta.“ — Gal. 3:8.

3. Hvers vegna má segja að Páll postuli hafi lagt áherslu á fagnaðarerindið í Rómverjabréfinu?

3 En getur verið að við leggjum ekki næga áherslu á mikilvægan þátt fagnaðarerindisins sem fólk þarf að heyra? Samkvæmt frumgríska textanum notar Páll postuli orðið „ríki“ aðeins einu sinni í Rómverjabréfinu en hann talar hins vegar 12 sinnum um „fagnaðarerindið“. (Lestu Rómverjabréfið 14:17.) Hvaða þátt fagnaðarerindisins nefnir Páll svona oft í Rómverjabréfinu? Af hverju er þessi þáttur fagnaðarerindisins afar mikilvægur? Og af hverju ættum við að hafa hann í huga þegar við boðum „fagnaðarerindi Guðs“ meðal fólks á starfssvæði okkar? — Mark. 1:14; Rómv. 15:16; 1. Þess. 2:2.

Það sem söfnuðurinn í Róm þurfti að vita

4. Hvað boðaði Páll meðan hann var fangi í Róm í fyrra sinnið?

4 Það er fróðlegt að sjá hvað Páll ræddi um þegar hann var fangi í Róm í fyrra sinnið. Við lesum að margir Gyðingar hafi komið til hans og hann hafi þá ,vitnað fyrir þeim um (1) Guðs ríki og reynt að sannfæra þá um (2) Jesú‘. Hvernig brugðust Gyðingar við? „Sumir létu sannfærast af orðum hans en aðrir trúðu ekki.“ Eftir þetta „tók [Páll] á móti öllum þeim sem komu til hans. Hann boðaði (1) Guðs ríki og fræddi um (2) Drottin Jesú Krist“. (Post. 28:17, 23-31) Ljóst er að Páll ræddi um ríki Guðs. En hann lagði líka áherslu á annað sem er nátengt Guðsríki — hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs.

5. Um hvaða þörf ræðir Páll í Rómverjabréfinu?

5 Allir þurfa að fræðast um Jesú og trúa á hann. Páll ræðir um þessa þörf í Rómverjabréfinu. Í fyrsta kaflanum minnist hann á ,Guð sem hann þjóni í anda sínum með fagnaðarerindinu um son hans‘. Nokkru síðar segir hann: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir.“ Í öðrum kaflanum talar hann um þann tíma „er Guð dæmir hið dulda hjá mönnunum samkvæmt fagnaðarerindi mínu sem ég hef þegið af Jesú Kristi“. Undir lok bréfsins segir hann: „Þannig hef ég lokið því af að boða fagnaðarerindið um Krist alla leið frá Jerúsalem og hringinn til Illýríu.“ * (Rómv. 1:9, 16; 2:16; 15:19) Af hverju heldurðu að Páli hafi verið tíðrætt um Jesú Krist í bréfinu til kristinna manna í Róm?

6, 7. Hvað er vitað um upphaf safnaðarins í Róm og hvernig var hann samsettur?

6 Við vitum ekki hvernig söfnuðurinn í Róm komst á laggirnar. Höfðu Gyðingar eða trúskiptingar, sem voru í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33, snúið aftur til Rómar sem kristnir menn? (Post. 2:10) Eða fluttu kristnir farandkaupmenn og ferðamenn fagnaðarerindið til Rómar? Hvernig sem það bar til átti söfnuðurinn í Róm sér alllanga sögu þegar Páll skrifaði bréfið um árið 56. (Rómv. 1:8) Af hvaða uppruna voru kristnir menn í Róm?

7 Sumir voru Gyðingar að ætt og uppruna. Páll biður að heilsa Andróníkusi og Júníu (Júníasi) og kallar þá ,ættmenn sína‘. Hann á þá trúlega við að þeir séu ættingjar hans af hópi Gyðinga. Tjaldgerðarmaðurinn Akvílas og Priskilla, kona hans, voru einnig Gyðingar. (Rómv. 4:1; 9:3, 4; 16:3, 7; Post. 18:2) En margir bræður og systur, sem Páll sendi kveðjur, voru líklega heiðin að uppruna. Hugsanlegt er að sum þeirra hafi verið „í þjónustu keisarans“, ef til vill sem þrælar eða lágt settir starfsmenn. — Fil. 4:22; Rómv. 1:6; 11:13.

8. Í hvaða dapurlegu aðstöðu voru kristnir menn í Róm?

8 Allir kristnir menn í Róm voru í dapurlegri aðstöðu og hið sama er að segja um okkur. Páll orðaði það þannig: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómv. 3:23) Ljóst er að allir viðtakendur bréfsins þurftu að horfast í augu við að þeir væru syndugir og þurftu að trúa á það sem Guð hafði gert til að ráða bót á þeim vanda sem þeir voru í.

Fólk þarf að viðurkenna að það sé syndugt

9. Hvaða áhrif sagði Páll að fagnaðarerindið gæti haft?

9 Í fyrsta kafla Rómverjabréfsins bendir Páll á stórfengleg áhrif fagnaðarerindisins sem honum var svo tíðrætt um. Hann segir: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir, Gyðinginn fyrst og aðra síðan.“ Já, frelsun var möguleg. En það var nauðsynlegt að trúa eins og Páll bendir á þegar hann vitnar í djúpstæð sannindi í Habakkuk 2:4. „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú,“ segir hann. (Rómv. 1:16, 17; Gal. 3:11; Hebr. 10:38) En hvernig tengist fagnaðarerindið, sem getur frelsað, þeirri staðreynd að „allir hafa syndgað“?

10, 11. Af hverju á fólk misauðvelt með að skilja það sem segir í Rómverjabréfinu 3:23?

10 Áður en hægt er að byggja upp trú sér til bjargar er nauðsynlegt að viðurkenna að maður sé syndari. Þessi hugmynd er ekki framandi þeim sem alast upp í trú á Guð og þekkja eitthvað til Biblíunnar. (Lestu Prédikarann 7:20.) Hvort sem þeir eru sammála Biblíunni eða efast hafa þeir að minnsta kosti einhverja hugmynd um hvað Páll átti við þegar hann sagði: „Allir hafa syndgað.“ (Rómv. 3:23) Í boðunarstarfinu má þó vera að við hittum marga sem skilja ekki þessi orð Páls.

11 Í sumum löndum er fólk almennt ekki alið upp við þá hugsun að það hafi fengið syndina í arf og að það fæðist þar af leiðandi syndugt. Flestir gera sér auðvitað grein fyrir að þeir gera mistök, hafa ýmis óæskileg einkenni og hafa ef til vill gert eitthvað miður gott. Og þeir sjá að aðrir eru undir sömu sökina seldir. En vegna uppruna síns og uppeldis skilur fólk ekki af hverju það er eins og það er. Í sumum tungumálum er það reyndar svo að orðið syndari getur vakið þá hugmynd að um sé að ræða glæpamann eða að minnsta kosti mann sem hefur brotið eitthvað af sér. Sá sem elst upp í slíku umhverfi hugsar tæplega um sjálfan sig sem syndara í þeim skilningi sem Páll átti við.

12. Af hverju vilja margir ekki trúa að allir menn séu syndugir?

12 Jafnvel í löndum kristna heimsins vilja margir ekki viðurkenna þá hugmynd að fólk sé syndugt. Af hverju? Þótt þeir fari stundum í kirkju telja þeir frásögn Biblíunnar af Adam og Evu vera hreina þjóðsögu. Aðrir hafa alist upp við trúleysi eða efahyggju. Þeir efast um að Guð sé til og skilja ekki að til sé æðri máttur sem setti mönnunum siðferðisreglur og að það sé synd að brjóta þær. Þeir eru á vissan hátt „vonlausir og guðvana í heiminum“ eins og Páll lýsti sumum á fyrstu öld. — Ef. 2:12.

13, 14. (a) Af hverju eru þeir án afsökunar sem trúa hvorki á Guð né viðurkenna að þeir séu syndugir? (b) Út í hvað hafa margir leiðst vegna vantrúar?

13 Páll tiltekur tvær ástæður fyrir því í Rómverjabréfinu að slíkur uppruni eða uppeldi sé engin afsökun, hvorki þá né nú. Fyrst nefnir hann að sköpunarverkið vitni um að til sé skapari. (Lestu Rómverjabréfið 1:19, 20.) Það kemur heim og saman við orð hans í Hebreabréfinu sem hann skrifaði meðan hann var í Róm. Þar segir hann: „Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert.“ (Hebr. 3:4) Röksemdafærslan styður það að til sé skapari sem hafi gert eða myndað allan alheiminn.

14 Páll hafði því góð rök fyrir því að skrifa kristnum mönnum í Róm að þeir sem dýrkuðu lífvana líkneski væru „án afsökunar“. Það átti einnig við um Ísraelsmenn til forna. Hið sama er að segja um þá sem gáfu sig á vald siðlausum kynlífsathöfnum og breyttu eðlilegum mökum karla og kvenna í óeðlileg. (Rómv. 1:22-27) Páll benti því réttilega á að Gyðingar jafnt sem Grikkir „væru allir á valdi syndarinnar“. — Rómv. 3:9.

Samviskan ,ber vitni‘

15. Hvað er öllum mönnum gefið og hvaða áhrif hefur það?

15 Í Rómverjabréfinu kemur fram önnur ástæða fyrir því að fólk ætti að horfast í augu við að það sé syndugt og sé hjálparþurfi. Páll sagði um lögmálið sem Guð gaf Ísraelsmönnum forðum daga: „Allir, sem syndgað hafa þótt þeir þekki lögmál, munu dæmast eftir lögmáli.“ (Rómv. 2:12) Páll heldur áfram á sömu nótum og bendir á að fólk af öðrum þjóðum eða þjóðarbrotum, sem þekki ekki lögmál Guðs, geri oft „það eftir eðlisboði sem lögmál Guðs býður“. Af hverju er sifjaspell, morð og þjófnaður yfirleitt bannað meðal þessara þjóða? Páll bendir á ástæðuna: Mennirnir hafa samvisku. — Lestu Rómverjabréfið 2:14, 15.

16. Af hverju er samviskan ekki trygging gegn því að syndga?

16 Hvað sem því líður hefurðu eflaust veitt athygli að það er ekki sjálfgefið að fólk hlýði rödd samviskunnar sem ber vitni innra með þeim. Ísraelsmenn til forna eru dæmi um það. Enda þótt Guð hefði bæði gefið þeim samviskuna og ítarlega löggjöf sem bannaði þjófnað og hjúskaparbrot brutu þeir oft gegn samviskunni og lögum Guðs. (Rómv. 2:21-23) Sekt þeirra var því enn meiri. Þeir voru greinilega syndugir og tókst hvorki að fylgja siðferðisreglum Guðs né gera vilja hans. Það spillti stórlega sambandi þeirra við skapara sinn. — 3. Mós. 19:11; 20:10; Rómv. 3:20.

17. Hvaða uppörvun fáum við í Rómverjabréfinu?

17 Við fyrstu sýn virðist það sem við höfum skoðað í Rómverjabréfinu draga upp dökka mynd af stöðu okkar mannanna frammi fyrir alvöldum Guði. En Páll bendir á ákveðna hlið málsins sem er uppörvandi fyrir okkur. Hann vitnar í orð Davíðs í Sálmi 32:1, 2 og segir: „Sælir eru þeir sem afbrotin eru fyrirgefin, syndir þeirra huldar. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki synd.“ (Rómv. 4:7, 8) Já, Guð hefur gert ráðstafanir til að gefa mönnunum upp sakir án þess þó að fara á svig við réttlát lög sín.

Veigamikið hlutverk Jesú

18, 19. (a) Á hvaða þátt fagnaðarerindisins lagði Páll áherslu í Rómverjabréfinu? (b) Hvað þurfum við að viðurkenna til að njóta þeirrar blessunar sem ríki Guðs hefur í för með sér?

18 Þú hugsar eflaust með þér: „Þetta eru mikil gleðitíðindi!“ Það er hverju orði sannara, og við erum nú komin aftur að þeim þætti fagnaðarerindisins sem Páll lagði áherslu á í Rómverjabréfinu. Eins og áður hefur komið fram skrifaði hann: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar.“ — Rómv. 1:15, 16.

19 Þetta fagnaðarerindi fjallar um hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs. Páll gat horft fram til þess dags ,er Guð dæmir hið dulda hjá mönnunum fyrir Jesú Krist — samkvæmt fagnaðarerindinu‘. (Rómv. 2:16, Biblían 1912) Páll var ekki að gera lítið úr „ríki Krists og Guðs“ eða því sem Guð ætlar að gera fyrir milligöngu þess. (Ef. 5:5) En hann bendir á að til þess að fá að lifa og njóta þeirrar blessunar, sem ríki Guðs hefur í för með sér, þurfum við (1) að viðurkenna að við séum syndug í augum Guðs og (2) skilja af hverju við þurfum að trúa á Jesú Krist til að fá syndir okkar fyrirgefnar. Sá sem skilur þessa veigamiklu þætti í fyrirætlun Guðs, og áttar sig á voninni sem það veitir honum, getur réttilega sagt: „Já, þetta eru fagnaðartíðindi!“

20, 21. Af hverju ættum við að hafa í huga fagnaðarerindið sem Páll leggur áherslu á í Rómverjabréfinu, og hvaða árangri megum við búast við?

20 Við ættum tvímælalaust að hafa í huga þennan þátt fagnaðarerindisins þegar við erum í boðunarstarfinu. Páll vitnaði í Jesaja 28:16 og heimfærði á Jesú: „Hver sem á hann trúir verður aldrei til vansæmdar.“ (Rómv. 10:11) Þeir sem þekkja til þess sem segir í Biblíunni um syndina skilja trúlega boðskapinn um hlutverk Jesú. Fyrir öðrum er þessi boðskapur framandi því að hann er ekki þekktur í þeirra menningarheimi. Við þurfum því að skýra hlutverk Jesú fyrir fólki úr þeim hópi þegar það fer að trúa á Guð og treysta Biblíunni. Í næstu námsgrein skoðum við hvernig varpað er ljósi á þennan þátt fagnaðarerindisins í 5. kafla Rómverjabréfsins. Sú umfjöllun á eflaust eftir að koma þér að góðum notum í boðunarstarfinu.

21 Það er gefandi að fá að hjálpa hjartahreinu fólki að skilja fagnaðarerindið sem er nefnt margsinnis í Rómverjabréfinu. Þetta fagnaðarerindi er „kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir“. (Rómv. 1:16) En auk þess að vera umbunað með þeim hætti gleður það okkur að sjá fólk samsinna orðum Páls í Rómverjabréfinu 10:15. Þar stendur: „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.“ — Jes. 52:7.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Svipað orðalag er að finna í öðrum innblásnum biblíubókum. — Mark. 1:1; Post. 5:42; 1. Kor. 9:12; Fil. 1:27.

Manstu?

• Um hvaða þátt fagnaðarerindisins er fjallað í Rómverjabréfinu?

• Hvað þurfum við að hjálpa fólki að skilja?

• Hvernig getur „fagnaðarerindið um Krist“verið okkur og öðrum til blessunar?

[Spurningar]

[Innskot á bls. 8]

Fagnaðarerindið, sem rætt er í Rómverjabréfinu, fjallar um veigamikið hlutverk Jesú í fyrirætlun Guðs.

[Mynd á bls. 9]

Við erum öll fædd með banvænan galla — syndina.