Hoppa beint í efnið

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

HVERS vegna hætti kona á sjötugsaldri að tilbiðja skurðgoð? Hvað fékk prest í sjintótrú til að yfirgefa stöðu sína í sjintóhofi og fara að þjóna Jehóva? Hvernig komst kona sem hafði verið ættleidd við fæðingu yfir þá tilfinningu að finnast hún hafa verið yfirgefin? Skoðum hvað þetta fólk hefur að segja.

„Ég er ekki lengur þræll skurðgoða.“ – ABA DANSOU

FÆÐINGARÁR: 1938

FÖÐURLAND: BENÍN

FORSAGA: SKURÐGOÐADÝRKANDI

FORTÍÐ MÍN: Ég ólst upp í So-Tchahué, þorpi á votlendissvæði nálægt stöðuvatni. Þorpsbúar veiddu fisk og ræktuðu nautgripi, geitur, kindur, svín og fugla. Það eru engir vegir á þessu svæði þannig að fólk notar báta og kanóa til að komast á milli staða. Flestir byggja húsin sín úr timbri og grasi en sumir hlaða þau úr múrsteinum. Flestir eru fátækir en þrátt fyrir það hefur glæpum ekki fjölgað jafn ört og í borgunum.

Þegar ég var barn sendi pabbi okkur systurnar í klaustur þar sem okkur voru kennd hefðbundin trúarbrögð. Þegar ég varð eldri valdi ég mér Dudua úr jórúba-menningunni sem minn guð. Ég byggði hús fyrir þennan guð og bar fram fyrir hann fórnir eins og kartöflur, pálmaolíu, snigla, kjúklinga, dúfur og ýmis önnur dýr. Þessar fórnir voru kostnaðarsamar og oft fóru allir peningarnir mínir í þær.

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI MÍNU: Þegar ég fór að rannsaka Biblíuna komst ég að því að Jehóva er hinn eini sanni Guð. Ég komst líka að því að hann er á móti skurðgoðadýrkun. (2. Mósebók 20:4, 5; 1. Korintubréf 10:14) Ég skildi hvað ég þurfti að gera. Ég fleygði öllum líkneskjum og hreinsaði allt út úr húsinu mínu sem viðkemur skurðgoðadýrkun. Ég hætti að leita goðsvara og tók ekki lengur þátt í hefðbundnum trúarsiðum og jarðarfarasiðum.

Það var ekki auðvelt fyrir mig, konu á sjötugsaldri, að gera allar þessar breytingar. Vinir, ættingjar og nágrannar voru á móti þessu og gerðu grín að mér. En ég bað til Jehóva um styrk til að gera það sem væri rétt. Ég sótti huggun í Orðskviðina 18:10 sem segja: „Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er óhultur.“

Annað sem hjálpaði mér var að sækja samkomur Votta Jehóva. Þar fann ég kristinn kærleika og mér fannst mikið til um það að fólk reyndi að fylgja háum siðferðisstöðlum Biblíunnar. Það sem ég sá sannfærði mig um að vottar Jehóva iðka sanna trú.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Að fara eftir meginreglum Biblíunnar hefur hjálpað mér að bæta sambandið við börnin mín. Mér líður líka eins og byrði hafi verið létt af mér. Öll mín orka fór í líflaus skurðgoð sem gerðu ekkert gagn. Núna þjóna ég Jehóva sem sér fyrir varanlegri lausn á öllum vandamálum. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Ég er svo ánægð að ég er ekki lengur þræll skurðgoða heldur þjóna ég Jehóva. Hjá honum hef ég fundið öryggi og vernd.

„Ég hafði leitað að Guði síðan ég var barn.“ – SHINJI SATO

FÆÐINGARÁR: 1951

FÖÐURLAND: JAPAN

FORSAGA: SJINTÓPRESTUR

FORTÍÐ MÍN: Ég ólst upp í sveitaþorpi í héraðinu Fukuoka. Foreldrar mínir voru mjög trúaðir og kenndu mér frá barnæsku að sýna guðum sjintótrúarinnar lotningu. Sem ungur drengur hugsaði ég oft um hjálpræði mitt og hafði sterka löngun til að hjálpa fólki í erfiðleikum. Ég minnist þess þegar ég var í grunnskóla og kennarinn spurði okkur krakkana hvað við vildum gera þegar við yrðum fullorðin. Bekkjarfélagar mínir höfðu ákveðnar hugmyndir eins og að verða vísindamenn. Ég sagði að mig langaði að þjóna Guði. Allir hlógu að mér.

Eftir framhaldsskóla fór ég í skóla fyrir trúarkennara. Þar hitti ég sjintóprest sem notaði frítíma sinn í að lesa bók í svartri kápu. Dag einn spurði hann mig: „Sato, veistu hvaða bók þetta er?“ Ég hafði tekið eftir bókarkápunni og svaraði því: „Biblían.“ Hann sagði: „Allir sem vilja verða sjintóprestar ættu að lesa þessa bók.“

Ég fór strax og keypti biblíu. Ég setti hana á mest áberandi staðinn í bókahillunni minni og passaði vel upp á hana. En ég tók mér ekki tíma til að lesa hana þar sem ég var mjög upptekinn í skólanum. Þegar skóla lauk fór ég að vinna í hofi sem sjintóprestur. Æskudraumurinn var orðinn að veruleika.

En fljótlega rann upp fyrir mér að það að vera sjintóprestur var ekki eins og ég átti von á. Fæstir prestar sýndu öðrum áhuga eða kærleika. Marga þeirra skorti líka trú. Einn yfirmanna minna gekk svo langt að segja: „Ef þú vilt ná árangri hérna máttu bara tala um heimspekileg málefni. Það er bannað að tala um trú.“

Slíkar athugasemdir urðu til þess að ég varð fyrir vonbrigðum með sjintótrúna. Þótt ég héldi áfram að þjóna í hofinu fór ég að skoða önnur trúarbrögð. En ekkert þeirra virtist hafa neitt betra fram að færa. Því fleiri trúarbrögð sem ég skoðaði þeim mun meiri urðu vonbrigðin. Mér fannst eins og það væri hvergi að finna sannleika í trúarbrögðum.

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI MÍNU: Árið 1988 hitti ég búddista sem hvatti mig til að lesa Biblíuna. Ég hugsaði til sjintóprestsins sem hvatti mig líka til þess nokkrum árum áður. Ég ákvað að fara að ráðum hans. Þegar ég byrjaði að lesa Biblíuna varð ég fljótlega niðursokkinn í lesturinn. Stundum las ég alla nóttina þar til sólin gægðist inn um gluggann.

Það sem ég las fékk mig til að langa til að biðja til Guðs Biblíunnar. Ég byrjaði á því að nota fyrirmyndarbænina sem er að finna í Matteusi 6:9–13. Ég endurtók hana á tveggja tíma fresti, jafnvel þegar ég var við þjónustu í sjintóhofinu.

Lesturinn vakti margar spurningar í huga mér. Á þessum tíma hafði ég gifst og vissi að vottar Jehóva hjálpa fólki að rannsaka Biblíuna vegna þess að þeir höfðu heimsótt konuna mína áður fyrr. Ég komst í samband við konu sem var vottur Jehóva og spurði hana margra spurninga. Ég var hrifinn af því hvernig hún notaði Biblíuna til að svara þeim öllum. Hún sá til þess að trúbróðir sinn aðstoðaði mig við biblíunám.

Stuttu síðar fór ég að sækja samkomur Votta Jehóva. Ég áttaði mig ekki á því strax en ég hafði áður fyrr verið ókurteis við suma vottana sem voru þar. Samt sem áður tóku þeir vel á móti mér og buðu mig velkominn.

Á samkomunum lærði ég að Guð ætlast til þess að eiginmenn sýni fjölskyldunni sinni virðingu og kærleika. Fram að þessu hafði ég verið svo mikið með hugann við starf mitt sem prestur að ég hafði vanrækt konuna mína og börnin tvö. Það rann upp fyrir mér að ég hafði hlustað vandlega á fólk sem kom að tilbiðja í hofinu en ég hlustaði ekki á það sem konan mín hafði að segja.

Eftir því sem ég las meira lærði ég margt um Jehóva sem dró mig að honum. Vers eins og Rómverjabréfið 10:13 snertu mig sérstaklega mikið en þar segir: „Allir sem ákalla nafn Jehóva bjargast.“ Ég hafði leitað að Guði síðan ég var barn og nú hafði ég loksins fundið hann.

Ég fann að ég átti ekki heima í sjintótrúnni lengur. Í fyrstu hafði ég áhyggjur af því sem öðrum fyndist ef ég yfirgæfi trúna. En ég hafði alltaf sagt við sjálfan mig að ég færi ef ég fyndi hinn sanna Guð annars staðar. Vorið 1989 ákvað ég því að fylgja samvisku minni. Ég yfirgaf hofið og lét málin í hendur Jehóva.

Það var ekki auðvelt að yfirgefa hofið. Ég var ávítaður og reynt var að þrýsta á mig að vera um kyrrt. Enn erfiðara var þó að segja foreldrum mínum frá því. Á leiðinni heim til þeirra fékk ég svo mikið kvíðakast að mig verkjaði í brjóstið og fæturnir urðu máttlausir eins og fransbrauð. Ég stoppaði mörgum sinnum á leiðinni til að biðja Jehóva um styrk.

Þegar ég kom heim til foreldra minna var ég í fyrstu of hræddur til að færa þetta í tal. Klukkutímarnir liðu. Að lokum, eftir langa bæn, útskýrði ég allt fyrir föður mínum. Ég sagði honum að ég hefði fundið hinn sanna Guð og að ég ætlaði að yfirgefa sjintótrúna til að þjóna honum. Faðir minn var miður sín og sorgmæddur. Aðrir ættingjar komu og reyndu að fá mig ofan af þessu. Ég vildi ekki særa fjölskylduna en á sama tíma vissi ég að það að þjóna Jehóva var það sem var rétt að gera. Með tímanum fór fjölskyldan að virða ákvörðun mína.

Það var eitt að yfirgefa hofið líkamlega en annað að yfirgefa það hugarfarslega. Það var orðið hluti af sjálfum mér að vera prestur. Ég reyndi af öllu afli að gleyma því en hvert sem ég kom var eitthvað sem minnti mig á mitt fyrra líf.

Það var tvennt sem hjálpaði mér að losa mig við þessi áhrif. Í fyrsta lagi leitaði ég vandlega heima hjá mér að hverju því sem tengdist minni fyrri trú. Síðan brenndi ég það allt, bækur, myndir og jafnvel dýra muni. Í öðru lagi reyndi ég að nota öll tækifæri til að vera með vottum Jehóva. Vinátta þeirra og stuðningur hefur hjálpað mjög mikið. Smám saman hefur fortíðin þurrkast úr.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Áður vanrækti ég konuna mína og börnin og þau voru mjög einmana. En þegar ég fór að verja meiri tíma með þeim, eins og Biblían leggur áherslu á að eiginmenn geri, urðum við nánari. Með tímanum gerðist konan mín einnig þjónn Jehóva. Við erum ásamt syni okkar, dóttur og tengdasyni sameinuð í sannri tilbeiðslu.

Þegar ég rifja upp þann tíma þegar ég var barn og dreymdi um að þjóna Guði og hjálpa fólki átta ég mig á því að ég hef fundið það sem ég leitaði að og gott betur. Orð fá ekki lýst hversu þakklátur ég er Jehóva.

,Ég vissi að mig vantaði eitthvað.‘ – LYNETTE HOUGHTING

FÆÐINGARÁR: 1958

FÖÐURLAND: SUÐUR-AFRÍKA

FORSAGA: FANNST HÚN HAFA VERIÐ YFIRGEFIN

FORTÍÐ MÍN: Ég fæddist í námubænum Germiston þar sem glæpir voru fátíðir. Foreldrum mínum fannst þeir ekki geta annast mig og ákváðu að gefa mig til ættleiðingar. Ástrík hjón ættleiddu mig þegar ég var aðeins 14 daga gömul og ég leit á þau sem foreldra mína. En þegar ég fékk vitneskju um uppruna minn barðist ég við þá tilfinningu að hafa verið yfirgefin. Mér fór að finnast að ég tilheyrði ekki foreldrum mínum sem ættleiddu mig og að þeir skildu mig ekki.

Þegar ég var um 16 ára fór ég að sækja bari þar sem ég dansaði og hlustaði á lifandi tónlist með vinum mínum. Ég byrjaði að reykja þegar ég var 17 ára. Mig langaði að vera grönn eins og fyrirsæturnar í sígarettuauglýsingunum. Þegar ég varð 19 ára byrjaði ég að vinna í Jóhannesarborg en þar komst ég fljótlega í vondan félagsskap. Fljótlega var ég farin að nota ljótt orðbragð, reykti mikið og drakk stíft um helgar.

Þrátt fyrir þetta hreyfði ég mig mikið. Ég stundaði líkamsrækt og tók þátt í íþróttum. Ég lagði líka hart að mér og komst áfram í vinnunni minni í tölvuiðnaðinum. Ég stóð vel fjárhagslega og margir álitu mig hafa náð góðum árangri. En í raun og veru var ég mjög óhamingjusöm og fannst lífið hafa valdið mér vonbrigðum. Innst inni vissi ég að mig vantaði eitthvað.

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI MÍNU: Þegar ég fór að kynna mér Biblíuna komst ég að því að Jehóva er Guð kærleikans. Ég lærði líka að hann sýndi þann kærleika með því að gefa okkur orð sitt, Biblíuna. Það er eins og hann hafi skrifað okkur bréf til að vísa okkur rétta leið. (Jesaja 48:17, 18) Ég áttaði mig á því að ef ég vildi hafa gagn af ástríkri leiðsögn hans yrði ég að gera miklar breytingar á lífi mínu.

Ein breytingin sem ég þurfti að gera var varðandi félagsskap. Ég hugsaði mikið um það sem segir í Orðskviðunum 13:20: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Þessi meginregla hvatti mig til að segja skilið við gömlu félagana og eignast nýja vini meðal votta Jehóva.

Mesta áskorunin reyndist vera að hætta að reykja, ég var mjög háð reykingum. Þegar það tókst sá ég fram á annað vandamál. Ég bætti á mig tæplega 14 kílóum þegar ég hætti að reykja. Þetta hafði mikil áhrif á sjálfsvirðinguna og það tók mig næstum tíu ár að losna við aukakílóin. Ég vissi samt að það var rétt að hætta að reykja. Ég bað stöðugt til Jehóva og hann gaf mér styrk til að gera það.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS: Ég er heilsuhraustari. Ég er líka sáttari og eltist ekki lengur við hverfula hamingju sem frami, staða og auður á að veita. Ég nýt þess að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar. Árangurinn er sá að þrjár af fyrrum samstarfskonum mínum og maðurinn minn þjóna Jehóva. Áður en kjörforeldrar mínir dóu gat ég sagt þeim frá loforði Biblíunnar um að fólk fái upprisu í paradís á jörð.

Að nálægja mig Jehóva hefur hjálpað mér að glíma við tilfinningar sem tengjast því að finnast ég yfirgefin. Hann hefur gefið mér alheimsfjölskyldu trúsystkina. Á meðal þeirra á ég margar mæður, feður, bræður og systur. – Markús 10:29, 30.

[Mynd]

Á meðal votta Jehóva hef ég fundið kristinn kærleika.

[Mynd]

Sjintóhof þar sem ég stundaði áður tilbeiðslu.