Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver myndaði lögmálin sem stjórna alheiminum?

Hver myndaði lögmálin sem stjórna alheiminum?

Hver myndaði lögmálin sem stjórna alheiminum?

„ÞEKKIR þú lög himinsins?“ (Jobsbók 38:33) Guð spurði Job þessarar spurningar til að sýna honum fram á hve lítið maðurinn vissi og skildi í samanburði við takmarkalausa visku skaparans. Hvernig finnst þér mennirnir standa að þessu leyti í samanburði við Guð?

Mennirnir vita heilmikið um þau lögmál sem stjórna alheiminum. Flestir vísindamenn viðurkenna þó fúslega að þeir eigi margt ólært. Í ljósi nýrra uppgötvana hafa vísindamenn æ ofan í æ þurft að endurskoða kenningar sínar um gangvirki alheimsins. Er spurningin, sem Guð spurði Job, orðin úrelt í ljósi þessara nýju uppgötvana? Eða hafa þær frekar skotið stoðum undir það að Jehóva Guð sé höfundur þeirra lögmála sem stjórna alheiminum?

Í Biblíunni er víða að finna athyglisverð ummæli sem gera okkur kleift að svara þessum spurningum. Biblían er auðvitað ekki skrifuð sem vísindarit og lætur ekki heldur í veðri vaka að hún sé það. Hins vegar er hún oft ótrúlega nákvæm og langt á undan sinni samtíð þegar hún minnist á himingeiminn.

Sögulegur samanburður

Til að sjá hlutina í sögulegu samhengi skulum við fara aftur til fjórðu aldar f.Kr. Þá var um það bil öld liðin síðan lokið var við að rita Gamla testamentið, það er að segja hinn hebreska hluta Biblíunnar. Það var um þær mundir sem gríski heimspekingurinn Aristóteles fræddi helstu fræðimenn samtíðarinnar um himingeiminn. Aristóteles er enn þann dag í dag talinn einn áhrifamesti vísindamaður mannkynssögunnar. (Sjá  rammagrein á bls. 25.) Samkvæmt alfræðiorðabókinni Encyclopædia Britannica var „Aristóteles fyrsti raunverulegi vísindamaður sögunnar . . . Allir vísindamenn standa í þakkarskuld við hann.“

Aristóteles lagði mikla vinnu í að búa til líkan af alheiminum. Heimsmynd hans var á þá lund að alheimurinn væri gerður úr meira en 50 kristalshvelum. Hvelin voru hver inni í öðru, fastastjörnurnar sátu á því ysta en reikistjörnurnar á þeim hvelum sem nær voru jörð. Hvaðeina sem var utan jarðar var eilíft og óbreytanlegt. Okkur kunna að þykja þetta undarlegar hugmyndir en vísindamenn voru undir áhrifum þeirra í ein 2.000 ár.

En hvernig koma kenningar Aristótelesar heim og saman við Biblíuna? Hvorar kenningarnar hafa staðist tímans tönn? Við skulum líta á þrjár spurningar um þau lög sem stjórna alheiminum. Svörin við þeim ættu að styrkja tiltrú okkar á höfund Biblíunnar, löggjafann sem setti „lög himinsins“.

1. Er alheimurinn óbreytanlegur?

Aristóteles ímyndaði sér að himinhvelin væru föst og óbreytanleg. Hvelið, sem fastastjörnurnar sátu á, gat hvorki skroppið saman né þanist út, og hið sama var að segja um hin hvelin.

Er einhverja svipaða tilgátu að finna í Biblíunni? Nei, þar er ekkert sagt afdráttarlaust um þetta mál. Hins vegar má lesa þar athyglisverða myndlíkingu. Hún er á þessa leið: „Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í.“ – Jesaja 40:22, Biblían 1981. *

Hvort samræmist betur þeim veruleika sem við þekkjum – líkan Aristótelesar eða myndmál Biblíunnar? Hvernig er heimsmynd nútímans? Sér til undrunar komust stjarnfræðingar tuttugustu aldar að raun um að alheimurinn var fjarri því að vera óbreytanlegur. Vetrarbrautirnar virðast fjarlægjast hver aðra á ógnarhraða. Fáir vísindamenn, ef nokkrir, höfðu ímyndað sér að alheimurinn væri að þenjast út. Núna eru heimsfræðingar almennt á þeirri skoðun að alheimurinn hafi verið mjög samþjappaður í upphafi og hafi verið að þenjast út síðan. Vísindin hafa í reynd sýnt fram á að líkan Aristótelesar á sér ekki stoð í veruleikanum.

En hvað um lýsingar Biblíunnar? Það er lítill vandi að hugsa sér mann eins og Jesaja spámann þar sem hann horfir með lotningu á stjörnum prýddan himininn og sér hann fyrir sér eins og risastórt útbreitt tjald. * Vera má að honum hafi jafnvel fundist eitthvað líkt með Vetrarbrautarslæðunni og ,þunnri voð‘.

Orð Jesaja eru okkur viss hvatning til að draga upp myndir í huganum. Hugsum okkur að við séum stödd á biblíuslóðum endur fyrir löngu, og sjáum fyrir okkur hvernig stórt íbúðartjald er gert úr fremur smáum stranga af tjalddúk með því að strekkja hann á súlur. Eða ímyndum okkur kaupmanninn sem dregur fram lítinn stranga af þunnri og fínni voð og breiðir úr henni til að viðskiptavinur geti skoðað hana. Hvort heldur er getum við séð fyrir okkur hvernig hægt er að breiða úr efni sem er vafið upp á smáan stranga.

Það er auðvitað ekki verið að halda því fram að ljóðrænt myndmál Biblíunnar um tjald og þunna voð eigi að varpa ljósi á útþenslu alheimsins. En er ekki stórmerkilegt að Biblían skuli innihalda lýsingu á alheiminum sem kemur svona vel heim og saman við núverandi þekkingu manna? Jesaja var uppi meira en þrem öldum á undan Aristótelesi og meira en 2.000 árum áður en vísindin sýndu fram á að alheimurinn væri að þenjast út. Lýsingar þessa hógværa hebreska spámanns þurfa hins vegar ekki endurskoðunar við eins og hugvitsamlegt líkan Aristótelesar.

2. Hvernig haldast himintunglin á sínum stað?

Aristóteles taldi að ekkert tómarúm væri í alheiminum. Hann ímyndaði sér að jörðin og andrúmsloft hennar væru samsett úr fjórum frumefnum, jörð, vatni, lofti og eldi. Að öðru leyti væri alheimurinn fullur af kristalshvelum sem gerð væru úr eilífu efni sem hann kallaði ljósvaka. Himintunglin taldi hann vera fest á þessi ósýnilegu hvel. Hugmyndir Aristótelesar áttu lengi vel fylgi að fagna meðal flestra vísindamanna því að þær virtust koma heim og saman við þá meginhugmynd að hlutur hlyti að falla nema hann hvíldi á einhverju eða væri áfastur einhverju.

En hvaða hugmyndir er að finna í Biblíunni? Þar eru skrásett orð manns sem hét Job, og hann sagði að Jehóva Guð léti „jörðina svífa í geimnum“. (Jobsbók 26:7) Aristótelesi hefði eflaust þótt það fráleit hugmynd.

Á 17. öld, um 3.000 árum eftir daga Jobs, var sú kenning útbreidd meðal vísindamanna að alheimurinn væri fylltur eins konar vökva en ekki gerður úr kristalshvelum. En síðla á 17. öld setti eðlisfræðingurinn Sir Isaac Newton fram gerólíka hugmynd. Hann sagði að himintunglin toguðu hvert í annað með aðdráttarafli sínu. Newton var kominn skrefi nær þeim skilningi að jörðin og aðrir hnettir svífi í tómarúmi geimsins.

Kenning Newtons um þyngdarlögmálið mætti mikilli andstöðu. Vísindamenn áttu enn þá erfitt með að sjá fyrir sér hvernig stjörnur og aðrir hnettir himingeimsins gætu haldist á sínum stað án þess að vera festir þar á einhvern hátt. Hvernig gat jörðin, svo gríðarstór sem hún var, og önnur himintungl svifið í tómarúmi í geimnum? Það jaðraði við að vera yfirnáttúrlegt að mati sumra. Allt frá dögum Aristótelesar höfðu velflestir vísindamenn álitið að eitthvað hlyti að fylla rýmið á milli himintunglanna.

Job vissi auðvitað ekkert um hin ósýnilegu öfl sem héldu jörðinni á stöðugri sporbraut um sólu. Hver var þá kveikjan að því að hann sagði að jörðin svifi í geimnum?

Sú hugmynd að jörðin hvíli ekki á neinu vekur aðra spurningu: Hvað heldur henni og öðrum hnöttum himins á sporbraut? Guð ávarpaði Job einhverju sinni og spurði: „Hnýtir þú strengi Sjöstjörnunnar eða leysir þú fjötra Óríons?“ (Jobsbók 38:31) Kvöld eftir kvöld á langri ævi sá Job þessar kunnuglegu stjörnuþyrpingar koma upp og ganga til viðar. Hvorug þeirra hefur breyst svo nokkru nemi síðan hann var uppi. En af hverju litu þær eins út ár eftir ár? Af hverju breyttust þær ekki þótt áratugir liðu? Hvaða strengir og fjötrar héldu þessum stjörnum og öllum öðrum himintunglum á sínum stað? Job hefur eflaust fyllst lotningu við tilhugsunina.

Væru stjörnurnar festar á einhvers konar himinhvel þyrfti enga slíka strengi eða fjötra. Það liðu heil 2.000 ár þangað til vísindamenn fengu nánari vitneskju um þau ósýnilegu bönd sem halda himintunglunum saman í hægfara dansi þeirra um víðáttur himingeimsins. Þeir Isaac Newton og síðar Albert Einstein urðu frægir fyrir uppgötvanir sínar á þessu sviði. En Job vissi auðvitað ekkert um þau öfl sem Guð notar til að binda saman himintunglin. Innblásin orð Jobsbókar hafa engu að síður staðist tímans tönn, ólíkt hugmyndum hins lærða Aristótelesar. Gat nokkur annar en sá sem setti lögmálin gefið svona nákvæmar upplýsingar?

3. Eilífur eða hrörnandi?

Aristóteles taldi að gríðarlegur munur væri á himni og jörð. Hann sagði að jörðin væri undirorpin breytingum, hnignun og hrörnun en ljósvakinn, sem stjörnuhiminninn væri gerður úr, væri eilífur og algerlega óbreytanlegur. Kristalshvelin og himintunglin, sem fest væru við þau, myndu aldrei breytast, ganga úr sér eða deyja.

Hvað segir í Biblíunni um þetta mál? Í Sálmi 102:26-28 stendur eftirfarandi: „Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina og himinninn er verk handa þinna; þau munu líða undir lok en þú varir, þau munu fyrnast sem fat, þú leggur þau frá þér sem klæði og þau hverfa en þú ert hinn sami og ár þín fá engan enda.“

Sálmaskáldið var líklega uppi tveim öldum á undan Aristótelesi en gerir ekki þann greinarmun á himni og jörð að stjörnurnar séu eilífar en jörðin forgengileg. Í sálminum er bæði himni og jörð stillt upp sem andstæðu Guðs, hins máttuga anda sem skapaði þau. * Af sálminum má ráða að stjörnurnar hrörni ekki síður en allt sem er á jörð. Og hvað hafa vísindi nútímans til málanna að leggja?

Jarðfræðin styður bæði Biblíuna og Aristóteles að því leyti að jörðin sé undirorpin hrörnun og hnignun. Náttúruöflin mylja grjótið jafnt og þétt en nýtt bætist við vegna eldgosa og annarra jarðfræðilegra áhrifa.

En hvað um stjörnurnar? Ganga þær úr sér eins og Biblían gefur í skyn eða eru þær eilífar eins og Aristóteles kenndi? Á 16. öld sáu evrópskir stjörnufræðingar sprengistjörnu í fyrsta sinn og tóku að efast um þá kenningu Aristótelesar að stjörnurnar væru eilífar. Síðan þá hafa vísindamenn komist að raun um að stjörnur geta dáið í miklum hamförum eða brunnið hægt út eða jafnvel hrunið saman. En stjörnufræðingar hafa einnig séð nýjar stjörnur myndast í gasskýjum sem hafa auðgast við sprengingar gamalla stjarna. Það átti því vel við að biblíuritarinn skyldi líkja himintunglunum við klæði sem slitnar og er endurnýjað. * Það er nánast með ólíkindum að sálmaskáldinu skyldi takast endur fyrir löngu að nota orðfæri sem kemur svona vel heim og saman við nýjustu uppgötvanir.

Vel má vera að þér sé spurn hvort Biblían kenni að jörðin og stjörnuhiminninn í heild eigi eftir að líða undir lok eða þurfa á endurnýjun að halda. Biblían svarar því neitandi því að hún lofar að hvort tveggja standi að eilífu. (Sálmur 104:5; 119:90) Það stafar hins vegar ekki af því að himinn og jörð séu eilíf í sjálfu sér heldur lofar skaparinn að viðhalda þeim. (Sálmur 148:4-6) Hann segir ekki hvernig hann ætli að fara að því en það er rökrétt að sá sem skapaði alheiminn sé nógu máttugur til að viðhalda honum. Það má líkja honum við góðan smið sem reisir hús handa sér og fjölskyldunni og viðheldur því síðan með natni og umhyggju.

Hver ætti að fá heiðurinn?

Eftir að hafa íhugað fáein af lögmálum himinsins er svarið við spurningunni næsta ljóst. Finnum við ekki til djúprar lotningar þegar við veltum fyrir okkur hver hafi breitt út stjörnum prýddan himingeiminn í allri sinni víðáttu, hver heldur himintunglunum á sínum stað fyrir atbeina þyngdaraflsins og hver viðheldur þeim í endalausri hringrás þeirra?

Ætli ástæðunni fyrir því að við finnum til lotningar sé ekki best lýst í Jesaja 40:26 þar sem segir: „Hefjið upp augun og horfið til himins. Hver hefur skapað allt þetta? Það er hann sem kannar her stjarnanna, allan með tölu, nefnir þær allar með nafni.“ Það er vel við hæfi að líkja stjörnunum við her skipaðan ógrynni hermanna. Án styrkrar stjórnar yfirforingjans yrði herinn ekkert annað en óskipuleg þvaga. Ef Jehóva hefði ekki sett himninum lög myndu stjörnur, reikistjörnur og vetrarbrautir ekki ganga eftir skipulegum sporbrautum heldur væri ringulreiðin alger. Stjörnurnar eru eins og herlið með milljörðum manna sem færa sig úr stað eftir skipunum yfirforingjans, og hann þekkir meira að segja hvern einasta hermann með nafni, veit hvar hann er staddur og hvernig honum líður.

Lögmál himinsins gefa okkur örlitla innsýn í takmarkalausa visku þessa mikla yfirforingja. Hver annar gat sett lög sem þessi og innblásið mönnum að lýsa þeim nákvæmlega öldum og jafnvel árþúsundum áður en vísindamenn fengu skilning á þeim? Við höfum ærna ástæðu til að gefa Jehóva Guði „dýrðina og heiðurinn“. – Opinberunarbókin 4:11.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Það vekur athygli að talað er um ,jarðarkringlu‘ í Biblíunni en hebreska orðið getur einnig þýtt kúla eða hnöttur. Aristóteles og fleiri Grikkir, sem voru samtíða honum, töldu að jörðin væri hnöttótt en um það var enn deilt meira en 2.000 árum síðar.

^ gr. 13 Þetta myndmál er notað margsinnis í Biblíunni. – Jobsbók 9:8; Sálmur 104:2; Jesaja 42:5; 44:24; 51:13; Sakaría 12:1.

^ gr. 27 Þar eð Jehóva notaði himneskan einkason sinn sem verkstjóra við að skapa alla hluti má einnig heimfæra versin í sálminum á hann. – Orðskviðirnir 8:30, 31; Kólossubréfið 1:15-17; Hebreabréfið 1:10.

^ gr. 29 Á 19. öld setti vísindamaðurinn William Thomson, einnig þekktur sem Kelvin lávarður, fram annað lögmál varmafræðinnar. Samkvæmt því hafa öll kerfi í náttúrunni tilhneigingu til að hrörna og ganga úr sér. Eitt af því sem fékk hann til að draga þá ályktun var nákvæm athugun á Sálmi 102:26-28.

[Rammi/myndir á bls. 24, 25]

Djúpstæð áhrif

 „Aristóteles var mesti heimspekingur og vísindamaður fornaldar.“ Þetta kemur fram í bók sem fjallar um 100 áhrifamestu menn sögunnar. (The 100 – A Ranking of the Most Influential Persons in History) Auðséð er af hverju þessum óvenjulega manni er lýst þannig. Aristóteles (384-322 f.Kr.) var nemandi hins nafnkunna heimspekings Platóns og síðar kennari prinsins sem er kallaður Alexander mikli. Samkvæmt fornum heimildum var Aristóteles afkastamikill rithöfundur. Hann er talinn hafa ritað um 170 bækur og þar af hafa 47 varðveist. Hann skrifaði ósköpin öll um stjörnufræði, líffræði, efnafræði, dýrafræði, eðlisfræði, jarðfræði og sálfræði. Hann skrásetti ýmis smáatriði varðandi lifandi verur sem voru ekki könnuð eða rannsökuð að nýju fyrr en öldum síðar. „Aristóteles hafði ómæld áhrif á allar síðari tíma hugmyndir Vesturlandabúa,“ segir í áðurnefndri bók. Síðan segir: „Slík var aðdáun manna á Aristótelesi að á síðmiðöldum jaðraði hún við skurðgoðadýrkun.“

[Rétthafi myndar]

Royal Astronomical Society / Photo Researchers, Inc.

Úr bókinni A General History for Colleges and High Schools, 1900.

[Mynd á bls. 26, 27]

Þyngdaraflið heldur himintunglunum hverju á sínum stað.

[Rétthafi myndar]

NASA og The Hubble Heritage Team (AURA/STScl)

[Mynd á bls. 26, 27]

Sjöstirnið.

[Mynd á bls. 28]

Sumar stjörnur enda ævina sem sprengistjörnur.

[Rétthafi myndar]

ESA/Hubble

[Mynd á bls. 28]

Nýjar stjörnur myndast í miklum gasskýjum.

[Rétthafi myndar]

J. Hester og P. Scowen (AZ State Univ.), NASA

[Rétthafi myndar á bls. 24]

© Peter Arnold, Inc./​Alamy