Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlarðu að hlýða skýrum viðvörunum Jehóva?

Ætlarðu að hlýða skýrum viðvörunum Jehóva?

Ætlarðu að hlýða skýrum viðvörunum Jehóva?

„Þetta er vegurinn, farið hann.“ — JES. 30:21.

1, 2. Hvað reynir Satan að gera okkur og hvaða hjálp fáum við í Biblíunni?

SKILTI, sem vísar í ranga átt, er ekki bara villandi. Það getur verið beinlínis hættulegt að fylgja því. Segjum sem svo að góður vinur vari þig við því að illmenni hafi breytt vegskilti í þeim tilgangi að gera vegfarendum mein. Myndirðu ekki taka mark á viðvörun vinar þíns?

2 Satan er eins og þetta illmenni því að hann gerir allt sem hann getur til að leiða okkur af réttri braut. (Opinb. 12:9) Hætturnar, sem rætt var um í greininni á undan, eru af hans völdum og hafa það markmið að beina okkur út af veginum sem leiðir til eilífa lífsins. (Matt. 7:13, 14) Í gæsku sinni varar Guð okkur við villandi ,vegskiltum‘ Satans. Við skulum nú ræða um þrjár hættur í viðbót sem eru runnar undan rifjum Satans. Þegar við skoðum hvernig Biblían varar okkur við hættunum er engu líkara en að Jehóva gangi á eftir okkur og kalli til okkar: „Þetta er vegurinn, farið hann.“ (Jes. 30:21) Ef við hugleiðum skýrar viðvaranir Jehóva verðum við enn ákveðnari í að fara eftir þeim.

Fylgdu ekki falskennurum

3, 4. (a) Í hvaða skilningi eru falskennarar eins og uppþornaðir brunnar? (b) Hvaðan koma falskennarar oft og hvað gengur þeim til?

3 Ímyndaðu þér að þú sért á ferð um land sem er skrælnað af þurrki. Þú kemur auga á brunn í fjarska og tekur stefnuna á hann í von um að finna þar vatn til að svala þorstanum. En þér til mikilla vonbrigða uppgötvarðu að þar er ekki dropa af vatni að fá. Falskennarar eru eins og uppþornaðir brunnar. Sá sem ætlar að sækja sannleiksvatn til þeirra verður fyrir sárum vonbrigðum. Fyrir munn postulanna Péturs og Páls varar Jehóva við falskennurum. (Lestu Postulasöguna 20:29, 30; 2. Pétursbréf 2:1-3.) Hvaða menn eru þetta? Með því að lesa innblásin orð postulanna tveggja getum við áttað okkur á hvaðan þessir kennarar eru og hvernig þeir starfa.

4 Páll sagði við öldungana í Efesus: „Úr hópi sjálfra ykkar munu koma menn sem flytja rangsnúna kenningu.“ Pétur skrifaði trúsystkinum sínum: „Eins munu falskennendur líka verða á meðal ykkar.“ Hvaðan koma þá falskennararnir? Þeir geta komið úr söfnuðinum og eru þá fráhvarfsmenn. * Hvað gengur þeim til? Þeim nægir ekki að yfirgefa söfnuðinn sem þeim þótti kannski vænt um einu sinni. Páll segir að markmið þeirra sé „að tæla lærisveinana á eftir sér“. Tökum eftir að Páll talar um „lærisveinana“ með ákveðnum greini. Fráhvarfsmenn leita ekki að lærisveinum meðal almennings heldur reyna þeir að draga lærisveina Krists með sér. Falskennarar eru eins og „gráðugir vargar“ sem vilja rífa í sig grunlausa safnaðarmenn, brjóta niður trú þeirra og leiða þá burt frá sannleikanum. — Matt. 7:15; 2. Tím. 2:18.

5. Hvaða aðferðum beita falskennarar?

5 Hvernig starfa falskennarar? Þeir ,smeygja inn‘ háskalegum hugmyndum með slóttugum aðferðum. Þeir starfa með leynd, ekki ósvipað og smyglarar, til að lauma inn fráhvarfshugmyndum sínum. Þeir líkjast klárum falsara sem framvísar fölskum skjölum því að þeir nota ,uppspunnin orð‘, það er að segja villandi rök, til að telja fólki trú um að falskar kenningar þeirra séu sannar. Þeir fara með blekkingar og ,rangtúlka ritningarnar‘ svo að þær passi við þeirra eigin hugmyndir. (2. Pét. 2:1, 3, 13; 3:16) Það er augljóst að fráhvarfsmenn bera ekki hag okkar fyrir brjósti. Ef við fylgjum þeim villumst við út af veginum til eilífa lífsins.

6. Hvaða skýru viðvörun fáum við í Biblíunni varðandi falskennara?

6 Hvernig getum við varið okkur fyrir falskennurum? Í Biblíunni eru skýrar leiðbeiningar um hvernig við eigum að gera það. (Lestu Rómverjabréfið 16:17; 2. Jóhannesarbréf 9-11.) „Sneiðið hjá þeim,“ segir í Biblíunni. Það þýðir að við komum ekki nálægt þeim. Þessar innblásnu leiðbeiningar eru skýrar og einfaldar. Segjum sem svo að læknir segi þér að koma ekki nálægt manneskju sem gengur með bráðsmitandi banvænan sjúkdóm. Þú veist upp á hár hvað læknirinn á við og þú fylgir leiðbeiningum hans samviskusamlega. Fráhvarfsmenn eru ,sóttteknir‘ og reyna að smita aðra með villukenningum sínum. (1. Tím. 6:3, 4) Læknirinn mikli, Jehóva, segir okkur að forðast þá með öllu. Við vitum hvað hann á við en erum við ákveðin í að fara eftir viðvörun hans í einu og öllu?

7, 8. (a) Hvernig forðumst við falskennara? (b) Hvers vegna eigum við að taka eindregna afstöðu gegn falskennurum?

7 Hvernig forðumst við falskennara? Við bjóðum þeim ekki inn á heimili okkar og heilsum þeim ekki. Við lesum ekki rit þeirra, horfum ekki á sjónvarpsþætti þar sem þeir koma fram, skoðum ekki vefsíður þeirra og setjum ekki athugasemdir inn á bloggsíður þeirra. Hvers vegna tökum við svona eindregna afstöðu gegn þeim? Vegna kærleika. Við elskum Guð sannleikans þannig að við höfum engan áhuga á rangsnúnum kenningum sem stangast á við sannleiksorð hans. (Jóh. 17:17) Við elskum líka söfnuð Jehóva þar sem við höfum lært ótal heillandi sannindi. Við höfum lært að þekkja nafn Guðs, Jehóva, og merkingu þess og kynnst fyrirætlun hans með jörðina. Við vitum hvað verður um fólk þegar það deyr og þekkjum vonina um upprisu. Manstu hvernig þér var innanbrjósts þegar þú heyrðir þessi sannindi og mörg fleiri í fyrsta sinn? Láttu þá ekki róg og lygar falskennara snúa þér gegn söfnuðinum sem kenndi þér þessi sannindi. — Jóh. 6:66-69.

8 Við fylgjum ekki falskennurum, hvað sem þeir segja. Við höfum enga ástæðu til að hlusta á fólk sem er eins og uppþornaðir brunnar. Þeir sem gera það verða fyrir sárum vonbrigðum. Við skulum öllu heldur vera ákveðin í að vera trú Jehóva og söfnuði hans sem hefur alla tíð svalað þorsta okkar með hreinu og tæru vatni sannleikans í innblásnu orði Guðs. — Jes. 55:1-3; Matt. 24:45-47.

Hlustaðu ekki á ósannar sögur

9, 10. Hvernig varaði Páll Tímóteus við „kynjasögum“ og hvað kann hann að hafa haft í huga? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

9 Stundum er auðvelt að sjá að átt hefur verið við vegskilti og að það vísar í ranga átt. En í öðrum tilvikum getur verið erfitt að átta sig á blekkingunni. Hið sama er að segja um blekkingar Satans. Sumar eru augljósari en aðrar. Páll postuli varar við einni af lúmskum aðferðum Satans sem hann kallar ,kynjasögur‘. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:3, 4.) Til að villast ekki út af veginum til lífsins þurfum við að vita hvers konar kynjasögur átt er við og hvernig við getum varað okkur á þeim.

10 Viðvörun Páls við kynjasögum er að finna í fyrra bréfinu sem hann skrifaði Tímóteusi en hann var umsjónarmaður í kristna söfnuðinum. Páll fól honum það verkefni að halda söfnuðinum hreinum og hjálpa trúsystkinum sínum að vera Jehóva trú. (1. Tím. 1:18, 19) Páll notar hér grískt orð sem getur merkt uppspuni, þjóðsaga eða ósannindi. Í fræðiriti segir að orðið sé notað um „(trúarlega) sögu sem á sér enga stoð í veruleikanum“. (The International Standard Bible Encyclopaedia) Vera má að Páll hafi haft í huga lygar af trúarlegu tagi sem voru sprottnar af æsifengnum hviksögum eða ævintýralegum þjóðsögum. * Slíkar sögur eru helst til þess fallnar að valda þrætum og vekja spurningar sem leiða fólk út í tímafrekt og tilgangslaust grúsk. Ósannar sögur eru eitt af þeim brögðum sem Satan beitir til að blekkja fólk. Hann notar trúarlegar lygar og kynjasögur til að leiða grunlaust fólk af réttri braut. Viðvörun Páls er skýr: Hlustaðu ekki á ósannar sögur.

11. (a) Hvernig hefur Satan nýtt sér fölsk trúarbrögð á slóttugan hátt til að leiða fólk á villigötur? (b) Hvaða viðvörun fáum við frá Jehóva?

11 Lítum á dæmi um ósannindi sem geta leitt fólk á villigötur. Í meginatriðum geta ,kynjasögur‘ verið öll trúarleg ósannindi sem geta leitt okkur „burt frá sannleikanum“. (2. Tím. 4:3, 4) Satan nýtir sér fölsk trúarbrögð á slóttugan hátt til að leiða fólk á villigötur. Þess vegna er talað um að hann komi fram í „ljósengilsmynd“. (2. Kor. 11:14) Trúfélög, sem kalla sig kristin, halda fram kenningum sem eru að öllu leyti sprottnar af lygum og goðsögum. Þar má nefna kenningar eins og um þrenningu, helvíti og ódauðlega sál. Í kristna heiminum eru haldnar hátíðir á borð við jól og páska sem eiga rætur að rekja til heiðni, þótt hátíðarsiðirnir virðist á yfirborðinu sárasaklausir. Við látum ekki blekkjast af ósannindum ef við hlýðum viðvörunum Jehóva með því að aðgreina okkur frá öllu slíku og ,snerta ekki neitt óhreint‘. — 2. Kor. 6:14-17.

12, 13. (a) Nefndu þrjár lygar sem Satan hefur haldið á lofti. Hver er sannleikurinn? (b) Hvað getum við gert til að láta ekki villast af ósannindum Satans?

12 Satan hefur haldið á lofti fleiri lygum sem gætu leitt okkur af réttri braut ef við gætum ekki að okkur. Nefnum nokkur dæmi. Allt er leyfilegt. Þú ákveður sjálfur hvað sé rétt og rangt. Þessi hugmynd er allsráðandi í fjölmiðlum og skemmtanaiðnaðinum. Með því að rangfæra siðferðisreglur Guðs á þennan hátt er þrýst á okkur að sleppa fram af okkur beislinu. Sannleikurinn er sá að mennina sárvantar siðferðilega leiðsögn sem enginn nema Guð getur veitt. (Jer. 10:23) Guð á aldrei eftir að skipta sér af málefnum jarðarbúa. Ef við tryðum því og lifðum bara fyrir líðandi stund gætum við orðið „dáðlaus og ávaxtalaus“. (2. Pét. 1:8) Veruleikinn er sá að dagur Jehóva nálgast óðfluga og við verðum að sýna með daglegu líferni okkar að við bíðum hans með óþreyju. (Matt. 24:44) Guði stendur á sama um þig. Satan vill telja okkur trú um að við getum aldrei verðskuldað kærleika Guðs, og þá er hætta á að við gefumst upp. Sannleikurinn er hins vegar sá að Jehóva elskar þjóna sína og þeir eru allir dýrmætir í augum hans. — Matt. 10:29-31.

13 Við þurfum að vera á varðbergi öllum stundum vegna þess að viðhorf og hugsunarháttur fólks í heimi Satans getur virst sannfærandi við fyrstu sýn. En munum að Satan er snillingur í að blekkja fólk. Við verðum að hlýða viðvörunum Biblíunnar til að láta ekki „uppspunnar skröksögur“ Satans villa um fyrir okkur. — 2. Pét. 1:16.

Fylgdu ekki Satan

14. Hvað sagði Páll um nokkrar ungar ekkjur og af hverju þurfum við öll að taka orð hans til okkar?

14 Hugsaðu þér að þú rækist á skilti með eftirfarandi áletrun: „Þessa leið til að fylgja Satan.“ Myndi nokkurt okkar fara í þá átt sem skiltið vísaði? Páll varar engu að síður við því að vígðir þjónar Guðs geti með ýmsum hætti „horfið frá til fylgis við Satan“. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:11-15.) Páll talar í þessu samhengi um „ungar ekkjur“ en meginreglan, sem hann nefnir, á við okkur öll. Þessar ungu konur á fyrstu öld hafa kannski ekki ímyndað sér að þær fylgdu Satan en þær gerðu það samt óbeint með hátterni sínu. Hvað getum við gert til að fylgja ekki Satan óafvitandi? Páll bendir á að við þurfum að forðast skaðlegt slúður.

15. Hvert er markmið Satans og hvernig lýsir Páll aðferðum hans?

15 Satan vill þagga niður í okkur svo að við hættum að tala um trúna og boða fagnaðarerindið. (Opinb. 12:17) Þess vegna reynir að hann að fá okkur til að sóa tímanum eða valda sundrung á meðal okkar. Tökum eftir hvað Páll segir um þær aðferðir sem Satan beitir til að ná fólki á sitt band. Hann talar um að ekkjurnar hafi tamið sér „iðjuleysi, rápandi hús úr húsi“. Á tækniöld er hægðarleikur að sólunda tíma okkar og annarra, til dæmis með því að áframsenda tölvupóst með óþörfum eða jafnvel röngum upplýsingum. Ekkjurnar voru líka „málugar“. Skaðlegt slúður getur breyst í róg og hann veldur oft deilum. (Orðskv. 26:20) Þeir sem fara með róg líkja eftir Satan djöflinum, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. * Að síðustu segir Páll að ekkjurnar hafi verið „hlutsamar“. Við höfum engan rétt til að blanda okkur í einkamál annarra. Allt slíkt iðjuleysi, slúður og afskiptasemi getur beint athygli okkar frá því að boða fagnaðarerindið sem okkur er falið að gera. Ef við hættum að boða fagnaðarerindið erum við farin að fylgja Satan. Þar er enginn millivegur. — Matt. 12:30.

16. Hvaða leiðbeiningar geta hjálpað okkur svo að við snúumst ekki „til fylgis við Satan“?

16 Ef við hlýðum ráðum Biblíunnar er lítil hætta á að við snúumst „til fylgis við Satan“. Höfum í huga nokkur af þeim góðu ráðum sem Páll gaf. Hann hvetur okkur til að vera „síauðug í verki Drottins“. (1. Kor. 15:58) Ef við erum önnum kafin í þjónustu Jehóva sóum við ekki tímanum í iðjuleysi eða tímafreka afþreyingu. (Matt. 6:33) Við eigum að tala það sem er „gott til uppbyggingar“. (Ef. 4:29) Við skulum vera ákveðin í að hlusta hvorki á skaðlegt slúður né bera það út. * Treystum trúsystkinum okkar og berum virðingu fyrir þeim. Þá erum við ekki neikvæð í tali heldur uppbyggileg. „Hafið það markmið að . . . sinna ykkar eigin málum.“ (1. Þess. 4:11, NW) Sýndu fólki að þér sé annt um það en virtu samt reisn þess og einkalíf. Og höfum hugfast að við ættum ekki að þröngva skoðunum okkar upp á aðra því að þeir þurfa sjálfir að axla ábyrgð á ákvörðunum sínum. — Gal. 6:5.

17. (a) Af hverju gefur Jehóva okkur viðvaranir? (b) Hvað þurfum við að vera ákveðin í að gera?

17 Við megum vera innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli segja okkur skýrt og greinilega hverju við megum ekki fylgja og hvað við megum ekki hlusta á. En gleymum aldrei að viðvaranir Jehóva, sem fram koma í þessari grein og greininni á undan, eru til komnar af því að honum þykir ákaflega vænt um okkur. Hann vill hlífa okkur við þeim sársauka og erfiðleikum sem hljótast af því að fylgja villandi „vegskiltum“ Satans. Vegurinn, sem Jehóva vill að við förum, er mjór en hann er eini vegurinn sem liggur til eilífs lífs. (Matt. 7:14) Við skulum vera staðráðin í að fylgja alltaf hvatningu Jehóva: „Þetta er vegurinn, farið hann.“ — Jes. 30:21.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Með fráhvarfi er átt við það að gera uppreisn gegn sannri tilbeiðslu og snúa baki við henni.

^ gr. 10 Sem dæmi má nefna Tóbítsbók en hún er ein af apókrýfubókunum. Hún var skrifuð á þriðju öld f.Kr. og var því til á dögum Páls. Hún einkennist af hjátrú og fáránlegum sögum af töfrum og göldrum sem settar eru fram eins og sannleikur. — Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 122.

^ gr. 15 Orðið „djöfull“ er dregið af gríska orðinu diaʹbolos en það merkir „rógberi“. Orðið er notað sem heiti á Satan en hann er mesti rógberi sem til er. — Jóh. 8:44; Opinb. 12:9, 10.

^ gr. 16 Sjá rammagreinina  „Fiður í vindi“.

Hvert er svarið?

Hvernig geturðu farið eftir þeim viðvörunum sem er að finna í eftirfarandi ritningarstöðum?

2. Pétursbréfi 2:1-3.

1. Tímóteusarbréfi 1:3, 4.

1. Tímóteusarbréfi 5:11-15

[Spurningar]

[Rammi/​myndir á bls. 19]

 Fiður í vindi

Í gamalli dæmisögu Gyðinga er lýst hvaða afleiðingar það getur haft að útbreiða skaðlegt slúður. Sagan er til í mörgum myndum en í meginatriðum er hún á þessa leið:

Maður nokkur bar út ósannindi um vitrasta manninn í þorpinu. Síðar rann upp fyrir rógberanum að hann hefði gert rangt. Hann fór til vitra mannsins, baðst fyrirgefningar og bauðst til að gera hvað sem væri til að bæta fyrir brot sitt. Vitri maðurinn bað aðeins um eitt: Rógberinn átti að ná sér í kodda, klippa gat á hann og láta fiðrið dreifast með vindinum. Rógberanum þótti þetta undarleg beiðni en gerði eins og um var beðið. Hann fór síðan til vitra mannsins og spurði hvort sér væri fyrirgefið.

„Fyrst skaltu safna saman öllu fiðrinu,“ svaraði vitri maðurinn.

„En það er ekki hægt. Vindurinn er búinn að dreifa því út um allt.“

„Það er jafn erfitt að bæta skaðann sem þú vannst með orðum þínum og að safna saman fiðrinu.“

Lærdómurinn er augljós. Töluð orð eru ekki aftur tekin og óvíst að hægt sé að bæta skaðann sem þau hafa valdið. Áður en við förum með smá slúður er viturlegt að minnast þess að við erum í þann mund að dreifa fiðri út í vindinn.

[Mynd á bls. 16]

Hvernig gætum við boðið fráhvarfsmönnum inn á heimilið?