Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver ætti að fræða börnin um Guð?

Hver ætti að fræða börnin um Guð?

Hver ætti að fræða börnin um Guð?

„Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans.“ – LÚKAS 6:40.

SUMUM foreldrum finnst þeir ekki vera hæfir til að fræða börnin sín um Guð. Þeim finnst kannski að þeir hafi ekki næga menntun eða þekkingu á trúarbrögðum til að geta frætt börnin. Þess vegna hættir þeim til að fela ættingjum eða fulltrúum trúfélaga þetta mikilvæga verkefni.

En hverjir eru í bestri aðstöðu til að uppfræða börnin um trúarleg sannindi og siðferðisgildi? Íhugaðu það sem segir í Biblíunni um þetta og berðu það svo saman við það sem rannsóknir hafa leitt í ljós.

Hvert er hlutverk föðurins?

Biblían kennir: „Feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ – Efesusbréfið 6:4.

Niðurstöður rannsókna: Hvaða hag hafa feður af sterkri trúarsannfæringu? Í greininni Fathers’ Religious Involvement and Early Childhood Behavior, sem kom út árið 2009, segir: „Menn sem taka þátt í trúarlegri starfsemi geta orðið betri feður. Trúarsöfnuðir veita einstaklingum félagslegan stuðning og festu auk trúarkenninga og leiðbeininga um hvernig eigi að lifa lífinu.“

Í Biblíunni er lögð mikil áhersla á að feður taki þátt í uppeldi og fræðslu barnanna. (Orðskviðirnir 4:1; Kólossubréfið 3:21; Hebreabréfið 12:9) En eiga þessi ráð við nú á dögum? Flórídaháskóli birti árið 2009 niðurstöður rannsóknar á áhrifum feðra á börnin. Rannsóknin leiddi í ljós að börn feðra, sem taka virkan þátt í uppeldinu, eru umhyggjusamari og hafa betri sjálfsmynd en önnur börn. Drengir reyndust síður hegða sér illa og stúlkur voru líklegri til að búa við betri andlega heilsu. Ráð Biblíunnar eiga svo sannarlega enn við.

Hve mikilvægt er hlutverk móðurinnar?

Biblían kennir: „Hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar.“ – Orðskviðirnir 1:8.

Niðurstöður rannsókna: Í bókinni Handbook of Child Psychology frá árinu 2006 segir: „Mæður nota að meðaltali 65 til 80% meiri tíma en feður í bein samskipti við börnin meðan þau eru ung. Þetta hlutfall er svipað víða um lönd.“ Þar sem samskiptin eru þetta mikil hafa orð, verk og viðhorf móðurinnar djúpstæð áhrif á þroska barnsins.

Þegar foreldrarnir vinna saman að því að kenna börnunum sannleikann um Guð gefa þeir börnunum að minnsta kosti tvær dýrmætar gjafir. Í fyrsta lagi fá börnin tækifæri til að eignast vináttusamband við himneskan föður sinn, vináttusamband sem getur orðið þeim til blessunar alla ævina. Og í öðru lagi læra börnin af fordæmi foreldra sinna hvernig hjón eiga að vinna saman að því að ná mikilvægum markmiðum. (Kólossubréfið 3:18-20) Enda þótt aðrir geti aðstoðað foreldrana hvílir sú skylda á föður og móður að fræða börnin um Guð og það hlutverk sem hann hefur falið hverjum og einum í fjölskyldunni.

En hvernig eiga foreldrar að fræða börnin? Hvaða aðferðir eru líklegastar til árangurs?