Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugmyndir fyrir fjölskyldunám og sjálfsnám

Hugmyndir fyrir fjölskyldunám og sjálfsnám

Hugmyndir fyrir fjölskyldunám og sjálfsnám

Í ÁRSBYRJUN 2009 var gerð breyting á samkomum Votta Jehóva um heim allan. Kvöldsamkomurnar tvær á virkum dögum voru sameinaðar og allir voru hvattir til að nota lausa kvöldið fyrir fjölskyldu- eða sjálfsnám. Hefurðu nýtt þér vel þessa breytingu? Einstaklingar og fjölskyldur geta haft mikið gagn af slíku námskvöldi.

Sumir hafa velt fyrir sér hvaða námsefni þeir ættu að velja sér í fjölskyldunáminu. Hið stjórnandi ráð hefur ekki í hyggju að ákveða eitt fast form fyrir allar fjölskyldur. Þarfir fólks eru ólíkar svo að höfuð fjölskyldunnar þarf að íhuga hvað henti fjölskyldunni best. Einstaklingar þurfa sömuleiðis að velja sér námsefni eftir þörfum.

Sumir hafa notað kvöldið til að undirbúa sig fyrir safnaðarsamkomur en fjölskyldunámið þarf ekki að vera bundið við það. Aðrir hafa lesið og rætt biblíulegt efni og jafnvel fært það í leikbúning, sérstaklega til gagns og gamans fyrir yngri börn. Það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt að fara alltaf yfir efni með spurningum og svörum eins og á venjulegum samkomum. Afslappað andrúmsloft stuðlar oft að hvetjandi umræðum og skoðanaskiptum. Í slíku andrúmslofti eflist skapandi hugsun sem gerir námskvöldið minnisstætt og ánægjulegt fyrir alla.

Þriggja barna faðir skrifar: „Það sem við höfum gert byggist að mestu leyti á biblíulestri. Við lesum hvert fyrir sig kaflana fyrir fram, börnin velja eitthvert atriði til að rannsaka og síðan kynna þau niðurstöður sínar. Michael [sjö ára] teiknar oft mynd eða skrifar útdrátt úr efninu. David og Kaitlyn [13 og 15 ára] skrifa ef til vill biblíusögu út frá sjónarhorni áhorfanda. Tökum sem dæmi frásöguna af því þegar Jósef réð drauma fyrir bakara og byrlara faraós. Þá samdi Kaitlyn sögu þar sem hún setti sig í fótspor fanga sem horfði á atburðarásina.“ – 1. Mós. 40. kafli.

Aðstæður eru auðvitað ólíkar. Það sem hentar einum einstaklingi eða fjölskyldu hentar ef til vill ekki öðrum. Á blaðsíðunni til hægri eru kynntar margar hugmyndir sem hægt er að nota þegar fjölskyldunám eða sjálfsnám fer fram. Þér dettur áreiðanlega margt fleira í hug.

[Rammi/​Mynd á bls. 6, 7]

Fyrir fjölskyldur með unglinga:

• Lesið og ræðið Spurningar unga fólksins – svör sem duga.

• Lifið ykkur inn í frásögurnar sem þið lesið í Biblíunni. (Sjá Varðturninn 1. júlí 1996, bls. 22, greinar 17-18.)

• Ræðið langtíma- og skammtímamarkmið.

• Horfið af og til á biblíutengdan mynddisk og rabbið saman um efnið.

• Ræðið greinarnar „Fyrir unga lesendur“ í Varðturninum.

Fyrir barnlaus hjón:

• Ræðið kafla 1, 3 og 11-16 í bókinni Farsælt fjölskyldulíf – hver er leyndardómurinn?

• Segið frá niðurstöðum rannsókna ykkar á lesefni í Biblíunni.

• Undirbúið ykkur fyrir safnaðarbiblíunámið eða Varðturnsnámið.

• Ræðið hvernig þið hjónin getið aukið boðunarstarfið.

Fyrir einhleypa og þá sem eiga ekki trúaðan maka:

• Kynnið ykkur nýju ritin sem þið fenguð á landsmótinu.

• Lesið nýjustu árbókina og eldri árbækur.

• Kannið hvernig best sé að svara algengum spurningum fólks á svæðinu.

• Undirbúið kynningar fyrir boðunarstarfið.

Fyrir fjölskyldur með ung börn:

• Færið biblíusögur í leikbúning.

• Farið í minnisleiki líka þeim sem eru á blaðsíðu 30 og 31 í Vaknið!

• Gerið stundum eitthvað nýtt til að virkja hugmyndaflug barnanna. (Sjá „Það er erfiðisins virði“ í Varðturninum 15. febrúar 2011, bls. 11.)

• Farið yfir greinarnar „Kenndu börnunum“ í Varðturninum.