Hoppa beint í efnið

Skattar – er nauðsynlegt að greiða þá?

Skattar – er nauðsynlegt að greiða þá?

Skattar – er nauðsynlegt að greiða þá?

FÁIR greiða skatta með ánægju. Margir álíta að illa sé farið með skattfé vegna óskilvirkni, misnotkunar eða hreinna svika. Sumir mótmæla því að greiða skatta af siðferðilegum ástæðum. Íbúar í bæ í Mið-Austurlöndum útskýrðu ákvörðun sína að greiða ekki skatta þannig: „Við neitum að fjármagna byssukúlurnar sem drepa börnin okkar.“

Slíkar yfirlýsingar eru hvorki einsdæmi né nýjar af nálinni. Hindúaleiðtoginn Mohandas K. Gandhi útskýrði hvers vegna samviska hans leyfði honum ekki að greiða skatta og sagði: „Sá sem styður stjórn sem hefur yfir her að ráða, hvort sem stuðningurinn er beinn eða óbeinn, tekur þátt í syndugu athæfi. Hver og einn, gamall eða ungur, gerir það með því að viðhalda stjórninni þegar hann greiðir skatta.“

Henry David Thoreau heimspekingur á 18. öld sagði ákvörðun sína vera af siðferðilegum ástæðum þegar hann útskýrði hvers vegna hann neitaði að greiða skatta sem voru notaðir í stríðsrekstur. Hann spurði: „Verður borgari að leyfa löggjafanum að taka ákvörðun sem hann ætti að taka í samræmi við eigin samvisku? Til hvers hafa þá menn samvisku?“

Þetta snertir þjóna Guðs því Biblían kennir að þeir ættu að hafa hreina samvisku í öllum málum. (2. Tímóteusarbréf 1:3) Á hinn bóginn viðurkennir Biblían rétt stjórnvalda til að innheimta skatta. Hún segir: „Allir eiga að vera undirgefnir yfirvöldum [stjórnum manna] því að engin yfirvöld eru til sem eru ekki frá Guði, og þau sem eru til eru hver í sinni stöðu með leyfi Guðs. Það er því nauðsynlegt að þið séuð undirgefin, ekki aðeins til að forðast refsingu heldur einnig samvisku ykkar vegna. Þess vegna borgið þið líka skatta enda eru yfirvöldin þjónn Guðs í þágu almennings og inna af hendi það verkefni sem þau hafa fengið. Gefið öllum það sem þeir eiga rétt á: þeim skatt sem fer fram á skatt.“ – Rómverjabréfið 13:1, 5–7.

Af þessari ástæðu voru þjónar Guðs á fyrstu öld vel þekktir fyrir að vera fúsir til að greiða skatta jafnvel þótt umtalsverður hluti þeirra væri notaður í stríðsrekstur. Það sama á við um votta Jehóva nú á dögum. * Hvernig er hægt að útskýra þetta sem virðist vera mótsögn? Verður þjónn Guðs að hunsa samvisku sína þegar hann á að greiða skatta?

Skattar og samviskan

Hluti þeirra skatta sem þjónar Guðs þurftu að greiða á fyrstu öld fór til hersins. En þrátt fyrir það greiddu þeir skatta til að hafa hreina samvisku. Á hinn bóginn álitu Gandhi og síðar Thoreau að til að hafa hreina samvisku þyrftu þeir að neita að greiða skatta sem fóru til hersins.

Tökum eftir að þjónar Guðs hlýddu fyrirmælunum í Rómverjabréfinu 13. kafla ekki aðeins til að forðast refsingu heldur líka „samvisku [sinnar] vegna“. (Rómverjabréfið 13:5) Samviska þjóns Guðs krefst þess reyndar að hann greiði skatta jafnvel þótt þeir séu notaðir til að styðja starfsemi sem hann er persónulega andvígur. Til að skilja að því er virðist þessa þversögn verðum við að skilja ákveðið grundvallaratriði varðandi samviskuna, þessa innri rödd sem segir okkur hvort breytni okkar sé rétt eða röng.

Allir hafa slíka innri rödd, eins og Thoreau tók eftir, en hún er ekki alltaf áreiðanleg. Til að Guð sé ánægður með okkur þarf samviska okkar að samræmast siðferðismælikvarða hans. Við þurfum oft að aðlaga okkar hugsun eða viðhorf að viðhorfum Guðs vegna þess að hugsun hans er æðri okkar hugsun. (Sálmur 19:8) Við ættum að leggja okkur fram við að skilja viðhorf Guðs til stjórna manna. Hvert er viðhorf hans?

Við tökum eftir því að Páll postuli kallar stjórnir manna ,þjón Guðs í þágu almennings‘. (Rómverjabréfið 13:6) Hvaða merkir það? Í grundvallaratriðum að þeir viðhalda reglu og sinna mikilvægum skyldum í þágu samfélagsins. Jafnvel spilltustu stjórnir sjá fyrir þjónustu eins og póstþjónustu, menntun, brunavörnum og að lögum sé framfylgt. Þótt Guði sé fullkunnugt um galla þessar stjórna manna umber hann tilvist þeirra um tíma og fyrirskipar að við greiðum skatta af virðingu fyrir þessu fyrirkomulagi, það er að hann leyfi þessum stjórnum að ríkja yfir mannkyninu.

Guð leyfir stjórnir manna aðeins um stuttan tíma. Það er ætlun hans að himneskt ríki hans leysi mannlegar stjórnir af hólmi og bæti á endanum allan þann skaða sem þær hafa valdið mannkyninu í gegnum aldirnar. (Daníel 2:44; Matteus 6:10) Þangað til hefur Guð samt ekki gefið þjónum sínum leyfi til að taka þátt í andstöðu með því að neita að greiða skatta eða með nokkrum öðrum hætti.

En hvað ef okkur finnst, eins og Gandhi, enn þá rangt að greiða skatta sem fjármagna styrjaldir? Rétt eins og yfirsýn okkar á landsvæði verður meiri þegar við komumst hærra upp, þá getum við aðlagað hugsun okkar betur mælikvarða Guðs með því að íhuga hversu mikla yfirsýn hann hefur umfram okkur. Fyrir milligöngu Jesaja spámanns sagði Guð: „Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.“ – Jesaja 55:8, 9.

Algert vald?

Fyrirmæli Biblíunnar um að greiða skatta gefur ekki til kynna að mannlegar stjórnir geti krafist algers valds yfir þegnum sínum. Jesús kenndi að Guð gefur þessum stjórnum takmörkuð yfirráð. Þegar Jesús var spurður hvort það væri rétt í augum Guðs að greiða Rómverskum yfirvöldum skatta endurspeglaði svar hans djúpstæða visku: „Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guði.“ – Markús 12:13–17.

Stjórnvöld, sem „keisarinn“ stendur fyrir, slá mynt og prenta peninga og reyna að tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins. Í augum Guðs hafa þau því rétt til að fara fram á þóknun í mynd skatta. En Jesús sýndi að engin mannleg stofnun getur krafist ,þess sem tilheyrir Guði‘ – lífs okkar og tilbeiðslu. Þegar lög manna eða kröfur stangast á við lög Guðs verða þjónar hans að ,að hlýða Guði framar en mönnum‘. – Postulasagan 5:29.

Það getur truflað þjóna Guðs nú á dögum hvernig skattpeningar eru notaðir en þeir freistast ekki til að skipta sér af eða reyna að hafa áhrif á stjórnvöld með því að standa á móti þeim eða neita að greiða skatta. Það myndi gefa til kynna að þeir treystu því ekki að Guð ætli að leysa vanda mannkynsins. Þess í stað bíða þeir þolinmóðir eftir tíma Guðs til að hafa afskipti af málefnum manna fyrir atbeina stjórnar Jesú sonar hans sem sagði: „Ríki mitt tilheyrir ekki þessum heimi.“ – Jóhannes 18:36.

Það er gagnlegt að fylgja fyrirmælum Biblíunnar

Við getum haft margvíslegt gagn af því að fylgja fyrirmælum Biblíunnar varðandi það að greiða skatta. Við þurfum ekki að óttast að vera gripin eða vera refsað sem lögbrjótum. (Rómverjabréfið 13:3–5) Og það sem meira máli skiptir er að við höfum hreina samvisku frammi fyrir Guði og heiðrum hann með því að vera löghlýðin. Þótt þú kunnir að verða fyrir fjárhagslegum skaða samanborið við þá sem neita að greiða eða svíkja jafnvel undan skatti geturðu treyst á loforð Guðs um að hann annist trúfasta þjóna sína. Biblíuritarinn Davíð sagði: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ – Sálmur 37:25.

Að skilja og hlýða boði Biblíunnar um að greiða skatta veitir hugarfrið. Guð gerir okkur ekki ábyrg fyrir öllu því sem stjórnvöld gera við skattfé, ekki frekar en að við erum ábyrg fyrir því sem leigusali gerir við þá peninga sem við greiðum í leigu. Maður að nafni Stelvio reyndi um árabil að koma á stjórnmálabreytingum í Suður-Evrópu áður en hann lærði sannleika Biblíunnar. Þegar hann útskýrði hvers vegna hann hætti því sagði hann: „Ég varð að viðurkenna að menn geta ekki komið á réttlæti, friði og bræðralagi í heiminum. Aðeins Guðsríki getur í sannleika breytt samfélaginu til hins betra.“

Við getum, eins og Stelvio, líka verið fullviss um það ef við ,gjöldum Guði það sem tilheyrir Guði‘. Við getum fengið að sjá þann tíma þegar Guð kemur á réttlátri stjórn um alla jörð og bætir þann skaða og óréttlæti sem stjórnir manna hafa valdið.

[Neðanmáls]

^ Upplýsingar um votta Jehóva sem skattgreiðendur má finna í Varðturninum 1. janúar 2003 bls. 26 gr. 15 og 1. júní 1996 bls. 17 gr. 7.

[Innskot]

Við þurfum að aðlaga viðhorf okkar að viðhorfi Guðs vegna þess að hugsun hans er æðri okkar hugsun.

[Innskot]

Þegar við, þjónar Guðs, greiðum skatta af hlýðni höfum við góða samvisku frammi fyrir Guði og sýnum að við treystum honum til að annast þarfir okkar.

[Myndir]

„Gjaldið keisaranum það sem tilheyrir keisaranum en Guði það sem tilheyrir Guð.“

[Rétthafi]

Rétthafi: British Museum