Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er hlutdeild mín

Jehóva er hlutdeild mín

Jehóva er hlutdeild mín

„Ég er jarðeign þín og erfðahlutur meðal Ísraelsmanna.“ – 4. MÓS. 18:20.

1, 2. (a) Hver var staða Levíta þegar Jósúa skipti fyrirheitna landinu? (b) Hverju lofaði Jehóva Levítum?

EFTIR að Ísraelsmenn höfðu lagt undir sig stóran hluta af fyrirheitna landinu sneri Jósúa sér að því að skipta landinu með hlutkesti. Eleasar æðstiprestur og höfðingjar ættbálkanna unnu með honum að þessu verkefni. (4. Mós. 34:13-29) Levítarnir voru eini ættbálkurinn sem fékk engan erfðahlut. (Jós. 14:1-5) Af hverju fengu þeir enga jarðeign eða erfðahlut í fyrirheitna landinu? Voru þeir skildir út undan?

2 Svarið er að finna í því sem Jehóva sagði við Levítana. Til að undirstrika að ekki væri verið að skilja þá út undan sagði hann við þá: „Ég er jarðeign þín og erfðahlutur meðal Ísraelsmanna.“ (4. Mós. 18:20) Hvílíkt loforð! Hvernig yrði þér innanbrjósts ef Jehóva segðist vera jarðeign þín eða hlutdeild eins og það er orðað annars staðar í Biblíunni? Til að byrja með hugsarðu kannski hvort þú sért verður þess að fá annað eins loforð frá almáttugum Guði. Þú gætir líka velt fyrir þér hvort Jehóva geti yfirhöfuð verið hlutdeild ófullkominna manna nú á dögum. Þessar spurningar snerta þig og ástvini þína. Við skulum því athuga hvað þetta loforð Jehóva þýðir. Þá skiljum við betur hvernig Jehóva getur verið hlutdeild kristinna manna nú á dögum. Og við sjáum jafnvel hvernig hann getur verið hlutdeild okkar persónulega, hvort sem við vonumst til að lifa á himnum eða í paradís á jörð.

Jehóva sá fyrir Levítunum

3. Hvað varð til þess að Guð útvaldi Levítana í þjónustu sína?

3 Fyrir tíma lögmálsins þjónuðu fjölskyldufeður sem prestar í sinni fjölskyldu. En þegar Guð gaf Ísraelsmönnum lögmálið valdi hann menn úr ætt Leví til að þjóna sem presta og aðstoðarmenn. Hvernig kom þetta til? Þegar Guð deyddi frumburði Egypta helgaði hann frumburði Ísraelsmanna. Hann útvaldi þá sem eign sína. Síðan gerði hann mikilvæga breytingu og tók Levíta „í stað allra frumburða Ísraelsmanna“. Þegar manntal var gert kom hins vegar í ljós að frumburðir Ísraelsmanna voru fleiri en Levítarnir og því var greitt lausnargjald fyrir þá sem voru umfram Levítana. (4. Mós. 3:11-13, 41, 46, 47, Biblían 1981) Þannig gátu Levítarnir hafið þjónustu sína við Guð Ísraels.

4, 5. (a) Hvað þýddi það fyrir Levítana að hafa Guð sem jarðeign sína eða hlutdeild? (b) Hvernig sá Jehóva fyrir Levítunum?

4 Hvaða þýðingu hafði þetta verkefni fyrir Levítana? Jehóva sagðist vera jarðeign þeirra eða hlutdeild. Það þýddi að í stað þess að fá úthlutað landareign var þeim treyst fyrir einstöku þjónustuverkefni. „Prestsembætti“ Jehóva var erfðahlutur þeirra. (Jós. 18:7) Af samhenginu í 4. Mósebók 18:20 má sjá að þá skorti samt ekkert efnislega. (Lestu 4. Mósebók 18:19, 21, 24.) Levítarnir áttu að fá ,alla tíund í Ísrael sem erfðahlut. Það var gjald fyrir þá þjónustu sem þeir inntu af hendi.‘ Þeir áttu að fá 10 prósent af því sem landið gaf af sér og tíund af öllum dýrum sem fæddust. Á móti áttu Levítarnir að gefa tíund „af því besta“ sem þeir fengu til að styðja prestastéttina. * (4. Mós. 18:25-29) Prestarnir fengu auk þess „allar helgigjafir“ sem Ísraelsmenn færðu Guði á tilbeiðslustað hans. Prestarnir höfðu því góða ástæðu til að trúa því að Jehóva myndi sjá fyrir þeim.

5 Svo virðist sem lögmálið hafi kveðið á um aðra tíund sem fjölskyldur lögðu til hliðar og notuðu til að kaupa vistir og gleðjast á árlegu hátíðunum. (5. Mós. 14:22-27) En þessi tíund þjónaði einnig öðrum tilgangi. Sjöunda hvert ár héldu Ísraelsmenn hvíldarár. Við lok þriðja og sjötta ársins á þessu sjö ára tímabili notuðu Ísraelsmenn tíundina í þágu fátækra og einnig Levítanna. Af hverju fengu Levítarnir hluta af þessari gjöf? Af því að þeir hlutu hvorki „land né erfðahluti“ í Ísrael. – 5. Mós. 14:28, 29.

6. Hvar bjuggu Levítarnir fyrst þeim var ekki úthlutuð nein jarðeign í Ísrael?

6 Þú veltir kannski fyrir þér hvar Levítarnir bjuggu fyrst þeim var ekki úthlutuð nein jarðeign. Guð sá fyrir þeim. Hann gaf þeim 48 borgir ásamt nærliggjandi beitilöndum. Þar á meðal voru griðaborgirnar sex. (4. Mós. 35:6-8) Þar með höfðu Levítarnir stað til að búa á þegar þeir voru ekki að þjóna við helgidóm Guðs. Jehóva sá ríkulega fyrir þeim sem helguðu sig þjónustunni við hann. Levítarnir gátu greinilega sýnt að Jehóva var hlutdeild þeirra með því að treysta að hann vildi og gæti séð fyrir þeim.

7. Hvað urðu Levítarnir að gera til að hafa Jehóva sem hlutdeild sína?

7 Í lögmálinu var engin refsing við því að greiða ekki tíund. Þegar þjóðin vanrækti það kom það niður á prestunum og Levítunum. Þetta gerðist á dögum Nehemía. Það varð til þess að Levítarnir urðu að vinna á ökrunum og vanrækja þjónustustörf sín. (Lestu Nehemíabók 13:10.) Afkoma Levítanna var því greinilega háð því að Ísraelsmenn hlýddu lögum Jehóva. Auk þess þurftu prestarnir og Levítarnir sjálfir að treysta á Jehóva og leið hans til að sjá fyrir þeim.

Jehóva var hlutdeild einstakra Levíta

8. Hvað olli Levítanum Asaf hugarangri?

8 Levítarnir sem heild áttu að hafa Jehóva sem hlutdeild sína. En það er athyglisvert að einstakir Levítar notuðu orðalagið „Drottinn er hlutdeild mín“ til að tjá hollustu sína og traust. (Harmlj. 3:24) Einn þeirra var söngvari og skáld. Við skulum kalla hann Asaf þó að hann gæti hafa verið einhver úr fjölskyldu Asafs, Levítans sem stjórnaði söngnum á dögum Davíðs konungs. (1. Kron. 6:31-43) Í Sálmi 73 segir frá því að Asaf (eða einhver afkomandi hans) hafi orðið ráðvilltur og farið að öfunda hina guðlausu sem bjuggu við velmegun. Hann sagði jafnvel: „Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi.“ Hann missti greinilega sjónar á því hve dýrmætri þjónustu hann gegndi og gleymdi að Jehóva var hlutdeild hans. Þetta olli honum hugarangri „uns [hann] kom inn í helgidóma Guðs“. – Sálm. 73:2, 3, 12, 13, 17.

9, 10. Af hverju gat Asaf sagt að Guð væri ,hlutskipti hans um eilífð‘?

9 Þegar Asaf var kominn í helgidóminn breytti hann um hugarfar. Ef til vill hefur þér einhvern tíma liðið eins og honum. Þú gætir um tíma hafa misst sjónar á því hve dýrmæt þjónustan við Jehóva er og að einhverju leyti farið að einblína á það sem þig skorti efnislega. En með því að lesa í Biblíunni og sækja safnaðarsamkomur sástu málin frá sjónarhóli Jehóva. Asaf skildi hvað yrði um hina óguðlegu að lokum. Hann hugsaði um það sem hann hafði og gerði sér grein fyrir því að Jehóva myndi halda í hægri hönd hans og leiða hann. Þess vegna gat Asaf sagt við Jehóva: „Hafi ég þig hirði ég eigi um neitt á jörðu.“ (Sálm. 73:23, 25) Síðan kallaði hann Guð hlutskipti sitt. (Lestu Sálm 73:26.) Þótt ,hold og hjarta‘ sálmaritarans tærðust yrði Guð ,hlutskipti hans um eilífð‘. Sálmaritarinn var sannfærður um að Jehóva myndi minnast hans sem vinar síns. Trúföst þjónusta hans félli ekki í gleymsku. (Préd. 7:1) Þetta hlýtur að hafa verið Asaf til mikillar hughreystingar. Hann söng: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“ – Sálm. 73:28.

10 Þegar Asaf sagði að Guð væri hlutskipti sitt var hann ekki bara að tala um efnislegu gjafirnar sem hann fékk af því að hann var Levíti. Hann var aðallega að hugsa um þjónustuverkefni sín og sambandið við Jehóva. Hann lét sér annt um vináttu hins hæsta. (Jak. 2:21-23) Til að varðveita þetta samband varð sálmaritarinn að hafa trú og traust á Jehóva. Asaf varð að treysta því að hann ætti fyrir sér bjarta framtíð ef hann hlýddi fyrirmælum Guðs. Þú getur borið sama traust til hins almáttuga.

11. Hvaða spurningu velti Jeremía fyrir sér og hvernig var henni svarað?

11 Spámaðurinn Jeremía var annar Levíti sem leit á Jehóva sem hlutdeild sína. Við skulum athuga hvað hann átti við þegar hann notaði þetta orðalag. Jeremía bjó í Anatót, Levítaborg í nágrenni Jerúsalem. (Jer. 1:1) Á tímabili varð Jeremía ráðvilltur og spurði hvers vegna ranglátir nutu velgengni á meðan hinir réttlátu þjáðust. (Jer. 12:1) Þegar hann sá hvað átti sér stað í Jerúsalem og Júda fann hann sig knúinn til að ,deila við‘ Jehóva. Jeremía vissi hins vegar að Jehóva er réttlátur. Hann fékk skýrt svar við spurningu sinni þegar Jehóva innblés honum að flytja spádóm sem hlaut síðan uppfyllingu. Í samræmi við spádóma Jehóva fengu þeir sem hlýddu fyrirmælum hans „eigið líf að herfangi“ en hinir ranglátu hunsuðu viðvaranirnar og fórust. – Jer. 21:9.

12, 13. (a) Hvað fékk Jeremía til að segja: „Drottinn er hlutdeild mín“ og hvaða hugarfar hafði hann? (b) Af hverju þurftu allir ættbálkar Ísraels að vona á Jehóva?

12 Seinna, þegar Jeremía horfði yfir landið sitt sem búið var að leggja í eyði, fannst honum Jehóva hafa hneppt sig í myrkur „eins og þá sem dánir eru fyrir löngu“. (Harmlj. 1:1, 16; 3:6) Jeremía hafði sagt fráhverfri þjóðinni að snúa sér aftur til föðurins á himnum en illska hennar var orðin svo mikil að Guð varð að láta eyða Jerúsalem og Júda. Það olli Jeremía sársauka þótt það væri ekki við hann að sakast. Í öllum þessum hörmungum minntist spámaðurinn samt miskunnar Guðs. Hann sagði: „Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans . . . er ný á hverjum morgni.“ Það var á þessari stundu sem Jeremía notaði orðalagið: „Drottinn er hlutdeild mín.“ Honum fannst dýrmætt að fá að halda áfram að þjóna sem spámaður Jehóva. – Lestu Harmljóðin 3:22-24.

13 Í 70 ár myndu Ísraelsmenn ekki eiga neina ættjörð. Landið myndi liggja í eyði. (Jer. 25:11) En þegar Jeremía sagði: „Drottinn er hlutdeild mín“ sýndi það að hann treysti á miskunn Guðs. Það fékk Jeremía til að sýna biðlund og ,vona á hann‘. Allir ættbálkar Ísraels höfðu tapað erfðahlut sínum og því þurftu þeir að tileinka sér sama hugarfar og spámaðurinn. Jehóva var eina von þeirra. Að 70 árum liðnum sneri þjóð Guðs aftur til ættjarðar sinnar og fékk tækifæri til að þjóna honum þar. – 2. Kron. 36:20-23.

Aðrir höfðu sama möguleika

14, 15. Hver kallaði Jehóva hlutdeild sína þótt hann væri ekki Levíti og hvers vegna?

14 Bæði Asaf og Jeremía voru af ætt Leví. En voru það aðeins Levítar sem fengu að þjóna Jehóva? Alls ekki. Hinn ungi Davíð, verðandi konungur Ísraels, kallaði Guð ,hlutskipti sitt á landi lifenda‘. (Lestu Sálm 142:2, 6.) Þegar Davíð orti þennan sálm dvaldi hann ekki í höll og ekki einu sinni í húsi. Hann bjó í helli, á flótta undan óvinum sínum. Davíð faldi sig að minnsta kosti tvisvar í hellum, einu sinni nálægt Adúllam og við annað tækifæri í óbyggðum Engedí. Vel má vera að hann hafi ort Sálm 142 í öðrum hvorum þessara hella.

15 Ef sú var raunin var það Sál konungur sem var að elta Davíð og vildi hann feigan. Davíð flúði í helli sem var erfitt að komast að. (1. Sam. 22:1, 4) Á þessu afskekkta svæði gæti Davíð hafa liðið eins og enginn vinur væri við hans hlið til að styðja hann. (Sálm. 142:5) Það var á þessari stundu sem hann ákallaði Guð.

16, 17. (a) Af hverju gæti Davíð hafa fundið til vonleysis? (b) Til hvers gat Davíð snúið sér?

16 Þegar Davíð orti 142. sálminn var hann ef til vill búinn að frétta hvað kom fyrir Ahímelek æðstaprest sem hafði óafvitandi aðstoðað Davíð þegar hann var á flótta undan Sál. Hinn öfundsjúki Sál lét drepa Ahímelek og allt hans fólk. (1. Sam. 22:11, 18, 19) Davíð fannst hann ábyrgur fyrir dauða þeirra. Honum leið eins og hann hefði drepið prestinn sem hjálpaði honum. Hefði þér fundist þú ábyrgur ef þú hefðir verið í sporum Davíðs? Í ofanálag gat Davíð ekkert hvílst því Sál var stöðugt á höttunum eftir honum.

17 Stuttu seinna dó spámaðurinn Samúel en hann hafði smurt Davíð sem tilvonandi konung. (1. Sam. 25:1) Það getur hafa aukið á vonleysi Davíðs. En hann vissi samt að hann gat snúið sér til Jehóva til að fá hjálp. Davíð gegndi ekki sömu þjónustuverkefnum og Levítarnir en hann hafði þegar verið smurður til að sinna annars konar þjónustu, að verða konungur þjóðar Guðs. (1. Sam. 16:1, 13) Þess vegna úthellti hann hjarta sínu fyrir Jehóva og hélt áfram að leita leiðsagnar hans. Þú getur líka litið á Jehóva sem hlutdeild þína og hæli þegar þú leggur þig fram í þjónustunni við hann.

18. Hvernig sýndu þeir sem fjallað var um í þessari grein að Jehóva var hlutdeild þeirra?

18 Þeir sem fjallað var um í þessari grein höfðu Jehóva sem hlutdeild sína í þeim skilningi að þeir höfðu verkefnum að sinna í þjónustu hans. Þeir treystu því að Jehóva myndi sjá fyrir þeim í þessari þjónustu. Bæði Levítar og Ísraelsmenn af öðrum ættum, eins og Davíð, gátu látið Jehóva vera hlutdeild sína. En hvernig getur þú látið Jehóva vera hlutdeild þína? Um það verður rætt í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nánari upplýsingar um það hvernig séð var fyrir prestastéttinni er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 684.

Hvert er svarið?

• Í hvaða skilningi var Jehóva hlutdeild Levíta?

• Hvað gerðu Asaf, Jeremía og Davíð til að sýna að Jehóva væri hlutdeild þeirra?

• Hvaða eiginleika þarft þú að þroska með þér ef Jehóva á að vera hlutdeild þín?

[Spurningar]

[Innskot á bls. 8]

Levítarnir fengu engan erfðahlut. Jehóva var hlutdeild þeirra því að þeir höfðu þann heiður að sinna sérstakri þjónustu.

[Mynd á bls. 7]

Í hvaða skilningi var Jehóva hlutdeild presta og Levíta?

[Mynd á bls. 9]

Hvað hjálpaði Asaf að halda áfram að líta á Jehóva sem hlutdeild sína?