Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Jehóva hlutdeild þín?

Er Jehóva hlutdeild þín?

Er Jehóva hlutdeild þín?

„Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ – MATT. 6:33.

1, 2. (a) Hverja táknar „Ísrael Guðs“ sem fjallað er um í Galatabréfinu 6:16? (b) Hverja tákna „tólf ættkvíslir Ísraels“ í Matteusi 19:28?

HVAÐ dettur þér í hug þegar þú lest nafnið Ísrael í Biblíunni? Hugsarðu um Jakob, son Ísaks, sem fékk nafnið Ísrael? Eða hugsarðu um afkomendur hans, Ísraelsþjóðina til forna? Hvað um hinn andlega Ísrael? Þegar talað er um Ísrael í táknrænni merkingu á það yfirleitt við „Ísrael Guðs“, hinar 144.000 sem eru smurðar með heilögum anda til að verða konungar og prestar á himnum. (Gal. 6:16; Opinb. 7:4; 21:12) En í Matteusi 19:28 er að finna sérstaka tilvísun í 12 ættkvíslir Ísraels. Skoðum það nánar.

2 Jesús sagði: „Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ Í þessu versi tákna „tólf ættkvíslir Ísraels“ þá sem verða dæmdir af smurðum lærisveinum Jesú og eiga von um eilíft líf í paradís á jörð. Þeir njóta góðs af prestþjónustu hinna 144.000.

3, 4. Hvers konar fordæmi hafa hinir andasmurðu gefið?

3 Hinum andasmurðu nú á dögum finnst einstaklega dýrmætt að mega þjóna Jehóva, ekki síður en prestum og Levítum forðum daga. (4. Mós. 18:20) Þeir ætlast ekki til að fá úthlutað landsvæði hér á jörðinni heldur hlakka þeir til að verða konungar og prestar á himnum með Jesú Kristi. Það verður verkefni þeirra eins og sjá má af Opinberunarbókinni 4:10, 11, en þar er rætt um stöðu hinna andasmurðu á himnum. – Esek. 44:28.

4 Á meðan hinir andasmurðu eru enn á jörðinni sýna þeir með líferni sínu að Jehóva er hlutdeild þeirra. Þjónustan við Guð er það mikilvægasta í lífi þeirra. Þeir sýna trú á lausnarfórn Krists og fylgja honum stöðuglega. Þannig ,gera þeir köllun sína og útvalningu vissa‘. (2. Pét. 1:10) Þótt hinir andasmurðu hafi mismunandi hæfileika og búi við ólíkar aðstæður nota þeir ekki takmörk sín sem afsökun fyrir því að gera lítið í þjónustu Guðs. Þeir setja þjónustuna framar öllu öðru og gera allt sem þeir geta. Og þeir gefa þeim gott fordæmi sem vonast til að lifa í paradís á jörð.

5. Hvernig geta allir kristnir menn gert Jehóva að hlutdeild sinni en hvers vegna getur það verið erfitt?

5 Hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska verðum við að ,afneita sjáfum okkur, taka kross okkar og fylgja Kristi‘. (Matt. 16:24) Milljónir manna, sem hlakka til þess að lifa í paradís á jörð, tilbiðja Guð og fylgja Kristi á þennan hátt. Þeir sætta sig ekki við að gera lítið í þjónustunni ef þeir vita að þeir geta gert meira. Margir hafa fundið hjá sér hvöt til að einfalda lífið og gerast brautryðjendur. Öðrum tekst að vera aðstoðarbrautryðjendur í nokkra mánuði á ári. Það hafa þó ekki allir tök á því en þeir leggja sig engu að síður fram eftir bestu getu í boðunarstarfinu. Þeir eru eins og hin trúfasta María sem hellti ilmolíu yfir höfuð Jesú. Hann sagði: „Gott verk gerði hún mér. . . . Hún gerði það sem í hennar valdi stóð.“ (Mark. 14:6-8) Við búum í heimi sem Satan stjórnar þannig að það getur verið þrautin þyngri að gera allt sem í okkar valdi stendur. Við leggjum samt hart að okkur og treystum á Jehóva. Við skulum skoða hvernig við getum gert það á fjórum sviðum í lífinu.

Leitið fyrst ríkis Guðs

6. (a) Hvernig sýnir fólk almennt að það lítur aðeins á þetta líf sem hlutdeild sína? (b) Af hverju er betra að hafa sama viðhorf og Davíð?

6 Jesús kenndi fylgjendum sínum að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis. Fólk í heiminum setur gjarnan eigingjörn markmið framar öðru eins og þeir sem hafa „hlotið sinn skerf af heimsins gæðum“. (Lestu Sálm 17:1, 13-15.) Margir hugsa ekkert um skapara sinn og helga sig því að eignast þægilegt líf, stofna fjölskyldu og skilja eftir sig arf. Þetta líf er hlutdeild þeirra. Davíð hafði á hinn bóginn áhuga á því að eiga „gott mannorð“ hjá Jehóva eins og sonur hans seinna meir ráðlagði öllum. (Préd. 7:1) Davíð skildi, líkt og Asaf, að það var miklu betra að eiga vináttu Jehóva en að hugsa aðallega um eigin hagsmuni. Hann hafði yndi af því að ganga með Guði. Á okkar dögum hafa margir kristnir menn sett andleg mál framar veraldlegri vinnu.

7. Hvaða blessun hlaut bróðir nokkur vegna þess að hann leitaði fyrst ríkis Guðs?

7 Tökum Jean-Claude sem dæmi en hann býr í Mið-Afríkulýðveldinu. Hann er giftur öldungur og þriggja barna faðir. Í þessu landi er erfitt að fá vinnu og flestir gera nánast hvað sem er til að halda vinnunni. Dag einn sagði yfirmaðurinn hans að hann þyrfti að fara að vinna sjö daga vikunnar á næturvöktum sem byrjuðu klukkan hálfsjö á kvöldin. Jean-Claude útskýrði fyrir honum að auk þess að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar þyrfti hann að hjálpa henni að styrkjast í trúnni. Hann sagði líka að hann þyrfti að hjálpa söfnuðinum. Hver voru viðbrögð yfirmannsins? Hann sagði: „Ef þú ert nógu lánsamur til að hafa vinnu þarftu að gleyma öllu öðru, líka eiginkonunni, börnunum og vandamálum þínum. Þú verður að helga þig vinnunni og engu öðru. Þitt er valið: Trúin eða vinnan.“ Hvað hefðir þú gert? Jean-Claude vissi að ef hann missti vinnuna myndi Guð annast hann. Hann hefði enn nóg að gera í þjónustu Jehóva og Jehóva myndi hjálpa honum að annast efnislegar þarfir fjölskyldunnar. Þess vegna fór hann á næstu kvöldsamkomu. Eftir það ætlaði hann að fara í vinnuna þótt hann vissi ekki einu sinni hvort hann hefði enn vinnu. Einmitt þá hringdi síminn. Yfirmaðurinn hafði verið rekinn en bróðir okkar hélt vinnunni.

8, 9. Í hvaða skilningi getum við líkt eftir prestum og Levítum sem höfðu Jehóva að hlutdeild sinni?

8 Sumir sem hafa átt á hættu að missa vinnuna hafa kannski hugsað hvernig þeir eigi að sinna þeirri skyldu að sjá fyrir fjölskyldunni. (1. Tím. 5:8) Hvort sem þú hefur staðið í slíkum sporum eða ekki veistu örugglega af eigin reynslu að Guð bregst aldrei þeim sem hafa hann að hlutdeild sinni og setja þjónustuna við hann framar öðru í lífinu. Þegar Jesús sagði lærisveinunum að leita fyrst ríkis Guðs fullvissaði hann þá um að allt annað, eins og fæði og klæði, myndi veitast þeim að auki. – Matt. 6:33.

9 Hugsaðu um Levítana sem fengu engan erfðahlut. Þar sem aðalstarf þeirra sneri að sannri tilbeiðslu þurftu þeir að treysta að Jehóva sæi fyrir efnislegum þörfum þeirra. Hann sagði við þá: „Ég er jarðeign þín og erfðahlutur.“ (4. Mós. 18:20) Þótt við þjónum ekki í bókstaflegu musteri, eins og prestar og Levítar, getum við tileinkað okkur sama hugarfar og treyst því að Jehóva sjái fyrir okkur. Eftir því sem endirinn nálgast verður enn mikilvægara að treysta á mátt Jehóva til að annast fólk sitt. – Opinb. 13:17.

Leitið fyrst réttlætis Guðs

10, 11. Hvernig hafa sumir sett traust sitt á Jehóva í sambandi við vinnu? Nefndu dæmi.

10 Jesús hvatti lærisveina sína einnig til að ,leita fyrst réttlætis Guðs‘. (Matt. 6:33) Það þýðir að þeir taka mælikvarða Jehóva varðandi rétt og rangt fram yfir skoðanir manna. (Lestu Jesaja 55:8, 9.) Þú hefur eflaust lesið um fólk sem vann á sínum tíma við tóbaksrækt eða -sölu, þjálfaði aðra í hernaði eða framleiddi og seldi hergögn. Eftir að þeir kynntust sannleikanum kusu hins vegar flestir þeirra að skipta um vinnu til að geta látið skírast. – Jes. 2:4; 2. Kor. 7:1; Gal. 5:14.

11 Andrew er dæmi um það. Þegar hann og konan hans kynntust Jehóva ásettu þau sér að þjóna honum. Þótt Andrew hefði lagt mikinn metnað í starf sitt sagði hann því samt upp. Af hverju? Af því að hann vann fyrir herinn og var staðráðinn í því að leita fyrst réttlætis Guðs. Þegar Andrew hætti í þessu starfi átti hann tvö börn, hafði engar tekjur og sparifé hans myndi aðeins duga í fáeina mánuði. Frá mannlegum bæjardyrum séð virtist hann kannski ekki eiga neinn „erfðahlut“. En hann treysti á Guð og leitaði að annarri vinnu. Þegar hann og fjölskylda hans horfa um öxl geta þau staðfest að hönd Jehóva er alls ekki stutt. (Jes. 59:1) Með því að lifa einföldu lífi hafa Andrew og konan hans meira að segja getað þjónað í fullu starfi. Hann segir: „Það hafa auðvitað komið stundir í lífinu þegar við höfum haft áhyggjur af peningum, húsnæði, heilsunni eða því að eldast. En Jehóva hefur alltaf staðið með okkur. . . . Við [getum] sagt án minnsta efa að það sé ekki til göfugra starf og meira gefandi en að þjóna Jehóva.“ *Préd. 12:13.

12. Hvaða eiginleika þurfum við til að leita fyrst réttlætis Guðs? Nefndu dæmi frá þínu svæði.

12 Jesús sagði við lærisveina sína: „Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig. Ekkert verður ykkur um megn.“ (Matt. 17:20) Myndir þú leita fyrst réttlætis Guðs þótt það kostaði þig erfiðleika? Ef þú ert ekki viss um hvort þú myndir gera það skaltu tala við aðra í söfnuðinum. Það styrkir örugglega trú þína að heyra frásögur þeirra.

Verum þakklát fyrir andlegu fæðuna frá Jehóva

13. Hverju getum við treyst ef við leggjum okkur fram í þjónustu Jehóva?

13 Ef þér er annt um að mega þjóna Jehóva geturðu treyst því að hann fullnægi líkamlegum og andlegum þörfum þínum, rétt eins og hann sá fyrir Levítunum. Hugsaðu um Davíð. Þótt hann væri í helli gat hann treyst því að Jehóva annaðist hann. Við getum líka reitt okkur á Jehóva jafnvel þegar við sjáum enga lausn á okkar málum. Mundu að þegar Asaf „kom inn í helgidóma Guðs“ skildi hann betur hvað væri að angra hann. (Sálm. 73:17) Við verðum sömuleiðis að snúa okkur til Jehóva sem sér okkur fyrir andlegri fæðu. Þannig sýnum við að hann er hlutdeild okkar og að við metum að verðleikum að mega þjóna honum sama hverjar aðstæður okkar eru.

14, 15. Hvernig ættum við að bregðast við þegar við fáum aukinn skilning á einhverjum ritningarstöðum og af hverju?

14 Hvernig bregstu við þegar Jehóva varpar ljósi á „djúpin í Guði“ sem er að finna í Biblíunni? (1. Kor. 2:10-13) Við getum lært mikið af viðbrögðum Péturs postula þegar Jesús sagði við áheyrendur sína: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður.“ Margir lærisveinar tóku orð hans bókstaflega og sögðu: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“ Síðan fóru þeir frá honum. En Pétur sagði: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs“ – Jóh. 6:53, 60, 66, 68.

15 Pétur skildi ekki alveg hvað Jesús átti við þegar hann talaði um að menn þyrftu að eta hold hans og drekka blóð hans. En postulinn treysti að Guð myndi gefa honum aukinn skilning. Þegar andlega ljósið verður skýrara í einhverju máli reynirðu þá að skilja hvaða biblíulegu rök liggja að baki? (Orðskv. 4:18) Berojumenn á fyrstu öld tóku við orðinu „með mesta áhuga og rannsökuðu daglega ritningarnar“. (Post. 17:11) Ef þú líkir eftir þeim verðurðu enn þakklátari fyrir þann heiður að fá að þjóna Jehóva og hafa hann sem hlutdeild þína.

Að giftast aðeins í Drottni

16. Hvernig er hægt að gera Jehóva að hlutdeild sinni í samræmi við leiðbeiningarnar í 1. Korintubréfi 7:39?

16 Annað svið þar sem kristnir menn verða að hafa vilja Jehóva í huga snýr að þeim fyrirmælum Biblíunnar að giftast aðeins „í Drottni“. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981.) Margir hafa kosið að vera einhleypir frekar enn að hunsa þessar innblásnu leiðbeiningar. Guð annast þá af alúð sem gera það. Hvað gerði Davíð þegar hann var einmana og fannst hann hjálparlaus? Hann sagði: „Ég úthelli fyrir [Guði] kvíða mínum, tjái honum neyð mína. Þegar kjarkurinn bregst mér þekkir þú götu mína.“ (Sálm. 142:2-4) Jeremía spámaður gæti hafa glímt við svipaðar tilfinningar en hann var trúfastur Guði og þjónaði einhleypur í áratugi. Ef þú getur lesið erlend tungumál gætirðu kynnt þér fordæmi hans í 8. kafla bókarinnar God’s Word for Us Through Jeremiah.

17. Hvernig tekst einhleyp systir á við einmanaleika sem hún finnur stundum fyrir?

17 „Ég ákvað aldrei að vera einhleyp,“ segir systir í Bandaríkjunum. „Ég er opin fyrir því að gifta mig þegar ég hitti rétta manninn. Mamma mín, sem er ekki vottur, reyndi að telja mig á að giftast hér um bil hverjum sem varð á vegi mínum. Ég spurði hana hvort hún vildi vera ábyrg fyrir því ef ég endaði í slæmu hjónabandi. Með tímanum sá hún að ég var í öruggri vinnu, hugsaði vel um sjálfa mig og var hamingjusöm. Hún hætti að þrýsta á mig.“ Þessi systir finnur stundum til einmanaleika. „Þá reyni ég að leggja allt traust mitt á Jehóva,“ segir hún. „Hann bregst mér aldrei.“ Hvað hefur hjálpað henni að treysta Jehóva? „Þegar ég bið til Guðs finn ég að hann er raunverulegur og að ég er aldrei ein. Hinn hæsti í öllum alheiminum er að hlusta, og því get ég ekki annað en fundið til gleði og ánægju.“ Hún er sannfærð um að „sælla er að gefa en þiggja“ og því segir hún: „Ég reyni að gefa af sjálfri mér og hjálpa öðrum án þess að ætlast til að fá neitt í staðinn. Ég finn til innri gleði þegar ég hugleiði hvernig ég get hjálpað annarri manneskju.“ (Post. 20:35) Já, Jehóva er hlutdeild hennar og hún nýtur þess að fá að þjóna honum.

18. Í hvaða skilningi getur Jehóva gert þig að hlutdeild sinni?

18 Þú getur haft Jehóva að hlutdeild þinni sama í hvaða aðstæðum þú ert. Ef þú gerir það geturðu verið meðal þeirra sem þjóna honum af ánægju. (2. Kor. 6:16, 17) Þá verður þú hlutdeild Jehóva eins og þjónar hans voru forðum daga. (Lestu 5. Mósebók 32:9, 10.) Guð getur gert þig að eign sinni og annast þig af alúð rétt eins og Ísraelsþjóðin varð hlutdeild hans meðal þjóðanna. – Sálm. 17:8.

[Neðanmáls]

Hvert er svarið?

Hvernig geturðu gert Jehóva að hlutdeild þinni

• með því að leita fyrst ríkis hans og réttlætis?

• með því að meta andlegu fæðuna að verðleikum?

• með því að fylgja fyrirmælum hans um að giftast aðeins í Drottni?

[Spurningar]

[Innskot á bls. 13]

Jehóva verður hlutdeild okkar þegar við látum þjónustuna við hann ganga fyrir.

[Mynd á bls. 15]

Fordæmi Jeremía er okkur til hvatningar.