Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig lítur Jehóva á þig?

Hvernig lítur Jehóva á þig?

Hvernig lítur Jehóva á þig?

„Drottinn þekkir sína.“ – 2. TÍM. 2:19.

1, 2. (a) Hvað var mikilvægt í augum Jesú? (b) Hvaða spurningar ættum við að íhuga?

EITT sinn kom farísei að máli við Jesú og spurði: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matt. 22:35-37) Jesús elskaði himneskan föður sinn heitt og lífsstefna hans bar vitni um það. Það skipti hann einnig miklu máli að Jehóva liti á hann með velþóknun og hann sýndi það með því að vera honum ávallt hlýðinn. Jesús gat þess vegna sagt stuttu fyrir dauða sinn: „Ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ – Jóh. 15:10.

2 Margir segjast elska Guð. Við erum örugglega líka í þeim hópi. Við ættum samt sem áður að íhuga alvarlega eftirfarandi spurningar: Hvernig lítur Jehóva á mig? Get ég sagt að Jehóva „þekki“ mig eða líti á mig með velþóknun? Lítur hann svo á að ég heyri honum til? (2. Tím. 2:19) Það er sannarlega einstakt að hugsa til þess að við getum byggt upp náið vináttusamband við Drottin alheims.

3. Af hverju halda sumir að þeir geti ekki verið vinir Guðs en hvað ættu þeir að hugleiða?

3 Sumir sem elska Jehóva innilega draga þó í efa að hann vilji eiga þá að vinum. Sumir hafa svo lágt sjálfsmat að þeir efast um að Guð geti litið á þá með velþóknun. En þá er gott að vita að Guð lítur okkur ekki sömu augum og við sjálf. (1. Sam. 16:7) Páll postuli sagði við trúsystkini sín: „Sá sem elskar Guð er þekktur af honum.“ (1. Kor. 8:3) Kærleikurinn, sem þú berð til Guðs, er mikilvæg forsenda þess að hann þekki þig. Veltu þessu fyrir þér: Af hverju ertu að lesa þetta tímarit? Af hverju leggurðu þig fram um að þjóna Jehóva af öllu hjarta, sálu, huga og mætti? Hvað varð til þess að þú vígðir þig Guði og lést skírast? Í Biblíunni er talað um að Jehóva, sem rannsakar hjörtun, dragi til sín þá sem eru „gersemar“ í augum hans. (Hagg. 2:7, Biblían 1981; Jóh. 6:44) Það má því segja að þú þjónir Jehóva af því að hann dró þig til sín. Hann yfirgefur aldrei þá sem hann hefur dregið til sín, svo framarlega sem þeir eru honum trúir. Þjónar Guðs eru dýrmætir í augum hans og hann elskar þá innilega. – Sálm. 94:14.

4. Hvers vegna ættum við að gæta að vináttusambandi okkar við Guð?

4 Þegar Jehóva hefur dregið okkur til sín þurfum við að gæta þess að vera honum hlýðin og láta kærleika hans varðveita okkur. (Lestu Júdasarbréfið 20, 21.) Hafðu í huga að í Biblíunni er varað við þeirri hættu að berast afleiðis og fjarlægjast Guð. (Hebr. 2:1; 3:12, 13) Rétt áður en Páll postuli skrifaði það sem stendur í 2. Tímóteusarbréfi 2:19 minntist hann á þá Hýmeneus og Fíletus. Þeir höfðu augljóslega þjónað Jehóva um tíma en seinna meir vikið af vegi sannleikans. (2. Tím. 2:16-18) Sumir í söfnuðunum í Galatíu höfðu líka átt gott samband við Jehóva en með tímanum yfirgefið sannleikann. (Gal. 4:9) Gleymum aldrei hversu dýrmætt það er að eiga vináttusamband við Guð.

5. (a) Hvaða eiginleika metur Guð mikils í fari vina sinna? (b) Hvaða frásögur ætlum við að skoða nánar?

5 Við þurfum að þroska með okkur ákveðna eiginleika til þess að Jehóva líti á okkur með velþóknun. (Sálm. 15:1-5; 1. Pét. 3:4) Trú og auðmýkt einkenna þá sem vilja vera vinir Guðs. Við skulum skoða frásögur af tveim mönnum sem Jehóva elskaði af því að þeir höfðu sterka trú og voru auðmjúkir. Við skulum einnig skoða frásögu af manni sem taldi víst að hann væri vinur Guðs. Hann varð hins vegar hrokafullur og Guð hafnaði honum. Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessum frásögum.

Faðir þeirra sem trúa

6. (a) Hverju treysti Abraham í sambandi við loforð Jehóva? (b) Hvernig leit Jehóva á Abraham?

6 Abraham var einn þeirra sem „trúði Drottni“. Hann er meira að segja kallaður „faðir allra þeirra sem trúa“. (1. Mós. 15:6; Rómv. 4:11) Vegna trúar sinnar yfirgaf Abraham heimili sitt, vini og eignir og ferðaðist til fjarlægs lands. (1. Mós. 12:1-4; Hebr. 11: 8-10) Trú Abrahams var enn sterk mörgum árum síðar. Það má sjá af því að hann „var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum“, Ísak, eins og Jehóva bauð honum að gera. (Hebr. 11:17-19) Abraham sýndi að hann treysti því að loforð Jehóva myndu rætast og var þess vegna dýrmætur í augum hans. Guð þekkti hann vel og valdi hann til að gegna ákveðnu hlutverki. (Lestu 1. Mósebók 18:19.) Það er því augljóst að Jehóva elskaði Abraham sem vin sinn. – Jak. 2:22, 23.

7. Hvað vissi Abraham um loforð Jehóva og hvernig sýndi hann trú sína?

7 Abraham lifði það ekki að fá til eignar landið sem honum hafði verið heitið. Hann sá heldur ekki niðja sína verða „eins og sand á sjávarströnd“. (1. Mós. 22:17, 18) En þótt þessi loforð rættust ekki á meðan Abraham lifði dvínaði ekki trú hans og traustið sem hann bar til Jehóva. Hann vissi að loforð Guðs rætast alltaf og lifði í samræmi við þá sannfæringu. (Lestu Hebreabréfið 11:13.) Lítur Jehóva svo á að við höfum jafn sterka trú og Abraham?

Sýnum trú með því að vera þolinmóð

8. Hvað er eðlilegt að langa til að gera í lífinu?

8 Við eigum eflaust margar óskir sem okkur langar til að fá uppfylltar. Það er ofur eðlilegt að langa til að gifta sig, eignast börn og vera heilsuhraust. En mörg okkar fá kannski ekki allt sem okkur dreymir um. Hvað gerum við ef fáum ekki eitthvað sem við þráum heitt? Viðbrögð okkar við því geta leitt í ljós hversu sterk trú okkar er.

9, 10. (a) Með hvaða hætti hafa sumir reynt að fá óskir sínar uppfylltar? (b) Af hverju er viturlegt að treysta að Jehóva standi við loforð sín?

9 Það væri óviturlegt að reyna að fá það sem við viljum ef það kostar það að óhlýðnast Jehóva. Það gæti skaðað samband okkar við hann. Sumir hafa til dæmis valið sér læknismeðferð sem gengur í berhögg við ráðleggingar Jehóva. Aðrir hafa ráðið sig í vinnu sem gerir þá svo upptekna að þeir hafa lítinn sem engan tíma fyrir fjölskylduna eða samkomurnar. Sumir mynda rómantísk tengsl við einhvern utan safnaðarins. Ef þjónn Jehóva gerði slíkt væri hann þá í hreinskilni sagt að reyna að öðlast velþóknun hans? Hvað hefði Jehóva fundist um það ef Abraham hefði orðið óþolinmóður út af því að hann sá ekki loforð Guðs rætast þegar í stað? Hvað nú ef Abraham hefði tekið málin í sínar hendur, komið sér vel fyrir að nýju og sóst eftir því að verða frægur í stað þess að bíða þolinmóður eftir Jehóva? (Samanber 1. Mósebók 11:4.) Hefði Jehóva haldið áfram að líta á hann sem vin sinn?

10 Hverjar eru óskir þínar og þrár? Er trú þín það sterk að þú getir beðið eftir Jehóva sem lofar að seðja „allt sem lifir með blessun“? (Sálm. 145:16) Sum loforð Jehóva rætast kannski ekki eins fljótt og við myndum helst vilja. En ef við byggjum upp sterka trú líkt og Abraham gerði og lifum í samræmi við hana gleymir Jehóva okkur ekki. Hann mun umbuna okkur. – Hebr. 11:6.

Auðmjúkur maður og hrokafullur maður

11. Hvaða heiður hlotnaðist Kóra og hvað gefur það til kynna um samband hans við Jehóva?

11 Frásögurnar af Móse og Kóra bera með sér að þeir tóku mjög ólíka afstöðu til ákvarðana og aðferða Jehóva. Viðhorf þeirra höfðu mikil áhrif á það hvernig Jehóva leit á þá. Kóra var Levíti af ætt Kahats og honum hlotnaðist mikill heiður. Hann varð líklega vitni að því þegar Jehóva leiddi þjóðina í gegnum Rauðahafið, átti hugsanlega hlutdeild í að fullnægja dómi Jehóva yfir óhlýðnum Ísraelsmönnum við Sínaífjall og tók eflaust þátt í að bera sáttmálsörkina. (2. Mós. 32:26-29; 4. Mós. 3:30, 31) Kóra hafði greinilega verið Jehóva trúr um árabil og margir Ísraelsmenn litu þar af leiðandi upp til hans.

12. Hvaða áhrif hafði hroki Kóra á samband hans við Jehóva, samanber myndina á bls. 28?

12 Á leiðinni til fyrirheitna landsins áleit Kóra hins vegar að eitthvað væri bogið við það hvernig Jehóva leiddi Ísraelsþjóðina. Alls 250 karlmenn, sem gegndu forystuhlutverki meðal fólksins, skipuðu sér þá í flokk með Kóra og reyndu að koma á breytingum. Kóra og félagar hljóta að hafa talið öruggt að þeir hefðu velþóknun Jehóva. Þeir sögðu við Móse og Aron: „Þið ætlið ykkur um of því að allur söfnuðurinn er heilagur og Drottinn er mitt á meðal hans.“ (4. Mós. 16:1-3) Þetta bar vitni um mikinn hroka. Þeir höfðu greinilega ofmetnast. Móse sagði við þá: „Drottinn [mun] kunngjöra hver hans er.“ (Lestu 4. Mósebók 16:5.) Kvöldið eftir voru Kóra og allir þeir sem höfðu fylgt honum í uppreisninni dánir. – 4. Mós. 16:31-35.

13, 14. Hvernig sýndi Móse auðmýkt?

13 Móse var aftur á móti „hógværari en nokkur annar á jörðinni“. (4. Mós. 12:3) Hógværð hans og auðmýkt birtist í því að hann var staðráðinn í að fylgja leiðsögn Jehóva. (2. Mós. 7:6; 40:16) Ekkert bendir til þess að Móse hafi sífellt efast um aðferðir Jehóva eða orðið pirraður yfir því að þurfa að fylgja þeim leiðbeiningum sem Jehóva lét í té. Jehóva gaf til dæmis ítarleg fyrirmæli um það hvernig ætti að búa til samfundatjaldið. Hann tiltók jafnvel hvernig tvinninn ætti að vera á litinn og hversu margar lykkjur ættu að vera á jaðri tjalddúkanna. (2. Mós. 26:1-6) Ef umsjónarmaður í söfnuðinum gefur þér leiðbeiningar, sem virðast of ítarlegar, gætirðu orðið pirraður. Enginn er þó eins hæfur til að fara með umsjón og Jehóva sem deilir fúslega út verkefnum og treystir þjónum sínum. Þegar hann gefur ítarlegar leiðbeiningar er góð og gild ástæða fyrir því. Móse varð ekki pirraður út í Jehóva fyrir að gefa svona nákvæm fyrirmæli. Honum leið ekki eins og Jehóva væri að gera lítið úr honum eða takmarka sköpunargáfu hans og frelsi. Hann gekk öllu heldur úr skugga um að verkamennirnir „gerðu allt nákvæmlega eins og Drottinn hafði boðið“. (2. Mós. 39:32) Móse var sannarlega auðmjúkur maður. Hann gerði sér ljóst að þetta var verk Jehóva og að hann væri einungis verkfæri í höndum hans.

14 Móse var líka auðmjúkur þótt hann yrði fyrir vonbrigðum. Hann missti einu sinni stjórn á sér við símöglandi lýðinn og gaf Guði ekki heiðurinn sem hann átti skilið. Jehóva sagði þess vegna Móse að hann myndi ekki fá að leiða þjóðina inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 20:2-12) Hann og Aron, bróðir hans, höfðu þurft að hlusta á möglið í Ísraelsmönnum árum saman. En vegna þessara mistaka myndi Móse ekki fá það sem hann hafði þráð svo lengi. Hvernig leið honum? Þótt hann væri eðlilega vonsvikinn var hann auðmjúkur og sætti sig við ákvörðun Jehóva. Hann vissi að allir vegir Jehóva væru réttlátir. (5. Mós. 3:25-27; 32:4) Erum við ekki sannfærð um að Jehóva hafi litið á Móse með velþóknun? – Lestu 2. Mósebók 33:12, 13.

Við þurfum að vera auðmjúk til að hlýða Jehóva

15. Hvaða lærdóm getum við dregið af hrokafullri hegðun Kóra?

15 Jehóva lítur á okkur með velþóknun ef við tökum þeim breytingum sem söfnuður hans gerir og bregðumst vel við ákvörðunum þeirra sem hann hefur falið að fara með forystuna. Kóra og félagar hans fjarlægðust Guð vegna þess að þeir ofmetnuðust, urðu hrokafullir og skorti trú. Að mati Kóra var Móse ekkert annað en gamall maður sem gerði hlutina eftir sínu eigin höfði. Kóra missti sjónar á að það var í raun Jehóva sem leiddi þjóðina. Hann sýndi þar af leiðandi ekki hollustu þeim sem Guð notaði. Það hefði verið miklu skynsamlegra af hálfu Kóra að bíða eftir að Jehóva skýrði málin betur eða kæmi á breytingum, væri þeirra raunverulega þörf. Kóra fyrirgerði að lokum mannorði sínu vegna þess að hann varð hrokafullur.

16. Hvernig lítur Jehóva á okkur ef við erum auðmjúk eins og Móse?

16 Það sem kom fyrir Kóra er öldungum og öðrum í söfnuðinum víti til varnaðar. Það krefst auðmýktar að bíða eftir Jehóva og fylgja leiðbeiningum þeirra sem hann hefur falið að fara með forystuna í söfnuðinum. Erum við auðmjúk og lítillát eins og Móse? Virðum við þá sem fara með forystuna innan safnaðarins og hlýðum við leiðbeiningunum sem við fáum? Tekst okkur að hafa stjórn á tilfinningum okkar þegar við verðum fyrir vonbrigðum? Ef við gerum það mun Jehóva líka líta á okkur með velþóknun. Auðmýkt og hlýðni gerir okkur dýrmæt í augum hans.

Jehóva þekkir þá sem heyra honum til

17, 18. Hvað getur hjálpað okkur að varðveita gott vináttusamband við Jehóva?

17 Við höfum mikið gagn af því að hugsa um fordæmi þeirra einstaklinga sem Jehóva dró til sín og bauð vináttu sína. Abraham og Móse voru ófullkomnir og höfðu ýmsa galla, rétt eins og við. Samt leit Jehóva svo á að þeir heyrðu honum til. Frásagan af Kóra sýnir hins vegar fram á að sú hætta er fyrir hendi að við fjarlægjumst Jehóva og glötum vináttusambandi okkar við hann. Við ættum því að spyrja okkur: Hvernig lítur Jehóva á mig? Hvaða lærdóm get ég dregið af þessum frásögum í Biblíunni?

18 Það er hughreystandi að vita að Jehóva lítur með velþóknun á þá sem hann hefur dregið til sín. Þeir sem eru honum trúfastir heyra honum til. Haltu áfram að styrkja trú þína og þroska með þér auðmýkt og aðra eiginleika sem gera þig dýrmætan í augum Guðs. Það er ómetanlegt að mega vera vinur Jehóva. Vinir hans njóta nú þegar mikillar hamingju og eiga í vændum stórkostlega framtíð. – Sálm. 37:18.

Manstu?

• Hvaða samband getur þú átt við Jehóva og af hverju er það einstakt?

• Hvernig geturðu líkt eftir hinum trúfasta Abraham?

• Hvaða lærdóm má draga af frásögunum um Kóra og Móse?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 26]

Treystum við, líkt og Abraham, að Jehóva uppfylli öll loforð sín?

[Mynd á bls. 28]

Kóra skorti auðmýkt og var því ekki fús til að virða þá sem fóru með forystuna.

[Mynd á bls. 29]

Lítur Jehóva svo á að þú sért auðmjúkur og hlýðinn?