Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geta feður átt náið samband við syni sína?

Hvernig geta feður átt náið samband við syni sína?

Hvernig geta feður átt náið samband við syni sína?

„PABBI, af hverju veistu svona mikið?“ Hefur sonur þinn einhvern tíma komið þér í opna skjöldu með slíkri spurningu? Þú hefur þá eflaust verið afar stoltur af því að vera faðir. En hvað ef sonur þinn gengi skrefinu lengra og tileinkaði sér það góða sem þú hefur kennt honum? Það myndi án efa gleðja hjarta þitt. * – Orðskviðirnir 23:15, 24.

Hefur aðdáun sonar þíns haldist óbreytt í gegnum árin? Eða finnst þér að hann gefi þér æ minni gaum eftir því sem hann eldist? Hvernig geturðu viðhaldið nánu sambandi við son þinn þegar hann vex úr grasi? Við skulum líta á nokkrar áskoranir sem feður þurfa að glíma við.

Þrjár algengar áskoranir

1. TÍMASKORTUR: Í mörgum löndum er algengt að feður séu helsta fyrirvinna heimilisins. Og oft er vinnan þess eðlis að þeir eru að heiman stóran hluta dagsins. Sums staðar eyða feður ótrúlega litlum tíma með börnum sínum. Sem dæmi má nefna nýlega könnun sem gerð var í Frakklandi. Niðurstöður hennar sýndu að franskir feður verja að jafnaði minna en 12 mínútum á dag í uppeldi barna sinna.

TIL UMHUGSUNAR: Hversu miklum tíma eyðir þú með syni þínum? Hvernig væri að þú punktaðir hjá þér í eina til tvær vikur hversu mikinn tíma þú notar með honum á hverjum degi? Niðurstöðurnar gætu komið þér á óvart.

2. ÞEGAR GÓÐA FYRIRMYND VANTAR: Sumir karlmenn hafa haft lítið að segja af feðrum sínum. Jean-Marie, sem býr í Frakklandi, segir: „Samskipti okkar pabba voru lítil.“ Hvaða áhrif hafði það á hann? Hann segir: „Það hefur skapað ýmis vandamál sem ég átti alls ekki von á. Mér finnst til dæmis erfitt að eiga innihaldsríkar samræður við syni mína.“ Aðrir þekkja kannski feður sína vel en eiga samt ekki náið samband við þá. „Pabbi minn átti erfitt með að sýna mér ástúð. Þar af leiðandi þarf ég að leggja mig allan fram við að sýna syni mínum ást og umhyggju,“ segir Philippe, 43 ára.

TIL UMHUGSUNAR: Finnst þér að sambandið við föður þinn hafi áhrif á það hvernig þú kemur fram við son þinn? Hefurðu orðið var við að þú fylgir venjum föður þíns, góðum eða slæmum? Hvernig þá?

3. ÓLJÓST HLUTVERK FEÐRA: Í sumum menningarsamfélögum er lítið gert úr uppeldishlutverki feðra. Luca, sem er frá Vestur-Evrópu, segir: „Þar sem ég ólst upp var litið á barnauppeldi sem hlutverk eiginkvenna.“ Í öðrum menningarsamfélögum eru feður hvattir til að vera strangir og gera lítið annað en að aga börnin. George, sem ólst upp í Afríku, segir: „Í mínu heimalandi leika feður ekki við börn sín af ótta við að það dragi úr virðingu fyrir yfirvaldi feðranna. Þar af leiðandi hefur mér alltaf þótt erfitt að njóta samverustunda með syni mínum.“

TIL UMHUGSUNAR: Hvaða hlutverki gegna feður í þínu samfélagi? Er litið á barnauppeldi sem starf kvenna? Eru feður hvattir til að sýna sonum sínum ást og umhyggju eða er það litið hornauga?

Ert þú að glíma við þessar áskoranir? Hvernig geturðu þá náð árangri? Hugleiddu eftirfarandi tillögur.

Byrjaðu snemma

Drengir virðast vera fæddir með löngun til að líkja eftir pabba sínum. Þú ættir því að færa þér þessa löngun í nyt meðan sonur þinn er enn ungur að árum. Hvernig geturðu gert það og hvernig geturðu fundið tíma til að vera með honum?

Leyfðu syni þínum að vinna með þér við dagleg störf eins oft og hægt er. Þú gætir fengið hann til að aðstoða þig við húsverkin með því til dæmis að rétta honum kúst eða fægiskóflu. Það mun án efa gleðja hann að fá að vinna við hlið hetjunnar sinnar, honum pabba! Húsverkin eiga eflaust eftir að taka lengri tíma en í staðinn styrkirðu tengslin ykkar á milli og þú kennir honum einnig góð vinnubrögð. Fyrir löngu síðan hvatti Biblían feður til að leyfa börnum sínum að taka þátt í daglegum stöfum og nota þessar stundir til að tala við þau og kenna þeim. (5. Mósebók 6:6-9) Þessar ráðleggingar eiga við enn þann dag í dag.

Auk þess að vinna með stráknum þínum skaltu líka finna tíma til að leika við hann. Þegar þið leikið ykkur saman eruð þið í rauninni að gera meira en bara að eiga saman ánægjulega stund. Rannsóknir hafa sýnt að þegar feður leika við börn sín ýta þeir undir eiginleika eins og áræði og hugrekki.

Leikur feðga gegnir líka öðru og mikilvægara hlutverki. Rannsóknarmaðurinn Michel Fize segir: „Það er við leik sem strákar tjá sig hvað best við feður sína.“ Í leik getur faðir sýnt ást og umhyggju bæði í orði og verki. Þannig kennir hann syni sínum hvernig hann getur tjáð tilfinningar sínar. André, sem býr í Þýskalandi, segir: „Þegar sonur minn var barn faðmaði ég hann oft að mér þegar við lékum okkur saman. Þannig lærði hann hvernig hann gat sýnt mér ást sína.“

Feður geta einnig nýtt háttatímann til að styrkja kærleiksböndin við syni sína. Lestu sögur fyrir drenginn og hlustaðu þegar hann segir þér frá atburðum dagsins. Ef þú gerir það verður auðveldara fyrir hann að eiga tjáskipti við þig þegar hann eldist.

Sameiginleg tómstundaiðja

Sumir unglingspiltar virðast áhugalausir þegar feður þeirra reyna að tala við þá. Ef sonur þinn virðist reyna að koma sér undan því að svara spurningum þínum skaltu ekki álykta sem svo að hann vilji alls ekki tala við þig. Hann á kannski auðveldara með að tjá sig ef þú nálgast hann með öðrum hætti.

Jacques, sem býr í Frakklandi, fannst erfitt að tala við Jérôme, son sinn. En í stað þess að þvinga hann til að tala við sig breytti hann nálgun sinni – hann spilaði fótbolta við Jérôme. „Eftir leikinn settumst við yfirleitt niður á grasið til að hvíla okkur aðeins. Það var þá sem sonur minn átti það til að opna hjarta sitt fyrir mér. Það eitt að við vorum saman og að hann vissi að hann átti alla athygli mína batt okkur enn nánari böndum.“

En hvað ef sonur þinn hefur ekki áhuga á íþróttum? André minnist glaður þeirra stunda þegar þeir feðgarnir dáðust að stjörnum prýddum himninum. André segir: „Við klæddum okkur í hlý föt, náðum í stóla og settumst svo út á pall með tebolla. Síðan nutum við þess að horfa á stjörnurnar og töluðum um þann sem skapaði þær. Við töluðum líka um persónuleg mál. Við töluðum um allt milli himins og jarðar.“ – Jesaja 40:25, 26.

Hvað er til ráða ef þið feðgarnir hafið ekki sömu áhugamál? Þá gætirðu þurft að gera hluti sem eru ekki í sérstöku upphaldi hjá þér. (Filippíbréfið 2:4) Ian, sem býr í Suður-Afríku, segir: „Ég hafði mun meiri áhuga á íþróttum en Vaughan, sonur minn. Hann hafði áhuga á flugvélum og tölvum. Ég lagði mig því fram um að vera áhugasamur um þessa hluti. Við fórum saman á flugsýningar og lékum okkur í flughermi í tölvunni. Ég trúi því að þessar ánægjulegu samverustundir okkar hafi gert Vaughan auðveldara að tjá sig við mig.“

Efldu sjálfstraust hans

„Sjáðu pabbi, sjáðu!“ Eru þetta orð sem þú hefur heyrt litla snáðann þinn segja þegar honum tókst að gera eitthvað án þinnar hjálpar? Ef hann er komin á táningsaldurinn sækist hann þá enn svona opinskátt eftir velþóknun þinni? Kannski ekki en hann þarf svo sannarlega á henni að halda til þess að verða heilsteyptur einstaklingur.

Lítum á hvernig fordæmi Jehóva Guð gaf okkur með framkomu sinni við einn af sonum sínum. Við mjög merkileg tímamót í lífi Jesú hér á jörð lét Guð opinberlega í ljós ást sína á honum og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17; 5:48) Vissulega ber þér skylda til þess að aga son þinn og kenna honum. (Efesusbréfið 6:4) En leitarðu einnig færis á að hrósa honum fyrir það góða sem hann gerir eða segir?

Sumum karlmönnum finnst erfitt að hrósa öðrum eða sýna ástúð. Þeir ólust kannski upp á heimili þar sem foreldrarnir einblíndu fyrst og fremst á mistök frekar en að taka eftir því góða sem börnin gerðu. Ef þetta á við þig þarftu að leggja þig allan fram um að efla sjálfstraust sonar þíns. Hvernig geturðu gert það? Luca, sem áður var vitnað í, vinnur reglulega húsverkin með Manuel, 15 ára syni sínum. Luca segir: „Stundum bið ég Manuel að byrja á ákveðnu verki og segi að ég muni hjálpa honum ef þörf krefur, en oftar en ekki klárar hann verkið sjálfur. Það veitir honum gleði og eflir sjálftraustið. Þegar honum tekst vel til hrósa ég honum. En þegar hlutirnir ganga ekki alveg jafn vel og hann hefði vonast til segi ég honum samt að ég kunni að meta viðleitni hans.“

Þú getur einnig eflt sjálfstraust sonar þíns með því að aðstoða hann við að ná háleitum markmiðum sínum. En hvað ef syni þínum gengur hægar að ná markmiðum sínum en þú hafðir vonast til? Eða hvað ef markmið hans eru ekki alveg þau sömu og þú hefðir valið fyrir hann, þótt þau séu í sjálfu sér ekki slæm? Ef svo er þarftu líklega að endurskoða væntingar þínar. Jacques, sem áður var vitnað í, segir: „Ég reyni að hjálpa syni mínum að setja sér raunhæf markmið. En ég passa mig á því að þetta séu hans markmið, ekki mín. Síðan hef ég það hugfast að hann þarf að vinna að þeim á sínum eigin hraða.“ Með því að hlusta á skoðanir sonar þíns, hrósa honum fyrir það sem er vel gert og hvetja hann til að vinna bug á veikleikum sínum ertu að hjálpa honum að ná markmiðum sínum.

Auðvitað mun reyna á samband ykkar og þið þurfið að glíma við ýmsar áskoranir. En þegar til lengdar lætur vill sonur þinn líklega eiga náið samband við þig. Hver vill ekki eiga náið samband við þann sem hjálpar honum að ná árangri?

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Þó að þessi grein fjalli fyrst og fremst um hin einstæðu tengsl milli feðga eiga meginreglurnar einnig við um samband feðgina.