Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nafn Guðs og fræðistörf Alfonsos de Zamora

Nafn Guðs og fræðistörf Alfonsos de Zamora

Nafn Guðs og fræðistörf Alfonsos de Zamora

FERDÍNAND Spánarkonungur og Ísabella drottning gáfu út eftirfarandi tilskipun árið 1492: „Vér skipum öllum gyðingum, körlum sem konum, . . . að yfirgefa fyrir júlílok á þessu ári öll ríki vor og lendur ásamt sonum sínum og dætrum, vinnumönnum og vinnukonum og öllu heimilisfólki af gyðingaættum, smáum sem stórum, óháð aldri, og vei þeim sem snúa aftur.“

Með tilskipun þessari voru öllum gyðingafjölskyldum á Spáni settir þeir afarkostir að fara annaðhvort í útlegð eða afneita trú sinni. Juan de Zamora var rabbíni sem taldi eflaust að það væri skárri kostur að snúast til kaþólskrar trúar og fá að vera áfram á Spáni þar sem ættfeður hans höfðu búið kynslóðum saman. Í Zamora var nafnkunnur skóli þar sem kennd voru hebresk fræði. Þar sem Juan var gyðingur að ætt og uppruna er hugsanlegt að hann hafi sent Alfonso, son sinn, þangað til mennta. Alfonso lærði síðar latínu, grísku og arameísku. Að námi loknu tók hann að kenna hebresku við háskólann í Salamanca. Ekki leið á löngu áður en biblíufræðingar um alla Evrópu nutu góðs af málakunnáttu hans.

Árið 1512 var Alfonso de Zamora skipaður prófessor í hebreskum fræðum við hinn nýstofnaða háskóla í Alcalá de Henares (bærinn var áður nefndur Complutum á latínu). Jiménez de Cisneros kardínáli og stofnandi háskólans ætlaði sér að gefa út Biblíuna með texta á hebresku, grísku, latínu og að hluta til á arameísku. Zamora var einn mesti fræðimaður síns tíma þannig að kardínálinn fékk hann til liðs við sig til að vinna að þessu tímamótaverki. Biblía þessi er nefnd Complutum-biblían og er í sex bindum. *

Biblíufræðingurinn Mariano Revilla Rico segir um þetta verk: „Þrír trúskiptingar af gyðingaættum unnu að verki Cisnerosar kardínála. Frægastur þeirra var Alfonso de Zamora en hann var málfræðingur, heimspekingur og sérfræðingur í Talmúðinum, auk þess að vera fræðimaður í latínu, grísku, hebresku og arameísku.“ Við rannsóknir sínar komst Zamora að þeirri niðurstöðu að ýtarleg þekking á hinum fornu frummálum Biblíunnar væri nauðsynleg til að hægt væri að þýða hana af nákvæmni. Hann varð einn helsti hvatamaður biblíulegra fræða sem tóku að blómstra í upphafi 16. aldar.

En Zamora var uppi á erfiðum tímum og það var hvergi nærri hættulaust að stunda biblíurannsóknir. Spænski rannsóknarrétturinn var þá hvað öflugastur og kaþólska kirkjan hafði hina latnesku Vúlgata-þýðingu í hávegum. Hún var eina „viðurkennda“ biblíuþýðingin á þeim tíma. Kaþólskir fræðimenn höfðu þó bent á allt frá miðöldum að latneskur texti hennar væri hvergi nærri fullkominn. Í upphafi 16. aldar ákváðu Alfonso de Zamora og fleiri að bæta úr því.

,Hjálpræði er undir þýðingu komið‘

Hebresk útgáfa af Gamla testamentinu, sem svo er nefnt, ásamt latneskri þýðingu þess var eflaust þýðingarmesta verkefnið sem Zamora vann að. Trúlega var það hugmynd hans að þetta efni kæmi að miklum notum við gerð Complutum-biblíunnar. Eitt af handritum hans er varðveitt í El Escorial-bókasafninu í grennd við Madríd. Það ber skráningarnúmerið G-I-4 og hefur að geyma 1. Mósebók alla á hebresku ásamt orðréttri þýðingu á latínu milli lína.

Í formálanum stendur: „Hjálpræði þjóða er undir því komið að Heilög ritning sé þýdd á önnur tungumál . . . Vér höfum álitið það . . . algera nauðsyn að trúað fólk hafi aðgang að þýðingu Biblíunnar orð fyrir orð, með þeim hætti að hvert hebreskt orð eigi sér samsvarandi orð á latínu.“ Alfonso de Zamora var virtur hebreskufræðingur og var því fær um að ráðast í slíka þýðingu á latínu.

,Önd mín fær enga hvíld‘

Að einu leyti var Spánn kjörinn staður á 16. öld fyrir fræðimenn á borð við Zamora. Menning gyðinga hafði fest rætur á Spáni á miðöldum. Í alfræðiorðabókinni The Encyclopædia Britannica segir: „Spánn var eina landið í Vestur-Evrópu á miðöldum þar sem kynþættir og trúarbrögð voru í sambýli en þar bjó mikill fjöldi múslíma og gyðinga. Þróun spænskrar menningar á sviði trúar, bókmennta, lista og byggingarlistar á að stórum hluta rætur sínar að rekja til þess.“

Sökum þess að gyðingar voru fjölmennir á Spáni var mikið til þar af hebreskum biblíuhandritum. Fræðimenn gyðinga víða á Spáni höfðu endurritað þessi handrit samviskusamlega og þau voru síðan notuð til upplestrar í samkunduhúsunum. Lazarus Goldschmidt segir í bók sinni The Earliest Editions of the Hebrew Bible (Elstu útgáfur hebresku biblíunnar) að „Mósebækurnar, sem prentaðar voru á Spáni og í Portúgal, hafi notið mikillar virðingar meðal fræðimanna gyðinga sökum nákvæmni þeirra, og hið sama er að segja um handritin sem þessar og aðrar fjöltungnaþýðingar fræðimanna voru gerðar eftir“.

Þótt aðstæður væru að mörgu leyti hagstæðar á Spáni var á brattann að sækja fyrir þá sem vildu þýða Biblíuna. Árið 1492 vann kaþólskur her Ferdínands og Ísabellu síðasta vígi Mára á Spáni. Eins og áður hefur komið fram gáfu konungshjónin út þá tilskipun sama ár að allir sem væru gyðingatrúar skyldu gerðir útlægir frá Spáni. Tíu árum síðar var gefin út samsvarandi tilskipun um brottvísun múslíma. Þaðan í frá var kaþólsk trú ríkistrú Spánar og önnur trúarbrögð voru ekki leyfð.

Hvaða áhrif hafði þessi nýja trúarafstaða á þýðingu Biblíunnar? Alfonso de Zamora er glöggt dæmi um hvað við var að etja. Enda þótt þessi fræðimaður hefði snúist frá gyðingdómi til kaþólskrar trúar var klerkaveldið á Spáni tregt til að horfa fram hjá uppruna hans. Cisneros kardínáli var gagnrýndur fyrir að nota fræðikunnáttu trúskiptinga af gyðingaættum við gerð biblíu sinnar. Zamora leið mikið vegna þessara árása. Í handriti, sem varðveitt er við Madrídarháskóla, er að finna mæðulega athugasemd: „Ég er . . . yfirgefinn og hataður af öllum vinum mínum – sem eru orðnir óvinir mínir – og hvorki önd mín né iljar fá nokkra hvíld.“

Einn helsti fjandmaður hans var Juan Tavera, erkibiskup í Toledo, en hann varð síðar yfirrannsóknardómari við Spænska rannsóknarréttinn. Andstaða Tavera gekk svo nærri Zamora að hann skrifaði páfa bænarbréf. Þar sagði hann meðal annars: „Vér biðjum og sárbænum yðar heilagleika að hjálpa oss . . . og varðveita oss fyrir óvini vorum, biskupinum af Toledo, Don Juan Tavera. Daglega, linnulaust, veldur hann oss alls konar erfiðum þjáningum . . . Vér erum í mikilli angist því að vér erum í augum hans eins og sláturdýr . . . Ef yðar heilagleiki hlýðir á þessa bæn, sem beint er til yðar, ,lætur Jahve yður vera óhultan og varðveitir fót yðar gegn hrösun.‘ (Orðskv. 3:23)“ *

Arfleifð Alfonsos de Zamora

Þrátt fyrir þessar árásir hélt Zamora verki sínu áfram til hagsbóta fyrir marga biblíuunnendur. Hann vann öðrum þýðendum ómetanlegt gagn þótt aldrei þýddi hann Biblíuna á neina þjóðtungu síns tíma. Til að átta okkur á framlagi hans þurfum við að hafa hugfast að þýðing Biblíunnar er alltaf verk tvenns konar fræðimanna. Annars vegar þarf fræðimenn sem rannsaka forn afrit hins helga texta á frummálunum, hebresku arameísku og grísku, og taka saman nákvæman og vandlega unninn texta á þeim málum. Síðan tekur þýðandinn við verki þeirra og notar það sem grundvöll að þýðingu Biblíunnar á mál almennings.

Alfonso de Zamora var helstur þeirra fræðimanna sem tóku saman hebreska textann sem var að lokum birtur í Complutum-biblíunni árið 1522. (Hebreskt-latneskt orðasafn hans og hebresk málfræði, sem birt var í sama verki, létti þýðendum einnig störf.) Samtíðarmaður Zamora, Erasmus frá Rotterdam, vann sambærilega útgáfu af Nýja testamentinu. Þegar þessir hebresku og grísku textar lágu fyrir gátu aðrir þýðendur tekið til við hið mikilvæga verk að koma Biblíunni yfir á tungu almennings. William Tyndale var með fyrstu þýðendum sem notuðu hebreskan texta Complutum-biblíunnar en hann þýddi Biblíuna á ensku.

Útbreiðsla Biblíunnar nú á dögum er að nokkru leyti að þakka mönnum á borð við Zamora sem helguðu sig því að bæta þekkingu manna á orði Guðs. Eins og Zamora minnti á er hjálpræði manna undir því komið að skilja orð Guðs og fara eftir því. (Jóhannes 17:3) Til að það geti orðið þarf að þýða Biblíuna á þau mál sem fólk skilur. Þá en ekki fyrr getur boðskapur hennar snortið hugi og hjörtu milljóna manna.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nánari umfjöllun um gildi Complutum-biblíunnar er að finna í enskri útgáfu Varðturnsins, 15. apríl 2004, bls. 28-31.

^ gr. 15 Það vekur athygli að Zamora skuli nota nafn Guðs en ekki titil í bænarbréfi sínu til páfans í Róm. Nafnið er stafsett „Yahweh“ í spænskri þýðingu bænarbréfsins. Óvíst er hvernig það var ritað í upprunalegu skjali á latínu. Í rammagreininni „Að rita nafn Guðs“ á bls. 19 er rætt um þýðingu Zamora og nafn Guðs.

[Rammi/​myndir á bls. 19]

Að rita nafn Guðs

Alfonso de Zamora var gyðingur að ætt og uppruna og fræðimaður í hebresku. Það er því sérlega áhugavert að sjá hvernig hann ritaði nafn Guðs. Hér til hliðar er mynd af hebresk-latneskri millilínuþýðingu hans á 1. Mósebók. Á spássíu er athugasemd þar sem nafn Guðs er ritað „jehovah“.

Að því er best verður séð hefur Zamora viðurkennt þessa umritun nafnsins í latneska textanum. Þegar Biblían var þýdd á helstu tungur Evrópu á 16. öld stafsettu margir biblíuþýðendur nafnið þannig eða mjög líkt þessu. Þeirra á meðal voru William Tyndale (á ensku 1530), Pierre-Robert Olivétan (á frönsku 1535) og Casiodoro de Reina (á spænsku 1569). Auk þeirra má nefna Sebastian Münster sem þýddi Biblíuna á latínu árið 1534.

Zamora var því einn af fyrstu biblíufræðingum 16. aldar sem varpaði ljósi á nafn Guðs. Sú hjátrú gyðinga að ekki mætti segja nafnið upphátt var helsta ástæðan fyrir því að það féll í gleymsku. Þessi gyðinglega hefð varð til þess að biblíuþýðendur eins og Híerónýmus, þýðandi latnesku Vúlgata-biblíunnar, settu titla eins og „Drottinn“ og „Guð“ í staðinn fyrir nafn Guðs.

[Mynd]

Nærmynd af hebreska fjórstafanafninu sem Zamora umritaði „Jehovah“.

[Mynd á bls. 18]

Tilskipun spænsku konungshjónanna árið 1492.

[Rétthafi myndar]

Tilskipun: Með góðfúslegu leyfi Archivo Histórico Provincial, Ávila, Spáni.

[Mynd á bls. 18]

Háskólinn í Alcalá de Henares.

[Mynd á bls. 21]

Titilsíða millilínuþýðingar Zamora.