Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er hann okkur góð fyrirmynd eða slæm?

Er hann okkur góð fyrirmynd eða slæm?

Er hann okkur góð fyrirmynd eða slæm?

„Göngum . . . til húss Jakobs Guðs svo að hann vísi oss vegu sína og vér getum gengið brautir hans.“ – JES. 2:3.

1, 2. Hvernig geta frásögurnar í Biblíunni komið okkur að góðum notum?

ÞÚ ERT örugglega sammála því að það sem stendur í Biblíunni kemur okkur að góðum notum. Hún hefur að geyma frásögur af trúföstum körlum og konum og segir frá lífsstefnu þeirra og eiginleikum sem þig langar eflaust til að líkja eftir. (Hebr. 11:32-34) Þú hefur þó líklega einnig rekist á frásögur af körlum og konum sem þú ættir ekki að taka þér til fyrirmyndar vegna þess að viðhorf þeirra og verk voru slæm.

2 Sumir sem sagt er frá í Biblíunni geta reyndar bæði verið okkur til fyrirmyndar og víti til varnaðar. Leiðum hugann að Davíð. Hann var auðmjúkur fjárhirðir og síðar meir voldugur konungur. Hann er okkur gott fordæmi því að hann elskaði sannleikann og reiddi sig á Jehóva. Samt gerðist hann sekur um alvarleg brot þegar hann syndgaði með Batsebu, sá til þess að Úría félli í bardaga og fyrirskipaði að telja skyldi íbúa landsins. Við ætlum hins vegar að kynna okkur ævi Salómons, sonar Davíðs. Hann var konungur og var innblásið að skrifa nokkrar biblíubækur. Skoðum fyrst hvernig hann er okkur til fyrirmyndar á tvo vegu.

„Speki Salómons“

3. Af hverju má segja að Salómon hafi gefið gott fordæmi?

3 Jesús Kristur, hinn meiri Salómon, benti á að Salómon konungur hefði gefið gott fordæmi. Jesús sagði við nokkra Gyðinga: „Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons og hér er meira en Salómon.“ (Matt. 12:42) Já, Salómon var annálaður fyrir visku og hann hvatti líka aðra til að afla sér visku.

4, 5. Hvernig hlaut Salómon visku en hvernig getum við öðlast visku?

4 Þegar Salómon var nýorðinn konungur birtist Guð honum í draumi og sagði: „Segðu hvað þú vilt að ég gefi þér.“ Salómon bað um visku því að hann gerði sér ljóst hve reynslulítill hann væri. (Lestu 1. Konungabók 3:5-9.) Guð var ánægður með að hann skyldi biðja um visku en ekki auðlegð og heiður. Hann gaf honum því „hyggið og skynugt hjarta“, ásamt velmegun. (1. Kon. 3:10-14) Líkt og Jesús benti á var speki Salómons svo mikil að þegar drottningin af Saba heyrði sagt frá henni lagði hún upp í langa ferð til að sannreyna orðróminn. – 1. Kon. 10:1, 4-9.

5 Við eigum auðvitað ekki von á því að hljóta visku fyrir kraftaverk. Salómon sagði að það væri Jehóva sem veitti speki. En hann bætti við að við þyrftum að leggja mikið á okkur til að öðlast hana. Hann talaði um að við þyrftum að ,veita spekinni athygli okkar og hneigja hjarta okkar að hyggindum‘. Hann orðaði það þannig að sá maður sem „kallar á . . . leitar að . . . og grefur eftir“ visku muni öðlast hana. (Orðskv. 2:1-6) Það er því augljóst að við getum hlotið visku.

6. Hvernig getum við fylgt góðu fordæmi Salómons?

6 Það er gott að spyrja sig: Kann ég að meta viskuna frá Guði eins og Salómon gerði? Vegna óvissu í efnahagsmálum einbeita margir sér að því að afla sér tekna og sökkva sér í vinnu. Margir láta efnahagsástandið líka hafa áhrif á það hvers konar og hve mikillar menntunar þeir afli sér. Hvað um þig og fjölskyldu þína? Sýna þær ákvarðanir sem þið takið að þið ,leitið að‘ visku Guðs og metið hana mikils? Þurfið þið að breyta um áherslur og markmið þannig að þið getið einbeitt ykkur betur að því að afla ykkur visku? Viskan frá Guði gagnast ykkur að eilífu. Salómon skrifaði: „Þá skilur þú einnig hvað réttlæti er, réttur og réttsýni, skilur sérhverja braut hins góða.“ – Orðskv. 2:9.

Friður ríkti þegar sönn tilbeiðsla var höfð í fyrirrúmi

7. Hvernig bar það til að glæsilegt musteri var reist Guði til heiðurs?

7 Snemma á valdatíð sinni ákvað Salómon að reisa mikilfenglegt musteri í stað tjaldbúðarinnar sem hafði verið í notkun frá tímum Móse. (1. Kon. 6:1) Það er oft kallað musteri Salómons en hann lét samt ekki reisa það til að skapa sjálfum sér nafn. Hugmyndin að byggingu þess kom ekki einu sinni frá honum heldur var það Davíð sem fyrstur lagði til að musterið skyldi reist. Guð gaf síðan Davíð ýtarleg fyrirmæli um hvernig það ætti að vera að innan sem utan. Davíð gaf einnig rausnarlegt framlag til að fjármagna verkið. (2. Sam. 7:2, 12, 13; 1. Kron. 22:14-16) En það var Salómon sem bar ábyrgð á því að reisa musterið og sú vinna tók sjö og hálft ár. – 1. Kon. 6:37, 38; 7:51.

8, 9. (a) Að hvaða leyti getum við tekið Salómon okkur til fyrirmyndar? (b) Hvaða árangur bar það að Salómon lét sanna tilbeiðslu ganga fyrir öðru?

8 Við getum tekið Salómon okkur til fyrirmyndar því að hann vann góð verk án þess að gefast upp og einbeitti sér að því sem skipti mestu máli. Eftir að musterið hafði verið reist og sáttmálsörkinni komið fyrir innandyra fór hann með bæn fyrir hönd fólksins. Hann bað til Jehóva: „Lát augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, þeim stað sem þú hefur sagt um: Þar skal nafn mitt búa. Heyr bænina er þjónn þinn biður á þessum stað.“ (1. Kon. 8:6, 29) Þegar Ísraelsmenn og útlendingar báðu til Guðs gátu þeir snúið sér í átt að musterinu sem reist hafði verið nafni hans til heiðurs. – 1. Kon. 8:30, 41-43, 60.

9 Hvaða árangur bar það að Salómon lét sanna tilbeiðslu ganga fyrir öðru? Eftir vígslu musterisins voru menn „glaðir og endurnærðir, vegna allra velgjörða Drottins við Davíð, þjón sinn, og þjóð sína, Ísrael“. (1. Kon. 8:65, 66) Í 40 ára stjórnartíð Salómons ríkti mikill friður, öryggi og farsæld. (Lestu 1. Konungabók 4:20; 5:1, 5.) Í Sálmi 72 er sagt nánar frá því og það gefur okkur betri skilning á þeim blessunum sem við eigum eftir að njóta undir stjórn hins meiri Salómons, Jesú Krists. – Sálm. 72:6-8, 16.

Salómon er okkur líka víti til varnaðar

10. Hvað gerði Salómon af sér?

10 En af hverju getum við sagt að fordæmi Salómons sé okkur líka víti til varnaðar? Það fyrsta sem þér kemur í hug eru kannski útlendar eiginkonur hans og hjákonur. Frásagan segir: „Þegar Salómon var orðinn gamall sneru konurnar hjarta hans til annarra guða svo að hann fylgdi ekki Drottni.“ (1. Kon. 11:1-6) Þú ert eflaust ákveðinn í að taka aldrei svona heimskulegar ákvarðanir. En er þetta það eina í lífi Salómons sem er okkur víti til varnaðar? Lítum nánar á aðra atburði í lífi hans sem gætu auðveldlega farið fram hjá okkur og könnum hvaða lærdóm við getum dregið af þeim.

11. Hvað hafði fyrsta hjónaband Salómons líklega í för með sér?

11 Salómon ríkti sem konungur í 40 ár. (2. Kron. 9:30) Hvaða ályktun getum við þá dregið af 1. Konungabók 14:21? (Lestu.) Af þessu versi má sjá að þegar Salómon dó tók sonur hans, Rehabeam, við konungstigninni og var þá 41 árs að aldri. Móðir Rehabeams hét „Naama og var frá Ammón“. Þetta merkir að áður en Salómon varð konungur tók hann sér konu af einni óvinaþjóð Ísraels, þjóð sem hafði það fyrir venju að dýrka skurðgoð. (Dóm. 10:6; 2. Sam. 10:6) Dýrkaði eiginkona hans þessi skurðgoð? Jafnvel þótt hún hafi gert það áður fyrr getur vel verið að hún hafi snúið baki við falsguðadýrkun og lært að tilbiðja Jehóva eins og Rahab og Rut gerðu. (Rut. 1:16; 4:13-17; Matt. 1:5, 6) En þrátt fyrir það eignaðist Salómon líklega tengdafólk og venslalið frá Ammón sem tilbað ekki Jehóva.

12, 13. Hvaða óviturlegu ákvörðun tók Salómon snemma í stjórnartíð sinni og hvernig kann hann að hafa réttlætt hana?

12 Eftir að Salómon varð konungur fóru hlutirnir að snúast til verri vegar. „Hann kvæntist dóttur faraós [Egyptalandskonungs] og fór með hana til borgar Davíðs.“ (1. Kon. 3:1) Sneri þessi egypska kona sér að sannri tilbeiðslu líkt og Rut hafði gert? Ekkert bendir til þess. Salómon byggði hins vegar hús handa henni (og líklega egypskum þjónustustúlkum hennar) fyrir utan borg Davíðs. Af hverju? Í Biblíunni segir að hann hafi gert það vegna þess að það var ekki við hæfi að falsguðadýrkandi byggi nálægt sáttmálsörkinni. – 2. Kron. 8:11.

13 Kannski áleit Salómon að það myndi styrkja vináttubönd Ísraels og Egyptalands ef hann kvæntist egypskri prinsessu. En gat hann virkilega réttlætt þessa ákvörðun sína? Öldum áður hafði Guð bannað Gyðingum að giftast Kanverjum. Hann tiltók meira að segja hvaða þjóðflokka þeir áttu að forðast. (2. Mós. 34:11-16) Hugsaði Salómon með sér að fyrst Egyptar væru ekki á listanum væri í lagi að giftast egypskri konu? Kannski réttlætti hann ákvörðun sína með þessum rökum, en tók Jehóva þessa afsökun til greina? Jehóva hafði varað Ísraelsmenn við því að taka sér maka af öðru þjóðerni svo að þeir færu ekki að þjóna öðrum guðum, en Salómon lokaði greinilega augunum fyrir þessari hættu. – Lestu 5. Mósebók 7:1-4.

14. Hvað getum við lært af slæmu fordæmi Salómons?

14 Getum við dregið lærdóm af slæmu fordæmi Salómons? Systir í söfnuðinum reynir ef til vill að réttlæta fyrir sér að óhlýðnast boði Guðs um að giftast „aðeins . . . í Drottni“. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981) Þjónn Guðs gæti sömuleiðis reynt að réttlæta það að æfa íþróttir eða taka þátt í öðru félagsstarfi. Hann reynir kannski að færa rök fyrir því að skjóta undan skatti eða segja ósatt þegar það gæti verið vandræðalegt fyrir hann að segja sannleikann. Kjarni málsins er sá að Salómon reyndi eflaust að réttlæta óhlýðni sína við Guð með haldlausum rökum og við gætum fallið í sömu gryfju.

15. Hvernig var Jehóva miskunnsamur við Salómon en hverju megum við samt aldrei gleyma?

15 Athygli vekur að jafnvel þótt Salómon hafi gengið að eiga útlenda prinsessu gaf Guð honum samt sem áður þá visku sem hann bað um og líka auðlegð. (1. Kon. 3:10-13) Salómon hafði látið leiðbeiningar Jehóva sem vind um eyrun þjóta en ekkert bendir þó til þess að Jehóva hafi þá þegar hafnað honum sem konungi eða ávítað hann harðlega. Guð tekur mið af því að við erum ófullkomin og „minnist þess að vér erum mold“. (Sálm. 103:10, 13, 14) En gleymum aldrei að við þurfum fyrr eða síðar að taka afleiðingum gerða okkar.

Allt of margar eiginkonur!

16. Hvaða fyrirmælum óhlýðnaðist Salómon þegar hann tók sér margar eiginkonur?

16 Í Ljóðaljóðunum sagði Salómon konungur fullur aðdáunar að stúlka nokkur væri fegurri en 60 drottningar og 80 hjákonur. (Ljóðalj. 6:1, 8-10) Sé þetta lýsing á aðstæðum Salómons var hann búinn að eignast svona margar konur á þeim tíma. Enda þótt flestar þeirra eða allar hefðu þjónað Jehóva var Salómon samt að óhlýðnast honum. Guð hafði gefið eftirfarandi fyrirmæli um konunga Ísraels: „Hann má ekki . . . taka sér of margar konur svo að hjarta hans víki ekki af réttri leið.“ (5. Mós. 17:17) Enn á ný var Jehóva miskunnsamur við Salómon. Guð hafnaði honum ekki heldur blessaði hann og innblés honum að skrifa Ljóðaljóðin.

17. Fram hjá hvaða staðreynd megum við ekki horfa?

17 Gefur þetta til kynna að Salómon hafi komist upp með að hunsa leiðsögn Guðs og að við getum það líka? Nei, þetta sýnir hins vegar fram á að Guð er mjög þolinmóður. Þjónn Guðs gæti virt að vettugi leiðsögn hans án þess að það hafi slæmar afleiðingar í för með sér þegar í stað. En það merkir ekki að hann þurfi aldrei að taka afleiðingum gerða sinna. Höfum í huga að Salómon skrifaði: „Dómi yfir illskuverkum er ekki fullnægt þegar í stað og því svellur mönnum móður til þess að gera það sem illt er.“ Hann bætti svo við: „Þótt ég viti hins vegar að réttlátum mönnum, sem óttast Guð, vegnar vel.“ – Préd. 8:11, 12.

18. Hvernig er ævi Salómons til vitnis um að orðin í Galatabréfinu 6:7 eru sönn?

18 Því miður skeytti Salómon ekki um þessi sannindi. Hann hafði vissulega gert margt gott og Jehóva hafði blessað hann ríkulega. En með tímanum gerði hann hver mistökin á fætur öðrum. Hann gerði það að vana sínum að óhlýðnast boðum Jehóva. Páli postula var löngu síðar innblásið að skrifa þessi einföldu sannindi: „Villist ekki. Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Gal. 6:7) Salómon virti að vettugi leiðsögn Guðs og þurfti að súpa seyðið af því síðar á ævinni. Frásagan segir: „Auk dóttur faraós elskaði Salómon konungur margar útlendar konur, konur frá Móab, Ammón, Edóm, Sídon og ríki Hetíta.“ (1. Kon. 11:1) Margar þeirra hættu líklega aldrei að dýrka falsguði og Salómon var ekki ónæmur fyrir því. Hann lét leiðast afvega og missti velþóknun Jehóva, sem er þó einkar þolinmóður. – Lestu 1. Konungabók 11:4-8.

Lærum af góðu og slæmu fordæmi hans

19. Frá hvaða fólki er sagt í Biblíunni sem er okkur til fyrirmyndar?

19 Jehóva innblés Páli að skrifa: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ (Rómv. 15:4) Þetta „sem áður er ritað“ eru meðal annars frásögur af körlum og konum sem sýndu mikla trú. Páll gat sagt: „Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta og af Davíð, Samúel og spámönnunum. Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna, slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir þótt áður væru þeir veikir.“ (Hebr. 11:32-34) Við getum og ættum að læra af góðu fordæmi þeirra sem sagt er frá í Biblíunni og líkja eftir þeim.

20, 21. Hvað getum við lært af frásögum Biblíunnar sem eru okkur til viðvörunar og af hverju er það mikilvægt?

20 En nokkrar frásögur í Biblíunni eru okkur til viðvörunar. Sumar þeirra fjalla um karla og konur sem voru einu sinni þjónar Jehóva og nutu velþóknunar hans. Þegar við lesum í Biblíunni getum við séð hvað leiddi til þess að sumir þjónar Guðs brutu af sér og þannig varast að gera sömu mistök og þeir. Við tökum eftir að sumir þeirra tileinkuðu sér smám saman röng viðhorf og það hafði að lokum sorglegar afleiðingar í för með sér. Eftirfarandi spurningar hjálpa okkur að draga lærdóm af þessum frásögum: Hvað varð til þess að þessi maður eða kona tileinkaði sér röng viðhorf? Gæti hið sama gerst hjá mér? Hvað get ég lært af þessari frásögu svo að ég falli ekki í sömu gryfju?

21 Við ættum að hugleiða þessar frásögur alvarlega. Páli var innblásið að skrifa: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði og það er ritað til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir.“ – 1. Kor. 10:11.

Hvað lærðir þú?

• Af hverju hefur Biblían að geyma frásögur af fólki sem er okkur góð fyrirmynd og slæm?

• Hvað varð til þess að Salómon gerði það að vana sínum að óhlýðnast boðum Jehóva?

• Hvaða lærdóm geturðu dregið af slæmu fordæmi Salómons?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 9]

Salómon notaði viskuna sem Guð hafði gefið honum.

[Myndir á bls. 12]

Dregur þú lærdóm af slæmu fordæmi Salómons?