Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Guðs til forna fylgdu leiðsögn anda hans

Þjónar Guðs til forna fylgdu leiðsögn anda hans

Þjónar Guðs til forna fylgdu leiðsögn anda hans

„Nú hefur Drottinn Guð sent mig og anda sinn.“ – JES. 48:16.

1, 2. Hvað þurfum við til að hafa trú og af hverju er hvetjandi að lesa um trúfasta þjóna Guðs til forna?

MARGIR hafa sýnt trú allt frá því að Abel var uppi. En trúin er ekki allra. (2. Þess. 3:2) Hvað veldur því að sumir hafa trú og hvað gerir þeim kleift að vera trúir Guði? Að miklu leyti er trúin sprottin af því sem við heyrum frá Biblíunni. (Rómv. 10:17) Hún er ávöxtur heilags anda Guðs. (Gal. 5:22, 23) Við þurfum þess vegna heilagan anda til að hafa sterka trú og sýna hana í verki.

2 Við skulum þó ekki ímynda okkur að trúin sé meðfædd og komi af sjálfu sér. Trúfastir þjónar Guðs, sem sagt er frá í Biblíunni, voru ósköp venjulegt fólk eins og við. (Jak. 5:17) Þeir höfðu sínar efasemdir og veikleika en „urðu styrkir“ og gátu tekist á við erfiðleika og krefjandi verkefni með hjálp anda Guðs. (Hebr. 11:34) Þegar við kynnum okkur hvernig andi Jehóva starfaði með þeim er það okkur hvatning til að halda áfram að þjóna honum í trúfesti. Það er sérlega mikilvægt nú á tímum þegar trú okkar sætir árásum úr öllum áttum.

Andi Guðs gaf Móse kraft

3-5. (a) Hvernig vitum við að heilagur andi hjálpaði Móse að rísa undir skyldum sínum? (b) Í hvaða mæli gefur Jehóva anda sinn, samanber frásöguna af Móse?

3 Móse var „hógværari en nokkur annar“ sem var uppi árið 1513 f.Kr. (4. Mós. 12:3) Jehóva fól þessum lítilláta manni gríðarmikla ábyrgð. Heilagur andi gerði honum kleift að spá, dæma, skrifa bækur, vinna kraftaverk og fara með forystu Ísraelsþjóðarinnar. (Lestu Jesaja 63:11-14.) Einu sinni fannst Móse þó álagið vera sér ofviða. (4. Mós. 11:14, 15) Jehóva tók þá „dálítið af andanum“, sem var yfir Móse, og lagði yfir 70 aðra til að dreifa byrðinni. (4. Mós. 11:16, 17) Þótt Móse hafi fundist álagið vera einum of mikið hafði hann reyndar ekki borið það einn. Og mennirnir 70, sem Móse valdi sér til aðstoðar, þurftu ekki heldur að bera það hjálparlaust.

4 Jehóva hafði gefið Móse nóg af heilögum anda til að hann réði við verkefni sín. Og það breyttist ekki eftir að mennirnir 70 fengu heilagan anda. Móse hafði ekki of lítið af andanum og öldungarnir 70 ekki of mikið. Jehóva gefur okkur anda sinn í þeim mæli sem við þurfum hverju sinni. Hann gefur hann ekki af skornum skammti heldur „ómælt“ og „af gnægð“ sinni. – Jóh. 1:16; 3:34.

5 Ertu að takast á við prófraunir? Finnst þér skyldurnar fara vaxandi og vera æ tímafrekari? Vinnurðu hörðum höndum til að sjá fyrir andlegum og efnislegum þörfum fjölskyldunnar samhliða dýrtíð eða heilsubresti? Gegnirðu krefjandi ábyrgðarstörfum í söfnuðinum? Þú mátt treysta að Jehóva getur beitt anda sínum til að gefa þér kraft til að takast á við hvað sem er. – Rómv. 15:13.

Heilagur andi gerði Besalel hæfan til starfa

6-8. (a) Hvað gátu Besalel og Oholíab gert með hjálp anda Guðs? (b) Hvernig sjáum við að andi Guðs leiðbeindi þeim Besalel og Oholíab? (c) Af hverju er hvetjandi fyrir okkur að lesa um Besalel?

6 Besalel var samtíðarmaður Móse og frásaga Biblíunnar af honum lýsir vel hvernig andi Guðs getur starfað. (Lestu 2. Mósebók 35:30-35.) Besalel fékk það verkefni að stjórna gerð tjaldbúðarinnar með öllu tilheyrandi. Bjó hann yfir nauðsynlegri kunnáttu áður en hann hófst handa við þetta mikla verkefni? Það má vera, en síðast hafði hann sennilega unnið við að gera tígulsteina fyrir Egypta. (2. Mós. 1:13, 14) Hvernig gat Besalel þá séð um þetta flókna verkefni? Jehóva fyllti hann anda sínum „með visku, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik til að hugsa upp og smíða . . . og til að vinna hvers konar hagleiksverk“. Með anda sínum efldi Jehóva þá hæfileika sem Besalel kann að hafa búið yfir. Hið sama er að segja um Oholíab. Tvímenningarnir hljóta að hafa verið námfúsir því að þeir gátu bæði gert það sem til var ætlast af þeim og kennt öðrum. Guð bjó þá þessari gáfu.

7 Það er annað sem vitnar um að andi Guðs hafi starfað með þeim Besalel og Oholíab. Verk þeirra var svo vandað að það var enn í notkun um 500 árum síðar. (2. Kron. 1:2-6) Nú á dögum vilja flestir setja áletrun sína eða vörumerki á það sem þeir búa til. En Besalel og Oholíab hugsuðu ekki þannig heldur gáfu Jehóva heiðurinn af handverki sínu. – 2. Mós. 36:1, 2.

8 Vera má að okkur séu falin erfið verkefni sem krefjast sérkunnáttu, svo sem að byggja, prenta, skipuleggja mót, veita neyðaraðstoð eða ræða við lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn um biblíulega afstöðu okkar til blóðgjafa. Stundum er fengið fólk með fagkunnáttu til að sinna þessum verkefnum en oftar en ekki eru þau unnin af sjálfboðaliðum sem hafa litla reynslu á viðkomandi sviði. En andi Guðs auðveldar þeim að vinna verkið. Hefurðu veigrað þér við að taka að þér verkefni í þjónustu Guðs og hugsað sem svo að aðrir séu færari til þess en þú? Mundu þá að andi Jehóva getur hjálpað þér að beita kunnáttu þinni og færni til að skila af þér hvaða verkefni sem þér eru falin.

Jósúa leiddi þjóð Guðs með hjálp anda hans

9. Hvaða staða kom upp eftir að Ísraelsmenn voru farnir frá Egyptalandi og hvaða spurning vaknaði?

9 Andi Guðs leiðbeindi einnig samtíðarmanni þeirra Móse og Besalels. Skömmu eftir að Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland réðust Amalekítar á þá að tilefnislausu. Ísraelsmenn þurftu að verja hendur sínar en voru allsendis óvanir hernaði. Nú voru þeir orðnir frjáls þjóð og urðu að berjast í fyrsta sinn. (2. Mós. 13:17; 17:8) Hver gat farið með forystu í hernaði þeirra?

10. Af hverju unnu Ísraelsmenn orustu undir forystu Jósúa?

10 Jehóva valdi Jósúa til að fara með þetta hlutverk. En hvað hefði hann getað talið upp sér til ágætis ef hann hefði átt að gera grein fyrir starfsreynslu sinni? Að hann hefði verið þræll, safnað hálmi og gert tígulsteina? Að hann hefði safnað manna í eyðimörkinni? Elísama, afi hans, var að vísu foringi Efraímsættar og hafði farið fyrir 108.100 manna sveit af þrem ættkvíslum Ísraels. (4. Mós. 2:18, 24; 1. Kron. 7:26, 27) En Jehóva gaf Móse þau fyrirmæli að hvorki Elísama né Nún, sonur hans, skyldi fara með forystuna heldur ætti Jósúa að leiða herinn til sigurs. Orustan stóð lungann úr degi. Jósúa hlýddi Jehóva í einu og öllu og þáði leiðsögn heilags anda með þeim árangri að Ísraelsmenn gengu með sigur af hólmi. – 2. Mós. 17:9-13.

11. Hvernig getum við orðið farsæl í þjónustu Jehóva, ekki síður en Jósúa?

11 Jósúa tók við sem leiðtogi Ísraels eftir að Móse dó. Hann var „fullur vísdómsanda“. (5. Mós. 34:9) Heilagur andi gaf honum ekki hæfileika til að spá eða vinna kraftaverk eins og hann hafði gefið Móse. Hins vegar gerði hann Jósúa kleift að veita Ísrael forystu í öllum þeim hernaði sem þurfti til að vinna Kanaansland. Okkur finnst við kannski skorta reynslu eða hæfileika til að leysa af hendi ákveðin verkefni í þjónustu Guðs. En við getum treyst að okkur takist það, ekki síður en Jósúa, ef við fylgjum leiðsögn Guðs í hvívetna. – Jós. 1:7-9.

Andi Jehóva kom yfir Gídeon

12-14. (a) Hvaða lærdóm má draga af því að 300 menn skyldu sigra margfalt fjölmennari her Midíaníta? (b) Hvernig styrkti Jehóva trú Gídeons? (c) Hvernig styrkir Jehóva okkur?

12 Jehóva hélt áfram að nota anda sinn til að styrkja trúa þjóna sína eftir að Jósúa var dáinn. Í Dómarabókinni eru margar frásögur af mönnum sem „urðu styrkir þótt áður væru þeir veikir“. (Hebr. 11:34) Guð notaði heilagan anda til að hjálpa Gídeon að berjast fyrir Ísrael. (Dóm. 6:34) Hermenn Gídeons voru mun færri en hermenn Midíaníta, eða 1 á móti 4. Í augum Jehóva var þessi litla hersveit samt allt of fjölmenn. Í tvígang fyrirskipaði hann Gídeon að fækka hermönnunum þar til eftir voru 1 á hverja 450 Midíaníta. (Dóm. 7:2-8; 8:10) Þessi hlutföll voru Jehóva að skapi. Ef Ísraelsmenn ynnu yfirburðasigur gat enginn þeirra stært sig af því að það væri sjálfum þeim eða visku þeirra að þakka.

13 Gídeon og hersveit hans var næstum tilbúin. Hugsaðu þér að þú hefðir verið einn af hermönnunum. Hefðirðu verið sigurviss, vitandi að búið var að senda heim þá sem voru hræddir eða óvarir um sig? Eða hefðirðu fengið hnút í magann við tilhugsunina um hvernig bardaginn gæti endað? Við þurfum ekki að vera í vafa um að Gídeon treysti Guði. Hann gerði eins og honum var sagt. (Lestu Dómarabókina 7:9-14.) Jehóva reiddist ekki Gídeon fyrir að biðja um tákn sem myndi sanna að Jehóva væri með honum heldur styrkti trú hans. – Dóm. 6:36-40.

14 Jehóva getur bjargað þjónum sínum úr hvaða hættu sem er. Honum eru engin takmörk sett. Hann getur jafnvel notað þá sem virðast frekar veikburða og kraftlitlir til að hjálpa öðrum. Okkur finnst við kannski ofurliði borin eða í vonlausri aðstöðu. Við ætlumst ekki til að Jehóva gefi okkur tákn eins og hann gaf Gídeon. Hins vegar getum við sótt leiðsögn og hughreystingu til Biblíunnar og safnaðarins sem Guð leiðir með anda sínum. (Rómv. 8:31, 32) Loforð Jehóva styrkja trú okkar og sannfæra okkur um að við getum treyst á stuðning hans.

Andi Jehóva kom yfir Jefta

15, 16. Af hverju var dóttir Jefta fús til að færa fórnir og hvað geta foreldrar lært af því?

15 Lítum á enn eitt dæmi. Þegar Ísraelsmenn þurftu að berjast við Ammóníta „kom andi Drottins yfir Jefta“. Honum var mikið í mun að sigra óvinina og verða Jehóva til lofs, og vann heit sem reyndist honum dýrt. Hann hét að gefa Jehóva þann sem kæmi fyrstur á móti honum við heimkomuna, ef Jehóva gæfi honum sigur. Þegar Jefta kom heim eftir að hafa sigrað Ammóníta kom dóttir hans hlaupandi á móti honum. (Dóm. 11:29-31, 34) Kom það Jefta á óvart? Sennilega ekki því að hún var einkabarn hans. Hann stóð við heit sitt með því að senda hana til Síló til að þjóna þar við helgidóm Jehóva. Dóttir Jefta tilbað Jehóva og var ekki í vafa um að faðir hennar ætti að standa við gefið heit. (Lestu Dómarabókina 11:36.) Andi Jehóva gaf þeim báðum þann styrk sem þau þurftu á að halda.

16 Hvers vegna var dóttir Jefta svona fórnfús? Guðrækni föður hennar og brennandi áhugi hans á málefnum Jehóva hafði eflaust styrkt trú hennar. Börn taka vel eftir fordæmi foreldra sinna. Ákvarðanir ykkar segja börnunum að þið trúið því sem þið segið. Börnin hlusta á einlægar bænir ykkar, taka við því sem þið kennið og veita athygli hvernig þið leggið ykkur fram um að þjóna Jehóva af heilum hug. Þá er líklegt að þau þrái heitt að þjóna Jehóva sem er mikið ánægjuefni.

Andi Jehóva kom yfir Samson

17. Hvað gerði Samson undir áhrifum anda Guðs?

17 Að síðustu skulum við nefna Samson og skoða hvernig andi Guðs starfaði með honum. Ísraelsmenn höfðu komist undir yfirráð Filistea og Jehóva vildi frelsa þá. Hann lét því ,anda sinn hreyfa við‘ Samsoni og gaf honum þvílíkt ógnarafl að annað eins hafði aldrei sést. (Dóm. 13:24, 25) Þegar Filistear töldu samlanda Samsonar á að handsama hann „kom andi Drottins yfir hann og urðu þá reipin, sem voru um armleggi hans, sem sviðnir þræðir og fjötrarnir hrukku af höndum hans“. (Dóm. 15:14) Síðar gerði hann alvarleg mistök sem urðu til þess að hann missti máttinn en „fyrir trú“ endurheimti hann máttinn að nýju. (Hebr. 11:32-34; Dóm. 16:18-21, 28-30) Andi Jehóva starfaði með Samsoni á óvenjulegan hátt við sérstakar aðstæður. Þetta sögubrot er engu að síður uppörvandi fyrir okkur. Hvernig þá?

18, 19. (a) Af hverju er hvetjandi fyrir okkur að lesa um Samson? (b) Hvaða gagn hefurðu haft af því að skoða frásögurnar af trúum þjónum Guðs til forna?

18 Við reiðum okkur á sama heilaga andann og Samson. Við treystum að hann styðji okkur í því starfi sem Jesús fól fylgjendum sínum, það að er að segja að „prédika fyrir alþjóð og vitna“. (Post. 10:42) Það er ekki víst að við höfum meðfædda hæfileika til þess. Við erum því innilega þakklát Jehóva fyrir að beita anda sínum til að gera okkur fær um að leysa af hendi þau fjölbreyttu verkefni sem okkur eru falin. Við getum tekið undir með Jesaja spámanni: „Nú hefur Drottinn Guð sent mig og anda sinn.“ (Jes. 48:16) Við getum einbeitt okkur að verkinu í þeirri vissu að Jehóva hjálpi okkur að þroska hæfileika okkar líkt og hann hjálpaði Móse, Besalel og Jósúa. Við grípum „sverð andans, Guðs orð,“ í trausti þess að hann gefi okkur kraft eins og hann styrkti Gídeon, Jefta og Samson. (Ef. 6:17, 18) Ef við reiðum okkur á hjálp Jehóva getum við fengið kraft til að vinna verkið, sem hann hefur falið okkur, rétt eins og Samson.

19 Það er greinilegt að Jehóva blessar hugrakka tilbiðjendur sína. Við styrkjum trú okkar þegar við leyfum anda hans að stýra skrefum okkar. Í grísku ritningunum er einnig sagt frá mörgum þjónum Guðs sem létu anda hans leiða sig. Í næstu grein er rætt hvernig andi Jehóva starfaði með trúum þjónum hans á fyrstu öld, bæði fyrir og eftir hvítasunnu árið 33.

Af hverju er hvetjandi að vita hvernig andi Guðs starfaði með . . .

• Móse?

• Besalel?

• Jósúa?

• Gídeon?

• Jefta?

• Samsoni?

[Spurningar]

[Innskot á bls. 22]

Andi Guðs getur styrkt okkur í þjónustunni rétt eins og hann styrkti Samson.

[Mynd á bls. 21]

Foreldrar, þið eruð börnunum góð fyrirmynd með því að þjóna Jehóva af heilum hug.