Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kynntu þér orð Guðs

Er framtíðin sögð fyrir í Biblíunni?

Er framtíðin sögð fyrir í Biblíunni?

Þessi grein fjallar um spurningar sem þú gætir hafa spurt þig og sýnir hvar svörin er að finna í Biblíunni. Vottar Jehóva myndu með ánægju ræða við þig um svörin.

1. Eru spádómar Biblíunnar nákvæmir?

Almáttugur Guð er sá eini sem getur séð framtíðina fyrir í smáatriðum. (Amos 3:7) Endur fyrir löngu sagði hann til dæmis fyrir að fram kæmi maður sem kallaðist Messías eða Kristur. Hann átti að vera niðji hins trúfasta Abrahams. Hann átti að vera stjórnandi sem gerði hlýðnu mannkyni kleift að öðlast fullkomið líf án sjúkdóma. (1. Mósebók 22:18; Jesaja 53:4, 5) Hinn fyrirheitni Messías átti að koma frá Betlehem. – Lestu Míka 5:1.

Jesús reyndist vera Messías. Rúmlega sjö öldum áður en hann kom fram var sagt fyrir í Biblíunni að „yngismær“ myndi fæða Messías. Hann yrði fyrirlitinn, myndi fórna lífi sínu fyrir syndir margra og yrði grafinn meðal ríkra. (Jesaja 7:14; 53:3, 9, 12) Því var spáð meira en fimm öldum fyrir fram í Biblíunni að hann kæmi inn í Jerúsalem ríðandi ungum ösnufola og hann yrði svikinn fyrir 30 silfurpeninga. Allt rættist þetta í smáatriðum. – Lestu Sakaría 9:9; 11:12.

2. Eru tímasetningar sagðar fyrir?

Meira en fimm öldum áður en Messías kom fram hafði því verið spáð nákvæmlega í Biblíunni. Tímasetningin var mæld í vikum ára sem merkir að hver „vika“ var sjö ár. Líða áttu 7 vikur að viðbættum 62 vikum eða samtals 69 vikur ára. Það jafngildir 483 árum. Hvenær hófst þetta tímabil? Samkvæmt því sem segir í Biblíunni hófst það þegar Nehemía, þjónn Guðs, kom til Jerúsalem og hóf að endurbyggja borgina. Í sögu Persa kemur fram að það hafi verið árið 455 f.Kr. (Nehemíabók 2:1-5). Jesús var skírður sem Messías 483 árum síðar, árið 29 e.Kr., nákvæmlega á þeim tíma sem spáð var. – Lestu Daníel 9:25.

3. Eru biblíuspádómar að rætast núna?

Jesús spáði örlagaríkum atburðum sem áttu að gerast á okkar tímum. Í spádómum sínum nefnir hann fagnaðarerindið um Guðsríki. Þetta ríki mun breyta heiminum til hins betra fyrir alla sem elska Guð. Það mun gera að engu hið illa heimskerfi sem nú er. – Lestu Matteus 24:14, 21, 22.

Í spádómum Biblíunnar er lýst í smáatriðum tímabilinu áður en núverandi heimskerfi líður undir lok. Þar kemur fram að ólíkt því sem ætla mætti á öld framfara myndi mannkynið vera við það að eyða jörðina. Þjáningar af völdum styrjalda, matvælaskorts, jarðskjálfta og farsótta færu vaxandi. (Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 11:18) Almennu siðferði myndi hraka stórlega. Á þessum erfiðu tímum myndu fylgjendur Jesú boða fagnaðarerindið um Guðsríki meðal allra þjóða. – Lestu Matteus 24:3, 7, 8; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

4. Hver verður framtíð mannkyns?

Trúfast mannkyn á margt gott í vændum frá alvöldum Guði. Jesús Kristur, Messías, munu ríkja yfir jörðinni frá himnum ásamt hans útvöldu. Þeir mynda stjórn sem mun fara með völd í þúsund ár. Þeir sem dánir eru verða reistir upp og fá tækifæri til að hljóta eilíft líf. Allir sem verða á lífi á þeim tíma verða læknaðir. Sjúkdómar og dauði verða ekki framar til. – Lestu Opinberunarbókina 5:10; 20:6, 12; 21:4, 5.

Nánari upplýsingar er að finna á bls. 23-25 og bls. 197-201 í bókinni Hvað kennir Biblían? sem hér er sýnd.