Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir postulum Jesú og verum vökul

Líkjum eftir postulum Jesú og verum vökul

Líkjum eftir postulum Jesú og verum vökul

„Vakið með mér.“ – MATT. 26:38.

HVAÐ MÁ LÆRA UM . . .

að vera vakandi fyrir leiðbeiningum um hvar eigi að prédika?

að vera iðinn við að biðja til Guðs?

að vitna rækilega þrátt fyrir prófraunir?

1-3. Hvernig vitum við að postulunum tókst ekki að halda vöku sinni síðustu nóttina sem Jesús var hér á jörð og hvað sýnir að þeir lærðu af mistökum sínum?

VIÐ erum stödd í Getsemanegarðinum, síðustu nóttina sem Jesús er á lífi hér á jörð. Þetta er einn af uppáhaldsstöðunum hans, en garðurinn er staðsettur rétt austan við Jerúsalem. Jesús er kominn hingað með trúum postulum sínum. Það hvílir margt á huga hans og hjarta og hann þarf að biðjast fyrir í einrúmi. – Matt. 26:36; Jóh. 18:1, 2.

2 Þrír af postulunum, þeir Pétur, Jakob og Jóhannes, fylgja Jesú lengra inn í garðinn. „Bíðið hér og vakið með mér,“ segir hann við þá og fer síðan afsíðis til að biðjast fyrir. Þegar hann kemur til baka eru vinir hans þrír steinsofandi. „Vakið,“ segir hann aftur. En samt sofna þeir tvisvar eftir þetta. Síðar um nóttina reynist enginn postulanna viðbúinn því sem gerist í framhaldinu. Þeir yfirgefa meira að segja Jesú og leggja á flótta! – Matt. 26:38, 41, 56.

3 Postularnir sáu auðvitað eftir því að hafa ekki haldið vöku sinni. En þessir trúföstu menn voru fljótir að læra af mistökum sínum. Í Postulasögunni sjáum við að þeir reyndust vera til fyrirmyndar í því að halda vöku sinni. Fordæmi þeirra hefur örugglega verið trúsystkinum þeirra hvatning til að gera slíkt hið sama. Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að við séum vökul. (Matt. 24:42) Skoðum þrjár frásögur í Postulasögunni sem hjálpa okkur til þess.

VAKANDI FYRIR LEIÐBEININGUM UM HVAR ÞEIR ÆTTU AÐ PRÉDIKA

4, 5. Hvernig leiðbeindi heilagur andi Páli og ferðafélögum hans?

4 Í fyrsta lagi voru postularnir vakandi fyrir leiðbeiningum um hvar þeir ættu að prédika. Í einni frásögu sjáum við hvernig Jesús notaði heilagan anda, sem hann fékk frá Jehóva, til að leiðbeina Páli postula og ferðafélögum hans á mjög óvenjulegu ferðalagi. (Post. 2:33) Við skulum slást í för með þeim. – Lestu Postulasöguna 16:6-10.

5 Páll, Sílas og Tímóteus höfðu lagt upp frá borginni Lýstru í sunnanverðri Galatíu. Að nokkrum dögum liðnum komu þeir inn á rómverskan þjóðveg sem lá til vesturs í átt að þéttbýlasta svæði Asíu. Ferðalangarnir ætluðu sér að fara þennan veg og heimsækja borgir, þar sem þúsundir manna þurftu að heyra um Krist. En þeim varð ekki að ætlun sinni. Í 6. versi segir: „Þeir fóru um Frýgíu og Galataland því að heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.“ Því er ekki lýst nánar hvernig heilagur andi varnaði ferðalöngunum að fara til Asíu og boða trúna þar. En ljóst er að Jesús vildi, með hjálp heilags anda Guðs, beina Páli og félögum hans í aðra átt.

6, 7. (a) Hvað gerðist hjá Páli og ferðafélögum hans í nánd við Biþýníu? (b) Hvaða ákvörðun tóku lærisveinarnir og hver varð árangurinn?

6 Hvert fóru þessir kappsömu ferðalangar? Í 7. versi segir: „Og sem þeir voru komnir að Mýsíu reyndu þeir að fara til Biþýníu en andi Jesú leyfði það eigi.“ Þar sem Páli og félögum hans var meinað að prédika í Asíu héldu þeir til norðurs og ætluðu sér að prédika í borgum Biþýníu. En þegar þeir nálguðust svæðið beitti Jesús heilögum anda á nýjan leik til að benda þeim á að fara ekki þangað. Þeir hljóta að hafa verið undrandi og ráðalausir þegar hér var komið sögu. Þeir vissu hvað átti að prédika og hvernig, en þeir vissu ekki hvar þeir áttu að gera það. Við getum orðað þetta þannig: Þeir höfðu barið að dyrum í Asíu, en þeim var ekki hleypt inn. Þeir höfðu barið að dyrum í Biþýníu, en þeim var ekki heldur hleypt inn þar. Hættu þeir að knýja dyra? Nei, þessir ötulu boðberar gáfust ekki upp.

7 Á þessum tímapunkti tóku mennirnir ákvörðun sem gæti hafa virst svolítið undarleg. Í 8. versi segir: „Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas.“ Ferðafélagarnir héldu sem sagt til vesturs og gengu um 550 kílómetra leið en fóru fram hjá hverri borginni á fætur annarri uns þeir komu til hafnarborgarinnar Tróas. Þaðan var hægur vandi að sigla til Makedóníu. Þar knúðu Páll og félagar hans dyra í þriðja sinn, og nú var opnað upp á gátt. Vers 9 skýrir frá því sem gerðist í framhaldinu: „Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: ,Kom yfir til Makedóníu og hjálpa okkur!‘“ Loks vissi Páll hvar þeir áttu að prédika. Mennirnir sigldu nú án tafar til Makedóníu.

8, 9. Hvað lærum við af frásögunni um ferðalag Páls?

8 Hvað má læra af þessari frásögu? Taktu eftir að andi Guðs skarst ekki í leikinn fyrr en Páll var lagður af stað til Asíu. Jesús hafði heldur ekki afskipti af för þeirra fyrr en þeir voru farnir að nálgast Biþýníu. Og það var ekki fyrr en Páll var kominn til Tróas að Jesús gaf honum bendingu um að fara til Makedóníu. Við megum búast við að Jesús, höfuð safnaðarins, leiðbeini okkur með svipuðum hætti. (Kól. 1:18) Segjum sem svo að þú hafir verið að hugleiða að gerast brautryðjandi eða flytja til svæðis þar sem þörfin er meiri. En það getur verið að Jesús beiti ekki anda Guðs til að leiðbeina þér fyrr en þú ert búinn að gera ráðstafanir til að ná markmiði þínu. Lýsum þessu með dæmi: Bílstjóri getur beygt til hægri eða vinstri en ekki nema bíllinn sé á ferð. Eins getur Jesús leiðbeint okkur þegar við viljum auka starf okkar en því aðeins að við séum á ferð, það er að segja að við leggjum okkur fram um að ná markmiði okkar.

9 En hvað nú ef tilraunir okkar bera ekki árangur þegar í stað? Ættum við þá að leggja árar í bát og hugsa sem svo að andi Guðs sé ekki að leiðbeina okkur? Nei, höfum hugfast að það urðu líka ýmsar hindranir í vegi Páls. En hann hélt áfram að leita og knýja á uns hann fann dyr sem opnuðust. Ef þú heldur ótrauður áfram að leita að ,víðum dyrum að miklu verki‘ getur þú einnig hlotið umbun erfiðis þíns. – 1. Kor. 16:9.

ÞEIR VORU IÐNIR AÐ BIÐJA TIL GUÐS

10. Hvað sýnir að við verðum að vera bænrækin til að halda vöku okkar?

10 Lítum nú á annað sem við getum lært af bræðrum okkar á fyrstu öld um það að halda vöku okkar. Þeir voru ,algáðir til bæna‘. (1. Pét. 4:7) Það er nauðsynlegt að vera bænrækinn til að halda vöku sinni. Mundu að rétt áður en Jesús var handtekinn í Getsemanegarðinum sagði hann við þrjá af postulunum: „Vakið og biðjið.“ – Matt. 26:41.

11, 12. Hvernig og hvers vegna misþyrmdi Heródes kristnum mönnum, þar á meðal Pétri?

11 Pétur var einn af þessum postulum og hann lærði síðar af reynslunni hve máttug bænin er. (Lestu Postulasöguna 12:1-6.) Í fyrstu versum 12. kafla Postulasögunnar kemur fram að Heródes hafi misþyrmt kristnum mönnum í þeim tilgangi að ávinna sér hylli Gyðinga. Hann vissi eflaust að Jakob var postuli sem hafði verið sérstaklega náinn Jesú. Þess vegna lét Heródes taka Jakob af lífi „með sverði“. (Vers 2) Söfnuðurinn missti þannig elskaðan postula. Þetta hlýtur að hafa verið mikil prófraun fyrir bræðurna.

12 Hvað gerði Heródes í framhaldinu? Í 3. versi segir: „Er hann sá að Gyðingum líkaði vel lét hann einnig taka Pétur.“ En fangelsi höfðu ekki dugað sérlega vel til að halda postulunum, og Pétur var þar engin undantekning. (Post. 5:17-20) Vera má að Heródes hafi vitað það. Þessi kæni stjórnmálamaður ákvað að taka enga áhættu. Hann fól „fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að yfirheyra hann opinberlega.“ (Vers 4) Hugsið ykkur! Heródes lét hlekkja Pétur milli tveggja hermanna, og 16 hermenn unnu á vöktum dag og nótt til að tryggja að postulinn kæmist ekki undan. Heródes hafði hugsað sér að leiða Pétur fram fyrir þjóðina eftir páska og gleðja fjöldann með því að dæma hann til dauða. Hvað gátu trúsystkini Péturs gert við þessar skelfilegu aðstæður?

13, 14. (a) Hvernig brást söfnuðurinn við þegar Pétur var fangelsaður? (b) Hvað getum við lært um bænina af trúsystkinum Péturs?

13 Söfnuðurinn vissi mætavel hvað hann átti að gera. Við lesum í 5. versi: „Sat nú Pétur í fangelsinu en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum.“ Já, bænir safnaðarmanna fyrir þessum elskaða bróður voru heitar og innilegar. Þeir höfðu ekki sökkt sér niður í örvæntingu þegar Jakob var tekinn af lífi, og þeir hugsuðu ekki sem svo að bænir þeirra hlytu að vera máttlausar. Þeir vissu að bænir trúfastra þjóna Jehóva eru honum mjög mikilvægar. Ef slíkar bænir samræmast vilja hans verður hann við þeim. – Hebr. 13:18, 19; Jak. 5:16.

14 Hvað má læra af viðbrögðum trúsystkina Péturs? Að halda vöku sinni er ekki aðeins fólgið í því að biðja fyrir sjálfum sér heldur einnig fyrir bræðrum sínum og systrum. (Ef. 6:18) Veist þú af trúsystkinum sem eiga í prófraunum? Sumir eru ef til vill ofsóttir, þurfa að sæta banni af hálfu yfirvalda eða hafa orðið fyrir náttúruhamförum. Væri ekki ráð að biðja innilega fyrir þeim? Þú veist kannski af einhverjum öðrum sem eru að ganga í gegnum þrengingar þótt fáir taki eftir því. Kannski eiga þeir við erfiðleika að stríða í fjölskyldunni, eru niðurdregnir eða glíma við veikindi. Er einhver ákveðinn sem þú gætir hugsað til og nefnt með nafni þegar þú talar við Jehóva, hann sem „heyrir bænir“? – Sálm. 65:3.

15, 16. (a) Lýstu því hvernig engill Jehóva frelsaði Pétur úr fangelsi. (Sjá myndina hér að neðan.) (b) Af hverju er hughreystandi að hugleiða hvernig Jehóva bjargaði Pétri?

15 En hvernig fór fyrir Pétri? Síðustu nóttina í fangelsinu, þegar hann var í fastasvefni milli varðanna tveggja, áttu nokkrir óvenjulegir atburðir sér stað hver á fætur öðrum. (Lestu Postulasöguna 12:7-11.) Sjáðu þetta fyrir þér. Skyndilega skín skært ljós í klefanum. Engill stendur þar, greinilega án þess að verðirnir sjái hann, og vekur Pétur með hraði. Fjötrarnir falla hreinlega af höndum hans. Engillinn leiðir Pétur síðan út úr klefanum, fram hjá vörðunum sem standa fyrir utan og út um mikið járnhlið sem opnast „af sjálfu sér“. Þegar komið er út úr fangelsinu hverfur engillinn. Pétur er frjáls!

16 Er ekki trústyrkjandi að íhuga hvernig Jehóva notar mátt sinn til að frelsa þjóna sína? Við ætlumst auðvitað ekki til þess að Jehóva vinni kraftaverk til að frelsa okkur nú á dögum. En við treystum því fullkomlega að hann noti mátt sinn í þágu þjóna sinna. (2. Kron. 16:9) Með kröftugum anda sínum gerir hann okkur kleift að standast allar raunir sem við verðum fyrir. (2. Kor. 4:7; 2. Pét. 2:9) Og bráðlega mun Jehóva láta son sinn frelsa óteljandi milljónir manna úr rammgerðasta fangelsi sem til er, dauðanum. (Jóh. 5:28, 29) Trúin á loforð Jehóva getur gefið okkur ólýsanlegt hugrekki í prófraunum.

ÞEIR VITNUÐU RÆKILEGA ÞRÁTT FYRIR PRÓFRAUNIR

17. Hvernig var Páll til fyrirmyndar í því að prédika af kappi og kostgæfni?

17 Það þriðja, sem við getum lært af postulunum um að halda vöku okkar, er þetta: Þeir héldu áfram að vitna rækilega þrátt fyrir prófraunir. Það er nauðsynlegt að prédika af kappi og kostgæfni til að halda vöku sinni. Páll postuli er okkur prýðileg fyrirmynd hvað það varðar. Hann lagði sig kappsamlega fram og var óþreytandi að ferðast um og stofna söfnuði. Hann þurfti að ganga í gegnum alls konar erfiðleika en kappið og ákafinn var óbilandi. – 2. Kor. 11:23-29.

18. Hvernig hélt Páll áfram að vitna þegar hann var í varðhaldi í Róm?

18 Við skulum nú líta á síðasta staðinn í Postulasögunni þar sem sagt er frá Páli. Þetta er í 28. kafla. Páll er kominn til Rómar og bíður þess að vera leiddur fyrir Neró. Hann er í varðhaldi, hugsanlega hlekkjaður við vörðinn. En engir hlekkir gátu þaggað niður í þessum kappsama postula. Hann fann alltaf leiðir til að vitna. (Lestu Postulasöguna 28:17, 23, 24.) Eftir þrjá daga stefndi Páll til sín helstu mönnum Gyðinga í þeim tilgangi að vitna fyrir þeim. Á tilteknum degi nokkru síðar tekst honum að vitna fyrir enn fleirum. Í 23. versi segir: „Þeir [Gyðingar í Róm] tóku til dag við hann og komu þá mjög margir til hans þar sem hann dvaldi. Frá morgni til kvölds skýrði Páll og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum.“

19, 20. (a) Af hverju tókst Páli svona vel að vitna um sannleikann? (b) Hvað gerði Páll þótt það tækju ekki allir við fagnaðarerindinu?

19 Af hverju tókst Páli svona vel að vitna um sannleikann? Taktu eftir að í versi 23 koma fram nokkrar ástæður. (1) Hann einbeitti sér að ríki Guðs og Jesú Kristi. (2) Hann reyndi að höfða til áheyrenda sinna og „sannfæra“ þá. (3) Hann rökræddi út frá Ritningunum. (4) Hann sýndi þá fórnfýsi að vitna „frá morgni til kvölds“. Páll vitnaði kröftuglega en það létu ekki allir sannfærast. Í versi 24 segir: „Sumir létu sannfærast af orðum hans en aðrir trúðu ekki.“ Menn fóru burt sundurþykkir.

20 Dró það kjarkinn úr Páli að það skyldu ekki allir taka við fagnaðarerindinu? Nei, alls ekki. Í Postulasögunni 28:30, 31 segir: „Full tvö ár var Páll þar í húsnæði sem hann hafði leigt sér og tók á móti öllum þeim sem komu til hans. Hann boðaði Guðs ríki og fræddi um Drottin Jesú Krist með allri djörfung, tálmunarlaust.“ Með þessum hvetjandi orðum lýkur hinni innblásnu Postulasögu.

21. Hvað má læra af fordæmi Páls þegar hann var í stofufangelsi?

21 Hvað má læra af fordæmi Páls? Hann gat ekki vitnað hús úr húsi meðan hann var í stofufangelsi. Hann var engu að síður jákvæður og vitnaði fyrir öllum sem komu til hans. Margir af þjónum Guðs nú á dögum halda líka gleðinni og prédika ötullega þótt þeir sæti því ranglæti að sitja í fangelsi vegna trúar sinnar. Og sum trúsystkina okkar eru kannski á elli- eða hjúkrunarheimilum og eiga ekki heimangengt. Þau prédika eftir bestu getu fyrir læknum, starfsfólki, gestum og öðrum sem koma til þeirra. Þau langar til að vitna rækilega um ríki Guðs. Við metum fordæmi þeirra mjög mikils.

22. (a) Hvaða bók hefur verið gefin út til að hjálpa okkur að læra af Postulasögunni? (Sjá rammagrein að ofan.) (b) Hvað ætlar þú að gera á meðan þú bíður eftir endalokum þessa gamla heims?

22 Við getum greinilega lært margt um það að halda vöku okkar af postulunum og öðrum frumkristnum mönnum sem talað er um í Postulasögunni. Við skulum vera staðráðin í að líkja eftir þeim og prédika af kappi og kostgæfni á meðan við bíðum eftir endalokum þessa gamla heims. Mesti heiður, sem okkur getur hlotnast, er að vitna rækilega um Guðsríki. – Post. 28:23.

[Spurningar]

[Rammi á bls. 13]

„POSTULASAGAN HEFUR ÖÐLAST NÝTT GILDI FYRIR MIG“

Eftir að hafa lesið bókina „Bearing Thorough Witness“ About God’s Kingdom lýsti farandhirðir nokkur upplifun sinni með þessum orðum: „Postulasagan hefur öðlast nýtt gildi fyrir mig. Oft hef ég ,gengið‘ í gegnum Postulasöguna en aðeins eins og ég væri með kerti í hendinni og óhrein gleraugu á nefinu. Nú finnst mér ég hafa verið þeirrar blessunar aðnjótandi að sjá dýrð hennar í birtu sólarljóssins.“

[Mynd á bls. 12]

Engill leiddi Pétur út um mikið járnhlið.