Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Hvernig get ég prédikað?‘

,Hvernig get ég prédikað?‘

,Hvernig get ég prédikað?‘

Um allan heim eru frábær dæmi um bræður og systur sem boða fagnaðarerindið dyggilega þrátt fyrir alvarlegan heilsubrest. Dalia er eitt slíkt dæmi en hún býr í Vilníus, höfuðborg Litháens.

Dalia er vottur Jehóva á fertugsaldri. Frá fæðingu hefur hún þjáðst af afleiðingum heilablóðfalls. Það hefur valdið því að hún er lömuð og alvarlega málhölt. Þar af leiðandi á aðeins fjölskyldan gott með að skilja hana. Dalia býr með Galinu, móður sinni, sem annast hana. Þótt líf Daliu hafi mótast af andstreymi og áhyggjum hugsar hún jákvætt. Hvernig fer hún að því?

„Árið 1999 kom Apolonija, frænka mín, í heimsókn til okkar,“ segir Galina. „Hún er vottur Jehóva og við tókum eftir því að hún var vel að sér í Biblíunni. Dalia fór að spyrja hana margra spurninga. Innan skamms byrjaði hún að kynna sér efni Biblíunnar með hjálp Apoloniju. Stundum tók ég þátt í náminu með þeim til að túlka það sem Dalia sagði. Ég tók eftir því að það sem hún lærði hafði góð áhrif á hana. Fljótlega bað ég því einnig um aðstoð við að kynna mér Biblíuna.“

Þegar Dalia byrjaði að skilja sannindi Biblíunnar fór ein spurning að angra hana í vaxandi mæli. Að lokum opnaði hún sig fyrir Apoloniju og spurði: „Hvernig getur lamað fólk eins og ég prédikað?“ (Matt. 28:19, 20) Apolonija róaði hana og sagði: „Vertu óhrædd. Jehóva hjálpar þér.“ Og Jehóva gerir það svo sannarlega.

Dalia boðar trúna með ýmsum hætti. Trúsystur hjálpa henni að semja bréf með biblíulegum boðskap. Fyrst tjáir hún systrunum hugmyndir sínar. Síðan semja þær bréf með hugmyndum hennar. Hún vitnar einnig um trúna með því að senda textaskilaboð með farsímanum. Og þegar veðrið er hagstætt taka einhverjir í söfnuðinum hana með sér út undir bert loft til að vitna fyrir fólki í almenningsgörðum og úti á götu.

Dalia og móðir hennar hafa haldið áfram að taka framförum í trúnni. Þær vígðu sig báðar Jehóva og létu skírast í nóvember 2004. Árið 2008 var stofnaður pólskumælandi hópur í Vilníus. Þar sem þörf var fyrir fleiri boðbera slógust mæðgurnar í hópinn. Dalia segir: „Suma mánuðina verð ég áhyggjufull þegar ég hef ekki komist í boðunarstarfið. En þegar ég hef nefnt það í bæn til Jehóva líður ekki á löngu þar til einhver býður mér að koma með sér út í starfið.“ Hvernig lítur þessi elskulega trúsystir okkar á aðstæður sínar? „Sjúkdómurinn hefur lamað líkama minn,“ segir hún, „en hann hefur ekki lamað hugann. Ég er svo glöð að geta sagt öðrum frá Jehóva.“