Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að vera hamingjusamur þó að makinn sé ekki í trúnni

Að vera hamingjusamur þó að makinn sé ekki í trúnni

Að vera hamingjusamur þó að makinn sé ekki í trúnni

„Hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað mann þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konu þína?“ – 1. KOR. 7:16.

GETURÐU FUNDIÐ SVÖRIN?

Hvað geta þjónar Guðs gert til að vinna að friði ef makinn er ekki í trúnni?

Hvernig getur þjónn Jehóva hjálpað vantrúuðum heimilismönnum að taka við fagnaðarerindinu?

Hvað geta aðrir í söfnuðinum gert til að aðstoða trúsystkini sem eiga vantrúaðan maka?

1. Hvaða áhrif getur það haft í fjölskyldunni þegar einhver tekur við fagnaðarerindinu?

EINU sinni þegar Jesús sendi postulana út að boða trúna sagði hann: „Farið og prédikið: Himnaríki er í nánd.“ (Matt. 10:1, 7) Þetta fagnaðarerindi myndi veita frið og hamingju þeim sem tækju við því með þakklátum huga. Jesús benti postulunum hins vegar á að margir myndu vera andsnúnir boðun þeirra og hafna fagnaðarerindinu. (Matt. 10:16-23) Það er sérstaklega sárt að verða fyrir slíkri andstöðu innan fjölskyldunnar. – Lestu Matteus 10:34-36.

2. Af hverju er hægt að vera hamingjusamur þó að aðrir á heimilinu séu ekki í trúnni?

2 Ber að skilja þetta svo að fylgjendur Krists geti ekki verið hamingjusamir ef aðrir á heimilinu taka ekki við fagnaðarerindinu? Alls ekki. Þó að stundum geti verið mikil andastaða gegn trúnni innan fjölskyldunnar er það ekki alltaf svo. Og andstaðan þarf ekki að vera varanleg. Oft ræðst það af því hvernig hinn trúaði bregst við andstöðu eða áhugaleysi. Og Jehóva blessar þá sem eru honum trúir og veitir þeim gleði þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þeir sem eru í trúnni geta verið glaðari og ánægðari með því að (1) stuðla að friði á heimilinu og (2) reyna í einlægni að hjálpa öðrum í fjölskyldunni að taka trú.

STUÐLAÐU AÐ FRIÐI Á HEIMILINU

3. Af hverju ætti þjónn Jehóva að leggja sig fram um að skapa frið á heimilinu?

3 Það eru meiri líkur á að aðrir í fjölskyldunni taki trú ef friður ríkir á heimilinu. (Lestu Jakobsbréfið 3:18.) Jafnvel þó að fjölskyldan sé ekki enn sameinuð í sannri guðsdýrkun þarf sá sem er í trúnni að leggja sig fram um að skapa frið á heimilinu. Hvað er hægt að gera til þess?

4. Hvernig getur þjónn Jehóva varðveitt hugarró?

4 Þjónn Jehóva þarf að varðveita hugarró. Hann þarf að biðja innilega til að hljóta ,frið Guðs sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:6, 7) Við hljótum hamingju og frið með því að vera góðir biblíunemendur og fara eftir meginreglum Jehóva. (Jes. 54:13, Biblían 1981) Það er líka nauðsynlegt að taka þátt í safnaðarsamkomum og vera ötul í boðunarstarfinu til að njóta hamingju og friðar. Þó að makinn sé ekki í trúnni er yfirleitt hægt að finna leiðir til að sinna þessum mikilvægu þáttum tilbeiðslunnar. Enza * er dæmi um það en maðurinn hennar er verulega mótfallinn trú hennar. Hún boðar fagnaðarerindið eftir að hafa unnið húsverkin. „Jehóva blessar mig ríkulega,“ segir Enza, „þannig að mér gengur vel í boðunarstarfinu í hvert sinn sem ég tek þátt í því.“ Árangurinn, sem hún sér af starfi sínu, veitir henni frið og ánægju.

5. Hvaða vandi blasir oft við þeim sem eiga vantrúaðan maka og hvar geta þeir leitað ráða?

5 Við þurfum að leggja okkur fram um að hafa frið við þá í fjölskyldunni sem eru ekki vottar. Það getur reynst þrautin þyngri vegna þess að stundum vilja þeir kannski að við gerum eitthvað sem stangast á við meginreglur Biblíunnar. Það getur stundum valdið uppnámi innan fjölskyldunnar ef við fylgjum Biblíunni í hvívetna, en til langs tíma litið stuðlar það að friði. Það getur hins vegar valdið óþarfa árekstrum ef við erum ósveigjanleg í málum sem brjóta ekki gegn meginreglum Biblíunnar. (Lestu Orðskviðina 16:7.) Ef vandamál koma upp er mikilvægt að leita eftir biblíulegum leiðbeiningum í ritum hins trúa og hyggna þjóns og hjá öldungum safnaðarins. – Orðskv. 11:14.

6, 7. (a) Af hverju bregðast sumir illa við þegar makinn fer að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva? (b) Hvernig ætti biblíunemandi eða vottur að bregðast við andstöðu frá maka sínum?

6 Til að viðhalda friði á heimilinu þurfum við að treysta á Jehóva og átta okkur á hvernig hinum vantrúuðu í fjölskyldunni er innanbrjósts. (Orðskv. 16:20) Nýir biblíunemendur geta líka sýnt góða dómgreind á þessu sviði. Eiginmaður eða eiginkona, sem er ekki í trúnni, hefur kannski ekkert á móti því að makinn kynni sér Biblíuna. Þau viðurkenna jafnvel að það geti verið fjölskyldunni til góðs. En aðrir snúast harkalega á móti. Esther, sem er vottur núna, viðurkennir að hún hafi reiðst heiftarlega þegar maðurinn hennar fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. „Ég henti ritunum hans eða brenndi þau,“ segir hún. Howard var í fyrstu andsnúinn því að konan hans kynnti sér Biblíuna. Hann segir: „Margir eiginmenn óttast að það sé verið að ginna konuna til að ganga í einhverja sértrúarreglu. Þeir vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við þessari ímynduðu hættu og snúast harkalega á móti.“

7 Við ættum að sýna biblíunemanda fram á að hann þurfi ekki hætta náminu þó að makinn sé á móti því að hann kynni sér Biblíuna. Oft er hægt að lægja öldurnar með því að vera hógvær og sýna vantrúaða makanum virðingu. (1. Pét. 3:15, 16) Howard segir: „Ég er þakklátur fyrir að konan mín skyldi sýna stillingu og ekki gera meira úr hlutunum en efni stóðu til.“ Eiginkona hans segir: „Howard heimtaði að ég hætti biblíunáminu. Hann sagði að það væri verið að heilaþvo mig. Í stað þess að þræta við hann um þetta svaraði ég að hann hefði kannski rétt fyrir sér en ég gæti ekki séð að svo væri. Ég bað hann því að lesa bókina sem ég var að fara yfir. Hann gerði það og gat ekki verið ósammála því sem stóð í henni. Það hafði sterk áhrif á hann.“ Það er gott að hafa hugfast að fólk getur orðið einmana eða fundist hjónabandið vera í hættu þegar makinn fer í boðunarstarfið eða á samkomur. Það hefur oft góð áhrif ef hinn trúaði fullvissar maka sinn hlýlega um að það sé ekkert að óttast.

HJÁLPAÐU MAKANUM AÐ TAKA VIÐ SANNLEIKANUM

8. Hvað ráðleggur Páll postuli þeim sem eiga vantrúaðan maka?

8 Páll postuli ráðleggur kristnum mönnum að yfirgefa ekki maka sinn fyrir það eitt að vera ekki í trúnni. * (Lestu 1. Korintubréf 7:12-16.) Ef þjónn Guðs hefur hugfast að makinn tekur kannski trú með tímanum getur það hjálpað honum að viðhalda gleði sinni. Það er hins vegar ekki sama hvernig hann kemur sannleikanum á framfæri eins og sjá má af eftirfarandi dæmum.

9. Hvað ber að varast þegar við vitnum fyrir öðrum í fjölskyldunni?

9 „Mig langaði til að segja öllum frá þessu,“ segir Jason um fyrstu viðbrögð sín þegar hann kynntist fagnaðarerindi Biblíunnar. Sumir biblíunemendur verða svo himinlifandi þegar það rennur upp fyrir þeim að það sem þeir eru að læra sé sannleikurinn, að þeir tala um fátt annað. Þeir reikna með að aðrir í fjölskyldunni hljóti að taka við fagnaðarerindinu þegar í stað, en viðbrögðin geta orðið allt önnur. Hvaða áhrif hafði ákafi Jasonar á konuna hans? „Mér fannst hann vera kaffæra mig,“ segir hún. Kona, sem varð vottur 18 árum á eftir manninum sínum, segist hafa þurft að læra sannleikann smám saman. Ef þú ert með biblíunemanda en maki hans hefur engan áhuga, gæti verið ágætt að kenna nemandanum að útskýra málin með nærgætni. Móse sagði: „Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúr á grængresi og dögg á nýgræðing.“ (5. Mós. 32:2) Oft geta fáein vel valin orð haft betri áhrif en mikill orðaflaumur.

10-12. (a) Hvað ráðlagði Pétur þjónum Guðs sem eiga vantrúaðan maka? (b) Hvernig lærði biblíunemandi að fara eftir leiðbeiningunum í 1. Pétursbréfi 3:1, 2?

10 Pétri postula var innblásið að leiðbeina kristnum eiginkonum sem áttu vantrúaða eiginmenn. Hann skrifaði: „[Verið] eftirlátar eiginmönnum ykkar til þess að jafnvel þeir sem vilja ekki hlýða orðinu geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna þegar þeir sjá ykkar grandvöru og skírlífu hegðun.“ (1. Pét. 3:1, 2) Kona getur ef til vill unnið eiginmann sinn til fylgis við trúna með því að vera honum eftirlát og sýna honum virðingu, jafnvel þó að hann komi illa fram við hana. Trúaður eiginmaður ætti sömuleiðis að hegða sér eins og sannkristnum manni sæmir og veita fjölskyldunni kærleiksríka forystu, þó svo að eiginkonan sé andvíg trúnni. – 1. Pét. 3:7-9.

11 Margir þjónar Guðs hafa notið góðs af leiðbeiningum Péturs. Sarah er dæmi um það. Steve, eiginmaður hennar, var allt annað en sáttur þegar hún fór að kynna sér Biblíuna hjá vottum Jehóva. Hann viðurkennir að hann hafi orðið reiður, afbrýðisamur, ráðríkur og óöruggur. Sarah segir að hann hafi verið erfiður í sambúð áður en hún kynntist sannleikanum. Hún hafi þurft að tipla á tánum kringum hann. Hann hafi verið uppstökkur fyrir, og það hafi versnað þegar hún fór að kynna sér Biblíuna. Hvað gat hún tekið til bragðs?

12 Sarah rifjar upp gott ráð sem hún fékk frá systurinni sem kenndi henni. „Dag einn langaði mig til að sleppa biblíunáminu,“ segir hún. „Kvöldið áður hafði Steve slegið mig þegar ég reyndi að segja skoðun mína. Ég var niðurdregin og vorkenndi sjálfri mér. Ég sagði systurinni hvað hefði gerst og hvernig mér leið. Hún bað mig þá að lesa 1. Korintubréf 13:4-7. Meðan ég las hugsaði ég með mér að Steve væri aldrei svona elskulegur við mig. En systirin benti mér á aðra hlið málsins og spurði mig hve margt af þessu ég gerði til að sýna manninum mínum kærleika. ,Ekkert, hann er svo erfiður í sambúð,‘ svaraði ég. Þá sagði systirin hlýlega: ,Sarah, hvort ykkar er að reyna að vera kristið? Þú eða Steve?‘ Þá rann upp fyrir mér að ég þyrfti að breyta hugarfari mínu. Ég bað Jehóva að hjálpa mér að vera kærleiksríkari við Steve og smám saman batnaði ástandið.“ Steve tók við sannleikanum 17 árum síðar.

HVERNIG GETA AÐRIR ORÐIÐ AÐ LIÐI?

13, 14. Hvernig getum við aðstoðað trúsystkini sem eiga vantrúaðan maka?

13 Aðrir í söfnuðinum geta glatt trúsystkini sín sem eiga vantrúaðan maka, rétt eins og regndroparnir vökva moldina og næra jurtirnar. „Kærleikur bræðra minna og systra hjálpaði mér að vera staðföst í sannleikanum,“ segir Elvina en hún býr í Brasilíu.

14 Góðvild og áhugi annarra í söfnuðinum getur hreyft við þeim í fjölskyldunni sem eru ekki í trúnni. Eiginmaður í Nígeríu tók við sannleikanum 13 árum á eftir konunni sinni. Hann segir: „Ég var á ferð með votti þegar bíllinn hans bilaði. Hann leitaði uppi trúsystkini í næsta þorpi og þau leyfðu okkur að gista um nóttina. Þau sáu um okkur eins og þau hefðu þekkt okkur frá barnæsku. Ég skynjaði strax bróðurkærleikann sem konan mín hafði oft talað um.“ Kona búsett á Englandi tók trú 18 árum eftir að maðurinn hennar varð vottur. Hún segir: „Vottarnir buðu okkur báðum í mat. Ég fann að ég var alltaf velkomin.“ Eiginmaður, sem varð um síðir vottur, segir: „Bræður og systur heimsóttu okkur eða buðu okkur í heimsókn. Ég skynjaði umhyggju þeirra, ekki síst þegar ég lá á spítala og margir heimsóttu mig.“ Geturðu sýnt vantrúuðum heimilismönnum trúsystkina þinna umhyggju og áhuga?

15, 16. Hvað getur hjálpað þeim sem eru einir í sannleikanum að vera hamingjusamir?

15 En þó að við breytum í alla staði vel og vitnum með nærgætni árum saman fyrir maka, börnum, foreldrum eða öðrum ættingjum taka ekki allir í fjölskyldunni við sannleikanum. Sumir eru alltaf áhugalausir og aðrir láta ekki af andstöðu sinni. (Matt. 10:35-37) Þjónar Guðs geta þó haft mjög jákvæð áhrif með góðri breytni sinni. Eiginmaður, sem tók trú seinna en konan hans, segir: „Maður veit ekki hvað á sér stað í huga og hjarta hins vantrúaða þegar makinn fer að sýna þessa góðu eiginleika. Gefstu aldrei upp á að vitna fyrir maka þínum.“

16 Það er hægt að vera hamingjusamur þó að aðrir í fjölskyldunni taki ekki við fagnaðarerindinu. Systir í söfnuðinum hefur vitnað árangurslaust fyrir manni sínum í 21 ár. Hún segir: „Mér tekst að viðhalda gleðinni með því að reyna að þóknast Jehóva, sýna honum hollustu og styrkja sambandið við hann. Ég finn til nálægðar við hann og varðveiti hjarta mitt með því að vera önnum kafin við nám í Biblíunni, sækja samkomur, fara í boðunarstarfið og aðstoða aðra í söfnuðinum.“ – Orðskv. 4:23.

GEFSTU EKKI UPP

17, 18. Hvernig er hægt að varðveita vonina þó að makinn sé ekki í trúnni?

17 Gefstu ekki upp þó að maki þinn sé ekki í trúnni. Mundu að „vegna síns mikla nafns“ hafnar Jehóva ekki þeim sem þjóna honum í trúfesti. (1. Sam. 12:22) Hann er með þér svo framarlega sem þú viðheldur nánu sambandi við hann. (Lestu 2. Kroníkubók 15:2.) Njóttu þess að þjóna Jehóva og treystu honum í einu og öllu. (Sálm. 37:4, 5) Vertu ,staðfastur í bæninni‘ í þeirri vissu að faðirinn á himnum geti hjálpað þér að standast hvaða erfiðleika sem er. – Rómv. 12:12.

18 Biddu Jehóva að gefa þér heilagan anda til að hjálpa þér að vinna að friði á heimilinu. (Hebr. 12:14) Ef þú gerir það má vel vera að þú getir með tíð og tíma haft áhrif á hjörtu þeirra í fjölskyldunni sem eru ekki vottar. Þú uppskerð hamingju og frið í huga og hjarta ef þú gerir allt „Guði til dýrðar“. (1. Kor. 10:31) Og það er hughreystandi til þess að vita að þú eigir vísan stuðning og kærleika bræðra þinna og systra í söfnuðinum.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 8 Ráðleggingar Páls útiloka ekki skilnað að borði og sæng í verulega slæmum tilvikum. Það er ákvörðun sem hver og einn þarf að íhuga alvarlega. Sjá bókina „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, bls. 220-221.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 28]

Veldu heppilega stund til að útskýra trúarafstöðu þína.

[Mynd á bls. 29]

Sýndu umhyggju þegar annað hjónanna er ekki í trúnni.