Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er rangt við dulspeki?

Hvað er rangt við dulspeki?

Hvað er rangt við dulspeki?

Allt frá því að Barbara * var lítil stúlka sá hún sýnir, heyrði raddir og var sannfærð um að hún væri í beinu sambandi við látna ættingja. Hún og Joachim, maðurinn hennar, lásu bækur um dulspeki og urðu leikin í að lesa úr Tarotspilum. Spilin gáfu til kynna að þau myndu þéna fúlgur fjár og það gerðu þau í viðskiptum. Dag nokkurn vöruðu spilin þau við því að varasamt fólk myndi banka upp á hjá þeim og létu þau vita hvernig þau ættu að verja sig.

ENDA þótt það virðist forneskjulegt að trúa á dulræn fyrirbæri hafa fjölmargir áhuga á því sem er yfirnáttúrulegt. Víða um heim notar fólk verndargripi, fer í andaglas og leitar til miðla til að fá upplýsingar um framtíðina eða fá vernd gegn hinu illa. Í þýska blaðinu Focus birtist grein sem hét „Fartölvan og fjandinn“. Þar sagði: „Netið hefur magnað upp áhuga fólks á göldrum.“

Vissir þú að í Biblíunni er talað um dulspeki? Það sem kemur fram þar gæti komið þér á óvart.

Það sem Biblían segir um dulspeki

Í lögunum, sem Guð gaf þjóð sinni til forna, stóð: „Á meðal ykkar má enginn finnast . . . sem leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður, enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum. Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð.“ (5. Mósebók 18:10-12) Af hverju var lagt svona skýrt bann við því að stunda dulspeki og spíritisma?

Eins og frásagan í byrjun greinarinnar ber með sér trúa margir að hægt sé að eiga samskipti við hina látnu og að upplýsingarnar, sem fengnar eru með aðferðum dulspekinnar, komi í raun frá hinum dánu. Slíkar trúarskoðanir eiga rætur sínar að rekja til þess sem mörg trúarbrögð kenna, að þegar fólk deyr lifi það áfram í andaheiminum. En þessi kenning gengur í berhögg við Biblíuna sem segir skýrum orðum: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Hún líkir ástandi hinna dánu við djúpan svefn. Hinir látnu eru því algerlega ómeðvitaðir um það sem á sér stað meðal hinna lifandi. * (Matteus 9:18, 24; Jóhannes 11:11-14) Fyrst sú er raunin gætu vaknað upp spurningar eins og: Hvernig ber þá að skilja það þegar fólk kemst í kynni við hið yfirnáttúrulega? Hvað býr að baki slíkum samskiptum?

Samskipti við andaheiminn

Í guðspjöllunum er sagt frá því að Jesús hafi átt samskipti við andaheiminn þegar hann var á jörðinni. Í Markúsi 1:23, 24 kemur fram að,óhreinn andi‘ hafi sagt við Jesú: „Ég veit hver þú ert.“ Andarnir vita líka án efa hver þú ert. En veist þú hverjir þeir eru?

Áður en Guð skapaði mannfólkið skapaði hann fjöldann allan af andasonum, það er að segja englum. (Jobsbók 38:4-7) Englarnir eru annað lífsform en mennirnir og eru þeim æðri. (Hebreabréfið 2:6, 7) Þeir eru voldugir og afar gáfaðir og voru skapaðir til að gera vilja Guðs. Sálmaritarinn söng: „Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans.“ – Sálmur 103:20.

Í Biblíunni er greint frá því að með tímanum hafi sumir englanna átt samskipti við mennina án þess að hafa leyfi til þess. Í hvaða tilgangi? Sá fyrsti sem gerði það beitti fyrstu hjónin, Adam og Evu, blekkingum til að snúa þeim gegn Guði þeirra og skapara. Þannig varð hann Satan djöfullinn, rógberi og andstæðingur Guðs. – 1. Mósebók 3:1-6.

Seinna snerust aðrir englar til liðs við hann og „yfirgáfu eigin bústað“ á himnum, holdguðust og fóru að búa með fallegum konum á jörðinni. (Júdasarbréfið 6; 1. Mósebók 6:1, 2) Þessir sviksömu englar og afkvæmi þeirra, sem voru eins konar kynblendingar, ógnuðu fólki svo verulega að jörðin varð „full ranglætis“. Þú þekkir eflaust til frásögu Biblíunnar af því hvernig Guð batt enda á ofbeldið og þessi illa kynslóð fórst í Nóaflóðinu. – 1. Mósebók 6:3, 4, 11-13.

Í flóðinu neyddust andarnir til að snúa aftur í andaheiminn. En skaparinn leyfði þeim ekki að snúa aftur í „eigin bústað“. Í staðinn þurftu þeir að þola ömurlegt ástand líkt og þeir væru innilokaðir í,myrkrahellum‘. (2. Pétursbréf 2:4, 5) Í Biblíunni eru þessir uppreisnargjörnu englar kallaðir „illu andarnir“. (Jakobsbréfið 2:19) Þeir eru aflið að baki dulspeki og spíritisma.

Hvað vilja illu andarnir?

Illu andarnir hafa samband við mennina fyrst og fremst til að beina þeim frá tilbeiðslunni á Jehóva, hinum sanna Guði. Margir sem stunda dulspeki segjast búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum eða kröftum. En þessar gáfur koma í veg fyrir að fólk öðlist nákvæma þekkingu á Guði og eignist samband við hann.

Annað sem vakir fyrir illu öndunum sést glöggt af því hvernig Satan, höfðingi þeirra, freistaði Jesú. Satan bauð Jesú „öll ríki heims og dýrð þeirra“. Hvað vildi hann fá í staðinn? Hann sagði: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Satan og illu andarnir vilja sem sagt að aðrir tilbiðji þá. En Jesús hafnaði hugmyndinni um að snúa baki við Guði og sannri tilbeiðslu. – Matteus 4:8-10.

Illu andarnir hafa sjaldan bein samskipti við menn nú á dögum eins og þeir áttu við Jesú. Þeir reyna að veiða þá sem gæta ekki að sér í snöru. Þeir vilja fá fólk til að gera það sem virðist hættulaust eins og til dæmis að rýna í kristalkúlur, lesa úr Tarotspilum, fylgja stjörnuspám, fara í andaglas eða spá í bolla. En láttu ekki blekkjast af slíku. Svona lagað opnar ekki leiðina að óþekktum heimi fyrir tilstuðlan einhverra dularfullra náttúruafla. Illir andar nýta sér áhuga fólks á dulspeki til að lokka það frá því að tilbiðja Jehóva. Þegar það tekst ekki áreita þeir oft þá sem þegar eru fastir í snörunni eða gera þeim lífið leitt. Ef það á við um þig hvað geturðu þá gert til að losna undan áhrifum þeirra?

Að losna undan áhrifum illra anda

Það er engum vafa undirorpið að andar sem eiga samskipti við mennina eru óvinir Guðs. Þeirra bíður alger eyðing. (Júdasarbréfið 6) Þeir eru svikarar og lygarar sem þykjast vera látnir einstaklingar. Hvernig liði þér ef einhver sem þú teldir vera vin þinn væri svikari og kæmi í veg fyrir að þú gerðir það sem þér væri fyrir bestu? Hvað myndirðu gera ef þú kæmist að því að þú hefðir óafvitandi stofnað til sambands við kynferðisafbrotamann á Netinu? Það er mun hættulegra að komast í samband við illu andanna. Þú verður að gera allt sem í þínu valdi stendur til að rjúfa tengslin við þá. Hvað geturðu gert?

Sumir Efesusbúar til forna lærðu hvað Ritningin kennir um dulspeki. Í kjölfarið gerðu þeir sér ljóst að þeir þyrftu að eyðileggja bækur sínar um kukl þótt þær væru mikils virði. Þeir „brenndu þær að öllum ásjáandi“. (Postulasagan 19:19, 20) Nú á dögum eru það ekki bara bækur, andaglas, verndargripir og þess háttar sem tengjast dulspeki, heldur einnig rafrænt efni af ýmsum toga. Snúðu baki við öllu sem virðist opna leið að andaheiminum.

Hvað um hjónin sem minnst var á í byrjun greinarinnar? Af lestri Tarotspilanna drógu þau þá ályktun að hættulegt fólk myndi banka upp á hjá þeim og að þau ættu hvorki að hlusta á þetta fólk né þiggja nokkuð af því. En þegar Karen og Gabriela, sem eru vottar Jehóva, stóðu við dyrnar og sögðust vera að ræða við fólk um Guð ákváðu Joachim og Barbara að hlusta á þær. Umræðurnar fóru að snúast um dulspeki og Karen og Gabriela sýndu þeim hvað stendur í Biblíunni um málið. Þau ákváðu að hittast reglulega upp frá því og ræða saman um Biblíuna.

Skömmu síðar tóku Joachim og Barbara þá ákvörðun að rjúfa öll tengsl við illu andana. Vottarnir bentu þeim á að það myndi líklega ekki gleðja þá. Það reyndist rétt því að í kjölfarið áttu þau mjög erfitt og urðu oft fyrir skelfilegum árásum illra anda. Á tímabili gátu þau varla sofið á næturnar vegna ótta en það lagaðist til muna þegar þau skiptu um húsnæði. Á meðan þessar raunir stóðu yfir treystu þau orðunum í Filippíbréfinu 4:13: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ Þau voru staðföst og Jehóva blessaði þau fyrir vikið. Með tímanum hættu andarnir að áreita þau. Núna eru Joachim og Barbara ánægð að mega þjóna Jehóva, hinum sanna Guði.

Allir þeir sem vilja öðlast blessun frá Jehóva eru hvattir til að fara eftir þessum ráðum Biblíunnar: „Gefið ykkur . . . Guði á vald, standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur. Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jakobsbréfið 4:7, 8) Jehóva Guð bæði getur og vill hjálpa þér að losna undan áhrifum illra anda. Langar þig til þess? Þegar Joachim og Barbara minnast þess hvernig þau losnuðu úr snöru dulspekinnar eru þau hjartanlega sammála því sem stendur í Sálmi 121:2: „Hjálp mín kemur frá Drottni.“

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 7 Nánari upplýsingar um ástand hinna dánu er að finna í 6. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Kaflinn nefnist: „Hvar eru hinir dánu?“ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Innskot á bls. 14]

Dulspeki og spíritismi koma í veg fyrir að fólk geti átt gott samband við Guð.

[Innskot á bls. 15]

„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“– JAKOBSBRÉFIÐ 4:8.