Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús Kristur — spurningunum svarað

Jesús Kristur — spurningunum svarað

Jesús Kristur — spurningunum svarað

„Hvern segir fólkið mig vera?“ – LÚKAS 9:18.

JESÚS spurði lærisveina sína þessarar spurningar vegna þess að hann vissi að fólk hafði ólíkar hugmyndir um hver hann væri. Fólk hafði samt enga ástæðu til að velkjast í vafa um það. Jesús hélt sig ekki fjarri fólki eða vann í leynum heldur fór hann í borgir og þorp og blandaði geði við aðra. Hann prédikaði og kenndi opinberlega vegna þess að hann vildi að allir vissu sannleikann um sig. – Lúkas 8:1.

Sannleikann um Jesú er hægt að sjá af orðum hans og verkum sem skrásett eru í guðspjöllunum fjórum í Biblíunni. Þau eru kennd við Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes. Við finnum svörin við spurningum okkar um Jesú í þessum innblásnu frásögum. * – Jóhannes 17:17.

SPURNING: Var Jesús sannsöguleg persóna?

SVAR: Já. Veraldlegir sagnaritarar, þar á meðal Jósefus og Tacítus sem voru uppi á fyrstu öld, skrifa um Jesú sem sannsögulega persónu. En mikilvægara er að guðspjöllin sýna fram á með sannfærandi hætti að Jesús hafi verið raunveruleg persóna en ekki skáldsagnapersóna. Frásögur þeirra tiltaka nákvæmlega hvar og hvenær atburðir áttu sér stað. Guðspjallaritarinn Lúkas nefnir til dæmis sjö valdhafa til þess að benda á með óhrekjandi rökum hvaða ár Jesús hóf þjónustu sína. Nöfn þessara valdamanna hafa verið staðfest af veraldlegum sagnariturum. – Lúkas 3:1, 2, 23.

Sannanirnar fyrir því að Jesús hafi verið sannsöguleg persóna eru óyggjandi. „Flestir fræðimenn viðurkenna að maðurinn Jesús frá Nasaret hafi verið uppi á fyrstu öld,“ segir í bókinni Evidence for the Historical Jesus.

SPURNING: Eru Jesús og Guð sama persónan?

SVAR: Nei. Jesús taldi sig aldrei vera jafningja Guðs. Þvert á móti sýndi Jesús oft að hann væri lægra settur en Jehóva. * Þegar Jesús talaði við Jehóva sagði hann til dæmis „Guð minn“ og kallaði hann líka „hinn eina sanna Guð“. (Matteus 27:46; Jóhannes 17:3) Aðeins sá sem er undir annan settur myndi nota slíkt orðalag. Þegar starfsmaður segir um vinnuveitandann að hann sé „yfirmaður sinn“ eða „sá sem ræður“ lítur hann greinilega á sjálfan sig sem undirmann.

Jesús sýndi einnig fram á að hann og Guð voru ekki sama persónan. Eitt sinn þegar andstæðingar Jesú drógu vald hans í efa sagði hann við þá: „Í lögmáli yðar er ritað að vitnisburður tveggja manna sé gildur. Ég er sá sem vitna um sjálfan mig og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig.“ (Jóhannes 8:17, 18) Jesús og Jehóva geta ekki verið sama persónan. Hvernig væri annars hægt að líta á þá sem tvö vitni? *

SPURNING: Var Jesús bara góður maður?

SVAR: Nei. Hann var miklu meira en það. Jesús gerði sér ljóst að hann gegndi mikilvægu og margþættu hlutverki í fyrirætlun Guðs. Skoðum það nánar.

„Sonurinn eini.“ (Jóhannes 1:14) Jesús vissi hver uppruni sinn var. Hann var til löngu áður en hann fæddist hér á jörð. Hann sagði: „Ég er stiginn niður af himni.“ (Jóhannes 6:38) Jesús var það fyrsta sem Guð skapaði og hann hjálpaði til við að skapa allt annað. Þar sem aðeins Jesús var skapaður milliliðalaust af Guði gat hann réttilega verið kallaður „sonurinn eini“, það er að segja einkasonur Guðs. – Jóhannes 1:3; 3:18; Kólossubréfið 1:15, 16.

„Mannssonurinn.“ (Matteus 8:20) Jesús sagði mörgum sinnum að hann væri „Mannssonurinn“ og notaði þar með orðalag sem kemur um það bil 80 sinnum fyrir í guðspjöllunum. Þetta orðalag gefur til kynna að hann hafi verið mannlegur að öllu leyti en ekki Guð holdi klæddur. En hvernig gat einkasonur Guðs fæðst sem maður? Jehóva beitti heilögum anda sínum til að flytja líf sonar síns í móðurkvið meyjarinnar Maríu þannig að hún varð þunguð. Jesús fæddist þess vegna syndlaus og fullkominn. – Matteus 1:18; Lúkas 1:35; Jóhannes 8:46.

,Meistari.‘ (Jóhannes 13:13) Jesús „kenndi . . . [og] prédikaði fagnaðarerindið“ um ríki Guðs og gerði öllum ljóst að Guð hafði falið honum þetta verkefni. (Matteus 4:23; Lúkas 4:43) Jesús útskýrði á ótrúlega einfaldan og skýran hátt hvað Guðsríki væri og hvernig það myndi láta vilja Jehóva ná fram að ganga. – Matteus 6:9, 10.

„Orðið.“ (Jóhannes 1:1) Jesús var talsmaður Guðs. Jehóva notaði hann til að koma upplýsingum og fyrirmælum til annarra. Hann fól Jesú það verkefni að flytja mönnunum boðskap sinn. – Jóhannes 7:16, 17.

SPURNING: Var Jesús hinn fyrirheitni Messías?

SVAR: Já. Spádómar Biblíunnar sögðu fyrir komu Messíasar eða Krists, sem merkir „hinn smurði“. Messías átti að gegna lykilhlutverki í fyrirætlun Jehóva. Eitt sinn sagði samversk kona við Jesú: „Ég veit að Messías kemur − það er Kristur.“ Jesús sagði henni þá berum orðum: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“ – Jóhannes 4:25, 26.

En er hægt að sanna að Jesús hafi verið Messías? Ef við tengjum saman eftirfarandi þrjú atriði fáum við skýra sönnun fyrir því alveg eins og ákveðið mynstur einkennir fingrafar hvers einstaklings. Á þessi lýsing við Jesú? Skoðum það nánar.

Ættartala hans. Í Biblíunni var sagt fyrir að Messías yrði afkomandi Abrahams í ætt Davíðs. (1. Mósebók 22:18; Sálmur 132:11, 12) Jesús var afkomandi þeirra beggja. – Matteus 1:1-16; Lúkas 3:23-38.

Uppfylltir spádómar. Hebresku ritningarnar hafa að geyma fjölmarga spádóma um líf Messíasar á jörð þar á meðal ýmis smáatriði um fæðingu hans og dauða. Jesús uppfyllti alla þessa spádóma. Lítum á nokkra þeirra. Hann fæddist í Betlehem. (Míka 5:1; Lúkas 2:4-11) Hann var kallaður heim frá Egyptalandi. (Hósea 11:1; Matteus 2:15) Ekkert beina hans var brotið þegar hann var tekinn af lífi. (Sálmur 34:21; Jóhannes 19:33, 36) Jesús hefði alls ekki getað stýrt lífi sínu þannig að hann hefði í eigin mætti náð að uppfylla alla spádómana um Messías. *

Stuðningur Guðs. Við fæðingu Jesú sendi Guð engla til að segja fjárhirðum að Messías væri fæddur. (Lúkas 2:10-14) Þegar Jesús þjónaði hér á jörð talaði Guð nokkrum sinnum frá himni til að lýsa yfir velþóknun sinni á honum. (Matteus 3:16, 17; 17:1-5) Jehóva gerði Jesú kleift að gera stórkostleg kraftaverk og það færði frekari sönnur á að Jesús væri Messías. – Postulasagan 10:38.

SPURNING: Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja?

SVAR: Jesús verðskuldaði ekki að þjást þar sem hann var syndlaus. Hann átti heldur ekki skilið að vera negldur upp á staur eins og ótíndur glæpamaður og skilinn þar eftir til að deyja smánarlegum dauða. En Jesús bjóst samt við þessari illu meðferð og þoldi hana hlýðinn. – Matteus 20:17-19; 1. Pétursbréf 2:21-23.

Messíasarspádómarnir sögðu fyrir að Messías þyrfti að þjást og deyja til að greiða fyrir syndir annarra. (Jesaja 53:5; Daníel 9:24, 26) Jesús sagðist hafa komið til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Matteus 20:28) Þeir sem sýna trú á lausnina sem veitist með fórnardauða hans eiga í vændum að losna undan synd og dauða og lifa að eilífu í paradís á jörð. *Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.

SPURNING: Getum við treyst því að Jesús hafi verið reistur upp frá dauðum?

SVAR: Já. Jesús var fullviss um að hann yrði reistur upp frá dauðum. (Matteus 16:21) En hvorki hann né biblíuritararnir héldu því fram að hann myndi rísa upp frá dauðum án þess að æðri máttur væri þar að verki. Slíkt væri óhugsandi. Í Biblíunni segir: „Guð leysti hann úr dauðans böndum og reisti hann upp.“ (Postulasagan 2:24) Ef við trúum því að til sé Guð og að hann sé skapari allra hluta getum við fyllilega treyst því að hann hafi getað reist son sinn upp frá dauðum. – Hebreabréfið 3:4.

Eru til einhverjar haldbærar sannanir fyrir því að Jesús hafi verið reistur upp frá dauðum? Lítum á dæmi um það.

Vitnisburður sjónarvotta. Um það bil 22 árum eftir dauða Jesú skrifaði Páll postuli að í kringum 500 manns hefðu séð Jesú eftir upprisu hans. Þegar Páll skrifaði þetta voru flestir þeirra enn á lífi. (1. Korintubréf 15:6) Það væri kannski auðvelt að draga í efa orð eins eða tveggja vitna en hver gæti hrakið vitnisburð 500 sjónarvotta?

Áreiðanleg vitni. Lærisveinar Jesú á fyrstu öld boðuðu djarflega að Jesús hefði risið upp frá dauðum enda vissu þeir manna best hvað raunverulega hafði átt sér stað. (Postulasagan 2:29-32; 3:13-15) Reyndar litu þeir svo á að kristin trú væri byggð á því að trúa á upprisu Jesú. (1. Korintubréf 15:12-19) Lærisveinarnir vildu frekar fórna lífi sínu en að afneita trúnni á Jesú. (Postulasagan 7:51-60; 12:1, 2) Myndi einhver viljandi fórna lífi sínu fyrir lygasögu?

Við höfum nú skoðað svör Biblíunnar við sex algengum spurningum um Jesú. Svörin gefa okkur góða mynd af því hver Jesús er. En skipta þau einhverju máli? Skiptir í raun einhverju máli hverju þú kýst að trúa um Jesú?

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Frekari upplýsingar um guðspjöllin er að finna í greininni „Segir Biblían alla söguna um Jesú?“ sem birtist í Varðturninum apríl-júní 2010 bls. 26-29.

^ gr. 9 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummáli Biblíunnar.

^ gr. 10 Hægt er að fá nánari upplýsingar um hver Jesús er í 4. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?

^ gr. 21 Finna má lista yfir nokkra af spádómunum sem uppfylltust á Jesú á bls. 200 í bókinni Hvað kennir Biblían?

^ gr. 25 Nánari upplýsingar um hvaða þýðingu fórnardauði Jesú hefur fyrir okkur er hægt að finna í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?