Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skipta svörin máli?

Skipta svörin máli?

Skipta svörin máli?

„[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ – JÓHANNES 8:32.

Í BIBLÍUNNI er að finna sannleikann sem getur frelsað okkur úr fjötrum villandi kenninga um Jesú. En skiptir í raun einhverju máli hvaða kenningum við trúum? Já, það gerir það. Það skiptir Jehóva máli. Það skiptir Jesú máli. Og það ætti að skipta okkur máli.

Hvers vegna skiptir það Jehóva máli? Einfaldlega vegna þess að „Guð er kærleikur“. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Jehóva vill að við lifum hamingjusöm að eilífu. Jesús sagði: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir . . . hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Guð sendi son sinn til að leysa okkur undan synd og dauða. Þannig gerir hann okkur kleift að öðlast eilíft líf í paradís á jörð eins og hann ætlaði sér í upphafi. (1. Mósebók 1:28) Guð þráir að gefa þeim eilíft líf sem læra sannleikann um son hans og lifa í samræmi við það sem þeir læra. – Rómverjabréfið 6:23.

Hvers vegna skiptir það Jesú máli? Jesús elskar einnig mannkynið. Hann sýndi óeigingjarnan kærleika með því að gefa líf sitt fyrir okkur af fúsum og frjálsum vilja. (Jóhannes 15:13) Hann gerði sér grein fyrir að þannig opnaði hann einu leiðina til frelsunar. (Jóhannes 14:6) Okkur ætti því ekki að undra að Jesús vilji að sem flestir njóti góðs af lausnarfórn sinni. Þess vegna gaf hann einlægum fylgjendum sínum það verkefni að fræða fólk um allan heim um vilja Guðs og fyrirætlun. – Matteus 24:14; 28:19, 20.

Hvers vegna ætti það að skipta okkur máli? Hvað finnst þér vera mikilvægt í lífinu? Líklega er það heilsan og fjölskyldan. Óskarðu þess að búa við góða heilsu og að þú og ástvinir þínir geti öðlast betra líf? Fyrir milligöngu Jesú býður Jehóva þér og ástvinum þínum fullkomna heilsu og eilíft líf í nýjum heimi þar sem hvorki verða erfiðleikar né þjáningar. (Sálmur 37:11, 29; Opinberunarbókin 21:3, 4) Myndir þú vilja lifa við þess konar aðstæður? Ef svo er bíður þín verkefni.

Lesum aftur versið sem vitnað er í undir titli greinarinnar: „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Sannleikurinn um Jesú og hlutverk hans í því að fyrirætlun Guðs nái fram að ganga getur frelsað okkur úr fjötrum syndar og dauða – þeim versta þrældómi sem til er. En til þess að eiga von um slíka frelsun þarftu að „þekkja sannleikann“. Langar þig ekki til að læra meira um þennan sannleika og hvernig þú og ástvinir þínir getið notið góðs af? Vottar Jehóva myndu gjarnan vilja aðstoða þig við það.