Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sviksemi eitt af táknum tímanna

Sviksemi eitt af táknum tímanna

Sviksemi eitt af táknum tímanna

„Þið eruð . . . hrein, réttvís og óaðfinnanleg.“ – 1. ÞESS. 2:10.

GETURÐU FUNDIÐ SVÖRIN?

Hvaða lærdóm má draga af sviksemi Dalílu, Absalons og Júdasar Ískaríots?

Hvernig getum við líkt eftir hollustu Jónatans og Péturs?

Hvernig getum við verið trú og trygg Jehóva og maka okkar?

1-3. (a) Lýstu einu af táknum tímanna. (b) Við hvaða þrem spurningum ætlum við að leita svara?

HVAÐ eiga Dalíla, Absalon og Júdas Ískaríot sameiginlegt? Þau voru öll ótrú. Dalíla sveik Samson dómara sem elskaði hana. Absalon sveik Davíð konung, föður sinn. Og Júdas sveik meistara sinn, Jesú Krist. Þau ollu öðrum miklu tjóni með ótrúmennsku sinni. Getum við dregið einhvern lærdóm af því sem þau gerðu?

2 Rithöfundur nokkur telur að sviksemi sé einn af algengustu löstum okkar tíma. Það kemur okkur ekki á óvart. Þegar Jesús lýsti tákni þess að ,veröldin væri að líða undir lok‘ sagði hann: „Margir munu . . . framselja hver annan.“ (Matt. 24:3, 10) Að framselja merkir í þessu samhengi að vera ótrúr öðrum og svíkja hann í hendur óvinar. Þessi útbreidda ótrúmennska staðfestir að við lifum á „síðustu dögum“ en Páll spáði að þá yrðu menn „sviksamir“. (2. Tím. 3:1, 2, 4) Höfundar bóka og kvikmynda draga gjarnan upp rómantíska glansmynd af alls konar sviksemi. Í veruleikanum veldur sviksemi hins vegar miklum sársauka og erfiðleikum. Þetta hátterni er eitt af táknum þess að við lifum á síðustu dögum.

3 Hvaða lærdóm getum við dregið af ótrúmennsku sumra einstaklinga sem sagt er frá í Biblíunni? Hvaða góðar fyrirmyndir er að finna í Biblíunni um fólk sem sýndi trúfesti? Og hverjum þurfum við að sýna órjúfanlega hollustu? Við skulum kanna málið.

DÆMI TIL VIÐVÖRUNAR

4. Hvernig sveik Dalíla Samson og af hverju var það svívirðilegt?

4 Fyrsta dæmið, sem við skoðum, er svikakvendið Dalíla en Samson dómari var ástfanginn af henni. Samson var staðráðinn í að leiða þjóð Guðs í baráttunni gegn Filisteum. Vera má að fimm höfðingjar Filistea hafi vitað að Dalíla bar ekki sanna ást til Samsonar. Þeir buðust til að greiða henni háa fjárhæð ef hún gæti komist á snoðir um af hverju hann væri ofurmannlega sterkur. Þeir ætluðu sér að drepa hann. Dalíla var ágjörn og tók boðinu en mistókst þrívegis að veiða leyndarmálið upp úr Samsoni. En „hún nauðaði í honum alla daga með orðum sínum og lagði svo fast að honum að hann varð dauðleiður á því“. Að lokum sagði hann henni að hár hans hefði aldrei verið skorið og hann myndi missa krafta sína ef það yrði gert. * Dalíla lét þá skera hár hans meðan hann svaf í kjöltu hennar, og kallaði svo á óvini hans svo að þeir gætu gert við hann hvað sem þeir vildu. (Dóm. 16:4, 5, 15-21) Þetta voru svívirðileg svik! Dalíla var svo ágjörn að hún sveik manninn sem elskaði hana.

5. (a) Hvernig sveik Absalon Davíð og hvað segir það okkur um hann? (b) Hvernig leið Davíð þegar Akítófel sveik hann?

5 Absalon er annað dæmið sem við skoðum. Framagirnin var svo takmarkalaus að hann einsetti sér að steypa föður sínum, Davíð konungi, af stóli. Hann byrjaði á því að ,stela hjörtum Ísraelsmanna‘. Hann smjaðraði fyrir þeim og tældi þá með innantómum loforðum. Hann faðmaði þá og kyssti og þóttist láta sér ákaflega annt um hagi þeirra. (2. Sam. 15:2-6, neðanmáls). Jafnvel Akítófel lét glepjast og gekk til liðs við samsærismennina, en hann hafði verið trúnaðarvinur og ráðgjafi Davíðs. (2. Sam. 15:31) Í Sálmi 3 og Sálmi 55 lýsir Davíð þeim áhrifum sem þessi sviksemi hafði á hann. (Sálm. 3:2-9; lestu Sálm 55:13-15.) Sviksemi Absalons og samsæri beindist gegn konunginum sem Jehóva hafði skipað. Þar með sýndi hann að hann bar ekki minnstu virðingu fyrir drottinvaldi Jehóva. (1. Kron. 28:5) En uppreisnin rann út í sandinn og Davíð sat áfram sem smurður konungur í umboði Jehóva.

6. Hvernig sveik Júdas Jesú og um hvað er nafnið Júdas oft notað?

6 Að síðustu skulum við líta á hvernig Júdas Ískaríot sveik Krist. Við síðustu páskamáltíðina, sem Jesús neytti með postulunum 12, sagði hann þeim: „Sannlega segi ég ykkur: Einn af ykkur mun svíkja mig.“ (Matt. 26:21) Síðar um nóttina sagði hann við þá Pétur, Jakob og Jóhannes úti í Getsemanegarðinum: „Í nánd er sá er mig svíkur.“ Í sömu mund bar Júdas þar að ásamt flokki manna. „Hann gekk beint að Jesú og sagði: ,Heill, rabbí!‘ og kyssti hann.“ (Matt. 26:46-50; Lúk. 22:47, 52) Júdas sveik Jesú í hendur óvina hans. Og fyrir hvað sveik þessi fégjarni maður „saklaust blóð“? Fyrir litla 30 silfurpeninga! (Matt. 27:3-5) Nafnið Júdas hefur upp frá því verið notað sem samheiti um svikara, ekki síst þá sem svíkja vini sína. *

7. Hvaða lærdóm getum við dregið af (a) Absalon og Júdasi og (b) Dalílu?

7 Við höfum nú skoðað þrjú dæmi sem eru okkur til viðvörunar. Hvað lærum við af þeim? Þeir Absalon og Júdas hlutu báðir ömurleg endalok vegna þess að þeir sviku smurða þjóna Jehóva. (2. Sam. 18:9, 14-17; Post. 1:18-20) Nafn Dalílu verður alla tíð sett í samband við sviksemi og uppgerðarást. (Sálm. 119:158) Við verðum að forðast alla ágirnd og metnaðargirni því að annars myndum við glata velþóknun Jehóva. Er hægt að hugsa sér sterkari dæmi til að vara við sviksemi og ótrúmennsku?

LÍKJUM EFTIR ÞEIM SEM VORU TRÚIR

8, 9. (a) Af hverju hét Jónatan Davíð hollustu sinni? (b) Hvernig getum við tekið Jónatan okkur til fyrirmyndar?

8 Í Biblíunni er einnig sagt frá fjölda trúfastra karla og kvenna. Við skulum fjalla um tvo menn sem voru trúir og kanna hvað við getum lært af þeim. Annar þeirra sýndi Davíð tryggð og hollustu. Það var Jónatan, sonur Sáls konungs, en hann hefði sennilega tekið við völdum af föður sínum ef Jehóva hefði ekki verið búinn að velja Davíð til þess hlutverks. Jónatan virti ákvörðun Guðs. Hann leit ekki á Davíð sem keppinaut. Hann var ekki öfundsjúkur heldur „elskaði hann eins og sjálfan sig“. Jónatan hét honum hollustu og gaf honum jafnvel herklæði sín, sverð, boga og belti. Þannig sýndi hann honum virðingu sem konungi. (1. Sam. 18:1-4) Jónatan gerði allt sem hann gat til að telja kjark í Davíð. Hann setti sig jafnvel í lífshættu til að halda uppi vörnum fyrir Davíð við Sál föður sinn. Hann sagði við Davíð: „Þú verður konungur yfir Ísrael og ég mun ganga næst þér.“ (1. Sam. 20:30-34; 23:16, 17) Það kemur ekki á óvart að Davíð skyldi tjá sorg sína og ást í harmljóði þegar Jónatan dó. – 2. Sam. 1:17, 26.

9 Jónatan var ekki í neinum vafa um hverjum hann ætti að sýna hollustu. Hann var fullkomlega trúr alvöldum Drottni Jehóva og studdi Davíð sem Jehóva hafði látið smyrja til konungs. Hvað um okkur? Það getur verið að okkur hafi ekki verið falin sérstök verkefni í söfnuðinum en við ættum engu að síður að styðja fúslega þá sem eru útnefndir til að fara með forystuna. – 1. Þess. 5:12, 13; Hebr. 13:17, 24.

10, 11. (a) Hvers vegna hélt Pétur tryggð við Jesú? (b) Hvernig getum við líkt eftir Pétri?

10 Hitt jákvæða dæmið, sem við ætlum að skoða, er Pétur postuli. Einu sinni brá Jesús fyrir sig sterku líkingamáli til að leggja áherslu á hve mikilvægt það væri að trúa á hold hans og blóð sem fórnað yrði innan skamms. Margir af lærisveinunum hneyksluðust á orðum hans og yfirgáfu hann. (Jóh. 6:53-60, 66) Jesús sneri sér þá að postulunum 12 og spurði: „Ætlið þið að fara líka?“ Pétur lýsti þá yfir hollustu sinni við Jesú og svaraði: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs og við trúum og vitum að þú ert hinn heilagi Guðs.“ (Jóh. 6:67-69) Skildi Pétur í þaula hvað Jesús var að segja um væntanlega fórn sína? Sennilega ekki. Engu að síður var hann ákveðinn í að vera trúr andasmurðum syni Guðs.

11 Pétur hugsaði ekki sem svo að Jesús hlyti að hafa rangt fyrir sér og myndi draga orð sín til baka síðar. Hann var auðmjúkur og viðurkenndi að Jesús hefði „orð eilífs lífs“. Eins getur verið að við rekumst á eitthvað í ritum hins trúa og hyggna ráðsmanns sem er torskilið eða stangast á við hugmyndir okkar. Þá ættum við að reyna okkar besta til að skilja það en ekki hugsa sem svo að það hljóti að verða leiðrétt seinna til að það samræmist okkar eigin skoðunum. – Lestu Lúkas 12:42.

VERTU TRÚR MAKA ÞÍNUM

12, 13. Hvernig getur sviksemi hreiðrað um sig í hjónabandi og hvers vegna er aldurinn engin afsökun?

12 Sviksemi er vonskuverk í hvaða mynd sem hún birtist. Það má ekki gerast að sviksemi fái að spilla friði og einingu kristinna fjölskyldna eða safnaðarins. Við skulum því skoða hvernig hægt sé að styrkja hollustuna við maka sinn og við Guð.

13 Framhjáhald er einhver grófasta sviksemi sem hægt er að hugsa sér. Hinn brotlegi hefur verið ótrúr maka sínum og beint athygli sinni og ástúð að annarri manneskju. Sá sem brotið var gegn er allt í einu einn og yfirgefinn og tilveran í uppnámi. Hvernig getur þetta gerst hjá manni og konu sem elskuðu hvort annað? Oft byrjar þetta þannig að hjónin fjarlægjast hvort annað. Gabriella Turnaturi, prófessor í félagsfræði, segir að sviksemin hreiðri um sig þegar hjónin hætta að hlúa að sambandi sínu. Þetta getur jafnvel gerst hjá fólki sem komið er á miðjan aldur. Fimmtugur maður skilur við konuna sem hann hefur verið giftur í 25 ár og tekur upp sambúð við aðra sem hann hrífst af. Sumir kalla þetta „gráa fiðringinn“ eins og það sé einhver afsökun. En í stað þess að láta það hljóma eins og það sé næstum óhjákvæmilegt að þetta gerist skulum við kalla það sínu rétta nafni – ótryggð og svik. *

14. (a) Hvernig lítur Jehóva á ótryggð í hjónabandi? (b) Hvað sagði Jesús um tryggð í hjónabandi?

14 Hvernig lítur Jehóva á þá sem yfirgefa maka sinn án þess að hafa biblíulega ástæðu til? Guð hatar hjónaskilnað og talar enga tæpitungu um þá sem fara illa með maka sinn og yfirgefa hann. (Lestu Malakí 2:14, 16. *) Jesús var hjartanlega sammála föður sínum og kenndi að maður mætti ekki reka saklausan maka sinn á dyr og láta síðan eins og ekkert væri. – Lestu Matteus 19:3-6, 9.

15. Hvernig geta hjón styrkt böndin milli sín?

15 Hvernig geta hjón sýnt hvort öðru tryggð? Í Biblíunni segir: „Gleddu þig yfir eiginkonu [eða eiginmanni] æsku þinnar,“ og „njóttu lífsins með konunni [eða manninum], sem þú elskar“. (Orðskv. 5:18; Préd. 9:9) Þegar hjónin eldast þurfa þau að hlúa að sambandi sínu, bæði líkamlega og tilfinningalega. Þau þurfa að verða góðviljuð hvort við annað, umhyggjusöm og eiga saman góðar stundir. Þau þurfa að leggja sig fram um að viðhalda hjónabandinu og sambandinu við Jehóva. Til að gera það þurfa þau að lesa saman í Biblíunni, fara reglulega saman í boðunarstarfið og biðja saman um blessun Jehóva.

VERTU JEHÓVA TRÚR

16, 17. (a) Hvernig getur reynt á hollustu okkar við Guð í fjölskyldunni og söfnuðinum? (b) Nefndu dæmi sem sýnir að það getur haft góð áhrif að fylgja fyrirmælum Guðs um að eiga ekki samskipti við ættingja sem er vikið úr söfnuðinum.

16 Í söfnuðinum eru dæmi um einstaklinga sem syndguðu svo alvarlega að það þurfti að ,vanda harðlega um við þá til þess að þeir hlytu heilbrigða trú‘. (Tít. 1:13) Í sumum tilvikum hefur þurft að víkja fólki úr söfnuðinum vegna hegðunar þess. Ögunin hefur hjálpað sumum að styrkja eða endurheimta sambandið við Guð. (Hebr. 12:11) En segjum nú að við eigum náinn vin eða ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Þá reynir á hollustu okkar, ekki við vininn eða ættingjann heldur við Guð. Jehóva fylgist með hvort við förum eftir þeim fyrirmælum hans að eiga ekki samskipti við nokkurn þann sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. – Lestu 1. Korintubréf 5:11-13.

17 Við skulum líta á eitt dæmi sem sýnir að það getur haft góð áhrif að fylgja dyggilega þessum fyrirmælum Jehóva. Ungum manni var vikið úr söfnuðinum og hann var utan safnaðarins í meira en tíu ár. Foreldrar hans og fjórir bræður umgengust hann ekki á þeim tíma. Af og til reyndi hann að eiga félagsskap við þau en þau voru öll ákveðin í að eiga engin samskipti við hann. Eftir að hann var tekinn inn í söfnuðinn aftur sagðist hann alltaf hafa saknað þess að geta ekki verið með fjölskyldunni, sérstaklega á kvöldin þegar hann var einn. Hann tók hins vegar fram að ef fjölskyldan hefði haft minnstu samskipti við hann hefði það nægt honum. En enginn í fjölskyldunni gerði það. Brennandi löngunin til að vera með þeim var ein af ástæðunum fyrir því að hann eignaðist samband við Jehóva á ný. Hugsaðu um þetta dæmi ef þér finnst einhvern tíma freistandi að brjóta gegn þeim fyrirmælum Guðs að eiga ekki samskipti við ættingja sem er vikið úr söfnuðinum.

18. Hvað ætlarðu að gera eftir að hafa skoðað dæmin í þessari grein um ótryggð og um hollustu?

18 Við lifum í svikulum heimi. Í kristna söfnuðinum er hins vegar að finna ótal dæmi um trúa og trygga þjóna Guðs sem við getum tekið til fyrirmyndar. Líferni þeirra talar sínu máli eins og segir í 1. Þessaloníkubréfi 2:10: „Þið eruð vottar þess með Guði að framkoma mín við ykkur sem trúið var hrein, réttvís og óaðfinnanleg.“ Við skulum öll vera trú og trygg, bæði Guði og hvert öðru.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Styrkur Samsonar lá ekki í sjálfu hárinu heldur því sem það táknaði, það er að segja að hann var nasírei og átti þar af leiðandi sérstakt samband við Jehóva.

^ gr. 6 Orðið „júdasarkoss“ er oft notað um svikráð.

^ gr. 13 Fjallað er um hvernig hægt sé að takast á við hjúskaparbrot í greininni „Þegar makinn er ótrúr“ í Varðturninum 15. júní 2010, bls. 29-32.

^ gr. 14 Malakí 2:14, 16 (Biblían 1981): „Drottinn var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli . . . Því að ég hata hjónaskilnað – segir Drottinn, Ísraels Guð.“

[Spurningar]

[Mynd á bls. 10]

Pétur sýndi andasmurðum syni Guðs hollustu þó að aðrir yfirgæfu hann.