Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna ættirðu að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir?

Hvers vegna ættirðu að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir?

Hvers vegna ættirðu að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir?

„Munnur minn mun boða réttlæti þitt og allan daginn velgjörðir þínar.“ – SÁLM. 71:15.

HVERT ER SVARIÐ?

Hvað réð lífsstefnu þeirra Nóa, Móse, Jeremía og Páls?

Hvað getur hjálpað þér að ákveða hvernig þú verjir lífi þínu?

Hvers vegna ætlarðu að láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir?

1, 2. (a) Hvað látum við í ljós með því að vígjast Jehóva? (b) Hvað getum við lært af ákvörðunum Nóa, Móse, Jeremía og Páls?

ÞEGAR þú vígist Jehóva og lætur skírast sem fylgjandi Jesú ertu að taka alvarlegustu ákvörðun ævinnar. Þú ert að stíga mikilvægasta skref sem hægt er að hugsa sér. Þú ert eiginlega að segja: Jehóva, mig langar til að eiga þig fyrir húsbónda og herra á öllum sviðum lífsins. Ég er þjónn þinn. Ég vil að þú ákveðir hvernig ég ver tíma mínum, hvað ég láti ganga fyrir í lífinu og hvernig ég noti eigur mínar og hæfileika.

2 Ef þú ert vígður þjónn Jehóva hefurðu í rauninni gefið honum slík loforð. Þú átt hrós skilið fyrir það. Þetta var rétt og skynsamleg ákvörðun. En hvernig notarðu tímann í ljósi þess að þú hefur ákveðið að Jehóva sé húsbóndi þinn og herra? Fordæmi Nóa, Móse, Jeremía og Páls postula getur hjálpað þér að hugleiða það. Allir þjónuðu þeir Jehóva af heilum hug. Við erum að mörgu leyti í sambærilegri aðstöðu og þeir. Ákvarðanir þeirra vitna um hvað þeir töldu mikilvægast í lífinu og geta verið okkur hvatning til að íhuga hvernig við verjum tímanum. – Matt. 28:19, 20; 2. Tím. 3:1.

FYRIR FLÓÐIÐ

3. Að hvaða leyti líkjast okkar tímar dögum Nóa?

3 Jesús líkti okkar tímum við daga Nóa. Hann sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ (Matt. 24:37-39) Fæstir gefa gaum að því á hvaða tímum við lifum. Þeir sinna ekki þeim viðvörunum sem þjónar Guðs flytja. Margir gera jafnvel gys að þeirri hugmynd að Guð skipti sér af málum okkar mannanna – ekki ósvipað og menn gerðu á dögum Nóa. (2. Pét. 3:3-7) En hvernig varði Nói tímanum í þessu fjandsamlega umhverfi?

4. Hvernig varði Nói tímanum eftir að Guð fól honum sérstakt verkefni, og hvers vegna?

4 Guð lét Nóa vita hvað hann ætlaði að gera og fékk honum það verkefni að smíða örk til að bjarga mönnum og dýrum. Nói gerði eins og Guð bauð. (1. Mós. 6:13, 14, 22) Hann varaði einnig fólk við því að dómur Jehóva væri yfirvofandi. Pétur postuli kallar hann „boðbera réttlætisins“ sem gefur til kynna að Nói hafi reynt að leiða fólki fyrir sjónir í hve alvarlegri stöðu það væri. (Lestu 2. Pétursbréf 2:5.) Heldurðu að það hefði verið skynsamlegt af Nóa og fjölskyldu hans að einbeita sér að atvinnurekstri, reyna að komast áfram í samfélaginu eða lifa sem þægilegustu lífi? Að sjálfsögðu ekki. Þau vissu hvað var fram undan og létu ekkert draga athygli sína frá því.

EGYPSKUR PRINS SEM VALDI RÉTT

5, 6. (a) Hvers vegna var Móse menntaður „í allri speki Egypta“? (b) Hvers vegna hafnaði Móse þeim tækifærum sem stóðu honum til boða í Egyptalandi?

5 Lítum þessu næst á fordæmi Móse. Hann ólst upp í egypskri höll og var talinn dóttursonur faraós. Sem ungur prins var hann menntaður „í allri speki Egypta“. (Post. 7:22; 2. Mós. 2:9, 10) Menntunin hafði líklega það markmið að búa hann undir starfsframa við hirð faraós. Hann hefði getað komist til áhrifa við voldugustu ríkisstjórn þess tíma og búið við munað, forréttindi og þægindi sem fylgdu slíkri stöðu. En hugsaði Móse fyrst og fremst um að njóta alls þessa?

6 Móse vissi sennilega hverju Jehóva hafði lofað forfeðrum hans, þeim Abraham, Ísak og Jakobi, vegna þess að hann bjó hjá kynforeldrum sínum fyrstu æviárin og fræddist af þeim. Móse trúði á þessi loforð. Hann hlýtur að hafa velt framtíð sinni vandlega fyrir sér og hugleitt hvernig hann gæti verið Jehóva trúr. Hvað kaus hann að gera þegar hann þurfti að velja milli þess að vera egypskur prins eða ísraelskur þræll? Hann „kaus fremur að þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni“. (Lestu Hebreabréfið 11:24-26.) Hann valdi að verja lífi sínu í samræmi við leiðsögn Jehóva. (2. Mós. 3:2, 6-10) Af hverju gerði hann það? Af því að hann trúði loforðum Guðs. Hann komst að þeirri niðurstöðu að hann ætti sér enga framtíð í Egyptalandi. Áður en langt um leið refsaði Guð Egyptum með því að láta tíu plágur ganga yfir landið. Áttarðu þig á hvað vígðir þjónar Jehóva nú á tímum geta lært af þessu? Í stað þess að sækjast eftir starfsframa eða heimsins gæðum ættum við að einbeita okkur að því að þjóna Jehóva.

JEREMÍA VISSI HVAÐ VAR FRAM UNDAN

7. Að hvaða leyti var Jeremía í svipaðri stöðu og við?

7 Jeremía spámaður lét það ganga fyrir að þjóna Jehóva. Hann var útvalinn sem spámaður til að boða dóma Guðs yfir íbúum Jerúsalem og Júda því að þeir voru farnir að dýrka aðra guði. Jeremía var uppi skömmu áður en Jehóva fullnægði dómi sínum. (Jer. 23:19, 20) Hann vissi að þjóðskipulagið, sem hann bjó við, myndi ekki standa til frambúðar.

8, 9. (a) Af hverju þurfti Barúk að leiðrétta hugsunarhátt sinn? (b) Hvað ættum við að hafa í huga þegar við gerum áætlanir?

8 Hver voru eðlileg viðbrögð Jeremía fyrst hann var sannfærður um þetta? Hann reyndi ekki að skapa sér framtíð í þjóðskipulagi sem var dauðadæmt. Það hefði verið lítil skynsemi í því. Barúk, ritari hans, sá hlutina hins vegar ekki í réttu ljósi um tíma. Guð innblés því Jeremía að segja honum: „Ég mun brjóta niður það sem ég hef byggt, ég mun uppræta það sem ég hef gróðursett um allt land. Ætlarðu þér mikinn hlut? Láttu af því. Sjá, ég sendi ógæfu yfir allt dauðlegt . . . En þér mun ég gefa líf þitt að herfangi hvert sem þú ferð.“ – Jer. 45:4, 5.

9 Við vitum ekki hverju Barúk var að sækjast eftir þegar sagt er að hann hafi ætlað sér „mikinn hlut“. * Hitt vitum við að það var engin framtíð í því vegna þess að það hlaut að líða undir loka þegar Babýloníumenn ynnu Jerúsalem árið 607 f.Kr. Áttarðu þig á hvaða lærdóm við getum dregið af þessu? Við þurfum auðvitað að hugsa fram í tímann til að afla okkur nauðsynja. (Orðskv. 6:6-11) En væri skynsamlegt að leggja mikinn tíma og krafta í að sækjast eftir hlutum sem hafa ekkert varanlegt gildi? Í söfnuði Jehóva eru vissulega gerðar áætlanir um að byggja nýja ríkissali og deildarskrifstofur og vinna að ýmsu öðru tengdu starfseminni. Þessi áform eiga sér hins vegar framtíð vegna þess að markmiðið með þeim er að styðja við starf Guðsríkis. Það er fyllilega við hæfi fyrir alla dygga þjóna Jehóva að forgangsraða á svipaðan hátt þegar þeir gera áætlanir. Ertu sannfærður innst inni um að þú,leitir fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘? – Matt. 6:33.

„ÉG . . . MET ÞAÐ SEM SORP“

10, 11. (a) Að hverju hafði Páll einbeitt sér áður en hann tók kristna trú? (b) Af hverju gerbreyttust markmið Páls?

10 Að lokum skulum við líta á fordæmi Páls postula. Áður en hann snerist til kristni var hann á framabraut að mati flestra. Hann hafði numið lög Gyðinga hjá einum virtasta kennara samtíðarinnar. Hann hafði fengið sérstakt umboð frá æðsta presti Gyðinga. Og hann fór lengra í gyðingdóminum en margir jafnaldrar hans. (Post. 9:1, 2; 22:3; 26:10; Gal. 1:13, 14) En líf Páls gerbreyttist þegar hann gerði sér grein fyrir að Jehóva hafði hafnað Gyðingum sem þjóð.

11 Páll áttaði sig á að það var engin framtíð í því frá sjónarhóli Jehóva að komast áfram í þjóðskipulagi Gyðinga. (Matt. 24:2) Þessi fyrrverandi farísei fullyrti meira að segja að það sem hafði áður verið honum mikils virði væri honum nú „sem sorp“. Það var einskis virði í samanburði við hina kristnu þjónustu og þann nýja skilning sem hann hafði fengið á fyrirætlun Guðs. Páll sneri baki við gyðingdóminum og helgaði sig því að boða fagnaðarerindið það sem eftir var ævinnar. – Lestu Filippíbréfið 3:4-8, 15; Post. 9:15.

HUGLEIDDU HVERNIG ÞÚ FORGANGSRAÐAR

12. Hverju einbeitti Jesús sér að eftir að hann lét skírast?

12 Nói, Móse, Jeremía, Páll og margir fleiri notuðu tíma sinn og krafta að mestu leyti í þjónustu Jehóva. Þeir eru okkur góð fyrirmynd. En Jesús er auðvitað mestur þeirra sem hafa þjónað Jehóva. (1. Pét. 2:21) Eftir að hann lét skírast helgaði hann sig því að boða fagnaðarerindið og heiðra Jehóva. Það er því nokkuð augljóst að kristinn maður, sem viðurkennir Jehóva sem herra sinn og húsbónda, ætti að láta það ganga fyrir að þjóna honum. Gerir þú það? Hvernig getum við gert enn betur í þjónustu Jehóva jafnframt því að sinna öðrum skyldum sem á okkur hvíla? – Lestu Sálm 71:15; 145:2.

13, 14. (a) Hvað eru allir þjónar Guðs hvattir til að gera að bænarefni? (b) Hvaða gleði getur þjónn Guðs orðið aðnjótandi?

13 Árum saman hefur söfnuðurinn hvatt trúa þjóna Jehóva til að gera það að bænarefni hvort þeir geti gerst brautryðjendur. Af ýmsum ástæðum geta ekki allir notað að jafnaði 70 klukkustundir á mánuði til að boða fagnaðarerindið. Þeir ættu ekki að vera miður sín út af því. (1. Tím. 5:8) En hvernig eru aðstæður þínar? Er útilokað að þú getir gerst brautryðjandi?

14 Hugsaðu til gleðinnar sem margir þjónar Guðs urðu aðnjótandi kringum minningarhátíðina á þessu ári. Í mars gátu aðstoðarbrautryðjendur valið um að verja 30 eða 50 tímum til boðunarstarfsins. (Sálm. 110:3) Milljónir gerðust aðstoðarbrautryðjendur og söfnuðirnir geisluðu af gleði. Gætirðu hagað málum þannig að þú njótir þessarar gleði enn oftar? Það er einkar ánægjulegt fyrir dyggan þjón Guðs að geta sagt í lok hvers dags: „Jehóva, ég gerði allt sem ég gat í þjónustu þinni.“

15. Hvaða markmið ætti ungt fólk í söfnuðinum að hafa varðandi menntun?

15 Ef þú ert í þann mund að ljúka skólagöngu ertu sennilega við góða heilsu og skyldurnar líklega fáar. Hefurðu hugleitt alvarlega að gerast brautryðjandi? Kennarar og námsráðgjafar telja eflaust að það sé þér fyrir bestu að afla þér æðri menntunar og stefna að því að komast áfram í atvinnulífinu. En þeir treysta á þjóðfélags- og efnahagskerfi sem á sér ekki varanlega framtíð. Ef þú stefnir hins vegar að því að hafa þjónustuna við Jehóva að aðalstarfi ertu búinn að setja þér verðugt markmið sem framtíð er í. Þá fylgirðu líka fullkomnu fordæmi Jesú. Það er viturleg ákvörðun sem veitir þér vernd og hamingju. Þú sýnir þá að þú sért staðráðinn í að halda heitið sem þú gafst Jehóva þegar þú vígðist honum. – Matt. 6:19-21; 1. Tím. 6:9-12.

16, 17. Hvaða spurninga ættu kristnir menn að spyrja sig varðandi vinnu og markmið í þjónustu Jehóva?

16 Margir þjónar Guðs vinna langan vinnudag til að brauðfæða fjölskylduna. En sumir vinna kannski meira en þeir þurfa. (1. Tím. 6:8) Viðskiptaheimurinn reynir sitt ýtrasta til að telja okkur trú um að það sé ekki hægt að lifa án alls þess sem hann hefur upp á að bjóða, og að fólk þurfi að eignast allar nýjustu græjurnar. En sannkristnir menn vilja ekki láta heim Satans stjórna hvernig þeir forgangsraða. (1. Jóh. 2:15-17) Þeir sem komnir eru á eftirlaun geta varla notað tímann betur en að gerast brautryðjendur og láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir öðru.

17 Allir þjónar Jehóva geta spurt sig: Hvert er aðalmarkmið mitt í lífinu? Læt ég það ganga fyrir öðru að þjóna Jehóva? Líki ég eftir fórnfýsi Jesú? Fylgi ég Jesú stöðuglega eins og hann hvatti til? Get ég hagrætt málum mínum þannig að ég geti notað meiri tíma til að boða fagnaðarerindið eða þjóna Jehóva með öðrum hætti? Reyni ég stöðuglega að temja mér fórnfýsi jafnvel þó að ég sé ekki í aðstöðu núna til að gera meira í þjónustunni?

„AÐ VILJA OG AÐ FRAMKVÆMA“

18, 19. Hvað er verðugt bænarefni og hvers vegna hefur Jehóva þóknun á slíkum bænum?

18 Það er mjög ánægjulegt að sjá brennandi áhuga þeirra sem þjóna Jehóva. En suma langar kannski ekki sérstaklega til að gerast brautryðjendur eða finnst þeir ekki hæfir til þess, jafnvel þó að aðstæður leyfi það að öðru leyti. (2. Mós. 4:10; Jer. 1:6) Hvað er þá til ráða? Væri ekki ástæða til að ræða málið við Jehóva í bæn? Páll sagði við trúsystkini sín: „Það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“ (Fil. 2:13) Ef þú finnur ekki löngun hjá þér til að leggja enn meira af mörkum í þjónustunni skaltu biðja Jehóva að veita þér bæði löngunina og færnina til þess. – 2. Pét. 3:9, 11.

19 Nói, Móse, Jeremía, Páll og Jesús voru trúir þjónar Guðs. Þeir notuðu tíma sinn og krafta til að boða boðskap og viðvaranir Jehóva. Þeir létu ekkert draga athygli sína frá því. Núverandi heimskerfi er í þann mund að líða undir lok. Við sem höfum vígt Jehóva líf okkar þurfum því öll að fullvissa okkur um að við gerum allt sem við getum til að fylgja þessum góðu fyrirmyndum sem sagt er frá í Biblíunni. (Matt. 24:42; 2. Tím. 2:15) Ef við gerum það gleðjum við Jehóva og hljótum blessun hans. – Lestu Malakí 3:10.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Sjá bókina God’s Word for Us Through Jeremiah, bls. 104-106.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 21]

Fólk gaf engan gaum að viðvörun Nóa.

[Mynd á bls. 24]

Hefurðu hugleitt alvarlega að gerast brautryðjandi?