Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir voru „knúðir af heilögum anda“

Þeir voru „knúðir af heilögum anda“

Þeir voru „knúðir af heilögum anda“

„Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ – 2. PÉT. 1:21.

TIL UMHUGSUNAR

Hvernig beitti Guð heilögum anda til að koma boðskap sínum til biblíuritaranna?

Hvaða rök eru fyrir því að Biblían sé innblásin af Guði?

Hvað geturðu gert daglega til að fá enn meiri mætur á orði Guðs?

1. Af hverju þurfum við innblásið orð Guðs?

HVERNIG urðu mennirnir til? Hver er tilgangur lífsins? Af hverju er heimurinn eins og hann er? Hvað verður um okkur þegar við deyjum? Fólk um allan heim spyr þessara spurninga. Við myndum ekki vita svörin við þeim og öðrum mikilvægum spurningum ef við hefðum ekki innblásið orð Guðs. Án Biblíunnar þyrftum við að reiða okkur að mestu leyti á eigin reynslu. Ef við þyrftum að læra í skóla reynslunnar gætum við varla séð „lögmál Drottins“ sömu augum og sálmaskáldið gerði. – Lestu Sálm 19:8.

2. Hvað getur hjálpað okkur að hafa mætur á Biblíunni og líta á hana sem verðmæta gjöf frá Guði?

2 Sumir hafa þó ekki sömu mætur á Biblíunni og þeir höfðu áður. Það er miður. (Samanber Opinberunarbókina 2:4.) Þeir eru ekki lengur á þeirri braut sem Jehóva vill að fólk fari. (Jes. 30:21) En það þarf ekki að gerast hjá okkur. Við ættum að hafa miklar mætur á Biblíunni og boðskap hennar og þurfum að vinna að því jafnt og þétt. Biblían er verðmæt gjöf frá ástríkum skapara okkar. (Jak. 1:17) Hvað getum við gert til að fá enn meiri mætur á ,orði Guðs‘? Ein góð leið er að velta fyrir sér hvernig andi Guðs leiðbeindi biblíuriturunum. Það er líka gott að minna sig á rökin fyrir því að Biblían sé innblásin. Það ætti að vera okkur hvatning til að lesa daglega í henni og fara eftir leiðbeiningum hennar. – Hebr. 4:12.

HVERNIG VORU ÞEIR „KNÚÐIR AF HEILÖGUM ANDA“?

3. Hvernig voru spámenn og biblíuritarar „knúðir af heilögum anda“?

3 Það tók 1610 ár að skrifa Biblíuna – frá 1513 f.Kr. til 98 e.Kr. Ritararnir voru um 40 og sumir voru spámenn „knúðir af heilögum anda“. (Lestu 2. Pétursbréf 1:20, 21.) Gríska orðið, sem er þýtt „knúðir“, lýsir þeirri hugmynd að „bera eða flytja milli staða“ og „má ýmist þýða: hreyfa við, vera knúinn, láta knýja sig“. * Í Postulasögunni 27:15 er það notað um skip sem hrakti og rak undan vindi. Biblíuritarar og spámenn voru „knúðir af heilögum anda“ á þann hátt að Guð átti samskipti við þá, knúði þá, hvatti og leiðbeindi með starfskrafti sínum. Þar af leiðandi voru það ekki þeirra eigin hugsanir sem þeir settu á blað heldur sjónarmið Guðs. Stundum skildu innblásnir spámenn og ritarar ekki einu sinni hvað það merkti sem þeir spáðu eða skrásettu. (Dan. 12:8, 9) Því er ljóst að „sérhver ritning er innblásin af Guði“ og laus við skoðanir manna. – 2. Tím. 3:16.

4-6. Hvernig miðlaði Guð biblíuriturunum boðskap sínum? Lýstu með dæmi.

4 En hvernig beitti Guð heilögum anda til að koma boðskap sínum til biblíuritaranna? Var þeim lesið orðrétt fyrir hvað þeir ættu að skrifa eða fengu þeir að tjá ákveðna meginhugmynd með eigin orðum? Hugsum okkur hvernig forstjóri semur bréf. Þegar nákvæmt orðalag skiptir máli skrifar hann bréfið sjálfur eða les ritara sínum orðrétt fyrir hvað hann eigi að skrifa. Ritarinn slær inn textann og forstjórinn skrifar undir bréfið. Stundum segir hann ritaranum í aðalatriðum hvað eigi að skrifa. Ritarinn semur síðan bréfið en notar eigin stíl og orðaforða. Forstjórinn prófles kannski bréfið og biður síðan ritarann að leiðrétta það sem þarf. Hann undirritar bréfið og það er litið svo á að það sé frá honum.

5 Sumt í Biblíunni var skrifað „með fingri Guðs“. (2. Mós. 31:18) Þegar nákvæmt orðalag skipti máli las Jehóva orðrétt fyrir. Til dæmis stendur í 2. Mósebók 34:27: „Drottinn sagði við Móse: ,Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael.‘“ (Biblían 1981) Sömuleiðis sagði Jehóva við Jeremía spámann: „Skráðu í bók öll þau orð sem ég hef flutt þér.“ – Jer. 30:2.

6 Oftast var biblíuriturunum ekki lesið orðrétt fyrir hvað þeir ættu að skrifa heldur blés Guð þeim í brjóst hvaða boðskap þeir ættu að flytja. Þeir fengu síðan að skrifa hann með eigin orðum. „Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð og það sem hann hefur skrifað í einlægni eru sannleiksorð,“ segir í Prédikaranum 12:10. Guðspjallaritarinn Lúkas sagði: „Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu.“ (Lúk. 1:3) Andi Guðs sá til þess að mannlegur ófullkomleiki setti ekki mark sitt á boðskapinn.

7. Af hverju er það til vitnis um mikla visku Guðs að hann skyldi nota menn til að skrifa Biblíuna?

7 Það er til vitnis um mikla visku Guðs að hann skyldi nota menn til að skrifa Biblíuna. Orð miðla ekki aðeins upplýsingum heldur einnig tilfinningum og hughrifum. Hugsaðu þér ef Jehóva hefði látið engla sjá um ritunina. Mennirnir þekkja allt of vel kenndir eins og ótta, sorgir og vonbrigði. Hefðu englar getað tjáð þær með þeim hætti að það snerti streng í brjósti manna? Jehóva leyfði ófullkomnum mönnum að tjá með eigin orðum þær hugmyndir sem heilagur andi veitti þeim. Þannig kom hann boðskap sínum til skila með hlýju og fjölbreytni sem hreyfir við okkur mönnunum.

RÖK FYRIR ÞVÍ AÐ BIBLÍAN SÉ ORÐ GUÐS

8. Hvers vegna er hægt að segja að Biblían sé ólík öllum öðrum trúarritum?

8 Það eru sterk rök fyrir því að Biblían sé innblásið orð Guðs. Ólíkt öllum öðrum trúarritum kynnir hún fyrir okkur hinn sanna Guð. Af trúarritum hindúa má nefna Veduritin, helgisiða- og skýringarrit við Veduritin og heimspekirit sem kallast Uphanishandritin. Þá eru einnig söguljóð sem kallast Ramayana og Mahabharata. Bhagavadgita er hluti af Mahabharata og hefur að geyma siðferðilegar leiðbeiningar. Búddatrúarmenn eiga sér Tipitaka („körfurnar þrjár“). Þar af inniheldur eitt bindið aðallega reglur og ákvæði um sambýli munka annars vegar og nunna hins vegar. Annað bindið fjallar að mestu leyti um kennisetningar búddista. Þriðja bindið hefur að geyma munnlega kenningu Búdda. Búdda hélt því ekki fram að hann væri guð og hann sagði ósköp fátt um Guð. Textar konfúsíusarhyggjunnar eru sambland af frásögum, siðalærdómum, töfraþulum og ljóðum. Helgibók íslams boðar að vísu trú á einn Guð og segir hann alvitran og sjá framtíðina fyrir. En hún opinberar ekki einu sinni nafn Guðs, Jehóva, sem stendur mörg þúsund sinnum í Biblíunni.

9, 10. Hvað getum við lært um Guð af Biblíunni?

9 Þótt flest af helstu trúarritum heims segi fátt ef nokkuð um Guð gegnir öðru máli um Biblíuna. Hún hjálpar okkur að kynnast Jehóva Guði, verkum hans og margþættum eiginleikum. Hún opinberar hann ekki aðeins sem alvaldan, vitran og réttlátan heldur einnig sem kærleiksríkan Guð. Hún segir að hann elski okkur mennina. (Lestu Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:19.) Enn fremur segir í Biblíunni: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Post. 10:34, 35) Útbreiðsla Biblíunnar vitnar á vissan hátt um það. Málvísindamenn segja að töluð séu um 6.700 tungumál í heiminum. Þar af eru um 100 tungumál töluð af 90 prósentum jarðarbúa. En Biblían hefur verið þýdd í heild eða að hluta á meira en 2.400 tungumál. Nálega allir jarðarbúar hafa að minnsta kosti aðgang að hluta hennar.

10 Jesús sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar og ég starfa einnig.“ (Jóh. 5:17) Jehóva er Guð „frá eilífð til eilífðar“ þannig að við getum rétt ímyndað okkur hverju hann hefur áorkað. (Sálm. 90:2) Engin bók nema Biblían segir frá verkum Guðs, bæði í fortíð og nútíð, og opinberar hvað hann ætlar að gera í framtíðinni. Hún upplýsir einnig hvað gleður hann eða hryggir og bendir á hvernig hægt sé að eignast náið samband við hann. (Jak. 4:8) Látum ekki persónuleg hugðarefni eða áhyggjur verða til þess að við fjarlægjumst hann.

11. Hvaða miklu og traustu visku er að finna í Biblíunni?

11 Hin mikla og trausta viska, sem er að finna í Biblíunni, bendir einnig til þess að höfundur hennar sé mönnunum æðri. Páll postuli skrifaði: „Hver hefur þekkt huga Drottins að hann geti frætt hann?“ (1. Kor. 2:16) Þetta vers er byggt á spurningu sem Jesaja spámaður spurði samtíðarmenn sína: „Hver getur stýrt anda Drottins, hver ráðlagt honum og kennt?“ (Jes. 40:13) Auðvitað enginn. Það kemur ekki á óvart að okkur skuli alltaf vera fyrir bestu að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar um hjónaband, barnauppeldi, afþreyingu, félagsskap, iðjusemi, heiðarleika og siðferði. Ráðleggingar Biblíunnar eru aldrei til ills. Mennina skortir hins vegar visku til að gefa ráð sem virka alltaf. (Jer. 10:23) Ráð manna eru sífelldum breytingum háð því að það kemur iðulega í ljós að fyrri kenningar voru miður góðar. „Hugsanir manna . . . þær eru vindgustur einn,“ segir í Biblíunni. – Sálm. 94:11.

12. Hvernig hefur verið reynt að eyða Biblíunni í aldanna rás?

12 Mannkynssagan færir okkur önnur rök fyrir því að hinn sanni Guð sé höfundur Biblíunnar. Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar í aldanna rás til að útrýma boðskap Guðs. Árið 168 f.Kr. reyndi Antíokos fjórði, konungur Sýrlands, að leita uppi hinar innblásnu lögmálsbækur og brenna þær. Árið 303 e.Kr. gaf Díókletíanus, keisari Rómaveldis, út þá tilskipun að brenna skyldi Biblíuna og rífa hús þar sem kristnir menn héldu samkomur. Þessi herför stóð í áratug. Upp úr 11. öld börðust páfar gegn því að Biblían væri þýdd á mál almennings og reyndu að koma í veg fyrir að biblíuþekking breiddist út. En Biblían hefur varðveist fram á okkar dag þrátt fyrir þessar tilraunir Satans og útsendara hans. Jehóva hefur ekki leyft neinum að eyða gjöf sinni til mannanna.

RÖK SEM HAFA SANNFÆRT MARGA

13. Hvaða fleiri rök má færa fyrir því að Biblían sé innblásin?

13 Margt fleira vitnar um að Biblían sé innblásin af Guði. Þar má nefna innra samræmi hennar, vísindalega nákvæmni, uppfyllta spádóma og áberandi hreinskilni. Hún er sögulega nákvæm, býr yfir krafti til að breyta fólki og svarar spurningunum sem varpað er fram í 1. grein. Lítum á dæmi sem sýna hvað getur sannfært fólk um að Biblían sé orð Guðs.

14-16. (a) Hvað sannfærði múslíma, hindúa og efasemdamanneskju um að Guð væri höfundur Biblíunnar? (b) Hvað finnst þér gaman að benda á í boðunarstarfinu til að rökstyðja að Biblían sé innblásin af Guði?

14 Anwar * ólst upp sem múslími í Mið-Austurlöndum. Vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá honum meðan hann bjó um stundar sakir í Norður-Ameríku. „Ég hafði lítið álit á kristnum trúarbrögðum um það leyti vegna krossferðanna og rannsóknarréttarins,“ segir hann. „En þar sem ég er forvitinn að eðlisfari þáði ég boð um biblíunámskeið.“ Nokkru síðar sneri Anwar aftur til heimalands síns og missti sambandið við vottana. Mörgum árum síðar fluttist hann til Evrópu og tók upp þráðinn að nýju við biblíunámið. Hann segir: „Ég sannfærðist um að Biblían væri orð Guðs vegna þess að spádómar hennar hafa ræst, hún er sjálfri sér samkvæm, það eru engar mótsagnir í henni og þeir sem tilbiðja Jehóva elska hver annan.“ Anwar lét skírast árið 1998.

15 Asha er 16 ára. Hún ólst upp sem hindúi og fjölskyldan var trúrækin. „Ég baðst bara fyrir þegar ég fór í hofið eða átti erfitt,“ segir hún, „en ég hugsaði aldrei til Guðs þegar allt lék í lyndi.“ Hún heldur áfram: „En líf mitt tók algerum stakkaskiptum þegar vottar Jehóva bönkuðu hjá mér.“ Asha kynnti sér Biblíuna og lærði að þekkja Guð sem vin. Hvað sannfærði hana um að Biblían væri innblásin af Guði? Hún segir: „Biblían svaraði öllu sem mér datt í hug að spyrja um. Hún gerði mér kleift að trúa án þess sjá Guð – það er að segja án þess að ég þyrfti að fara í hof og falla fram fyrir skurðgoði.“

16 Paula ólst upp á kaþólsku heimili en sem ung kona leit hún á sig sem efahyggjumanneskju. Þá gerðist eftirfarandi: „Ég hitti vin sem ég hafði ekki séð mánuðum saman,“ segir hún. „Þetta var á hippatímanum. Þegar ég sá hvað hann hafði breyst – hve glaður og snyrtilegur hann var – spurði ég hvað hefði eiginlega komið fyrir og hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa verið að kynna sér Biblíuna hjá vottum Jehóva og vitnaði síðan fyrir mér.“ Þegar Paula sá hvaða áhrif Biblían hafði haft á vin hennar fékk hún áhuga á boðskapnum og gerði sér grein fyrir að Biblían væri innblásin af Guði.

„ÞITT ORÐ ER LAMPI FÓTA MINNA“

17. Hvaða gagn geturðu haft af því að lesa daglega í orði Guðs og hugleiða það sem þú lest?

17 Biblían er stórkostleg gjöf sem Jehóva hefur gefið fyrir milligöngu heilags anda síns. Lestu daglega í henni og hafðu yndi af því. Þá færðu enn meiri ást á henni og höfundi hennar. (Sálm. 1:1, 2) Leitaðu til Guðs í bæn áður en þú byrjar að lesa og biddu hann að leiða huga þinn með heilögum anda. (Lúk. 11:13) Biblían hefur að geyma sjónarmið Guðs og þú getur tileinkað þér þau með því að hugleiða efni hennar.

18. Hvers vegna viltu halda áfram að læra af Biblíunni?

18 Haltu áfram að bæta við biblíuþekkingu þína og lifðu í samræmi við hana. (Lestu Sálm 119:105.) Að lesa Biblíuna er ekki ósvipað því að horfa í spegil. Ef þú tekur eftir að þú þarft að breyta einhverju í fari þínu skaltu gera það. (Jak. 1:23-25) Notaðu orð Guðs eins og sverð til að verja trú þína og höggva burt falskenningar í hjörtum þeirra sem vilja hlusta. (Ef. 6:17) Vertu þakklátur fyrir starf spámanna og biblíuritara sem voru „knúðir af heilögum anda“.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 A Greek-English Lexicon of the New Testament and Other Early Christian Literature.

^ gr. 14 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Spurningar]

[Innskot á bls. 29]

Lestu daglega í Biblíunni. Þá færðu enn meiri ást á höfundi hennar.

[Mynd á bls. 26]

Sá sem skrifar undir bréf er álitinn höfundur þess.