Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu vitur og þiggðu leiðsögn Biblíunnar

Vertu vitur og þiggðu leiðsögn Biblíunnar

Vertu vitur og þiggðu leiðsögn Biblíunnar

Lífinu er gjarnan líkt við ferðalag. Viska mannsins hefur þó oft dugað skammt til að hjálpa fólki að sigla farsællega gegnum lífið. Margir hafa beðið skipbrot í ólgusjó lífsins. (Sálm. 107:23, 27) Hvers vegna á þessi samlíking vel við?

Það krafðist bæði reynslu og kunnáttu að sigla skipi fyrr á tímum. Það var kúnst sem menn lærðu venjulega hjá gamalreyndum sjómönnum, til dæmis stýrimönnum. (Post. 27:9-11) Á mörgum gömlum málverkum er lögð áhersla á hve hlutverk stýrimannsins var mikilvægt með því að mála hann stærri en aðra. Áður en sæfarar hættu sér á haf út lærðu þeir um stjörnur, vinda og annað sem þeir gátu haft sér til leiðsagnar. Í Biblíunni eru ákveðnir sæfarar kallaðir „hæfustu“ menn og notað orð sem getur merkt „vitur“. – Esek. 27:8.

Að komast klakklaust gegnum vandamál lífsins getur virst jafn torvelt og að sigla skipi heilu í höfn hér áður fyrr. Hvað getum við gert til að takast á við þau?

HVERNIG GETUM VIÐ FENGIÐ VITURLEGA LEIÐSÖGN?

Við skulum hafa í huga samlíkinguna að lífið sé eins og ferðalag og líta í því samhengi á eftirfarandi biblíusannindi: „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni þiggur hollráð.“ (Orðskv. 1:5, 6) Hebreska hugtakið, sem er þýtt „hollráð“, má nota til að lýsa störfum skipstjóra fyrr á öldum. Það vísar til þess að kunna að leiðbeina og stjórna.

Við getum fengið „viturlega leiðsögn“ og lært að „sigla“ farsællega í ölduróti lífsins þótt það kosti átak. Eins og Orðskviðirnir benda á verðum við að láta visku, skynsemi og hyggindi vinna saman. (Orðskv. 1:2-6; 2:1-9) Og við megum ekki vanrækja að leita leiðsagnar hjá Guði því að hinir ranglátu kunna jafnvel að „stýra“, en þá með svik í huga. – Orðskv. 12:5.

Því er áríðandi að við séum iðin að lesa og hugleiða orð Guðs. Með slíku námi getum við fengið dýrmætar upplýsingar um Jehóva og þann sem endurspeglar hann best, Jesú Krist. (Jóh. 14:9) Við fáum mörg viturleg ráð á safnaðarsamkomum. Auk þess getum við lært af reynslu annarra, meðal annars foreldra okkar. – Orðskv. 23:22.

FYRIRHYGGJA OG ÁFORM

Það er sérstaklega mikilvægt að þiggja hollráð og viturlega leiðsögn þegar við lendum í ólgusjó, ef svo má að orði komast. Við gætum verið í vafa um til hvaða ráða ætti að taka við flóknar aðstæður og það gæti lamað okkur með skelfilegum afleiðingum. – Jak. 1:5, 6.

Það er áhugavert að hugtakið, sem er þýtt „hollráð“, er einnig notað í sambandi við hernað. Við lesum: „Holl ráð skalt þú hafa þegar þú heyr stríð og þar sem ráðgjöf er næg fer allt vel.“ – Orðskv. 20:18; 24:6.

Eins og herstjórnarfræðingur skipuleggur bardaga ættum við að reyna að sjá fyrir hættur sem gætu ógnað sambandi okkar við Jehóva. (Orðskv. 22:3) Til dæmis gætum við þurft að ákveða hvort við þiggjum nýtt starf eða stöðuhækkun. Það þarf að sjálfsögðu að hugleiða launin, tímann sem það tekur að ferðast til og frá vinnu og margt annað. En það eru önnur atriði sem þarf líka að hafa í huga: Samrýmist starfsemin meginreglum Biblíunnar? Hvaða áhrif hefði vinnutíminn, svo sem vaktavinna, á starf mitt sem vottur Jehóva? – Lúk. 14:28-30.

Loretta, sem er vottur Jehóva, var í góðu starfi hjá matvælafyrirtæki. Þegar til stóð að flytja fyrirtækið um set var Lorettu boðin há staða á nýja staðnum. Stjórnendurnir sögðu henni að þar byðist henni einstakt tækifæri og bættu við: „Við erum búnir að finna út að þar er ríkissalur.“ En Lorettu langaði til að einfalda líf sitt til að geta notað enn meiri tíma í þjónustu skaparans. Hún sá fram á að nýja staðan yrði til þess að hún hefði minni tíma fyrir safnaðarstarfið. Hún sagði því upp vinnunni þótt forstjórinn segði henni í trúnaði að hún væri eini starfsmaðurinn sem þeir vildu halda í. Loretta hefur nú verið brautryðjandi í um 20 ár. Hún er sannfærð um að sá góði árangur tengist beint þeirri ákvörðun að þiggja „hollráð“ Biblíunnar. Hún styrkti samband sitt við Jehóva og hefur hlotið þá blessun að hjálpa nokkrum að taka við sannleika Biblíunnar.

Fjölskyldan þarf vissulega á viturlegri leiðsögn að halda. Það er langtímaverkefni að ala upp börn. Og það hefur áhrif á framtíð allra í fjölskyldunni hvernig foreldrarnir velja að sjá henni fyrir andlegum og efnislegum nauðsynjum. (Orðskv. 22:6) Kristnir foreldrar gætu til dæmis spurt sig: Kennum við börnunum með samræðum okkar og fordæmi að nálgast Jehóva svo að þau geti bjargað sér viturlega á fullorðinsárunum? Sýnum við þeim með lífsstíl okkar að það sé gott að vera nægjusamur og einbeita sér að þjónustunni við Jehóva? – 1. Tím. 6:6-10, 18, 19.

Velgengni ákvarðast ekki af þeim efnislegu eða félagslegu markmiðum sem margir í heiminum sækjast eftir. Það skildi Salómon konungur. Honum var innblásið að skrifa: „Réttlátum mönnum, sem óttast Guð, vegnar vel.“ (Préd. 8:12) Þetta staðfestir vissulega hve viturlegt er að þiggja leiðsögn og hollráð sem grundvölluð eru á Biblíunni og samræmast henni. – 2. Tím. 3:16, 17.

[Mynd á bls. 30]

Stýrimenn voru oft sýndir stærri en aðrir skipverjar til að leggja áherslu á hlutverk þeirra.

[Rétthafi myndar]

Su concessione del Ministero per i Beni e le Attività Culturali. Myndina má ekki afrita eða fjölfalda með nokkrum hætti.