Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kynntu þér orð Guðs

Hvaða áhrif hafa andaverur á okkur?

Hvaða áhrif hafa andaverur á okkur?

Í þessari grein er varpað fram spurningum sem þú gætir hafa velt fyrir þér og bent á hvar þú getur fundið svörin í Biblíunni. Vottar Jehóva hefðu ánægju af að ræða við þig um þessi svör.

1. Hverjir eru englarnir?

Englar eru andaverur sem búa á himni. Þeir eru miklu æðri okkur mönnunum. Hinn sanni Guð, sem einnig er andavera, skapaði englana löngu áður en hann skapaði jörðina. (Jobsbók 38:4, 7; Matteus 18:10) Milljónir trúfastra engla þjóna Jehóva á himnum. – Lestu Sálm 103:20, 21; Daníel 7:9, 10.

2. Hjálpa englar fólki?

Englar hjálpuðu réttlátum manni sem hét Lot. Hann bjó í borg sem Guð ætlaði að eyða vegna illsku fólksins. Tveir englar sögðu Lot og fjölskyldu hans að forða sér út úr borginni. Sumir litu á þessa viðvörun sem grín og virtu hana að vettugi. En Lot og dætur hans lifðu af vegna þess að þau hlustuðu á viðvörunina sem Guð hafði gefið þeim fyrir milligöngu engla. – Lestu 1. Mósebók 19:1, 13-17, 26.

Að sögn Biblíunnar hjálpa englar fólki nú á tímum með því að hafa umsjón með starfi þeirra sem boða trúfastir fagnaðarerindið um Guðsríki. (Matteus 24:14) Fagnaðarerindið felur í sér ákveðna viðvörun og þessi viðvörun er ekkert grín, ekkert frekar en hún var á tímum Lots. Það er Guð sem gefur út þessa viðvörun fyrir milligöngu engla. – Lestu Opinberunarbókina 1:1; 14:6, 7.

Guð getur notað engla til þess að styrkja okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum. Hann sendi engil til að styrkja Jesú. – Lestu Lúkas 22:41-43.

Bráðlega mun Guð nota engla í annars konar verkefni. Þeir munu eyða illum mönnum sem valda öðrum þjáningum. Það verður stórkostlegur léttir fyrir mannkynið. – Lestu 2. Þessaloníkubréf 1:6-8.

3. Hvernig geta illir andar haft áhrif á okkur?

Líkt og margt fólk á jörðinni, sem hefur hagað sér illa og óhlýðnast Guði, hafa margir englar á himnum gert uppreisn gegn honum. (2. Pétursbréf 2:4) Óhlýðnir englar eru kallaðir illir andar eða djöflar. Fremstur meðal þeirra er Satan djöfullinn. Satan og djöflar hans afvegaleiða mannkynið. – Lestu Opinberunarbókina 12:9.

Satan hefur notað spillt viðskiptakerfi, stjórnvöld og falstrúarbrögð til að hafa áhrif á fólk og beina því frá Guði. Satan ber þar af leiðandi ábyrgð á óréttlætinu, ofbeldinu og þjáningunum sem hrjá mannkynið. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:19.

4. Hvernig leiða illir andar fólk afvega?

Satan hefur blekkt marga með því að telja þeim trú um að hinir látnu umbreytist í anda sem hægt er að ná sambandi við. Biblían segir hins vegar að hinir látnu geti ekkert gert. (Prédikarinn 9:5) En illir andar blekkja oft fólk með því að herma eftir rödd hins látna. (Jesaja 8:19) Djöflarnir blekkja fólk með hjálp andamiðla, spásagnamanna og stjörnuspekinga. Orð Guðs segir okkur að forðast slíkt með öllu. Ef við eigum eitthvað sem gæti tengst illum öndum og dulspeki ættum við því að losa okkur við það. – Lestu 5. Mósebók 18:10, 11; Postulasöguna 19:19.

Ef við elskum Jehóva þurfum við ekki að óttast illar andaverur. Þegar við kynnum okkur orð Guðs og förum eftir því sem við lærum stöndum við gegn djöflinum og eignumst náið samband við Guð. Jehóva er máttugri en illu andarnir. Trúfastir englar hans geta styrkt okkur þegar erfiðleikar steðja að. – Lestu Sálm 34:8; Jakobsbréfið 4:7, 8.

Nánari upplýsingar er að finna í 10. kafla þessarar bókar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.