Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum staðföst og forðumst gildrur Satans

Verum staðföst og forðumst gildrur Satans

Verum staðföst og forðumst gildrur Satans

,Standist vélabrögð djöfulsins.‘ – EF. 6:11.

HVERT ER SVARIÐ?

Hvernig getur þjónn Jehóva forðast gildru efnishyggjunnar?

Hvað geta giftir þjónar Guðs gert til að forðast hjúskaparbrot?

Hvers vegna telurðu að það sé til góðs að taka eindregna afstöðu gegn efnishyggju og kynferðislegu siðleysi?

1, 2. (a) Af hverju hefur Satan enga samúð með hinum andasmurðu og,öðrum sauðum‘? (b) Um hvaða gildrur Satans er fjallað í þessari grein?

SATAN hefur enga samúð með fólki, allra síst þeim sem þjóna Jehóva. Hann heyr meira að segja stríð gegn þeim sem eru eftir af hinum andasmurðu. (Opinb. 12:17) Þessir hugrökku þjónar Guðs hafa tekið forystuna í að boða ríki Guðs og hafa afhjúpað Satan sem höfðingja heimsins. Satan hatar einnig „aðra sauði“ sem styðja hina andasmurðu og þeir eiga í vændum eilíft líf. (Jóh. 10:16) Þann möguleika á Satan ekki lengur. Það er engin furða að hann skuli vera reiður. Hvort sem við væntum þess að lifa á himnum eða jörð hefur Satan engan áhuga á velferð okkar. Hann vill aðeins ná okkur á sitt vald. – 1. Pét. 5:8.

2 Satan hefur lagt ýmsar gildrur til að ná markmiðum sínum. Hann hefur „blindað huga“ þeirra sem trúa ekki þannig að þeir taka hvorki við fagnaðarerindinu né koma auga á gildrurnar. En Satan tekst líka að klófesta suma sem hafa tekið við fagnaðarerindinu. (2. Kor. 4:3, 4) Í greininni á undan kom fram hvernig við getum varað okkur á þrem af gildrum Satans: (1) taumlausri tungu, (2) ótta og hópþrýstingi og (3) óhóflegri sektarkennd. Við skulum nú kanna hvernig við getum varast tvær gildrur til viðbótar – efnishyggju og freistinguna að drýgja hór.

EFNISHYGGJA GILDRAN SEM KÆFIR

3, 4. Hvernig gætu áhyggjur þessa heims leitt okkur út í efnishyggju?

3 Í einni af dæmisögum sínum minntist Jesús á sæði sem sáð var meðal þyrna. Hann benti á að sumir myndu heyra boðskapinn „en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið svo það ber engan ávöxt“. (Matt. 13:22) Efnishyggja er ein af gildrum óvinarins Satans.

4 Það er tvennt sem kæfir orðið. Annað atriðið er „áhyggjur heimsins“. Margt getur valdið áhyggjum á þessum erfiðu tímum sem við lifum. (2. Tím. 3:1) Við gætum átt erfitt með að ná endum saman í dýrtíð og atvinnuleysi. Eins gætum við haft áhyggjur af framtíðinni og velt fyrir okkur hvort eftirlaunin dugi okkur þegar þar að kemur. Þess vegna hafa sumir farið út í að safna fjármunum í þeirri trú að peningar veiti öryggi.

5. Hvernig geta ,auðæfi‘ verið tálsnara?

5 Hitt atriðið, sem Jesús nefndi, er „tál auðæfanna“. Það ásamt áhyggjum heimsins getur kæft orðið. Biblían viðurkennir að peningar veiti fólki vissa vernd. (Préd. 7:12) Hins vegar er ekki skynsamlegt að keppa eftir því að verða ríkur. Margir hafa uppgötvað að því meira sem þeir leggja á sig til að verða ríkir þeim mun fastari verða þeir í gildru efnishyggjunnar. Sumir hafa jafnvel orðið þrælar peninganna. – Matt. 6:24.

6, 7. (a) Hvernig gæti okkur stafað hætta af efnishyggjunni á vinnustað? (b) Hvað ætti kristinn maður að íhuga þegar honum er boðin yfirvinna?

6 Löngunin til að verða ríkur getur kviknað án þess að þú áttir þig á því. Segjum sem svo að vinnuveitandinn komi að máli við þig og segi: „Ég hef góðar fréttir að færa. Fyrirtækið hefur náð gríðarlega góðum samningi. Það hefur í för með sér töluverða yfirvinnu næstu mánuði en ég fullvissa þig um að hún verður vel borguð.“ Hvernig myndi þér lítast á slíkt tilboð? Það er auðvitað skylda þín að sjá fyrir fjölskyldunni en það er ekki eina skyldan sem hvílir á þér. (1. Tím. 5:8) Þú þarft líka að hugsa um ýmislegt annað. Hve mikil verður yfirvinnan? Á hún eftir að koma niður á þjónustunni við Guð? Áttu eftir að missa af samkomum og vanrækja biblíunám fjölskyldunnar?

7 Hvort myndirðu fyrst og fremst hugsa um – áhrif yfirvinnunnar á bankareikninginn þinn eða á sambandið við Jehóva? Myndirðu hafa svo mikinn áhuga á aukatekjunum að þú létir þjónustuna við Guð sitja á hakanum? Áttarðu þig á hvaða áhrif það myndi hafa á samband þitt og fjölskyldunnar við Jehóva ef þú létir efnishyggjuna ná tökum á þér? Ef þú stendur í þessum sporum hvað geturðu þá gert til að vera staðfastur og láta ekki efnishyggjuna kæfa þig? – Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

8. Hvaða frásögur í Biblíunni geta verið okkur hvatning til að endurskoða hvernig við lifum lífinu?

8 Til að láta ekki efnishyggjuna kæfa sig er gott að endurskoða af og til hvernig maður lifir lífinu. Ekki viljum við vera eins og Esaú sem sýndi með verkum sínum að hann kunni alls ekki að meta fyrirheit Jehóva. (1. Mós. 25:34; Hebr. 12:16) Og við viljum alls ekki vera eins og ríki maðurinn sem Jesús hvatti til að selja eigur sínar, gefa fátækum og fylgja sér. Maðurinn gerði það ekki, heldur „fór hann brott hryggur enda átti hann miklar eignir“. (Matt. 19:21, 22) Eigur mannsins voru eins og gildra sem hann sat fastur í og hann missti af því einstaka tækifæri að fylgja mesta mikilmenni sem lifað hefur. Við skulum gæta þess vandlega að láta ekki þann heiður að vera lærisveinar Jesú Krists renna okkur úr greipum.

9, 10. Hvernig finnst þér að við eigum að líta á efnislega hluti miðað við það sem stendur í Biblíunni?

9 Til að sporna gegn óþarfa áhyggjum af efnislegum hlutum skulum við gera eins og Jesús hvatti til: „Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa.“ – Matt. 6:31, 32; Lúk. 21:34, 35.

10 Í stað þess að láta tælast af auðæfum skulum við reyna að hugsa eins og biblíuritarinn Agúr sem sagði: „Gef mér hvorki fátækt né auðæfi en veit mér minn deildan verð.“ (Orðskv. 30:8) Agúr vissi greinilega að allir þurfa peninga til að lifa, en að það væri líka hægt að tælast af þeim. Við þurfum að hafa hugfast að áhyggjur heimsins og tál auðæfanna geta eyðilagt samband okkar við Jehóva. Ef við höfum of miklar áhyggjur af efnislegum hlutum getur það orðið til þess að við höfum hvorki tíma, krafta né áhuga á að sinna þjónustunni við Jehóva. Við skulum því einsetja okkur að falla ekki í gildru efnishyggjunnar sem Satan leggur fyrir okkur. – Lestu Hebreabréfið 13:5.

HÓRDÓMUR – VEL FALIN GILDRA

11, 12. Hvernig gæti kristinn einstaklingur fallið í þá gildru á vinnustað að drýgja hór?

11 Veiðimenn grafa oft gryfju á fjölfarinni slóð til að fanga dýr. Gryfjan er yfirleitt falin með þunnu lagi af greinum og jarðvegi. Ein áhrifaríkasta freisting Satans líkist gildru af þessu tagi. Þetta er kynferðislegt siðleysi. (Orðskv. 22:14; 23:27) Margir þjónar Guðs hafa fallið í þessa gildru af því að þeir hafa ekki gætt sín á aðstæðum þar sem auðvelt er að láta tælast. Giftir þjónar Guðs hafa stundum gert sig seka um hjúskaparbrot eftir að hafa stofnað til óviðeigandi tengsla við einhvern af hinu kyninu.

12 Óviðeigandi tengsl geta hæglega myndast á vinnustað. Rannsókn hefur leitt í ljós að meira en helmingur kvenna og næstum þrír af hverjum fjórum körlum, sem frömdu hjúskaparbrot, héldu fram hjá með vinnufélaga. Þarftu að umgangast fólk af hinu kyninu á vinnustað? Ef svo er hvers eðlis eru þá samskiptin? Seturðu ákveðin mörk til að tryggja að samskiptin séu á faglegum nótum og verði ekki nánari en það? Hugsum okkur systur í söfnuðinum sem spjallar oft við mann sem hún vinnur með, en gerir hann síðan að trúnaðarvini og fer jafnvel að segja honum frá erfiðleikum í hjónabandinu. Eða ímyndum okkur bróður í söfnuðinum sem vingast við samstarfskonu og hugsar síðan með sér: „Hún virðir skoðanir mínar og hlustar með athygli þegar ég tala við hana. Og hún metur mig mikils. Ég vildi óska að konan mín kæmi svona vel fram við mig.“ Áttarðu þig á hvers vegna sú hætta er fyrir hendi að vottar í þessari aðstöðu drýgi hór?

13. Hvernig gætu myndast óviðeigandi tengsl innan safnaðarins?

13 Óviðeigandi tengsl af þessu tagi geta líka myndast innan safnaðarins. Eftirfarandi átti sér stað í söfnuði einum. Hjónin Daníel og Sara * voru brautryðjendur. Eins og Daníel segir sjálfur frá var hann einn af þeim safnaðaröldungum sem afþakkaði aldrei verkefni. Hann var með fimm unga menn í biblíunámi og þrír þeirra létu skírast. Þessir nýskírðu bræður þurftu á töluverðri aðstoð að halda. Þegar Daníel var upptekinn af öðrum verkefnum í söfnuðinum sá Sara oft um að sinna nýju bræðrunum. Áður en langt um leið tóku málin á sig þessa mynd: Fyrrverandi biblíunemendur Daníels þurftu að fá athygli og aðstoð og Sara sá um að veita hana. Hún þurfti líka athygli og fékk hana frá biblíunemendum Daníels. Hættuleg gildra hafði verið lögð. „Konan mín var búin að gefa svo mikið af sér mánuðum saman að hún var tilfinningalega og andlega úrvinda,“ segir Daníel. „Ég hafði líka vanrækt hana og þetta tvennt hafði skelfilegar afleiðingar. Konan mín drýgði hór með einum fyrrverandi nemanda mínum. Ég var svo upptekinn að ég tók ekki einu sinni eftir að hún hafði ekki ræktað sambandið við Jehóva.“ Hvernig er hægt að afstýra svona harmleik?

14, 15. Hvernig geta giftir þjónar Guðs forðast þá gildru að drýgja hór?

14 Til að falla ekki í þá gildru að drýgja hór er mikilvægt að hugleiða hvað það þýðir að vera maka sínum trúr. Jesús sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:6) Þú mátt aldrei hugsa sem svo að störf þín í söfnuðinum séu mikilvægari en maki þinn. Og ef þú ert oft að heiman án maka þíns að óþörfu getur það veikt hjónabandið og leitt til freistinga og alvarlegrar syndar.

15 Safnaðaröldungar eiga auðvitað að annast hjörðina. Pétur postuli skrifaði: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega.“ (1. Pét. 5:2) Þú mátt ekki vanrækja bræður og systur sem þér er falin umsjón með. En þú mátt ekki heldur vera svo upptekinn af því að þú sinnir ekki hlutverki þínu sem eiginmaður. Það er út í hött og jafnvel hættulegt að beina öllum kröftum sínum að því að „næra“ söfnuðinn ef eiginkonan „sveltur“ heima. „Það er ekkert vit í því að vera upptekinn af verkefnum sínum í söfnuðinum á kostnað sinnar eigin fjölskyldu,“ segir Daníel.

16, 17. (a) Hvað geta kristin hjón gert til að gefa skýr skilaboð á vinnustað um að þau séu ekki til í nein ástarævintýri? (b) Nefndu dæmi um greinar sem geta hjálpað þjónum Guðs að forðast hjúskaparbrot.

16 Í Varðturninum og Vaknið! hafa oft verið birtar góðar leiðbeiningar til að hjálpa hjónum í söfnuðinum að forðast þá gildru að drýgja hór. Til dæmis er að finna eftirfarandi ráð í Varðturninum 1. nóvember 2006: „Varaðu þig á aðstæðum á vinnustað og annars staðar sem gætu hvatt til of náinna kynna. Til dæmis gæti það boðið upp á freistingar að vinna fram eftir í náinni samvinnu við einhvern af hinu kyninu. Sem giftur einstaklingur ættirðu að gefa skýr skilaboð með orðum þínum og framkomu að þú sért hreinlega ekki til í nein ástarævintýri. Guðrækin manneskja vill alls ekki vekja óeðlilega athygli á sér með því að daðra eða vera ögrandi í klæðaburði eða útliti . . . Það er skýr áminning fyrir þig og aðra að vera með myndir af maka þínum og börnum á vinnustað. Þannig geturðu minnt á hvað sé þér kærast. Vertu staðráðinn í að hvetja hvorki til siðlausra umleitana frá öðrum né umbera þær.“

17 „Tryggð í hjónabandi – hvað felur hún í sér?“ Svo nefnist grein sem birtist í Vaknið! í júlí-september 2009. Þar er varað við að láta sig dreyma um kynferðissamband við einhvern annan en maka sinn. Í greininni kemur fram að kynferðislegir draumórar auki líkurnar á að fólk drýgi hór. (Jak. 1:14, 15) Það væri skynsamlegt fyrir hjón að fara saman yfir slíkt efni af og til. Hjónabandið er heilagt enda er Jehóva höfundur þess. Með því að gefa ykkur tíma til að ræða saman um hjónaband ykkar getið þið sýnt að þið kunnið að meta það sem er heilagt. – 1. Mós. 2:21-24.

18, 19. (a) Hvaða afleiðingar hefur hjúskaparbrot? (b) Hvað blessun fylgir því að vera maka sínum trúr?

18 Ef þér finnst freistandi að mynda óviðeigandi tengsl við einhvern af hinu kyninu skaltu hugleiða það tjón sem kynferðislegt siðleysi veldur. (Orðskv. 7:22, 23; Gal. 6:7) Þeir sem gera sig seka um slíkt kalla yfir sig vanþóknun Jehóva og skaða bæði maka sinn og sjálfa sig. (Lestu Malakí 2:13, 14.) Hugleiddu líka af hverju það er til góðs að lifa hreinu lífi. Þeir sem gera það eiga bæði von um eilíft líf og njóta lífsins eins vel og kostur er núna. Þeir hafa líka hreina samvisku. – Lestu Orðskviðina 3:1, 2.

19 Sálmaskáldið söng: „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál [Guðs] og þeim er við engri hrösun hætt.“ (Sálm. 119:165) Við skulum því elska sannleikann og ,hafa nákvæma gát á hvernig við breytum, ekki sem fávís heldur sem vís því að dagarnir eru vondir‘. (Ef. 5:15, 16) Satan hefur lagt gildrur út um allt til að reyna að klófesta þá sem þjóna Jehóva. En við erum vel í stakk búin til að varast þær. Jehóva hefur gefið okkur það sem við þurfum við að standast og slökkva „öll logandi skeyti hins vonda“. – Ef. 6:11, 16.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Nöfnunum er breytt.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 26]

Láttu ekki efnishyggju kæfa þig og spilla sambandinu við Jehóva.

[Mynd á bls. 29]

Ef þú daðrar eða leyfir öðrum að daðra við þig getur það leitt til hjúskaparbrots.