Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sameining og spennandi áætlanir einkenndu fundinn

Sameining og spennandi áætlanir einkenndu fundinn

Fréttir frá ársfundinum

Sameining og spennandi áætlanir einkenndu fundinn

ÞAÐ ríkir alltaf mikil eftirvænting á ársfundum Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu. Á því var engin undantekning þegar 127. ársfundurinn var haldinn laugardaginn 1. október 2011. Boðsgestir frá öllum heimshornum voru samankomnir í mótshöll Votta Jehóva í Jersey City í New Jersey í Bandaríkjunum.

Gerrit Lösch frá hinu stjórnandi ráði hóf fundinn með því að bjóða alla velkomna. Hann sagði gestunum, sem voru frá 85 löndum, að þeir tilheyrðu alþjóðlegum söfnuði sem væri eins og sameinuð fjölskylda. Eining safnaðarins væri góður vitnisburður og heiðraði Jehóva. Reyndar bar sameiningu oft á góma á fundinum.

ÁNÆGJULEG GREINARGERÐ FRÁ MEXÍKÓ

Í fyrsta dagskrárlið fundarins kom vel fram hve sameinaður söfnuður Jehóva er. Baltasar Perla ræddi við þrjá bræður, sem tilheyra Betelfjölskyldunni í Mexíkó, um samruna sex deildarskrifstofa í Mið-Ameríku við deildarskrifstofuna í Mexíkó. Eftir sameininguna bættust við Betelfjölskylduna í Mexíkó bræður og systur frá mörgum menningarsamfélögum og þjóðum. Það hefur verið mjög uppbyggjandi og hvetjandi fyrir alla á Betelheimilinu. Það er eins og Guð hafi fjarlægt landamærin með stóru strokleðri.

Eftir sameininguna fengu allir söfnuðirnir öruggt tölvupóstsamband við deildarskrifstofuna þannig að söfnuðir á einangruðum svæðum gætu haft beint samband. Það dregur úr hættunni á að boðberunum í þeim löndum, þar sem ekki er lengur deildarskrifstofa, finnist þeir einangraðir frá söfnuði Jehóva.

FRÉTTIR FRÁ JAPAN

James Linton frá deildarskrifstofunni í Japan skýrði frá hvaða áhrif jarðskjálftinn og flóðbylgjan, sem skullu á landinu í mars 2011, hefðu haft á vottana á svæðinu. Mörg trúsystkini okkar misstu bæði ástvini og eigur sínar. Vottar annars staðar frá útveguðu hundruð ökutækja og meira en 3.100 íbúðir handa bræðrum okkar og systrum sem urðu illa úti í hörmungunum. Sjálfboðaliðar á vegum svæðisbyggingarnefnda unnu sleitulaust við að lagfæra heimili vottanna á svæðinu. Meira en 1.700 sjálfboðaliðar buðu fram krafta sína hvar sem þörf var á. Hópur sjálfboðaliða frá Bandaríkjunum, alls 575 manns, aðstoðaði við að endurbyggja ríkissali.

Vel hefur verið hugað að andlegum og tilfinningalegum þörfum þeirra sem urðu fyrir hörmungunum. Rúmlega 400 öldungar hafa komið til að heimsækja og hjálpa trúsystkinum sem búa á svæðinu. Hið stjórnandi ráð sendi tvo umsjónarmenn frá aðalstöðvunum til hamfarasvæðanna í því skyni að uppörva og aðstoða bræður og systur þar. Huggunarorð frá vottum um allan heim hafa verið mjög hughreystandi fyrir fórnarlömb hamfaranna.

SIGUR FYRIR DÓMSTÓLUM

Áheyrendur hlustuðu af athygli þegar Stephen Hardy frá deildarskrifstofunni í Bretlandi fjallaði um nýlega sigra sem unnist hafa fyrir dómstólum. Franska ríkið krafði til dæmis lögskráð félag okkar í Frakklandi um skatta að upphæð 58 milljónir evra (jafnvirði tæplega tíu milljarða íslenskra króna). Málinu lauk með því að Mannréttindadómstóll Evrópu felldi úrskurð í okkar þágu og lýsti því yfir að franska ríkið hefði brotið gegn 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem ver réttinn til trúfrelsis. Orðalag úrskurðarins ber með sér að málið snerist ekki um peningaupphæðir því að þar segir: „Að neita að viðurkenna trúfélag, leysa það upp eða nota niðrandi ummæli um trúarsamtök eru allt dæmi um brot á rétti þeim sem varinn er í 9. grein sáttmálans.“

Mannréttindadómstóllinn úrskurðaði einnig okkur í hag í máli votta Jehóva í Armeníu. Síðan 1965 hefur dómstóllinn tekið þá afstöðu að mannréttindasáttmálinn verji ekki rétt einstaklinga til að neita að gegna herskyldu. Málið í Armeníu fór fyrir yfirdeild Mannréttindadómstólsins sem er æðsta dómstig hans. Í úrskurðinum sagði að „andstaða gegn herþjónustu, sem byggð væri á alvarlegum og óleysanlegum ágreiningi“ milli þeirrar skyldu að þjóna í hernum og trúarskoðana einstaklingsins, ætti að falla undir ákvæði Evrópusáttmálans. Dómsúrskurðurinn skuldbindur Armeníu og fleiri ríki eins og Aserbaídsjan og Tyrkland til að viðurkenna þennan rétt.

FYRIRHUGAÐAR BYGGINGARFRAMKVÆMDIR

Guy Pierce, sem situr í hinu stjórnandi ráði, tók því næst til máls og sagði að allir viðstaddir væru mjög forvitnir um fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir í New York-ríki. Hann kynnti myndband sem sýndi hvaða framkvæmdir væru í gangi í Wallkill, í Patterson og á nýjum byggingarlóðum sem keyptar hafa verið í Warwick og Tuxedo í New York-ríki. Í Wallkill mun rísa ný bygging þar sem gert er ráð fyrir 300 nýjum herbergjum og áætlað er að verkinu ljúki árið 2014.

Áform eru uppi um byggingarframkvæmdir á 100 hektara lóð í Warwick. „Jafnvel þótt við séum ekki enn vissir um vilja Jehóva varðandi Warwick,“ sagði bróðir Pierce, „höldum við áfram framkvæmdum við lóðina með það í huga að flytja aðalstöðvar Votta Jehóva þangað.“ Áætlað er að nota 20 hektara af landi, um 10 kílómetra norður af Warwick, undir vélar og byggingarefni. „Um leið og tilskilin leyfi fást fyrir framkvæmdunum vonumst við til að geta lokið verkinu á innan við fjórum árum,“ sagði bróðir Pierce. „Síðan getum við selt fasteignir okkar í Brooklyn.“

„Er hið stjórnandi ráð ekki lengur þeirrar skoðunar að þrengingin mikla sé nálæg?“ spurði bróðir Pierce og svaraði svo: „Þvert á móti. Ef þrengingin mikla stöðvar áform okkar væri það dásamlegt, alveg dásamlegt!“

VARIST ÖSKRANDI LJÓNIÐ

Stephen Lett, sem einnig situr í hinu stjórnandi ráði, fjallaði þar næst um 1. Pétursbréf 5:8, en þar segir: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ Bróðir Lett benti á að eiginleikar ljónsins séu þess eðlis að Pétur hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann líkti Satan við ljón.

Þar sem ljón eru sterkari og fljótari á fæti en menn ættum við aldrei að reyna að berjast við Satan eða flýja frá honum í eigin mætti. Við þörfnumst hjálpar Jehóva. (Jes. 40:31) Þegar ljón veiðir læðist það oft hljóðlega að bráð sinni. Ef við viljum ekki lenda í klónum á Satan verðum við að forðast andlega myrkrið þar sem hann leitar sér að bráð. Satan er miskunnarlaus og vill helst tortíma okkur rétt eins og ljón drepur meinlausa antílópu eða sofandi sebrafolald. Eftir að ljón hefur satt hungur sitt er bráðin oftast óþekkjanleg. Það á einnig við um fórnarlömb Satans. Andlegt ástand þeirra eftir árásir hans er „orðið þeim verra en hið fyrra“. (2. Pét. 2:20) Við verðum því að standa gegn Satan og halda fast í meginreglur Biblíunnar sem við höfum lært. – 1. Pét. 5:9.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR AÐ MEGA ÞJÓNA Í HÚSI JEHÓVA

„Við höfum öll hlutverki að gegna í húsi Jehóva,“ sagði næsti ræðumaður, Samuel Herd frá hinu stjórnandi ráði. Allir kristnir menn gegna ákveðnu hlutverki í „húsi“ Jehóva – andlegu musteri hans þar sem við getum tilbeðið hann á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Við ættum öll að vera þakklát fyrir að mega vera í húsi Jehóva. Líkt og Davíð viljum við „dveljast í húsi Drottins alla ævidaga [okkar]“. – Sálm. 27:4.

Bróðir Herd vísaði í Sálm 92:13-15 og spurði: „Hvernig hjálpar Jehóva okkur að dafna?“ Síðan sagði hann í hvatningartón: „Jehóva annast okkur í andlegu paradísinni, verndar okkur og gefur okkur endurnærandi sannleiksvatn. Sýnum honum þakklæti okkar fyrir það. Verum ánægð að fá að dveljast í húsi Jehóva, ekki aðeins um stutta stund heldur að eilífu.“

KRISTNIR MENN VIRÐA ORÐ GUÐS

David Splane, sem einnig á sæti í hinu stjórnandi ráði, tók því næst til máls og sagði að sannkristnir menn hafi alltaf borið virðingu fyrir orði Guðs. Á fyrstu öldinni reiddu þeir sig á orð Guðs til að útkljá deiluna um umskurn. (Post. 15:16, 17) Á annarri öld fóru sumir, sem kölluðu sig kristna en höfðu hlotið kennslu í grískri heimspeki, að taka þá þekkingu fram yfir Biblíuna. Síðar var farið að halda á lofti hugmyndum rómversku keisaranna og hinna svokölluðu kirkjufeðra í stað kenninga Biblíunnar. Það varð kveikjan að mörgum falskenningum.

Bróðir Splane benti á að í einni af dæmisögum sínum hafi Jesús gefið til kynna að það yrðu alltaf til einlægir andasmurðir kristnir menn á jörðinni sem myndu verja sannleikann. (Matt. 13:24-30) Við getum ekki sagt með vissu hverjir það voru. En í aldanna rás hafa þó margir talað gegn óbiblíulegum kenningum og siðum. Meðal þeirra voru Agobard, erkibiskup í Lyon á 9. öld, Pétur frá Bruys, Hinrik frá Lausanne og Valdès (eða Waldo) á 12. öld, John Wycliffe á 14. öld, William Tyndale á 16. öld og Henry Grew og George Storrs á 19. öld. Allt fram á þennan dag hafa vottar Jehóva haldið á lofti siðferðisreglum Biblíunnar og viðurkennt hana sem grundvöll sannleikans. Þess vegna hefur hið stjórnandi ráð sótt árstextann fyrir 2012 í Jóhannes 17:17 en þar segir: „Þitt orð er sannleikur.“

SPENNANDI BREYTINGAR Á BIBLÍUSKÓLUNUM

Anthony Morris úr hinu stjórnandi ráði tilkynnti breytingar sem varða trúboða og sérbrautryðjendur. Frá og með september 2012 mun Biblíuskólinn fyrir hjón verða haldinn í ýmsum löndum. Í október síðastliðnum voru gerðar áherslubreytingar á Gíleaðskólanum. Núna verða þeir sem sækja Gíleaðskólann að vera starfandi sem sérbrautryðjendur, farandhirðar, Betelítar eða trúboðar og mega ekki hafa sótt skólann áður. Útskriftarnemar verða síðan sendir til að sinna farandstarfi, vinna á deildarskrifstofum eða til að boða fagnaðarerindið á þéttbýlum svæðum. Þar geta þeir stutt og styrkt bræður og systur sem þau starfa með og þjálfað þau í starfi.

Fleiri sérbrautryðjendur verða sendir til að hjálpa til við prédikunarstarfið á svæðum þar sem fáir eða engir boðberar eru. Tilkynnt var að frá og með 1. janúar 2012 yrðu sumir útskriftarnemar úr Biblíuskólanum fyrir einhleypa bræður og Biblíuskólanum fyrir hjón skipaðir til skamms tíma sem sérbrautryðjendur og sendir til að þjóna á slíkum svæðum. Þar munu þeir starfa sem sérbrautryðjendur frá einu ári upp í þrjú ár. Þeir sem standa sig vel fá ef til vill að starfa áfram sem sérbrautryðjendur.

Ársfundurinn 2011 var mjög ánægjulegur. Söfnuður Guðs vinnur að því að breiða fagnaðarerindið út um allan heim og styrkja eininguna. Við treystum því að Jehóva blessi starf okkar og það verði honum til lofs og dýrðar.

[Rammi/​Mynd á bls. 18]

VIÐ KYNNTUMST ÞEIM BETUR

Á fundinum var einnig tekið viðtal við fimm af níu ekkjum bræðra sem setið hafa í hinu stjórnandi ráði. Trúsystur okkar, þær Marina Sydlik, Edith Suiter, Melita Jaracz, Melba Barry og Sydney Barber, sögðu frá því hvernig þær kynntust sannleikanum og byrjuðu að þjóna í fullu starfi. Þær sögðu frá dýrmætum minningum, góðum eiginleikum eiginmanna sinna og blessunum sem þau hefðu notið sem hjón í þjónustunni við Jehóva. Það var hjartnæmur endir á viðtölunum þegar áheyrendur sungu saman söng númer 86 sem ber heitið: „Trúfastar konur, kristnar systur.“

[Myndir á bls. 19]

(Að ofan) Daniel og Marina Sydlik, Grant og Edith Suiter, Theodore og Melita Jaracz.

(Til hægri) Lloyd og Melba Barry, Carey og Sydney Barber.

[Kort á bls. 16]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Sex deildarskrifstofur voru sameinaðar deildarskrifstofunni í Mexíkó.

MEXÍKÓ

GVATEMALA

HONDÚRAS

EL SALVADOR

NÍKARAGVA

KOSTARÍKA

PANAMA

[Mynd á bls. 17]

Hugmynd að væntanlegum aðalstöðvum Votta Jehóva í Warwick í New York.