Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar“

„Ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar“

„Ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar“

ASA konungur er í broddi fylkingar og leiðir her sinn í flýti niður djúpan dalinn ofan frá hálendi Júda. Þar sem dalurinn víkkar nemur herinn staðar. Asa tekur andköf. Á láglendinu, sem nær til sjávar, eru búðir óvinahersins – og þær eru ekki litlar. Í þessu eþíópíska herliði er örugglega milljón manns, bókstaflega. Hermenn Asa eru næstum helmingi færri.

Hvað er Asa efst í huga þegar orustan blasir við? Að gefa foringjum hersins fyrirskipanir? Að hvetja menn sína til dáða? Að skrifa fjölskyldunni? Ekki aldeilis! Á þessari hættustund biður hann til Jehóva.

Áður en við lítum á þessa bæn Asa og athugum hvernig fór skulum við skoða hvers konar maður hann var. Hvers vegna tók hann á málum eins og hann gerði? Hafði hann ástæðu til að ætla að Guð myndi hjálpa honum? Hvernig blessar Jehóva það sem þjónar hans gera, miðað við frásöguna af Asa?

SAGA ASA

Asa varð konungur árið 997 f.Kr., 20 árum eftir að Ísrael klofnaði í tvö ríki. Á þessu tímabili höfðu Júdamenn tekið upp heiðna trúarsiði sem gerspilltu þjóðinni. Kanverskir frjósemisguðir voru jafnvel tilbeðnir við konungshirðina. En í innblásinni frásögn Biblíunnar af stjórnartíð Asa segir að hann hafi gert „það sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns. Hann lét fjarlægja útlend ölturu og fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana.“ (2. Kron. 14:1, 2) Hann rak einnig úr Júdaríki „hofskækjurnar“ sem stunduðu afbrigðilegt kynlíf í nafni trúar. Asa hreinsaði ekki bara til á þessu sviði. Hann hvatti líka fólkið til að „leita Drottins, Guðs feðra sinna, og framfylgja lögmálinu og boðorðunum“. – 1. Kon. 15:12, 13; 2. Kron. 14:3.

Jehóva var ánægður að sjá brennandi áhuga Asa á sannri tilbeiðslu og umbunaði honum með því að veita þjóðinni frið um árabil. Konungurinn gat því sagt: „Af því að við höfum leitað Drottins, Guðs okkar, heils hugar veitti hann okkur frið á alla vegu.“ Þjóðin notaði þetta tækifæri til að víggirða borgirnar í Júdaríki. „Þeir tóku því að reisa og varð vel ágengt,“ segir í frásögn Biblíunnar. – 2. Kron. 13:23; 14:5, 6.

Á ORUSTUVELLINUM

Það ætti ekki að koma okkur á óvart að Asa skyldi biðja til Jehóva þegar hann stóð andspænis fjölmennasta her sem um er getið í Biblíunni. Asa vissi að Guð umbunar þeim sem sýna trú í verki og sárbændi Jehóva um hjálp. Hann vissi að ef hann treysti á Guð og hefði stuðning hans skipti engu máli hve fjölmennur eða öflugur óvinurinn væri. Átökin voru tengd nafni Guðs og Asa ákallaði hann á þeim grundvelli. Hann bað: „Hjálpa þú okkur, Drottinn, Guð okkar, því að við styðjumst við þig. Í þínu nafni höldum við gegn þessum fjölmenna her. Drottinn, þú ert Guð okkar, enginn maður getur hindrað þig.“ (2. Kron. 14:10) Asa sagði efnislega: „Innrás Eþíópíumanna er árás á þig, Jehóva. Láttu ekki nafn þitt verða fyrir lasti með því að leyfa máttlitlum mönnum að yfirbuga þá sem bera nafn þitt.“ Þá sigraði Jehóva „Kússítana [Eþíópíumenn] frammi fyrir Asa og Júdamönnum og Kússítarnir lögðu á flótta“. – 2. Kron. 14:11.

Þjónar Jehóva nú á tímum eiga sér marga öfluga andstæðinga. Við berjumst ekki við þá með bókstaflegum vopnum á orustuvelli. Við getum samt verið viss um að Jehóva umbunar trúum þjónum sínum sem heyja andlegan hernað í nafni hans og veitir þeim sigur. Baráttan hjá okkur gæti falist í því að láta ekki siðferðislausung heimsins setja mark sitt á okkur, að glíma við eigin veikleika eða vernda fjölskylduna fyrir spillandi áhrifum. En hvers eðlis sem mótlætið er getum við sótt styrk í bæn Asa. Sigur hans var sigur Jehóva. Með honum sýndi Jehóva við hverju allir sem treysta honum mega búast. Enginn mannlegur máttur getur staðið gegn Jehóva.

HVATNING ÁSAMT VIÐVÖRUN

Þegar Asa sneri heim eftir bardagann kom Asarja spámaður til móts við hann. Hann hvatti Asa en gaf honum einnig viðvörun og sagði: „Hlustið á mig, Asa og allir íbúar í Júda og Benjamín. Drottinn er með ykkur á meðan þið eruð með honum. Ef þið leitið til hans lætur hann ykkur finna sig en ef þið yfirgefið hann yfirgefur hann ykkur. En verið hughraustir. Látið ykkur ekki fallast hendur því að ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar.“ – 2. Kron. 15:1, 2, 7.

Trú okkar styrkist við að lesa þessi orð. Þau bera með sér að Jehóva verði með okkur svo framarlega sem við þjónum honum dyggilega. Þegar við áköllum hann og leitum hjálpar hans getum við treyst að hann bænheyri okkur. „Verið hughraustir,“ sagði Asarja. Það þarf oft heilmikið hugrekki til að gera það sem er rétt en við vitum að við getum það með hjálp Jehóva.

Amma Asa konungs, sem hét Maaka, „hafði látið gera viðurstyggilega mynd af Aséru“. Asa þurfti því að takast á við það erfiða verk að svipta hana „konungsmóðurtign“. Hann lét hendur standa fram úr ermum og gerði það, og brenndi einnig skurðgoðið. (1. Kon. 15:13) Jehóva blessaði Asa fyrir einbeitni hans og hugrekki. Við verðum líka að halda okkur óhagganlega við Jehóva og réttlátan mælikvarða hans, hvort sem ættingjar okkar eru honum trúir eða ekki. Jehóva umbunar okkur trúfestina ef við gerum það.

Asa hlaut meðal annars þá umbun að sjá marga Ísraelsmenn streyma suður til Júda vegna þess að þeim var ljóst að Jehóva var með honum. Þeir höfðu svo miklar mætur á sannri tilbeiðslu að þeir yfirgáfu heimili sín og fráhvarfið í norðurríkinu, og settust að meðal þjóna Jehóva. Asa og allir íbúar Júda skuldbundu sig fagnandi til að leita Jehóva af öllu hjarta og allri sálu. Hvað hafði það í för með sér? Jehóva „lét þá finna sig“ og „veitti þeim frið allt um kring“. (2. Kron. 15:9-15) Það gleður okkur mikið að sjá fólk, sem unnir réttlætinu, sameinast okkur í sannri tilbeiðslu.

En Asarja spámaður flutti konungi líka viðvörun. Hann sagði: „Ef þið yfirgefið [Jehóva] yfirgefur hann ykkur.“ Látum það aldrei henda okkur því að það getur haft skelfilegar afleiðingar. (2. Pét. 2:20-22) Það kemur ekki fram í Biblíunni hvers vegna Jehóva gaf Asa þessa viðvörun en svo mikið er víst að Asa fylgdi henni ekki.

„ÞÚ HEFUR BREYTT HEIMSKULEGA“

Á 36. stjórnarári Asa tók Basa, konungur í Ísrael, að sýna Júdamönnum fjandskap. Basa víggirti landamæraborgina Rama sem var átta km norður af Jerúsalem. Kannski gerði hann það til að koma í veg fyrir að þegnar sínir yrðu hliðhollir Asa og snerust til sannrar tilbeiðslu. Í þetta sinn leitaði Asa liðsinnis manna í stað þess að reiða sig á hjálp Jehóva, eins og hann hafði gert þegar Eþíópíumenn gerðu innrás. Hann sendi Sýrlandskonungi gjöf og bað hann um að fara í herför gegn norðurríkinu Ísrael. Sýrlendingar gerðu það og réðust á nokkrar borgir. Basa fór þá burt frá Rama. – 2. Kron. 16:1-5.

Jehóva var ekki ánægður með það sem Asa gerði og sendi Hananí spámann til að segja honum það. Þar sem Asa hafði séð hvernig Jehóva lagði Eþíópíumenn að velli átti hann að vita „að augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann“. Ef til vill hafði Asa hlustað á miður góð ráð. Eða kannski fannst honum ekki stafa svo mikil ógn af Basa og her hans að hann gæti ekki leyst málið sjálfur. Hvort heldur var greip hann til mannlegra úrræða í stað þess að reiða sig á Jehóva. „Þú hefur breytt heimskulega í þessu máli,“ sagði Hananí. „Þess vegna muntu eiga í ófriði héðan í frá.“ – 2. Kron. 16:7-9.

Asa brást illa við. Í bræðiskasti lét hann varpa Hananí í fangelsi. (2. Kron. 16:10) Ætli Asa hafi hugsað: Ég hef verið trúfastur árum saman. Á ég þá skilið að vera ávítaður núna? Ætli hann hafi ekki lengur hugsað skýrt þegar elliárin færðust yfir? Það er ósagt látið í Biblíunni.

Asa veiktist í fótum á 39. stjórnarári sínu. „Veikindi hans urðu mjög þungbær en samt leitaði hann ekki til Drottins í veikindum sínum heldur til lækna,“ segir í frásögunni. Asa virðist hafa vanrækt sambandið við Jehóva þegar hér var komið sögu. Að öllum líkindum var hann þannig á sig kominn þegar hann lést á 41. stjórnarári sínu. – 2. Kron. 16:12, 13.

Góðir eiginleikar Asa og brennandi áhugi á sannri tilbeiðslu virðast samt hafa vegið þyngra en það sem miður fór hjá honum. Hann hætti aldrei að þjóna Jehóva. (1. Kon. 15:14) Hvað getum við þá lært af ævisögu Asa frá þeim sjónarhóli séð? Hún getur hvatt okkur til að íhuga hvernig Jehóva hefur hjálpað okkur áður. Ef við minnum okkur á það fáum við hvatningu til að biðja hann um hjálp þegar erfiðleikar verða á veginum. Við ættum aldrei að ímynda okkur að við þurfum ekki á ráðum Biblíunnar að halda, bara vegna þess að við höfum verið Jehóva trúföst um árabil. Jehóva leiðréttir okkur ef við förum út af sporinu sama hvernig við höfum staðið okkur áður. Við þurfum að taka slíkri leiðréttingu með auðmýkt til að njóta góðs af henni. Síðast en ekki síst verður faðirinn á himnum með okkur svo framarlega sem við höldum okkur fast við hann. Augu Jehóva skima um alla jörðina í leit að þeim sem eru heilshugar við hann og hann umbunar þeim með því að koma þeim til hjálpar. Jehóva studdi Asa og hann getur líka stutt okkur.

[Innskot á bls. 9]

Jehóva umbunar trúum þjónum sínum sem heyja andlegan hernað.

[Innskot á bls. 10]

Það kostar hugrekki að gera það sem er rétt í augum Jehóva.