Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærum af langlyndi Jehóva og Jesú

Lærum af langlyndi Jehóva og Jesú

„Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræðisleið.“ – 2. PÉT. 3:15.

1. Hverju velta sumir trúfastir þjónar Guðs fyrir sér?

„KEMUR endirinn áður en ég dey?“ Þannig spurði trúföst systir sem hefur þjónað Jehóva um áratugaskeið og hefur mátt þola margt. Sumir sem hafa þjónað Jehóva lengi hafa velt þessu fyrir sér. Við þráum að sjá þann dag þegar Guð gerir alla hluti nýja og útrýmir erfiðleikunum sem við er að glíma núna. (Opinb. 21:5) Þótt við höfum fulla ástæðu til að trúa að heimur Satans líði mjög bráðlega undir lok getur verið þrautin þyngri að bíða þess með þolinmæði.

2. Við hvaða spurningum ætlum við að leita svara?

2 Biblían leggur þó áherslu á að við verðum að vera þolinmóð. Líkt og þjónar Guðs til forna hljótum við það sem hann hefur lofað ef við höfum sterka trú og bíðum þess með þolinmæði að hann efni loforð sín. (Lestu Hebreabréfið 6:11, 12.) Jehóva hefur sýnt mikla þolinmæði. Hann hefði getað bundið enda á illskuna hvenær sem var en hann hefur beðið eftir réttu stundinni til þess. (Rómv. 9:20-24) Hvers vegna er hann svona þolinmóður? Hvernig hefur Jesús líkt eftir langlyndi föður síns? Hvernig getum við lært að vera þolinmóð eins og Guð og af hverju er það okkur til góðs? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að vera þolinmóð og hafa sterka trú, jafnvel þó að okkur finnist Jehóva draga á langinn að grípa í taumana.

HVERS VEGNA ER JEHÓVA LANGLYNDUR?

3, 4. (a) Af hverju hefur Jehóva sýnt langlyndi? (b) Hvernig brást Jehóva við uppreisninni í Eden?

3 Jehóva hefur alltaf farið með æðsta vald yfir alheiminum. En hann hefur haft ærna ástæðu til að sýna langlyndi og umbera illskuna um tíma vegna þeirra alvarlegu spurninga sem vöknuðu við uppreisnina í Eden. Þessar spurningar vörðuðu alla þjóna hans og hann vissi að það tæki sinn tíma að svara þeim í eitt skipti fyrir öll. Og þar sem hann hefur fullkomna yfirsýn yfir verk og viðhorf allra á himni og jörð megum við treysta að hann geri það sem er okkur fyrir bestu. – Hebr. 4:13.

4 Það var ætlun Jehóva að jörðin fylltist afkomendum Adams og Evu. Hann hætti ekki við það þegar Satan tókst að tæla Evu og fá Adam til að óhlýðnast. Hann missti ekki stjórn á sér, tók ekki fljótfærnislegar ákvarðanir né gafst upp á mönnunum. Hann ákvað öllu heldur hvernig hann ætlaði að koma vilja sínum með mennina og jörðina til leiðar. (Jes. 55:11) Hann sýndi mikla sjálfstjórn og langlyndi til að geta hrint vilja sínum í framkvæmd og til að sýna fram á að hann væri réttmætur Drottinn alheims. Hann beið meira að segja í árþúsundir til að sumir þættir í fyrirætlun hans næðu fram að ganga á sem bestan hátt.

5. Hvað hefur langlyndi Jehóva í för með sér?

5 Það er önnur ástæða fyrir því að Jehóva hefur beðið þolinmóður. Hann vill að sem flestir hljóti eilíft líf og er að gera ráðstafanir núna til að „mikill múgur“ bjargist. (Opinb. 7:9, 14; 14:6) Jehóva býður fólki að fræðast um ríki sitt og réttlátar lífsreglur með því að láta okkur boða fagnaðarerindið. Boðskapurinn um ríkið er bestu tíðindi sem hugsast getur. (Matt. 24:14) Hver einasti sem Jehóva dregur til sín sameinast söfnuði hans og eignast sanna vini sem elska réttlætið. (Jóh. 6:44-47) Guð er kærleiksríkur og hjálpar slíku fólki þannig að það geti öðlast velþóknun hans. Hann hefur einnig verið að útvelja úr hópi manna þá sem eiga að skipa himneska stjórn hans. Af himnum ofan munu þeir hjálpa hlýðnum mönnum að öðlast fullkomleika og eilíft líf. Jehóva hefur greinilega unnið að því að uppfylla fyrirheit sín jafnhliða því að sýna langlyndi – okkur til góðs.

6. (a) Í hvaða skilningi sýndi Jehóva biðlund á dögum Nóa? (b) Hvernig sýnir Jehóva biðlund á okkar tímum?

6 Jehóva er langlyndur þó að honum hafi verið ögrað svo um munar. Það má sjá af því hvernig hann brást við illskunni sem kom upp á jörðinni fyrir flóðið. Jörðin fylltist þá siðleysi og ofbeldi og Jehóva „hryggðist í hjarta sínu“ yfir því hve spilltir mennirnir voru orðnir. (1. Mós. 6:2-8) Hann ætlaði ekki að umbera það endalaust þannig að hann ákvað að eyða óhlýðnum mönnum í miklu flóði. Jehóva sýndi þó biðlund og beið meðan hann gerði ráðstafanir til að bjarga Nóa og fjölskyldu hans. (1. Pét. 3:20) Þegar það var tímabært lét hann Nóa vita af ákvörðun sinni og fól honum það verkefni að smíða örk. (1. Mós. 6:14-22) Auk þess varaði Nói fólk við eyðingunni sem vofði yfir og er því kallaður ,boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5) Jesús sagði að okkar tímar yrðu áþekkir dögum Nóa. Jehóva hefur ákveðið hvenær hann ætlar að binda enda á þennan illa heim. Enginn maður veit þó „þann dag og stund“. (Matt. 24:36) Við höfum hins vegar fengið það verkefni að vara fólk við því sem koma skal og benda á hvernig hægt sé að bjargast.

7. Er Jehóva seinn á sér að uppfylla fyrirheit sín? Skýrðu svarið.

7 Ljóst er að Jehóva er ekki bara að drepa tímann. Við megum ekki halda að þolinmæði hans sé merki um að hann sé áhugalaus eða honum standi á sama um okkur. Það getur þó verið þrautin þyngri að hafa þetta hugfast þegar við eldumst eða þjáumst í þessum illa heimi. Við gætum orðið niðurdregin eða ímyndað okkur að Guð sé seinn á sér að efna fyrirheit sín. (Hebr. 10:36) Gleymum aldrei að hann hefur góðar og gildar ástæður til að vera langlyndur og að hann notar tímann til góðs fyrir trúa þjóna sína. (2. Pét. 2:3; 3:9) Nú skulum við kynna okkur hvernig Jesús líkti eftir þolinmæði föður síns.

HVERNIG ER JESÚS GÓÐ FYRIRMYND UM ÞOLINMÆÐI?

8. Við hvaða aðstæður var Jesús þolinmóður?

8 Jesús gerir vilja Guðs og hefur gert það fúslega um ótal árþúsundir. Þegar Satan gerði uppreisn ákvað Jehóva að einkasonur sinn færi til jarðar sem Messías. Hugsaðu þér hvað það þýddi fyrir Jesú. Hann þurfti að bíða þolinmóður í nokkur þúsund ár áður en að því kæmi. (Lestu Galatabréfið 4:4.) En hann sat ekki auðum höndum heldur var hann önnum kafinn við þau verkefni sem faðir hans fól honum. Þegar hann kom til jarðar vissi hann að hann yrði að deyja fyrir hendi Satans eins og spáð hafði verið. (1. Mós. 3:15; Matt. 16:21) Hann þjáðist þolinmóður því að hann vissi að það var vilji Guðs að hann dæi með þeim hætti. Hann sýndi Guði algera hollustu. Hann hugsaði ekki um sjálfan sig og stöðu sína, og þar er hann okkur góð fyrirmynd. – Hebr. 5:8, 9.

9, 10. (a) Hvað hefur Jesús haft fyrir stafni meðan hann hefur beðið? (b) Hvernig ættum við að líta á tímaáætlun Guðs?

9 Eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum var honum gefið mikið vald á himni og jörð. (Matt. 28:18) Hann notar þetta vald til að hrinda vilja Jehóva í framkvæmd í samræmi við tímaáætlun hans. Jesús beið þolinmóður við hægri hönd Guðs allt til ársins 1914 þegar óvinir hans voru gerðir að fótskör hans. (Sálm. 110:1, 2; Hebr. 10:12, 13) Innan skamms lætur hann til skarar skríða gegn heimskerfi Satans. En þangað til hjálpar hann fólki að eignast samband við Guð og leiðir það til „vatnslinda lífsins“. – Opinb. 7:17.

10 Áttarðu þig á hvernig þú ættir að líta á tímaáætlun Guðs miðað við það fordæmi sem Jesú gaf? Jesús var eflaust óðfús að gera allt sem faðirinn bað hann um en hann var samt tilbúinn til að bíða og gera alla hluti samkvæmt tímaáætlun Guðs. Við þurfum öll að vera þolinmóð meðan við bíðum þess að illur heimur Satans líði undir lok. Við þurfum að bíða eftir leiðbeiningum Guðs og megum ekki gefast upp þó að við verðum stundum niðurdregin. Hvernig getum við tamið okkur þess konar þolinmæði?

HVERNIG GETUM VIÐ LÍKT EFTIR LANGLYNDI GUÐS?

11. (a) Hvaða samband er milli trúar og þolinmæði? (b) Af hverju höfum við ríka ástæðu til að hafa sterka trú?

11 Áður en Jesús kom til jarðar höfðu spámenn og aðrir trúir þjónar Guðs sýnt fram á að ófullkomnir menn væru færir um að sýna þrautseigju og þolinmæði. Það voru bein tengsl milli trúar þeirra og þolinmæði. (Lestu  Jakobsbréfið 5:10, 11.) Hefðu þeir beðið þess með þolinmæði að fyrirheit Jehóva rættust ef þeir hefðu ekki trúað algerlega því sem hann sagði þeim? Oft máttu þeir þola hinar erfiðustu prófraunir og stóðust þær vegna þess að þeir treystu að Guð myndi efna það sem hann hafði lofað. (Hebr. 11:13, 35-40) Við höfum enn ríkari ástæðu til að hafa sterka trú af því að við getum horft til Jesú, „fullkomnara trúarinnar“. (Hebr. 12:2) Hann uppfyllti marga spádóma og opinberaði fyrirætlun Guðs með þeim hætti að við höfum sterka ástæðu til að trúa.

12. Hvað getum við gert til að styrkja trúna?

12 Hvað getum við gert til að styrkja trúna og temja okkur þolinmæði? Það er meginatriði að fara eftir leiðbeiningum Guðs. Hugleiddu til dæmis af hverju þú ættir að leita fyrst ríkis Guðs. Geturðu lagt þig enn betur fram við að fara eftir leiðbeiningunum í Matteusi 6:33? Það gæti falið í sér að nota meiri tíma til að boða fagnaðarerindið eða breyta um lífsstíl að einhverju marki. Misstu ekki sjónar á hvernig Jehóva hefur blessað viðleitni þína hingað til. Kannski hefur hann hjálpað þér að finna nýjan biblíunemanda eða gefið þér friðinn „sem er æðri öllum skilningi“. (Lestu Filippíbréfið 4:7.) Þegar þú hugleiðir hvernig það hefur verið þér til góðs að fylgja fyrirmælum Jehóva áttarðu þig enn betur á gildi þess að vera þolinmóður. – Sálm. 34:9.

13. Við hvað má líkja því ferli að byggja upp trúna og temja sér þolinmæði?

13 Þetta ferli er ekki ósvipað þeirri hringrás að sá, vökva og uppskera. Í hvert sinn sem bóndinn fær góða uppskeru verður hann öruggari næst þegar hann sáir. Hann þarf auðvitað að bíða þolinmóður eftir uppskerunni, en hann lætur það ekki aftra sér frá að sá fræinu. Hann tekur jafnvel stærra land til ræktunar en árið áður í trausti þess að hann fái uppskeru. Hið sama gerist þegar við endurtökum þá hringrás að lesa leiðbeiningar Jehóva, fylgja þeim og sjá afraksturinn af því. Við styrkjum trúna og traustið til Jehóva og eigum auðveldara með að bíða eftir blessuninni sem við vitum að er í vændum. – Lestu Jakobsbréfið 5:7, 8.

Þolinmæði hjálpar okkur að leita fyrst ríkis Guðs og hljóta blessun hans.

14, 15. Hvernig þurfum við að líta á þjáningar mannanna?

14 Önnur leið til að temja sér þolinmæði er að reyna að sjá heiminn og aðstæður okkar sömu augum og Jehóva. Hugsaðu til dæmis um hvernig hann lítur á þjáningar mannanna. Það tekur hann sárt að sjá mennina þjást en hann hefur samt ekki látið það buga sig. Hann er eftir sem áður fær um að gera gott. Hann sendi einkason sinn til að „brjóta niður verk djöfulsins“ og gera að engu allt það tjón sem Satan hefur valdið mönnunum. (1. Jóh. 3:8) Þegar grannt er skoðað eru þjáningarnar tímabundnar en lausn Guðs eilíf. Við skulum ekki láta illskuna í heiminum buga okkur eða verða óþolinmóð að bíða eftir að stjórn Satans taki enda. Við skulum heldur trúa á hið ósýnilega sem stendur að eilífu. Jehóva hefur sett illskunni tímamörk og hann stöðvar hana á tilsettum tíma. – Jes. 46:13; Nah. 1:9.

15 Síðustu dagar þessa heimskerfis eru erfiðir og það getur reynt mjög á trú okkar. Við þurfum að vera ákveðin í að treysta í einu og öllu á Jehóva í stað þess að bregðast ókvæða við ef við erum ofbeldi beitt eða ástvinir okkar þjást. Það er ekki auðvelt vegna þess að við erum ófullkomin. En höfum hugfast hvað Jesús gerði eins og lesa má í Matteusi 26:39. – Lestu.

16. Hvað megum við ekki gera á þeim tíma sem eftir er þangað til endirinn kemur?

16 Sá sem efast um að endirinn sé nærri gæti tileinkað sér rangt hugarfar. Hann hugsar kannski sem svo að hann þurfi að gera sínar eigin ráðstafanir ef svo skyldi nú fara að loforð Jehóva rætist ekki. Hann segir ef til vill við sjálfan sig að hann ætli að bíða og sjá til hvort Jehóva geri virkilega eins og hann hefur lofað. Hann reynir kannski að koma sér áfram í heiminum og tryggja fjárhagslegt öryggi sitt í stað þess að leita fyrst ríkis Guðs, eða afla sér æðri menntunar til að geta lifað þægilegu lífi núna. En væri það ekki merki um veika trú? Mundu að Páll hvatti okkur til að breyta eftir „þeim sem trúa og eru stöðuglynd“ og hljóta blessunina sem Jehóva hefur heitið. (Hebr. 6:12) Jehóva lætur ekki þetta illa heimskerfi standa mínútunni lengur en þarf til að fyrirætlun hans nái fram að ganga. (Hab. 2:3) Þangað til verðum við að gæta okkar á því að þjóna ekki Jehóva aðeins til málamynda. Við þurfum að halda vöku okkar og vera iðin að boða fagnaðarerindið. Það veitir okkur mikla gleði hér og nú. – Lúk. 21:36.

HVAÐA BLESSUN FYLGIR ÞVÍ AÐ VERA ÞOLINMÓÐUR?

17, 18. (a) Hvaða tækifæri höfum við meðan við bíðum þolinmóð? (b) Hvaða blessun hljótum við ef við erum þolinmóð?

17 Hvort sem við erum búin að þjóna Jehóva í nokkra mánuði eða marga áratugi viljum við þjóna honum að eilífu. Þolinmæði hjálpar okkur að halda út þangað til þetta heimskerfi líður undir lok sama hve lengi við þurfum að bíða. Jehóva gefur okkur tækifæri núna til að sýna og sanna að við treystum ákvörðunum hans fullkomlega og séum fús til að þjást vegna nafns hans ef þörf krefur. (1. Pét. 4:13, 14) Hann er líka að þjálfa okkur þannig að við getum verið þolinmóð allt til enda og bjargast. – 1. Pét. 5:10.

18 Jesús fer með allt vald á himni og jörð og ekkert getur tekið vernd hans frá þér – nema þú sjálfur. (Jóh. 10:28, 29) Það er engin ástæða til að óttast framtíðina eða einu sinni dauðann. Þeir sem eru þolinmóðir og halda út allt til enda bjargast. Við þurfum því að tryggja að við látum ekki heiminn tæla okkur svo að við hættum að treysta á Jehóva. Við skulum vera staðráðin í að vaxa í trúnni og nota vel þann tíma sem langlyndi Jehóva varir. – Matt. 24:13; lestu 2. Pétursbréf 3:17, 18.